Laugardagur 27.11.2021 - 09:44 - Rita ummæli

Hengdur fyrir að selja okkur fisk!

Þegar ég átti leið um Prag á dögunum, var mér boðið á alþjóðlega kvikmyndahátíð, helgaðri alræðisstefnu, nasisma og kommúnisma. Þar horfði ég á nýja heimildarmynd eftir tékkneska kvikmyndagerðarmanninn Martin Vadas, Rudolf Slánský: Sér grefur gröf … Við gerð hennar notaði Vadas efni, sem fannst fyrir tilviljun vorið 2018, upptökur af hinum alræmdu Slánský-réttarhöldum í nóvember 1952, þegar fjórtán kommúnistaleiðtogar voru leiddir fyrir rétt í Prag og dæmdir fyrir njósnir, skemmdarverk og undirróður. Þeirra kunnastur var Slánský, sem verið hafði aðalritari kommúnistaflokks Tékkóslóvakíu.

Tveir aðrir sakborningar höfðu nokkur tengsl við Ísland. Otto Katz, sem verið hafði ritstjóri kommúnistablaðs Tékkóslóvakíu, notaði dulnefnið André Simone, og Sverrir Kristjánsson þýddi eftir hann bók, sem kom út á íslensku 1943, Evrópa á glapstigum. Sjálfur hafði Katz þýtt úr tékknesku skáldsöguna Sveitastúlkuna Önnu, á þýsku Anna, das Mädchen vom Lande, eftir Ivan Olbracht. Ég hef bent á, að söguþræðir þeirrar bókar og Atómstöðvar Halldórs K. Laxness eru afar líkir, þótt sögusviðið sé annað, og ætti okkar óþreytandi bókmenntarýnir Helga Kress að skrifa um þetta rækilega ritgerð í Sögu, til dæmis undir heitinu Eftir hvern?

Rudolf Margolius var aðstoðarutanríkisviðskiptaráðherra Tékkóslóvakíu, og var honum meðal annars gefið að sök að hafa gert viðskiptasamninga við Ísland. Valtýr Stefánsson, ritstjóri Morgunblaðsins, spurði undrandi í leiðara, hvers vegna ætti að hengja mann fyrir að kaupa fisk af Íslendingum. Magnús Kjartansson, ritstjóri Þjóðviljans, svaraði með þjósti, að réttarhöldin hefðu verið opinber og sönnunargögnin svo sterk, að sakborningar hefðu ekki treyst sér til annars en játa.

Þeir Slánsky, Katz og Margolius voru dæmdir til dauða og hengdir ásamt átta öðrum sakborningum, en þrír hlutu ævilangt fangelsi. Síðar viðurkenndu yfirvöld, að sakargiftir hefðu verið spunnar upp og játningar knúðar fram með pyndingum og falsloforðum. Þetta voru sýndarréttarhöld.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 27. nóvember 2021.)

Flokkar: Óflokkað

«
»

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af fjórum og átta? Svar:

Höfundur

Hannes Hólmsteinn Gissurarson er prófessor emeritus í stjórnmálafræði í Háskóla Íslands og hefur verið gistifræðimaður við fjölmarga erlenda háskóla, þar á meðal Stanford-háskóla og UCLA. Hann fæddist 1953, lauk doktorsprófi í stjórnmálafræði frá Oxford-háskóla 1985 og er höfundur fjölmargra bóka um stjórnmál, sögu og heimspeki á íslensku, ensku og sænsku.


Nýjustu bækur hans eru Twenty Four Conservative-Liberal Thinkers, sem hugveitan New Direction í Brüssel gaf út í tveimur bindum í árslok 2020, Bankahrunið 2008 og Communism in Iceland, sem Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands gaf út árið 2021, og Landsdómsmálið, sem Almenna bókafélagið gaf út í desember 2022. Hann hefur gefið út átta bókarlangar skýrslur á ensku. Sjö eru fyrir hugveituna New Direction í Brüssel: The Nordic Models og In Defence of Small States (2016); Lessons for Europe from the 2008 Icelandic Bank Collapse, Green Capitalism: How to Protect the Environment by Defining Property Rights og Voices of the Victims: Towards a Historiography of Anti-Communist Literature (2017); Why Conservatives Should Support the Free Market og Spending Other People’s Money: A Critique of Rawls, Piketty and Other Redistributionists (2018). Ein skýrslan er fyrir fjármálaráðuneytið, Foreign Factors in the 2008 Bank Collapse (2018). Hann er ritstjóri Safns til sögu kommúnismans, ritraðar Almenna bókafélagsins um alræðisstefnu, en nýjasta bókin í þeirri ritröð er Til varnar vestrænni menningu: Ræður sex rithöfunda 1950–1958. Árin 2017 og 2018 birtust eftir hann þrjár ritgerðir á ensku um frjálshyggju á Íslandi, Liberalism in Iceland in the Nineteenth and Twentieth Centuries, Anti-Liberal Narratives about Iceland 1991–2017 og Icelandic Liberalism and Its Critics: A Rejoinder to Stefan Olafsson.  

RSS straumur: RSS straumur

Nýlegar athugasemdir