John Stuart Mill setti fram þá reglu, að ríkið mætti ekki skerða frelsi einstaklinga nema í sjálfsvarnarskyni. Samkvæmt þeirri reglu má ríkið vitanlega reyna að koma í veg fyrir smit, þegar drepsótt geisar, með því til dæmis að skylda Íslendinga til að fara í sóttkví, leiki grunur á því, að þeir beri í sér drepsóttina, og banna útlendingum að koma til landsins. Þessi frelsisskerðing er réttlætanleg, alveg eins og bann við akstri undir áhrifum áfengis eða við annarri hættulegri hegðun.
Víkur nú sögunni niður í troðfullan Tjarnarsal Ráðhúss Reykjavíkur sunnudaginn 1. febrúar 2004. Fræðaþulurinn Pétur Pétursson hafði skorað á mig í kappræður um Drengsmálið. Árið 1921 hafði sósíalistinn Ólafur Friðriksson, ritstjóri Alþýðublaðsins, tekið með sér frá Rússlandi ungan pilt, Nathan Friedmann að nafni, sem hann hugðist gera að aðstoðarmanni sínum við byltingariðju, enda talaði Friedmann þýsku og rússnesku. Í læknisskoðun kom í ljós, að hinn erlendi gestur gekk með smitnæman augnsjúkdóm, trachoma, egypsku augnveikina svonefndu, en hún hafði valdið blindu milljóna manna. Læknar ráðlögðu því yfirvöldum að senda piltinn úr landi, en þegar það var ákveðið, neitaði Ólafur að hlýða. Safnaði hann liði til að verjast lögreglu, en þá var kallað út varalið til aðstoðar yfirvöldum og fyrirmælunum framfylgt.
Pétur deildi í framsöguræðu sinni á íslensk yfirvöld fyrir framkomu þeirra í Drengsmálinu, en ég varði þau. Minnti ég á, að jafnvel einbeittustu frelsisunnendur vildu takmarka frelsi manna til að bera smit. Árið 1921 hefðu aðstæður verið erfiðar á Íslandi, fólk fátækt, aðeins tveir sérfræðingar í augnlækningum, þröngbýlt í Reykjavík og hin mannskæða spánska veiki árið 1918 öllum í fersku minni. Egypska augnveikin væri að vísu læknanleg, en eðlilegt hefði verið að senda piltinn til Danmerkur, þar sem aðstæður væru betri, en hann hlaut þar einmitt lækningu síns meins. Jafnframt benti ég á, að Ólafur Friðriksson hefði ekki mátt taka lögin í eigin hendur, ákveða upp á sitt eindæmi að óhlýðnast yfirvöldum.
Ég sé ekki betur en í veirufaraldrinum nú á útmánuðum 2020 hafi mál mitt verið staðfest eftirminnilega.
(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 18. apríl 2020.)
Rita ummæli