Árið 1936, þegar nasisminn gekk ljósum logum um Norðurálfuna, orti norska skáldið Arnulf Øverland áhrifamikið kvæði, „Þú mátt ekki sofa!“ sem Magnús Ásgeirsson sneri á íslensku. Þar segir:
Þú mátt ekki hírast í helgum steini
með hlutlausri aumkun í þögn og leyni!
Vesturlandamenn verða að sögn skáldsins að standa sameinaðir í stað þess að falla sundraðir:
En hver, sem ei lífinu hættir í flokki,
má hætta því einn — á böðuls stokki.
Kvæði Øverlands hafði bersýnilega mikil áhrif á Tómas Guðmundsson, sem orti kvæðið „Heimsókn“ árið 1942, í miðju stríði:
Og vei þeim, sem ei virðir skáldskap þann,
sem veruleikinn yrkir kringum hann.
Niðurstaða Tómasar er afdráttarlaus:
Því meðan til er böl, sem bætt þú gast,
og barist var, á meðan hjá þú sast,
er ólán heimsins einnig þér að kenna.
Þessa dagana verður mér iðulega hugsað til kvæða þeirra Øverlands og Tómasar.
(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 19. mars 2022.)
Rita ummæli