Sunnudagur 12.11.2023 - 07:52 - Rita ummæli

Madrid, september 2023

Evrópska hugveitan New Direction hélt 20.–22. september 2023 fjölmennt þing í Madrid, þar sem hægri menn báru saman bækur sínar og sóttu hinn árlega kvöldverð í minningu Margrétar Thatchers. Ræðumaður var Robin Harris, sem var ræðuskrifari Thatchers og ævisöguritari.

Ég mælti á þessari ráðstefnu með samstarfi frjálshyggjumanna og íhaldsmanna. Ég leiddi rök að því, að til væri frjálslynd íhaldsstefna, sem sameinaði óvéfengjanleg rök frjálshyggjumanna fyrir viðskiptafrelsi, einkaeignarrétti og valddreifingu og sterka tilfinningu íhaldsmanna fyrir því, að menn yrðu að eiga einhvers staðar heima, vera hluti af stærri heild, öðlast samkennd.

Einn íhaldsmaðurinn á ráðstefnunni minntist á samnýtingarbölið (tragedy of commons), þegar ótakmarkaður aðgangur að takmarkaðri auðlind veldur ofnýtingu hennar. Ég svaraði því til, að hagfræðingar hefðu bent á sjálfsprottna samvinnu til að takmarka slíkan aðgang og útrýma bölinu. Íslenska kvótakerfið væri gott dæmi. Ég benti á, að í Afríku, þar sem sumir stofnar fíla og nashyrninga væru í útrýmingarhættu, mætti með einu pennastriki breyta veiðiþjófum í veiðiverði: með því að skilgreina eignarrétt afrískra þorpsbúa á þessum stofnum og leyfa eðlilega nýtingu þeirra í stað þess að reyna að friða þá.

Ég tók undir það með íhaldsmönnum, að mannlífið væri ekki samsafn óháðra einstaklinga. Allir yrðu að eiga sér einhverjar rætur, bindast öðrum einhverjum böndum, virða arfhelgar venjur og hefðir. Hins vegar hafnaði ég þeirri skoðun, sem heyrðist á þinginu, að siðferðilegar skuldbindingar okkar næðu aðeins að þjóðinni. Þær ná líka til alls mannkyns, þótt slíkar skuldbindingar séu eðli málsins samkvæmt mjög takmarkaðar og felist aðallega í að láta aðra í friði.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 11. nóvember 2023.)

Flokkar: Óflokkað

«
»

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af sex og sjö? Svar:

Höfundur

Hannes Hólmsteinn Gissurarson er prófessor emeritus í stjórnmálafræði í Háskóla Íslands og hefur verið gistifræðimaður við fjölmarga erlenda háskóla, þar á meðal Stanford-háskóla og UCLA. Hann fæddist 1953, lauk doktorsprófi í stjórnmálafræði frá Oxford-háskóla 1985 og er höfundur fjölmargra bóka um stjórnmál, sögu og heimspeki á íslensku, ensku og sænsku.


Nýjustu bækur hans eru Twenty Four Conservative-Liberal Thinkers, sem hugveitan New Direction í Brüssel gaf út í tveimur bindum í árslok 2020, Bankahrunið 2008 og Communism in Iceland, sem Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands gaf út árið 2021, og Landsdómsmálið, sem Almenna bókafélagið gaf út í desember 2022. Hann hefur gefið út átta bókarlangar skýrslur á ensku. Sjö eru fyrir hugveituna New Direction í Brüssel: The Nordic Models og In Defence of Small States (2016); Lessons for Europe from the 2008 Icelandic Bank Collapse, Green Capitalism: How to Protect the Environment by Defining Property Rights og Voices of the Victims: Towards a Historiography of Anti-Communist Literature (2017); Why Conservatives Should Support the Free Market og Spending Other People’s Money: A Critique of Rawls, Piketty and Other Redistributionists (2018). Ein skýrslan er fyrir fjármálaráðuneytið, Foreign Factors in the 2008 Bank Collapse (2018). Hann er ritstjóri Safns til sögu kommúnismans, ritraðar Almenna bókafélagsins um alræðisstefnu, en nýjasta bókin í þeirri ritröð er Til varnar vestrænni menningu: Ræður sex rithöfunda 1950–1958. Árin 2017 og 2018 birtust eftir hann þrjár ritgerðir á ensku um frjálshyggju á Íslandi, Liberalism in Iceland in the Nineteenth and Twentieth Centuries, Anti-Liberal Narratives about Iceland 1991–2017 og Icelandic Liberalism and Its Critics: A Rejoinder to Stefan Olafsson.  

RSS straumur: RSS straumur

Nýlegar athugasemdir