Á ráðstefnu Evrópska hugmyndabankans (European Resource Bank) í Stokkhólmi 7. júní 2022 kynnti ég nýlega bók mína í tveimur bindum um tuttugu og fjóra frjálslynda íhaldsmenn, allt frá sagnritaranum Snorra Sturlusyni til heimspekingsins Roberts Nozicks. Ég lét í ljós þá skoðun, að sennilega hefði Friedrich von Hayek sett fram fullkomnustu vörnina fyrir frjálslyndri ihaldsstefnu, en rifjaði um leið upp, þegar hann kom í heimsókn til okkar nokkurra stúdenta í Oxford vorið 1983, eftir að við höfðum stofnað þar The Hayek Society. Hann flutti stutta tölu í kvöldverði, sem við héldum honum, og kvaðst ánægður með, að ungt fólk hefði áhuga á kenningum sínum. Hann yrði hins vegar að taka af okkur loforð um að verða ekki „Hayekians“, því að marxistarnir hefðu verið miklu verri en Marx og keynesverjarnir miklu verri en Keynes.
Ég kvað gallann við hefðbundna íhaldsstefnu vera, að hún fæli ekki í sér nein svör um, hvað skyldi gera, heldur aðeins tregðu til að breyta. Í því sambandi rifjaði ég upp, þegar Milton Friedman kom í heimsókn til Íslands haustið 1984. Í hádegisverði honum til heiðurs kynnti ég hann fyrir gestum. Þegar einn seðlabankastjórinn birtist, sagði ég: „Jæja, prófessor Friedman. Hér er kominn maður, sem yrði atvinnulaus, yrðu kenningar yðar framkvæmdar!“ Friedman vildi sem kunnugt er leggja niður seðlabanka, en setja í þeirra stað fastar reglur um aukningu peningamagns í umferð. En Friedman svaraði að bragði: „Nei, nei. Hann yrði ekki atvinnulaus. Hann yrði aðeins að færa sig í arðbærara starf!“ Kosturinn við kapítalismann er einmitt, að hann knýr okkur öll til að laga okkur að síbreytilegum aðstæðum. Frjálslyndir íhaldsmenn vilja þróun fram á við, hvorki kyrrstöðu né byltingu.
(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 18. júní 2022.)
Rita ummæli