Laugardagur 18.04.2020 - 07:21 - Rita ummæli

Farsóttir og frelsi

John Stuart Mill setti fram þá reglu, að ríkið mætti ekki skerða frelsi einstaklinga nema í sjálfsvarnarskyni. Samkvæmt þeirri reglu má ríkið vitanlega reyna að koma í veg fyrir smit, þegar drepsótt geisar, með því til dæmis að skylda Íslendinga til að fara í sóttkví, leiki grunur á því, að þeir beri í sér drepsóttina, og banna útlendingum að koma til landsins. Þessi frelsisskerðing er réttlætanleg, alveg eins og bann við akstri undir áhrifum áfengis eða við annarri hættulegri hegðun.

Víkur nú sögunni niður í troðfullan Tjarnarsal Ráðhúss Reykjavíkur sunnudaginn 1. febrúar 2004. Fræðaþulurinn Pétur Pétursson hafði skorað á mig í kappræður um Drengsmálið. Árið 1921 hafði sósíalistinn Ólafur Friðriksson, ritstjóri Alþýðublaðsins, tekið með sér frá Rússlandi ungan pilt, Nathan Friedmann að nafni, sem hann hugðist gera að aðstoðarmanni sínum við byltingariðju, enda talaði Friedmann þýsku og rússnesku. Í læknisskoðun kom í ljós, að hinn erlendi gestur gekk með smitnæman augnsjúkdóm, trachoma, egypsku augnveikina svonefndu, en hún hafði valdið blindu milljóna manna. Læknar ráðlögðu því yfirvöldum að senda piltinn úr landi, en þegar það var ákveðið, neitaði Ólafur að hlýða. Safnaði hann liði til að verjast lögreglu, en þá var kallað út varalið til aðstoðar yfirvöldum og fyrirmælunum framfylgt.

Pétur deildi í framsöguræðu sinni á íslensk yfirvöld fyrir framkomu þeirra í Drengsmálinu, en ég varði þau. Minnti ég á, að jafnvel einbeittustu frelsisunnendur vildu takmarka frelsi manna til að bera smit. Árið 1921 hefðu aðstæður verið erfiðar á Íslandi, fólk fátækt, aðeins tveir sérfræðingar í augnlækningum, þröngbýlt í Reykjavík og hin mannskæða spánska veiki árið 1918 öllum í fersku minni. Egypska augnveikin væri að vísu læknanleg, en eðlilegt hefði verið að senda piltinn til Danmerkur, þar sem aðstæður væru betri, en hann hlaut þar einmitt lækningu síns meins. Jafnframt benti ég á, að Ólafur Friðriksson hefði ekki mátt taka lögin í eigin hendur, ákveða upp á sitt eindæmi að óhlýðnast yfirvöldum.

Ég sé ekki betur en í veirufaraldrinum nú á útmánuðum 2020 hafi mál mitt verið staðfest eftirminnilega.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 18. apríl 2020.)

Flokkar: Óflokkað

«
»

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af fimm og fimm? Svar:

Höfundur

Hannes Hólmsteinn Gissurarson er prófessor emeritus í stjórnmálafræði í Háskóla Íslands og hefur verið gistifræðimaður við fjölmarga erlenda háskóla, þar á meðal Stanford-háskóla og UCLA. Hann fæddist 1953, lauk doktorsprófi í stjórnmálafræði frá Oxford-háskóla 1985 og er höfundur fjölmargra bóka um stjórnmál, sögu og heimspeki á íslensku, ensku og sænsku.


Nýjustu bækur hans eru Twenty Four Conservative-Liberal Thinkers, sem hugveitan New Direction í Brüssel gaf út í tveimur bindum í árslok 2020, Bankahrunið 2008 og Communism in Iceland, sem Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands gaf út árið 2021, og Landsdómsmálið, sem Almenna bókafélagið gaf út í desember 2022. Hann hefur gefið út átta bókarlangar skýrslur á ensku. Sjö eru fyrir hugveituna New Direction í Brüssel: The Nordic Models og In Defence of Small States (2016); Lessons for Europe from the 2008 Icelandic Bank Collapse, Green Capitalism: How to Protect the Environment by Defining Property Rights og Voices of the Victims: Towards a Historiography of Anti-Communist Literature (2017); Why Conservatives Should Support the Free Market og Spending Other People’s Money: A Critique of Rawls, Piketty and Other Redistributionists (2018). Ein skýrslan er fyrir fjármálaráðuneytið, Foreign Factors in the 2008 Bank Collapse (2018). Hann er ritstjóri Safns til sögu kommúnismans, ritraðar Almenna bókafélagsins um alræðisstefnu, en nýjasta bókin í þeirri ritröð er Til varnar vestrænni menningu: Ræður sex rithöfunda 1950–1958. Árin 2017 og 2018 birtust eftir hann þrjár ritgerðir á ensku um frjálshyggju á Íslandi, Liberalism in Iceland in the Nineteenth and Twentieth Centuries, Anti-Liberal Narratives about Iceland 1991–2017 og Icelandic Liberalism and Its Critics: A Rejoinder to Stefan Olafsson.  

RSS straumur: RSS straumur

Nýlegar athugasemdir