Laugardagur 20.11.2021 - 09:43 - Rita ummæli

Hvað er Thatcherismi?

Þegar ég átti leið um Búdapest á dögunum, fékk John O’Sullivan, forstöðumaður Danube Institute þar í borg, mig um að tala á hádegisverðarfundi 10. nóvember um, hvort Margrét Thatcher hefði verið raunverulegur íhaldsmaður. Efnið er honum hugleikið, enda var hann góður vinur Thatchers, skrifaði fyrir hana ræður og aðstoðaði hana við ritun endurminninga hennar.

Ég er sammála ýmum vinstri mönnum um, að Thatcherisma megi skilgreina með tveimur hugtökum, sterku ríki og frjálsum markaði. Í þessu er engin mótsögn fólgin, því að frjáls markaður krefst sterks ríkis, sem lætur sér hins vegar nægja að mynda umgjörð utan um frjáls samskipti einstaklinganna. Það tryggir, að þeir komist leiðar sinnar án árekstra, en rekur þá ekki alla í sömu átt.

Munurinn á Thatcher og ýmsum hörðum frjálshyggjumönnum var, að hún leit ekki á ríkið sem óvætt. Ríkið er nauðsynlegt til að sjá um, að ýmis svokölluð samgæði séu framleidd, til dæmis landvarnir, löggæsla, undirstöðumenntun og framfærsla þeirra, sem geta ekki bjargað sér sjálfir. Ríkið er líka óskráð samkomulag borgaranna um eina heild, ein lög. Þess vegna stofnuðu Íslendingar fullvalda ríki árið 1918: Þeir vildu vera sjálfstæð heild, ekki dönsk hjálenda.

Ég benti enn fremur á það í tölu minni, að frjáls markaður fæli vissulega í sér margvíslegt umrót, en um leið mikinn endurnýjunarmátt. Þótt gamlar heildir hyrfu, mynduðust nýjar. Þess vegna þyrftu íhaldsmenn ekki að óttast frjálsan markað. Nær væri að hafa áhyggjur af þeirri hugmynd, að ríkið ætti að breytast í umhyggjusama, ráðríka fóstru. Þá yrði fátt um þær dygðir, sem íhaldsmenn meta, til dæmis hugrekki, örlæti, vinnusemi, sparsemi og sjálfsbjargarviðleitni.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 20. nóvember 2021.)

Flokkar: Óflokkað

«
»

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af sjö og sex? Svar:

Höfundur

Hannes Hólmsteinn Gissurarson er prófessor í stjórnmálafræði í Háskóla Íslands og hefur verið gistifræðimaður við fjölmarga erlenda háskóla, þar á meðal Stanford-háskóla og UCLA. Hann fæddist 1953, lauk doktorsprófi í stjórnmálafræði frá Oxford-háskóla 1985 og er höfundur fjölmargra bóka um stjórnmál, sögu og heimspeki á íslensku, ensku og sænsku.


Nýjustu bækur hans eru Twenty Four Conservative-Liberal Thinkers, sem hugveitan New Direction í Brüssel gaf út í tveimur bindum í árslok 2020, Bankahrunið 2008 og Communism in Iceland, sem Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands gaf út árið 2021, og Landsdómsmálið, sem Almenna bókafélagið gaf út í desember 2022. Hann hefur gefið út átta bókarlangar skýrslur á ensku. Sjö eru fyrir hugveituna New Direction í Brüssel: The Nordic Models og In Defence of Small States (2016); Lessons for Europe from the 2008 Icelandic Bank Collapse, Green Capitalism: How to Protect the Environment by Defining Property Rights og Voices of the Victims: Towards a Historiography of Anti-Communist Literature (2017); Why Conservatives Should Support the Free Market og Spending Other People’s Money: A Critique of Rawls, Piketty and Other Redistributionists (2018). Ein skýrslan er fyrir fjármálaráðuneytið, Foreign Factors in the 2008 Bank Collapse (2018). Hann er ritstjóri Safns til sögu kommúnismans, ritraðar Almenna bókafélagsins um alræðisstefnu, en nýjasta bókin í þeirri ritröð er Til varnar vestrænni menningu: Ræður sex rithöfunda 1950–1958. Árin 2017 og 2018 birtust eftir hann þrjár ritgerðir á ensku um frjálshyggju á Íslandi, Liberalism in Iceland in the Nineteenth and Twentieth Centuries, Anti-Liberal Narratives about Iceland 1991–2017 og Icelandic Liberalism and Its Critics: A Rejoinder to Stefan Olafsson.  

RSS straumur: RSS straumur

Nýlegar athugasemdir