Í bókinni Fjármagni á 21. öld heldur Thomas Piketty því fram, að auður sé að hlaðast upp í höndum örfárra manna, svo að þjóðskipulagið sé að verða svipað því, sem var á fyrri hluta 19. aldar, þegar dreifing tekna og eigna var mjög ójöfn. Piketty vitnar óspart í skáldsögu Honorés de Balzacs, Föður Goriot, máli sínu til stuðnings, en hún kom út í íslenskri þýðingu Sigurjóns Björnssonar árið 2017.
Þegar sú saga er hins vegar lesin, sést, að hún er ekki um það, að auðurinn festist í höndum einstakra manna, heldur einmitt um hitt, hversu fallvaltur hann sé. Goriot var auðugur kaupmaður, sem elskaði dætur sínar tvær út af lífinu og hafði afhent þeim nær allt sitt fé. Hann er dæmi um mann, sem lætur ástríður ráða, ekki fégirnd. Dætur hans, sem giftust aðalsmönnum, eru báðar í fjárhagsvandræðum, því að friðlar þeirra eru þurftafrekir, en eiginmennirnir naumir á fé. Grípur önnur þeirra til þess óyndisúrræðis að hnupla ættardýrgripum eiginmannsins og selja.
Aðalsöguhetjan, sem býr á sama fátæklega gistiheimilinu og Goriot, hinn ungi og metnaðargjarni Eugène de Rastignac, lifir langt umfram efni. Piketty vitnar óspart í ræðu, sem dularfullur náungi á gistiheimilinu, Vautrin, heldur yfir Rastignac um, hvernig hann eigi að öðlast frama með því að brjóta öll boðorð. En Vautrin hafði sjálfur fórnað starfsframa sínum fyrir myndarlegan afbrotamann, sem hann hafði lagt ást á (og er þetta ein fyrsta lýsingin í franskri skáldsögu á samkynhneigð). Vautrin er að lokum handtekinn fyrir ýmsa glæpi og getur því varla talist heppilegur kennari um það, hvernig eigi að safna auði og öðlast frama.
Í lok ræðu sinnar segir Vautrin, að á bak við illskýranleg auðæfi leynist jafnan einhver óupplýstur glæpur, sem eigi eftir að gleymast. Mario Puzo, höfundur Guðföðurins, einfaldaði síðar þessi orð: „Á bak við mikil auðæfi leynist ætíð glæpur.“ Er sú afdráttarlausa fullyrðing miklu hæpnari en hin, sem Balzac lagði í munn Vautrins. Hvað sem því líður, er skáldsagan Faðir Goriot ekki um auð, heldur vöntun hans.
(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 18. maí 2019. Myndin er af Balzac.)
Rita ummæli