Laugardagur 23.04.2022 - 10:11 - Rita ummæli

Í Snorrastofu

Hinn 19. apríl var mér boðið að flytja erindi um stjórnspeki Snorra Sturlusonar í Snorrastofu í Reykholti. Þar notaði ég tækifærið til að svara rækilegar en áður tveimur mótbárum, sem hreyft var við fyrirlestri mínum um sama efni í miðaldastofu í Reykjavík 2. desember á síðasta ári.

Hin fyrri var, að Snorri hefði ekki samið Egils sögu. En margvísleg rök hníga að því. Í fyrsta lagi var það ekki nema á færi höfðingja eða biskupsstólanna eða klaustra að framleiða bækur. Slátra þurfti kálfum í skinnin (111 kálfum í Flateyjarbók), tína sortulyng í blekið og klæða og fæða skrifara veturlangt. Fáir höfundar koma því til greina, Snorri einn þeirra. Í öðru lagi er tíminn réttur: Egils saga var rituð, á meðan Snorri var uppi. Í þriðja lagi er staðurinn réttur: Höfundur þekkti vel til í Borgarfirði og á Rangárvöllum. Í fjórða lagi er stíllinn svipaður á Heimskringlu annars vegar og Egils sögu hins vegar. Í fimmta lagi hefur nýlegur og skipulegur samanburður orðnotkunar leitt í ljós náinn skyldleika textanna í Heimskringlu og Egils sögu.

Seinni mótbáran var, að í Heimskringlu kynni vissulega að gæta hugmynda um skorður, sem forn lög og fastar venjur settu konungum, en í lífi sínu hefði Snorri síður en svo sýnt, að hann hefði verið andstæðingur konunga. Við þessari mótbáru átti ég þrenn svör. Í fyrsta lagi var Snorri ekki andstæðingur konunga, en hann taldi, að Íslendingar ættu að vera vinir þeirra og ekki þegnar, eins og kemur fram í ræðu Einars Þveræings. Í öðru lagi ættum við að skoða, hvað Snorri gerði til að koma landinu undir konung, en ekki, hvað Sturla Þórðarson gaf í skyn, að hann hefði sagt í Noregi, og sannleikurinn er sá, að hann gerði ekkert til að koma landinu undir konung. Í þriðja lagi egndi Snorri svo konung, að hann lét að lokum drepa hann! Þótt Snorri væri ekki andstæðingur konunga, voru konungar andstæðingar Snorra.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 23. apríl 2022.)

Flokkar: Óflokkað

«
»

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af þremur og sex? Svar:

Höfundur

Hannes Hólmsteinn Gissurarson er prófessor emeritus í stjórnmálafræði í Háskóla Íslands og hefur verið gistifræðimaður við fjölmarga erlenda háskóla, þar á meðal Stanford-háskóla og UCLA. Hann fæddist 1953, lauk doktorsprófi í stjórnmálafræði frá Oxford-háskóla 1985 og er höfundur fjölmargra bóka um stjórnmál, sögu og heimspeki á íslensku, ensku og sænsku.


Nýjustu bækur hans eru Twenty Four Conservative-Liberal Thinkers, sem hugveitan New Direction í Brüssel gaf út í tveimur bindum í árslok 2020, Bankahrunið 2008 og Communism in Iceland, sem Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands gaf út árið 2021, og Landsdómsmálið, sem Almenna bókafélagið gaf út í desember 2022. Hann hefur gefið út átta bókarlangar skýrslur á ensku. Sjö eru fyrir hugveituna New Direction í Brüssel: The Nordic Models og In Defence of Small States (2016); Lessons for Europe from the 2008 Icelandic Bank Collapse, Green Capitalism: How to Protect the Environment by Defining Property Rights og Voices of the Victims: Towards a Historiography of Anti-Communist Literature (2017); Why Conservatives Should Support the Free Market og Spending Other People’s Money: A Critique of Rawls, Piketty and Other Redistributionists (2018). Ein skýrslan er fyrir fjármálaráðuneytið, Foreign Factors in the 2008 Bank Collapse (2018). Hann er ritstjóri Safns til sögu kommúnismans, ritraðar Almenna bókafélagsins um alræðisstefnu, en nýjasta bókin í þeirri ritröð er Til varnar vestrænni menningu: Ræður sex rithöfunda 1950–1958. Árin 2017 og 2018 birtust eftir hann þrjár ritgerðir á ensku um frjálshyggju á Íslandi, Liberalism in Iceland in the Nineteenth and Twentieth Centuries, Anti-Liberal Narratives about Iceland 1991–2017 og Icelandic Liberalism and Its Critics: A Rejoinder to Stefan Olafsson.  

RSS straumur: RSS straumur

Nýlegar athugasemdir