Tveir kunnustu hugsuðir nútíma jafnaðarstefnu eru sem kunnugt er John Rawls og Thomas Piketty. Ég hef bent hér á nokkra galla á kenningu Rawls og mun á næstunni snúa mér að boðskap Pikettys. En um báða gildir, að þeir verða að gera ráð fyrir lokuðu hagkerfi, „sósíalisma í einu landi“.
Rawls getur ekki látið þá stórfelldu endurdreifingu tekna, sem hann hugsar sér til hinna verst settu, ná til allra jarðarbúa. Slík endurdreifing yrði sérhverju vestrænu ríki um megn. Til dæmis bjó árið 2017 einn milljarður manna á fátækasta svæði heims, í sólarlöndum Afríku (sunnan Sahara). Meðaltekjur þar voru 1.574 dalir. Í Bandaríkjunum bjuggu hins vegar 325 milljónir manna, og námu meðaltekjur þeirra 59.531 dal. Þess vegna takmarkar Rawls endurdreifinguna við vel stætt vestrænt ríki. Hann lokar augunum, reynir að hugsa sér réttláta niðurstöðu án sérhagsmuna, en þegar hann opnar augun aftur blasir við skipulag, sem líkist helst Cambridge í Massachusetts, þar sem hann bjó sjálfur: frjálst markaðskerfi í bjargálna ríki með nokkurri endurdreifingu fjármuna. Örsnauðir íbúar Haítí og Kongó koma ekki til álita.
Piketty verður að hafa þá ofurskatta á miklar eignir og háar tekjur, sem hann leggur til, alþjóðlega eða banna fjármagnsflutninga milli landa. Annars flytjast eignafólk og hátekjumenn frá háskattalöndum til lágskattalanda. Það er þessi hópur, sem greiðir mestalla skatta og stendur undir endurdreifingu. Til dæmis greiddi tekjuhæsti fimmtungurinn í Bandaríkjunum að meðaltali 57.700 dölum meira í skatta árið 2013 en hann fékk til baka frá ríkinu, næsttekjuhæsti fimmtungurinn 2.600 dölum meira, en hinir þrír fimmtungarnir fengu meira frá ríkinu en þeir lögðu til þess.
Þetta er kjarninn í skáldsögu Ayns Rands, Undirstöðunni, sem komið hefur út á íslensku: Hvað gerist, ef þeir, sem skapa verðmæti, til dæmis frumkvöðlar og afburðamenn, þreytast á að deila afrakstrinum með öðrum, sem ekkert skapa, og ákveða að hafa sig þegjandi og hljóðalaust á brott? Gæsirnar, sem verpa gulleggjunum, kunna að vera fleygar.
(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 13. apríl 2019. Myndin er af Rand.)
Rita ummæli