Laugardagur 13.07.2019 - 08:23 - Rita ummæli

Ekki er allt sem sýnist

Eitt meginhlutverk vísindanna er að gera greinarmun á sýnd og reynd, skynveruleika og raunveruleika. Það er að endurskoða og leiðrétta þá mynd af veruleikanum, sem við fáum fyrir tilstilli skynfæranna. Jörðin sýnist til dæmis flöt, en er í raun hnöttótt. Annað dæmi er munurinn á nafnvöxtum og raunvöxtum: Ef maður tekur lán á 5% vöxtum í 3% verðbólgu, þá eru raunvextir 2%, þótt nafnvextir séu 5%.

Mér varð hugsað til þessa greinarmunar á sýnd og reynd, þegar Sjálfstæðisflokkurinn varð níræður á dögunum. Það er alveg rétt, sem jafnan er sagt, að hann varð til, þegar Íhaldsflokkurinn og Frjálslyndi flokkurinn sameinuðust 25. maí 1929. Síðan er iðulega sagt með skírskotun til þess, að í flokknum takist á frjálslynd öfl og íhaldssöm.

Menn mega þó ekki láta nöfnin blekkja sig. Íhaldsflokkurinn var í raun frjálslyndur flokkur, en Frjálslyndi flokkurinn íhaldssamur. Þetta má sjá með því að kynna sér stefnuskrár flokkanna, starfsemi og verk. Jón Þorláksson stofnaði Íhaldsflokkinn 24. febrúar 1924, vegna þess að hann vildi halda í fengið frelsi, eins og hann skýrði út í snjallri grein í Eimreiðinni 1926. Hann vildi verja þetta frelsi gegn nýstofnuðum stéttarflokkum, Framsóknarflokki bænda og Alþýðuflokki verkalýðsrekenda. Ólíkt frjálslyndishugtakinu er íhaldshugtakið afstætt frekar en sjálfstætt: Öllu máli skiptir, í hvað er haldið. Þegar Jón var fjármálaráðherra 1924–1927, jók hann atvinnufrelsi með því að leggja niður ríkisfyrirtæki og lækka skuldir hins opinbera. Sigurður Eggerz, leiðtogi Frjálslynda flokksins, hafði hins vegar verið örlátur á almannafé, á meðan hann var fjármálaráðherra 1917–1920, og safnað skuldum.

Frjálslyndi flokkurinn, sem var að vísu losaralegur sína stuttu starfstíð, lagði megináherslu á ramma þjóðernisstefnu, en hún er auðvitað af ætt íhaldsstefnu frekar en frjálshyggju. Einn aðalmaður Frjálslynda flokksins, Bjarni Jónsson frá Vogi, hafði einmitt sett það skilyrði fyrir stuðningi við stjórn Íhaldsflokksins, að ný ættarnöfn yrðu bönnuð með lögum, því að hann taldi þau óíslenskuleg. Annar forystumaður Frjálslynda flokksins, Benedikt Sveinsson, hafði verið andvígur sambandslagasáttmálanum 1918, því að hann vildi ekki veita Dönum þau réttindi á Íslandi, sem kveðið var á um í sáttmálanum.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 13. júlí 2019.)

Flokkar: Óflokkað

«
»

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af núlli og átta? Svar:

Höfundur

Hannes Hólmsteinn Gissurarson er prófessor emeritus í stjórnmálafræði í Háskóla Íslands og hefur verið gistifræðimaður við fjölmarga erlenda háskóla, þar á meðal Stanford-háskóla og UCLA. Hann fæddist 1953, lauk doktorsprófi í stjórnmálafræði frá Oxford-háskóla 1985 og er höfundur fjölmargra bóka um stjórnmál, sögu og heimspeki á íslensku, ensku og sænsku.


Nýjustu bækur hans eru Twenty Four Conservative-Liberal Thinkers, sem hugveitan New Direction í Brüssel gaf út í tveimur bindum í árslok 2020, Bankahrunið 2008 og Communism in Iceland, sem Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands gaf út árið 2021, og Landsdómsmálið, sem Almenna bókafélagið gaf út í desember 2022. Hann hefur gefið út átta bókarlangar skýrslur á ensku. Sjö eru fyrir hugveituna New Direction í Brüssel: The Nordic Models og In Defence of Small States (2016); Lessons for Europe from the 2008 Icelandic Bank Collapse, Green Capitalism: How to Protect the Environment by Defining Property Rights og Voices of the Victims: Towards a Historiography of Anti-Communist Literature (2017); Why Conservatives Should Support the Free Market og Spending Other People’s Money: A Critique of Rawls, Piketty and Other Redistributionists (2018). Ein skýrslan er fyrir fjármálaráðuneytið, Foreign Factors in the 2008 Bank Collapse (2018). Hann er ritstjóri Safns til sögu kommúnismans, ritraðar Almenna bókafélagsins um alræðisstefnu, en nýjasta bókin í þeirri ritröð er Til varnar vestrænni menningu: Ræður sex rithöfunda 1950–1958. Árin 2017 og 2018 birtust eftir hann þrjár ritgerðir á ensku um frjálshyggju á Íslandi, Liberalism in Iceland in the Nineteenth and Twentieth Centuries, Anti-Liberal Narratives about Iceland 1991–2017 og Icelandic Liberalism and Its Critics: A Rejoinder to Stefan Olafsson.  

RSS straumur: RSS straumur

Nýlegar athugasemdir