Laugardagur 06.11.2021 - 09:40 - Rita ummæli

Balzac og kapítalisminn

Franski hagfræðingurinn Tómas Piketty, sem er nú orðinn einn helsti hugmyndafræðingur vinstri manna, vitnar óspart í ritum sínum í skáldverk landa síns, Honorés de Balzacs, enda telur hann, að tekjudreifing sé að verða eins ójöfn og á dögum Balzacs. Auðurinn sé nánast fastur við fjölskyldur, enda sé arður af stóreignum meiri en hagvöxtur. Hinir ríku séu sífellt að verða ríkari, þótt hinir fátæku séu ekki að verða fátækari.

Ég tók mig til og las þá bók Balzacs, sem Piketty vitnar mest í, Père Goriot, Föður Goriot, sem kom nýlega út í þýðingu Sigurjóns Björnssonar. Ég uppgötvaði, að boðskapur Balzacs er þveröfugur við það, sem Piketty segir. Balzac lýsir vel í þessari skáldsögu, hversu fallvaltur auðurinn er, hversu erfitt er að halda í hann. Ég skipulagði síðan málstofu um bókina í París 28.–31. október 2021, og tókst hún hið besta.

Saga Balzacs gerist á gistiheimili í París á nokkrum mánuðum árin 1819–1820. Einn vistmaðurinn er gamli Goriot, sem var vellauðugur kaupmaður, en hann hefur eytt nær öllum sínum eigum í vanþakklátar og heimtufrekar dætur sínar. Önnur þeirra, Anastasie de Restaud greifynja, á elskhuga, sem er spilafíkill, og hún selur ættargripi manns síns til að greiða skuldir hans. Hin dóttirin, Delphine de Nucingen barónessa, verður líka uppiskroppa með fé, en eiginmaður hennar hefur hætt fjármunum hennar í fjárfestingar, sem hugsanlega skila arði síðar, en gætu líka misheppnast. Hinn dularfulli Vautrin, sem býr ásamt Goriot á gistiheimilinu, hafði ungur tekið á sig sök fyrir ástmann sinn, sem hafði falsað skjöl, og verið dæmdur í fimm ára fangelsi fyrir.

Þessar helstu söguhetjur hafa kostað öllu til fyrir ástríður sínar. Þær sátu ekki á eigum sínum eins og ormar á gulli. Þær eyddu ekki ævinni í að klippa arðmiða. Þær lifðu við óvissu. Auðvitað eru þær ýktar. En Piketty hefur rangt fyrir sér um þær og ekki síður um veruleika 21. aldar.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 6. nóvember 2021.)

Flokkar: Óflokkað

«
»

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af einum og fjórum? Svar:

Höfundur

Hannes Hólmsteinn Gissurarson er prófessor emeritus í stjórnmálafræði í Háskóla Íslands og hefur verið gistifræðimaður við fjölmarga erlenda háskóla, þar á meðal Stanford-háskóla og UCLA. Hann fæddist 1953, lauk doktorsprófi í stjórnmálafræði frá Oxford-háskóla 1985 og er höfundur fjölmargra bóka um stjórnmál, sögu og heimspeki á íslensku, ensku og sænsku.


Nýjustu bækur hans eru Twenty Four Conservative-Liberal Thinkers, sem hugveitan New Direction í Brüssel gaf út í tveimur bindum í árslok 2020, Bankahrunið 2008 og Communism in Iceland, sem Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands gaf út árið 2021, og Landsdómsmálið, sem Almenna bókafélagið gaf út í desember 2022. Hann hefur gefið út átta bókarlangar skýrslur á ensku. Sjö eru fyrir hugveituna New Direction í Brüssel: The Nordic Models og In Defence of Small States (2016); Lessons for Europe from the 2008 Icelandic Bank Collapse, Green Capitalism: How to Protect the Environment by Defining Property Rights og Voices of the Victims: Towards a Historiography of Anti-Communist Literature (2017); Why Conservatives Should Support the Free Market og Spending Other People’s Money: A Critique of Rawls, Piketty and Other Redistributionists (2018). Ein skýrslan er fyrir fjármálaráðuneytið, Foreign Factors in the 2008 Bank Collapse (2018). Hann er ritstjóri Safns til sögu kommúnismans, ritraðar Almenna bókafélagsins um alræðisstefnu, en nýjasta bókin í þeirri ritröð er Til varnar vestrænni menningu: Ræður sex rithöfunda 1950–1958. Árin 2017 og 2018 birtust eftir hann þrjár ritgerðir á ensku um frjálshyggju á Íslandi, Liberalism in Iceland in the Nineteenth and Twentieth Centuries, Anti-Liberal Narratives about Iceland 1991–2017 og Icelandic Liberalism and Its Critics: A Rejoinder to Stefan Olafsson.  

RSS straumur: RSS straumur

Nýlegar athugasemdir