Norðurlandaþjóðir eru með réttu taldar einhverjar hinar ágætustu í heimi. Þess vegna verðum við hissa, þegar við rekumst á dæmi um hrottaskap eða lögleysur hjá þeim, svo sem þegar 62 þúsund manns voru gerð ófrjó, flestir án þess að vita af því eða gegn eigin vilja, í Svíþjóð árin 1935–1975 eða þegar Norðmenn settu í seinna stríði afturvirk lög um, að skráning í nasistaflokkinn norska væri glæpsamleg. Í grúski mínu á dögunum rakst ég á ótrúlegt dæmi.
Í stríðslok komust 250 þúsund þýskir flóttamenn til Danmerkur yfir Eystrasalt frá svæðum, sem verið höfðu undir yfirráðum Þjóðverja, en Rússar voru að hertaka. Allt þetta fólk, einnig börnin, var sett í sérstakar búðir, umkringdar háum gaddavírsgirðingum. Danska læknafélagið sendi frá sér tilkynningu um, að læknar myndu ekki hlynna á neinn hátt að fólkinu, og danski Rauði krossinn neitaði að veita því aðstoð. Þetta hafði þær afleiðingar, að þessir flóttamenn, flestir allslausir og margir vannærðir, dóu unnvörpum, samtals um 13 þúsund manns. Af þeim voru sjö þúsund börn undir fimm ára aldri. Enginn vafi er á því, að langflest barnanna dóu vegna þess, að þau fengu enga aðhlynningu lækna.
Fleira flóttafólk dó en allir þeir Danir, sem féllu í seinna stríði. Árið 2006 gaf danski sagnfræðingurinn Kirsten Lylloff út bókina Barn eða óvinur? Umkomulaus þýsk flóttabörn í Danmörku 1945–1949 (Barn eller fjende? Uledsagede tyske flygtningebørn i Danmark 1945-1949), þar sem hún rekur þessa ljótu sögu. Auðvitað komu þýskir nasistar fram af ótrúlegri grimmd í stríðinu, þótt raunar væri framferði þeirra í Danmörku ekki eins harkalegt og víða annars staðar. En það réttlætir ekki, að níðst sé á umkomulausum smábörnum. Samþykkt danska læknafélagsins er með ólíkindum.
Er siðmenningin aðeins þunn skán utan á á villimanninum? Breytast menn í nashyrninga, þegar þeir berjast við nashyrninga, eins og lýst er í leikriti Ionescos?
(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 1. ágúst 2020.)
Rita ummæli