Laugardagur 09.04.2022 - 10:07 - Rita ummæli

Snorri á Engjum í Snælandi

Á íslensku heitir Las Vegas engi og Nevada Snæland, þótt lítið sé um engi nálægt Las Vegas og snjór aðeins á hæstu fjallstindum í Nevada. Á hinni árlegu ráðstefnu Samtaka um framtaksfræðslu, Association of Private Enterprise Education, á Engjum í Snælandi kynnti ég hinn 5. apríl nýlega bók mína um tuttugu og fjóra frjálslynda íhaldsmenn, en á netinu er ókeypis aðgangur að henni.

Fyrsti kaflinn er um Snorra Sturluson, enda kom hann orðum að tveimur merkilegum hugmyndum í Heimskringlu: að konungar væru bundnir af sömu lögum og þegnar þeirra og að afhrópa mætti þá, ryfu þeir hinn óskráða sáttmála milli sín og þeirra. Ég benti á, að annar hugsuður þrettándu aldar, heilagur Tómas af Akvínas, komst að sömu niðurstöðu, þótt sá munur væri á, að hann miðaði við náttúrurétt, en Snorri við venjurétt. Í Egils sögu lýsti Snorri síðan fyrsta raunverulega einstaklingnum, Agli Skallagrímssyni, eins og Sigurður Nordal vakti athygli á.

Hinir sígildu hugsuðir frjálshyggjunnar voru John Locke, David Hume og Adam Smith. Locke benti á, að menn gætu myndað einkaeignarrétt án þess að skerða hag annarra, því að miklu meira yrði þá framleitt. Hume taldi réttlætishugtakið vera andsvar við tveimur staðreyndum um mannlegt samlíf, knöppum gæðum og takmörkuðum náungakærleik. Smith leiddi rök að því, að eins gróði þyrfti ekki að vera annars tap og að mannlegt samlíf gæti verið skipulegt án þess að vera skipulagt.

Frjálshyggjan breyttist hins vegar í frjálslynda íhaldsstefnu í andstöðu við frönsku byltinguna 1789, en hún misheppnaðist ólíkt bresku byltingunni 1688 og hinni bandarísku 1776. Ástæðan var, eins og Edmund Burke skrifaði, að byltingarmennirnir frönsku voru ekki að verja og víkka út fengið frelsi, heldur að reyna að endurskapa allt skipulagið, en það endar ætíð með ósköpum. Þeir Benjamin Constant og Alexis de Tocqueville fluttu svipaðan boðskap af miklu andríki.

Á Engjum, í Las Vegas, lét ég þá skoðun loks í ljós, að einn merkasti hugsuður frjálslyndrar íhaldsstefnu væri Friedrich von Hayek, en hann þarf ekki að kynna fyrir Íslendingum.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 9. apríl 2022.)

Flokkar: Óflokkað

«
»

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af þremur og einum? Svar:

Höfundur

Hannes Hólmsteinn Gissurarson er prófessor emeritus í stjórnmálafræði í Háskóla Íslands og hefur verið gistifræðimaður við fjölmarga erlenda háskóla, þar á meðal Stanford-háskóla og UCLA. Hann fæddist 1953, lauk doktorsprófi í stjórnmálafræði frá Oxford-háskóla 1985 og er höfundur fjölmargra bóka um stjórnmál, sögu og heimspeki á íslensku, ensku og sænsku.


Nýjustu bækur hans eru Twenty Four Conservative-Liberal Thinkers, sem hugveitan New Direction í Brüssel gaf út í tveimur bindum í árslok 2020, Bankahrunið 2008 og Communism in Iceland, sem Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands gaf út árið 2021, og Landsdómsmálið, sem Almenna bókafélagið gaf út í desember 2022. Hann hefur gefið út átta bókarlangar skýrslur á ensku. Sjö eru fyrir hugveituna New Direction í Brüssel: The Nordic Models og In Defence of Small States (2016); Lessons for Europe from the 2008 Icelandic Bank Collapse, Green Capitalism: How to Protect the Environment by Defining Property Rights og Voices of the Victims: Towards a Historiography of Anti-Communist Literature (2017); Why Conservatives Should Support the Free Market og Spending Other People’s Money: A Critique of Rawls, Piketty and Other Redistributionists (2018). Ein skýrslan er fyrir fjármálaráðuneytið, Foreign Factors in the 2008 Bank Collapse (2018). Hann er ritstjóri Safns til sögu kommúnismans, ritraðar Almenna bókafélagsins um alræðisstefnu, en nýjasta bókin í þeirri ritröð er Til varnar vestrænni menningu: Ræður sex rithöfunda 1950–1958. Árin 2017 og 2018 birtust eftir hann þrjár ritgerðir á ensku um frjálshyggju á Íslandi, Liberalism in Iceland in the Nineteenth and Twentieth Centuries, Anti-Liberal Narratives about Iceland 1991–2017 og Icelandic Liberalism and Its Critics: A Rejoinder to Stefan Olafsson.  

RSS straumur: RSS straumur

Nýlegar athugasemdir