Laugardagur 26.03.2022 - 10:01 - Rita ummæli

Sjálfsákvörðunarréttur þjóða

Þegar Úkraínumenn lýstu yfir sjálfstæði árið 1991, voru þeir að feta í fótspor margra annarra Evrópuþjóða. Norðmenn höfðu sagt skilið við Svía árið 2005, af því að þeir voru og vildu vera Norðmenn, ekki Svíar. Finnar höfðu sagt skilið við Rússa árið 1917, af því að þeir voru og vildu vera Finnar, ekki Rússar. Íslendingar höfðu stofnað eigið ríki árið 1918, af því að þeir voru og vildu vera Íslendingar, ekki Danir. En hvað er þjóð? Algengasta svarið er, að það sé hópur, sem tali sömu tungu. En það er ekki rétt. Bretar og Bandaríkjamenn tala sömu tungu, en eru tvær þjóðir. Svisslendingar eru ein þjóð, en þar eru töluð fjögur mál.

Önnur skilgreining er eðlilegri. Þjóð er heild manna, sem vegna samkenndar og fyrir rás viðburða vill stofna saman og halda uppi eigin ríki. Það er viljinn til að vera þjóð, sem ræður úrslitum. Franski rithöfundurinn Ernest Renan orðaði þessa hugmynd vel á nítjándu öld, þegar hann sagði, að þjóðerni væri dagleg allsherjaratkvæðagreiðsla. Hann var talsmaður þjóðlegrar frjálshyggju, en hún bætir úr þeim galla á hinni annars ágætu hugmynd um frjálsan, alþjóðlegan markað, þar sem menn skiptast á vöru og þjónustu öllum í hag, að þar er ekki gert ráð fyrir neinni sögu, neinni samkennd, neinu sjálfi. Menn þurfa ekki aðeins að hafa. Þeir þurfa líka að vera.

Menn eru ekki aðeins neytendur, heldur líka synir eða dætur, eiginmenn eða eiginkonur, feður eða mæður. Jafnframt eiga þeir dýrmætt sálufélag við samlanda sína, við Íslendingar við þær þrjátíu og fimm kynslóðir, sem byggt hafa þetta land á undan okkur, Úkraínumenn við ótal forfeður sína og formæður. Baráttan í Úkraínu þessa dagana er um sjálfsákvörðunarrétt þjóða.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 26. mars 2022.)

Flokkar: Óflokkað

«
»

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af fjórum og fimm? Svar:

Höfundur

Hannes Hólmsteinn Gissurarson er prófessor emeritus í stjórnmálafræði í Háskóla Íslands og hefur verið gistifræðimaður við fjölmarga erlenda háskóla, þar á meðal Stanford-háskóla og UCLA. Hann fæddist 1953, lauk doktorsprófi í stjórnmálafræði frá Oxford-háskóla 1985 og er höfundur fjölmargra bóka um stjórnmál, sögu og heimspeki á íslensku, ensku og sænsku.


Nýjustu bækur hans eru Twenty Four Conservative-Liberal Thinkers, sem hugveitan New Direction í Brüssel gaf út í tveimur bindum í árslok 2020, Bankahrunið 2008 og Communism in Iceland, sem Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands gaf út árið 2021, og Landsdómsmálið, sem Almenna bókafélagið gaf út í desember 2022. Hann hefur gefið út átta bókarlangar skýrslur á ensku. Sjö eru fyrir hugveituna New Direction í Brüssel: The Nordic Models og In Defence of Small States (2016); Lessons for Europe from the 2008 Icelandic Bank Collapse, Green Capitalism: How to Protect the Environment by Defining Property Rights og Voices of the Victims: Towards a Historiography of Anti-Communist Literature (2017); Why Conservatives Should Support the Free Market og Spending Other People’s Money: A Critique of Rawls, Piketty and Other Redistributionists (2018). Ein skýrslan er fyrir fjármálaráðuneytið, Foreign Factors in the 2008 Bank Collapse (2018). Hann er ritstjóri Safns til sögu kommúnismans, ritraðar Almenna bókafélagsins um alræðisstefnu, en nýjasta bókin í þeirri ritröð er Til varnar vestrænni menningu: Ræður sex rithöfunda 1950–1958. Árin 2017 og 2018 birtust eftir hann þrjár ritgerðir á ensku um frjálshyggju á Íslandi, Liberalism in Iceland in the Nineteenth and Twentieth Centuries, Anti-Liberal Narratives about Iceland 1991–2017 og Icelandic Liberalism and Its Critics: A Rejoinder to Stefan Olafsson.  

RSS straumur: RSS straumur

Nýlegar athugasemdir