Hinn 19. apríl var mér boðið að flytja erindi um stjórnspeki Snorra Sturlusonar í Snorrastofu í Reykholti. Þar notaði ég tækifærið til að svara rækilegar en áður tveimur mótbárum, sem hreyft var við fyrirlestri mínum um sama efni í miðaldastofu í Reykjavík 2. desember á síðasta ári.
Hin fyrri var, að Snorri hefði ekki samið Egils sögu. En margvísleg rök hníga að því. Í fyrsta lagi var það ekki nema á færi höfðingja eða biskupsstólanna eða klaustra að framleiða bækur. Slátra þurfti kálfum í skinnin (111 kálfum í Flateyjarbók), tína sortulyng í blekið og klæða og fæða skrifara veturlangt. Fáir höfundar koma því til greina, Snorri einn þeirra. Í öðru lagi er tíminn réttur: Egils saga var rituð, á meðan Snorri var uppi. Í þriðja lagi er staðurinn réttur: Höfundur þekkti vel til í Borgarfirði og á Rangárvöllum. Í fjórða lagi er stíllinn svipaður á Heimskringlu annars vegar og Egils sögu hins vegar. Í fimmta lagi hefur nýlegur og skipulegur samanburður orðnotkunar leitt í ljós náinn skyldleika textanna í Heimskringlu og Egils sögu.
Seinni mótbáran var, að í Heimskringlu kynni vissulega að gæta hugmynda um skorður, sem forn lög og fastar venjur settu konungum, en í lífi sínu hefði Snorri síður en svo sýnt, að hann hefði verið andstæðingur konunga. Við þessari mótbáru átti ég þrenn svör. Í fyrsta lagi var Snorri ekki andstæðingur konunga, en hann taldi, að Íslendingar ættu að vera vinir þeirra og ekki þegnar, eins og kemur fram í ræðu Einars Þveræings. Í öðru lagi ættum við að skoða, hvað Snorri gerði til að koma landinu undir konung, en ekki, hvað Sturla Þórðarson gaf í skyn, að hann hefði sagt í Noregi, og sannleikurinn er sá, að hann gerði ekkert til að koma landinu undir konung. Í þriðja lagi egndi Snorri svo konung, að hann lét að lokum drepa hann! Þótt Snorri væri ekki andstæðingur konunga, voru konungar andstæðingar Snorra.
(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 23. apríl 2022.)
Rita ummæli