Ritdómur minn í Morgunblaðinu 10. desember 2020 um bók Kjartans Ólafssonar, Drauma og veruleika, varð Jóni Ólafssyni, aðalyfirlesara bókarinnar, tilefni til harðrar árásar á mig í Kjarnanum 14. desember fyrir „geðvonsku, smásmygli og öfund“, þótt hann nefndi að vísu ekki einasta dæmi um, að ég færi rangt með. En hann sagði af mér sögu. Hann kvaðst hafa verið nemandi í Menntaskólanum í Hamrahlíð endur fyrir löngu, þegar ég hefði komið þangað til að andmæla sósíalisma. Ég hefði haft á reiðum höndum tilvitnanir í kenningasmiði marxismans og jafnvel nefnt blaðsíðutöl. „Hins vegar vildi svo einkennilega til að þegar samviskusamir menntaskólanemar fóru að leita uppi tilvitnanirnar þá reyndist erfitt að finna þær. Það var ekki fyrr en löngu síðar að einhver benti mér á að hversu snjallt þetta mælskubragð væri – að nefna blaðsíðutöl út í loftið – því þannig fengju áheyrendur á tilfinninguna að ræðumaðurinn gjörþekkti textana sem hann vitnaði í eftir minni. Og þótt einhver færi að grufla í bókunum á eftir, þá breytast fyrstu hughrif ekki svo auðveldlega.“
Svo vill til, að ég man vel eftir þessu. Ég hafði vitnað í fræg ummæli Levs Trotskíjs í Byltingunni svikinni: „Í landi, þar sem ríkið er eini atvinnurekandinn, er stjórnarandstæðingurinn dæmdur til hægs hungurdauða.“ Sósíalistarnir á fundinum efuðust um, að rétt væri eftir haft, og nefndi ég þá blaðsíðutalið. Ástæðan var einföld. Nokkru áður hafði ég háð kappræðu við Halldór Guðmundsson, þá æstan trotskísta og síðar ráðsettan bókaútgefanda. Hann hafði efast um, að Trotskíj hefði sagt þetta. Ég hafði haft þetta úr bók Friedrichs von Hayeks, Leiðinni til ánauðar, en þar hafði ekkert blaðsíðutal verið nefnt. Ég gerði mér þess vegna ferð upp á Landsbókasafn, fór yfir bók Trotskíjs og fann tilvitnunina á blaðsíðu 283 í frumútgáfunni frá 1937. Þess vegna hafði ég nú blaðsíðutalið á reiðum höndum. Hér er það ekki ég, heldur Jón, sem beitir mælskubragði. Ég nefni mörg önnur dæmi um brellur Jóns í svari mínu, sem birtist í Kjarnanum 14. febrúar. Jón virðist lítið hafa þroskast, frá því að hann sat fundinn í Norðurkjallaranum í Menntaskólanum í Hamrahlíð fyrir fjörutíu árum.
(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 20. febrúar 2021.)
Rita ummæli