Mistök stjórnmálamanna eru sjaldnast mælanleg: allt orkar tvímælis, þá er gert er. Ég hef þó rifjað upp tvenn mistök íslenskra stjórnmálamanna, þegar Valtýr Guðmundsson hélt árið 1901 til streitu úreltri hugmynd um ráðgjafa í Kaupmannahöfn, þótt ný stjórn í Danmörku vildi samþykkja ráðgjafa í Reykjavík, og þegar Svavar Gestsson samdi árið 2009 af sér um lánakjör í Icesave-deilunni við Breta, en hagstæðari samningar reyndust í boði. En tvenn mistök norrænna stjórnmálamanna voru miklu örlagaríkari.
Ditlev Gothard Monrad var danskur þjóðfrelsissinni, annálaður fyrir mælsku. Hann varð forsætisráðherra árið 1863 og þurfti að ráða fram úr deilu um Slésvík. Danakonungur var um leið hertogi Slésvíkur, en íbúar norðurhluta hertogadæmisins mæltu á dönsku og töldu sig Dani, en íbúar suðurhlutans mæltu á þýsku og töldu sig Þjóðverja. Monrad ákvað að innlima Slésvík alla í Danmörku, þótt hann vissi, að Prússar undir forystu Ottos von Bismarcks myndu ekki sætta sig við það. Hann treysti því, að Svíar kæmu Dönum til hjálpar og að Evrópuveldin myndu stöðva Prússa. Hvorugt varð, og Danir biðu herfilegan ósigur vorið 1864. Monrad hafnaði sáttaboðum, sem hefðu falið í sér, að Danir gætu haldið norðurhluta Slésvíkur. Virtist hann vera veill á geði, og eftir ósigurinn fluttist hann í þunglyndiskasti til Nýja Sjálands.
Eljas Erkko var utanríkisráðherra Finnlands árið 1939, þegar Stalín krafðist þess, að Finnar létu af hendi landsvæði, sem voru Rússum mikilvæg vegna nálægðar við Lenínsgarð, gegn því að fá önnur landsvæði fjær borginni. Frá hernaðarlegu sjónarmiði voru þessar kröfur skiljanlegar. En Erkko hafnaði samningum um landaskipti, þótt gætnir menn eins og Carl Gustav von Mannerheim marskálkur hvettu til þeirra, og þá fyrirskipaði Stalín árás á Finnland. Erkko treysti á aðstoð frá Svíum, Bretum og Frökkum, en þær vonir brustu. Finnar stóðu einir uppi, eins og Danir vorið 1864 (og Íslendingar haustið 2008). Hitt er annað mál, að Finnar vörðust svo hraustlega undir stjórn Mannerheims, að Stalín ákvað að semja frið vorið 1940.
(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 23. september 2023.)
Rita ummæli