Þess var minnst á dögunum, að 75 ár eru frá því, að Rauði herinn hrakti þýska nasista úr útrýmingarbúðunum í Auschwitz. Ég var hins vegar hissa á því, að enginn gat um, hvernig Ísland tengdist búðunum. Árið 1934 kom þýsk gyðingakona, Henný Goldstein, til Íslands með ungan son sinn, en hún hafði skilið við föður drengsins, Robert Goldstein, sem var eins og hún af ætt Davíðs. Hún gekk að eiga blaðamanninn Hendrik Ottósson og varð ásamt syni sínum íslenskur ríkisborgari.
Einn hálfbróðir Hennýar, Harry Rosenthal, slapp til Íslands ásamt konu sinni, en annar hálfbróðir hennar, Siegbert, varð eftir í Þýskalandi, af því að kona hans átti von á barni. Eftir að sonur þeirra fæddist, gerðu þau Hendrik og Henný allt, sem í þeirra valdi stóð, til að koma þeim þremur til Íslands. Tókst þeim að útvega þeim leyfi til að fara um Svíþjóð til Íslands. En þegar sænska sendiráðið í Berlín hafði samband árið 1943, greip það í tómt. Nokkrum vikum áður hafði þessi litla fjölskylda verið flutt í Auschwitz.
Þar voru kona Siegberts og sonur send í gasklefana, en Siegbert var eftir skamma hríð sendur í Natzweiler-Struthof fangabúðirnar skammt frá Strassborg, og þar voru gerðar á honum tilraunir á vegum svokallaðrar rannsóknarstofnunar nasista, „Ahnenerbe,“ en hann var síðan myrtur. Fundust bein hans og annarra fórnarlamba þessara tilrauna skömmu eftir stríð.
Robert Goldstein, fyrrverandi eiginmaður Hennýar, hafði flúið undan nasistum til Frakklands, en eftir hernám Frakklands var hann líka fluttur til Auschwitz og myrtur.
Ég fékk aðgang að skjalasafni Hennýar Goldstein-Ottósson og aflaði mér margvíslegra annarra upplýsinga, þar á meðal úr skjalasöfnum hér og erlendis og frá þýskum fræðimanni, sem hafði rannsakað út í hörgul beinafundinn í Natzweiler-Struthof búðunum. Lagði ég mikla vinnu í að skrifa um þetta rækilega ritgerð, sem ég sendi Skírni til birtingar. Ritstjóri tímaritsins, Halldór Guðmundsson, hafnaði hins vegar ritgerðinni með óljósum rökum, en ég tel líklegast, að ákvörðun hans hafi ráðið, að vitanlega var þar á það minnst, að „Ahnenerbe“ hafði talsverð umsvif á Íslandi og styrkti hér nokkra þýska fræðimenn. Varð nokkurt uppnám í sextugsafmæli Brynjólfs Bjarnasonar 1958, þegar Henný Goldstein-Ottósson rakst á einn þessara styrkþega, Bruno Kress, sem hafði verið æstur nasisti á Íslandi fyrir stríð, en gerst kommúnisti í Austur-Þýskalandi eftir stríð. Ritgerð mín birtist síðan í Þjóðmálum árið 2012.
(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 8. febrúar 2020. Myndin er af Henný Goldstein-Ottósson, sem missti barnsföður sinn, mágkonu og bróðurson í Auschwitz og bróður í Natzweiler-Struthof.)
Rita ummæli