Miðvikudagur 06.03.2024 - 06:16 - Rita ummæli

Ný sýn á gömul deilumál

Árið 2023 fór ég víða og hlustaði á marga fyrirlestra. Tveir voru fróðlegastir. Prófessor David D. Friedman, sem lauk doktorsprófi í eðlisfræði, en hefur löngum starfað sem hagfræðiprófessor, talaði á ráðstefnu í Lissabon í apríl. Hann miðar rökræðunnar vegna við spálíkön milliríkjanefndar Sameinuðu þjóðanna um hlýnun jarðar, en reynir að bera saman kostnað og ábata af hinni hugsanlegu hlýnun. Niðurstaða hans er, að erfitt sé eða ókleift að sýna fram á, að kostnaðurinn verði meiri en ábatinn. Fróðlegt var að hlusta á hann fara yfir málið og vitaskuld forvitnilegt að gera þennan samanburð, en einblína ekki á aðra hliðina.

Phil Gramm, sem var lengi bandarískur öldungadeildarþingmaður, en þar á undan hagfræðiprófessor, talaði á ráðstefnu í Bretton Woods í nóvember. Hann leiðir rök að því, að tölur frá bandarísku hagstofunni um tekjudreifingu veiti ekki rétta mynd af kjörum Bandaríkjamanna. Ólíkt því sem gerist víðast annars staðar séu tekjurnar ekki ráðstöfunartekjur, reiknaðar eftir skatta og bætur. Skattar lenda af miklu meiri þunga á tekjuháu fólki, en bætur renna í miklu meira mæli til tekjulágs fólks. Þegar tekið er tillit til þess, verður tekjudreifingin miklu jafnari. Gramm bendir á, að heildarneysla tekjulægsta hópsins samkvæmt tölum bandarísku hagstofunnar nemi um tvöföldum heildartekjum hans fyrir skatta og bætur.

Gramm segir, að samkvæmt nýjustu opinberum tölum séu tekjur 20% tekjuhæsta hópsins í Bandaríkjunum um 17-faldar tekjur 20% tekjulægsta hópsins. En bilið minnkar stórkostlega, eftir að reiknað hefur verið með sköttum og bótum. Þá séu tekjur 20% tekjuhæsta hópsins um fjórfaldar tekjur 20% tekjulægsta hópsins. Gramm heldur því fram, að í raun hafi fátækt minnkað í Bandaríkjunum síðustu áratugi og tekjudreifing orðið jafnari.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 6. janúar 2024.)

Flokkar: Óflokkað

«
»

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af sex og fimm? Svar:

Höfundur

Hannes Hólmsteinn Gissurarson er prófessor emeritus í stjórnmálafræði í Háskóla Íslands og hefur verið gistifræðimaður við fjölmarga erlenda háskóla, þar á meðal Stanford-háskóla og UCLA. Hann fæddist 1953, lauk doktorsprófi í stjórnmálafræði frá Oxford-háskóla 1985 og er höfundur fjölmargra bóka um stjórnmál, sögu og heimspeki á íslensku, ensku og sænsku.


Nýjustu bækur hans eru Twenty Four Conservative-Liberal Thinkers, sem hugveitan New Direction í Brüssel gaf út í tveimur bindum í árslok 2020, Bankahrunið 2008 og Communism in Iceland, sem Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands gaf út árið 2021, og Landsdómsmálið, sem Almenna bókafélagið gaf út í desember 2022. Hann hefur gefið út átta bókarlangar skýrslur á ensku. Sjö eru fyrir hugveituna New Direction í Brüssel: The Nordic Models og In Defence of Small States (2016); Lessons for Europe from the 2008 Icelandic Bank Collapse, Green Capitalism: How to Protect the Environment by Defining Property Rights og Voices of the Victims: Towards a Historiography of Anti-Communist Literature (2017); Why Conservatives Should Support the Free Market og Spending Other People’s Money: A Critique of Rawls, Piketty and Other Redistributionists (2018). Ein skýrslan er fyrir fjármálaráðuneytið, Foreign Factors in the 2008 Bank Collapse (2018). Hann er ritstjóri Safns til sögu kommúnismans, ritraðar Almenna bókafélagsins um alræðisstefnu, en nýjasta bókin í þeirri ritröð er Til varnar vestrænni menningu: Ræður sex rithöfunda 1950–1958. Árin 2017 og 2018 birtust eftir hann þrjár ritgerðir á ensku um frjálshyggju á Íslandi, Liberalism in Iceland in the Nineteenth and Twentieth Centuries, Anti-Liberal Narratives about Iceland 1991–2017 og Icelandic Liberalism and Its Critics: A Rejoinder to Stefan Olafsson.  

RSS straumur: RSS straumur

Nýlegar athugasemdir