Þótt furðulegt sé, átti Josíf Stalín marga vini í Norðurálfunni um miðja tuttugustu öld. Hér á landi voru þeir raunar fleiri en víðast annars staðar. Flokkur þeirra, sem hafði kastað kommúnistanafninu og kenndi sig við sósíalisma, fékk nær fimmtung atkvæða í þingkosningum 1946 og 1949. Naut hann rausnarlegra, en leynilegra framlaga frá Moskvu, sem auðveldaði honum að reka voldug útgáfufyrirtæki og kosta verkföll í stjórnmálaskyni. Andstæðingarnir sættu ofsóknum og útskúfun, ef og þegar til þeirra náðist, ekki síst rithöfundar. Eins og Þór Whitehead prófessor lýsir í smáatriðum í bókinni Sovét-Íslandi, óskalandinu, beittu kommúnistar ekki aðeins ofbeldi í vinnudeilum, heldur reyndu líka með öllum ráðum að koma í veg fyrir Keflavíkursamninginn 1946. Þeir létu svívirðingar ekki duga, heldur veittust að ráðamönnum á götum úti og fóru að heimilum þeirra.
Það þurfti kjarkmenn til að skora þetta illvíga lið á hólm. Ásgeir Pétursson, sem lést í hárri elli 24. júní 2019, var slíkur kjarkmaður. Hann var laganemi, þegar hann birti árið 1948 tímamótagrein þess efnis, að lýðræðissinnar yrðu að sameinast um að tryggja lög og reglu í landinu. Það féll síðan í hlut hans að skipuleggja varalið til stuðnings lögreglu, þegar kommúnistar gerðu sig líklega til að ráðast á Alþingishúsið 30. mars 1949 og hindra afgreiðslu þingsályktunartillögu um aðild Íslands að Atlantshafsbandalaginu. Tókst að hrinda þeirri árás, en ein áreiðanlegasta heimildin um atburðarásina þann örlagadag er rækilegur hæstaréttardómur frá 1950.
Sennilega er annað framtak Ásgeir síður kunnugt. Hann var aðstoðarmaður Bjarna Benediktssonar í menntamálaráðuneytinu 1953–1956, og er óhætt að segja, að þeir hafi í sameiningu skipulagt gagnsókn lýðræðissinna í menningarmálum. Þeir Guðmundur G. Hagalín og Kristmann Guðmundsson, sem kommúnistar höfðu lagt í einelti, fengu til dæmis störf, þar sem hæfileikar þeirra fengu að njóta sín, og Almenna bókafélagið var stofnað 17. júní 1955 til að búa borgaralegum rithöfundum skjól. Rek ég stuttlega þá sögu í formála bókarinnar Til varnar vestrænni menningu: Ræður sex rithöfunda 1950–1958, sem Almenna bókafélagið gaf út 1. desember 2018 á 100 ára afmæli fullveldisins. Ásgeir Pétursson var einn þeirra manna, sem stóðu vörð um fullveldi Íslands, þegar á reyndi.
(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 6. júlí 2019.)
Rita ummæli