Laugardagur 04.12.2021 - 09:45 - Rita ummæli

Hver var Snorri?

Ég tók þátt í skemmtilegri málstofu Miðaldastofu í Háskóla Íslands 2. desember um Snorra Sturluson. Þar skýrði ég, hvers vegna ég skipaði Snorra fremst í nýlega bók mína um tuttugu og fjóra frjálslynda íhaldsmenn, ásamt heilögum Tómasi Akvínas. Ástæðan er sú, að þeir komu báðir orðum að kenningum, sem John Locke kerfisbatt síðar, þegar hann þurfti að færa rök fyrir byltingunni blóðlausu á Bretlandi 1688. Þessar kenningar voru, að konungar væru seldir undir sömu lög og aðrir og að setja mætti þá af, ef þeir virtu ekki þessi lög. Heimskringlu Snorra má lesa sem viðvörun við konungum, og kemur það skýrast fram í ræðu Þorgnýs lögmanns yfir Svíakonungi og ræðu Einars Þveræings á Alþingi. Raunar gengur Einar Þveræingur svo langt að segja, að Íslendingum sé best að hafa engan konung. Jafnframt benti ég á, að Egill Skallagrímsson væri einn fyrsti raunverulegi einstaklingurinn í mannkynssögunni, og á ég þá við, að hann stígur út úr móðu fjölskyldu, ættbálks og héraðs, reisir konungi níðstöng, steytir hnefa framan í goðin og á sér auðugt tilfinningalíf.

Sverrir Jakobsson sagnfræðiprófessor var andmælandi minn og flutti mál sitt með ágætum. Hann tók undir með mér um stjórnmálahugmyndirnar í Heimskringlu, en gerði aðallega ágreining um tvennt. Í fyrsta lagi væri alls óvíst, að Snorri hefði samið Egils sögu, eins og ég gengi að vísu. Í annan stað hefði Snorri í eigin lífi hegðað sér eins og konungsmaður frekar en andstæðingur konungs. Þótt ég telji sennilegt, að Snorri hafi samið Egils sögu (eins og flestir fornfræðingar), ætla ég ekki að hætta mér út í deilur um það. En ég lét hins vegar í ljós þá skoðun, að aðalheimildarmaðurinn um Snorra, frændi hans Sturla Þórðarson, væri hlutdrægur. Treysta ætti honum varlega.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 4. desember 2021.)

Flokkar: Óflokkað

«
»

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af einum og fjórum? Svar:

Höfundur

Hannes Hólmsteinn Gissurarson er prófessor emeritus í stjórnmálafræði í Háskóla Íslands og hefur verið gistifræðimaður við fjölmarga erlenda háskóla, þar á meðal Stanford-háskóla og UCLA. Hann fæddist 1953, lauk doktorsprófi í stjórnmálafræði frá Oxford-háskóla 1985 og er höfundur fjölmargra bóka um stjórnmál, sögu og heimspeki á íslensku, ensku og sænsku.


Nýjustu bækur hans eru Twenty Four Conservative-Liberal Thinkers, sem hugveitan New Direction í Brüssel gaf út í tveimur bindum í árslok 2020, Bankahrunið 2008 og Communism in Iceland, sem Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands gaf út árið 2021, og Landsdómsmálið, sem Almenna bókafélagið gaf út í desember 2022. Hann hefur gefið út átta bókarlangar skýrslur á ensku. Sjö eru fyrir hugveituna New Direction í Brüssel: The Nordic Models og In Defence of Small States (2016); Lessons for Europe from the 2008 Icelandic Bank Collapse, Green Capitalism: How to Protect the Environment by Defining Property Rights og Voices of the Victims: Towards a Historiography of Anti-Communist Literature (2017); Why Conservatives Should Support the Free Market og Spending Other People’s Money: A Critique of Rawls, Piketty and Other Redistributionists (2018). Ein skýrslan er fyrir fjármálaráðuneytið, Foreign Factors in the 2008 Bank Collapse (2018). Hann er ritstjóri Safns til sögu kommúnismans, ritraðar Almenna bókafélagsins um alræðisstefnu, en nýjasta bókin í þeirri ritröð er Til varnar vestrænni menningu: Ræður sex rithöfunda 1950–1958. Árin 2017 og 2018 birtust eftir hann þrjár ritgerðir á ensku um frjálshyggju á Íslandi, Liberalism in Iceland in the Nineteenth and Twentieth Centuries, Anti-Liberal Narratives about Iceland 1991–2017 og Icelandic Liberalism and Its Critics: A Rejoinder to Stefan Olafsson.  

RSS straumur: RSS straumur

Nýlegar athugasemdir