Þriðjudagur 09.04.2024 - 07:24 - Rita ummæli

Amsterdam, mars 2024

Ég hélt fyrirlestur í Amsterdam 12. mars 2024 á vegum Austrian Economics Center og Nederlands Instituut vor Praxeologie, og var hann um Evrópusambandið árið 2030. Þar rifjaði ég upp, að „feður“ Evrópusambandsins höfðu orðið vitni að getuleysi Þjóðabandalagsins milli stríða til að halda uppi friði og stuðla að frjálsum alþjóðaviðskiptum. Þeir vildu því öflugt ríkjasamband (federation), ekki aðeins ríkjabandalag (confederation). Það þyrfti að hafa her og geta lagt á skatta. En eftir seinni heimsstyrjöld réttu Bandaríkin, Kanada og Bretland ríkjunum á meginlandi Evrópu hjálparhönd, svo að þau fengu varist ásælni Kremlverja. Ekki reyndist því þörf á evrópskum her. Verkefnið núna í varnarmálum er að tryggja sem best samstarfið yfir Atlantshafið, milli ríkja Evrópu og Norður-Ameríku.

Nokkur öfugþróun hefur þó orðið innan Evrópusambandsins hin síðari ár. Það er að breytast úr opnum markaði í lokað ríki, úr ríkjasambandi í sambandsríki með stórveldisdrauma. Eðlilegasta andsvarið er umfram allt valddreifing eins og nálægðarreglan (subsidiarity principle) kveður á um: taka eigi ákvarðanir af eða sem næst þeim, sem ákvarðanirnar varða. Þessi regla er margbrotin í Evrópusambandinu, þar sem ekkert lýðræðislegt taumhald virðist vera á framkvæmdastjórninni, en Evrópuþingið er áhrifalaust hringleikahús, sem flyst mánaðarlega milli Brüssel og Strassborgar. Evrópudómstóllinn er skipaður miðstýringarsinnum, sem hafa stórlega fært út vald framkvæmdastjórnarinnar.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 16. mars 2024.)

Flokkar: Óflokkað

«
»

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af þremur og sex? Svar:

Höfundur

Hannes Hólmsteinn Gissurarson er prófessor emeritus í stjórnmálafræði í Háskóla Íslands og hefur verið gistifræðimaður við fjölmarga erlenda háskóla, þar á meðal Stanford-háskóla og UCLA. Hann fæddist 1953, lauk doktorsprófi í stjórnmálafræði frá Oxford-háskóla 1985 og er höfundur fjölmargra bóka um stjórnmál, sögu og heimspeki á íslensku, ensku og sænsku.


Nýjustu bækur hans eru Twenty Four Conservative-Liberal Thinkers, sem hugveitan New Direction í Brüssel gaf út í tveimur bindum í árslok 2020, Bankahrunið 2008 og Communism in Iceland, sem Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands gaf út árið 2021, og Landsdómsmálið, sem Almenna bókafélagið gaf út í desember 2022. Hann hefur gefið út átta bókarlangar skýrslur á ensku. Sjö eru fyrir hugveituna New Direction í Brüssel: The Nordic Models og In Defence of Small States (2016); Lessons for Europe from the 2008 Icelandic Bank Collapse, Green Capitalism: How to Protect the Environment by Defining Property Rights og Voices of the Victims: Towards a Historiography of Anti-Communist Literature (2017); Why Conservatives Should Support the Free Market og Spending Other People’s Money: A Critique of Rawls, Piketty and Other Redistributionists (2018). Ein skýrslan er fyrir fjármálaráðuneytið, Foreign Factors in the 2008 Bank Collapse (2018). Hann er ritstjóri Safns til sögu kommúnismans, ritraðar Almenna bókafélagsins um alræðisstefnu, en nýjasta bókin í þeirri ritröð er Til varnar vestrænni menningu: Ræður sex rithöfunda 1950–1958. Árin 2017 og 2018 birtust eftir hann þrjár ritgerðir á ensku um frjálshyggju á Íslandi, Liberalism in Iceland in the Nineteenth and Twentieth Centuries, Anti-Liberal Narratives about Iceland 1991–2017 og Icelandic Liberalism and Its Critics: A Rejoinder to Stefan Olafsson.  

RSS straumur: RSS straumur

Nýlegar athugasemdir