Um aldamótin 1900 var Ísland dönsk hjálenda, eins og það var kallað (biland). Það var þá eitt fátækasta land Vestur-Evrópu. Hér vantaði sárlega vegi, brýr, hafnir og vita. Landsmenn bjuggu flestir í köldum, dimmum, saggasömum torfbæjum. Útlendir togarar ösluðu upp að ströndum og létu vörpur sópa, en Íslendingar stunduðu af vanefnum sjó á litlum bátum, stundum óþiljuðum. Þótt tengsl við útlönd væru hinu afskekkta, harðbýla landi lífsnauðsynleg, voru þau takmörkuð, aðeins fólgin í strjálum skipakomum, en það tók að minnsta kosti viku að sigla frá Kaupmannahöfn til Reykjavíkur. Margir flúðu fátæktina með því að halda vestur um haf. En það var eins og ný tíð gengi í garð árið 1904, þegar það gerðist hvort tveggja, að Íslendingar fengu heimastjórn og að nýr banki tók til starfa, Íslandsbanki, sem átti ásamt Landsbankanum eftir að fjármagna vélvæðingu fiskiskipaflotans. Fyrir einstaka tilviljun varð nú fyrsti íslenski ráðherrann skáldið, sem hafði ort hvað best um framfaraþrá þjóðarinnar, Hannes Hafstein. Í dag er þess minnst, að hundrað ár eru liðin frá láti hans. Jafnvel heitir andstæðingar Hannesar viðurkenndu á sinni tíð, að hann væri ekki aðeins snjallt og rismikið skáld, heldur líka glæsimenni, sem væri geðfelldur í viðkynningu, vinmargur og vinsæll og kynni að koma virðulega fram fyrir Íslands hönd. Honum var hins vegar stundum brugðið um að hafa ekki aðra hugsjón en eigin frama. Því fór þó fjarri. Hannes stóð traustum fótum í íslenskri stjórnmálaarfleifð og hafði til að bera sterka sannfæringu, þótt vissulega væri hún milduð af eðlislægri sáttfýsi og langri reynslu.
Vinir, ekki þegnar
Hannes Hafstein var umfram allt þjóðrækinn og frjálslyndur framfarasinni. Í minningargrein sagði einn nánasti samstarfsmaður hans, Jón Þorláksson forsætisráðherra: „Grundvallarhugun Hannesar Hafstein í sambandsmálinu hygg ég hafa verið þá, að hann vildi afla landinu þeirra sjálfstæðismerkja og þess sjálfstæðis, sem frekast var samrýmanlegt þeirri hugsun að halda vinfengi danskra stjórnmálamanna og fjármálamanna og áhuga hjá þeim fyrir því að veita þessu landi stuðning í verklegri framfaraviðleitni sinni.“ Hannes vildi, að Íslendingar væru vinir annarra þjóða, ekki síst viðskiptavinir þeirra, en hann vildi ekki, að þeir væru þegnar þessara þjóða, heldur skyldu þeir ráða eigin málum, vera fullvalda þjóð. En sú fullvalda þjóð gat ekki lifað á munnvatni og fjallagrösum, heldur þurfti hún erlent fjármagn til að nýta kosti lands og sjávar. Haga varð því málum hyggilega, laða útlendinga að í stað þess að fæla þá frá.
Þessa hugsun um afstöðu Íslendinga til annarra þjóða má rekja allt til Snorra Sturlusonar, en hann samdi ræðu Einars Þveræings, sem átti að hafa verið flutt á Alþingi árið 1024, þá er Þórarinn Nefjólfsson bar Íslendingum boð Ólafs digra um, að þeir gerðust honum handgengnir. Snorri lætur Einar segja, að víst sé þessi konungur góður, en hitt sé ljóst, að konungar séu misjafnir, sumir góðir og aðrir ekki, og sé því Íslendingum best að hafa engan konung. Íslendingar skuli hins vegar vera vinir Ólafs konungs og gefa honum gjafir. Í Heimskringlu Snorra er eitt meginstefið, að öðru hverju komist til valda konungar, sem heyi stríð og leggi á þunga skatt landslýð til óþurftar. Snorri ólst upp í Odda, og þar hefur hann auðvitað lesið kaflann í Íslendingabók Ara fróða um ræðu Þorgeirs Ljósvetningagoða, en í upphafi hennar minnir goðinn á, að konungar í Danmörku og Noregi hafi löngum háð stríð sín í milli, en landsmenn þá iðulega stillt til friðar gegn vilja þeirra.
Á nítjándu öld hóf Jón Sigurðsson merki Snorra Sturlusonar á loft og hélt fram sömu stefnu: að Íslendingar skyldu vera vinir annarra þjóða, en ekki þegnar. Fyrir rás viðburða var Íslandi þá stjórnað frá Kaupmannahöfn. Bar Jón í Hugvekju til Íslendinga árið 1848 fram þrjár röksemdir fyrir fullu sjálfsforræði: að það hefði gengið aftur til þjóðarinnar, eftir að Danakonungur afsalaði sér einveldi, að Íslendingar væru sérstök þjóð með eigin tungu, sögu og bókmenntir, sem ætti eðli málsins samkvæmt að hafa eigið ríki, og að hagkvæmast væri, að þeir stjórnuðu eigin málum, því að þeir þekktu betur til þeirra en útlendingar. Jafnframt gerði Jón Dönum reikning fyrir kúgun þeirra og arðrán öldum saman. Auðvitað hefur hann ekki búist við, að Danir viðurkenndu þá kröfu, en hann vildi í samningum við þá jafna metin, ekki ganga til þeirra með betlistaf í hendi.
Stolt er ekki dramb
Þeir Jón Sigurðsson og Hannes Hafstein áttu það sameiginlegt að vera vinir Dana, en ekki Danasleikjur, og sýna tvö atvik það best. Upp úr 1870 tók dönsku stjórninni að leiðast þófið við Íslendinga, og setti hún án samráðs við þá Stöðulögin árið 1871, en færði þeim síðan frjálslynda stjórnarskrá á þúsund ára afmæli Íslandsbyggðar árið 1874. Var að henni mikil réttarbót. Kristján IX. Danakonungur bauð Jóni Sigurðssyni í höll sína skömmu eftir setningu stjórnarskrárinnar. Hann ávarpaði Jón og benti á, að nú hefði hann skrifað undir nýja stjórnarskrá. Í orðunum lá, að Jón ætti að vera ánægður. „Þetta er góð byrjun, yðar hátign,“ svaraði Jón kurteislega. Bjóst konungur áreiðanlega ekki við þessu svari.
Hitt atvikið gerðist röskum fjórum áratugum síðar. Hannes Hafstein var orðinn ráðherra Íslands í annað sinn og sótti ríkisráðsfund í Kaupmannahöfn haustið 1913. Árið áður hafði Kristján X. orðið konungur, en hann var ekki eins hlynntur Íslendingum og faðir hans Friðrik XVIII., sem var góður vinur Hannesar. Íslandsráðherra var látinn vita fyrir fundinn, að nú skyldu ráðherrar ekki lengur koma fram í einkennisbúningi. Hannes mætti því í morgunfatnaði (morning dress, tegund af kjóli og hvítu) eins og dönsku ráðherrarnir. Í upphafi fundar spurði konungur Hannes hranalega, hvers vegna hann væri ekki í einkennisbúningi. Hannes svaraði því til, að sér hefði verið sagt að mæta í morgunfatnaði. Konungur kvað það ekki eiga við um Íslandsráðherra. Kvað hann Íslendinga ókurteisa, þrjóska og agalausa. Þegar konungur settist, sneri Hannes sér að honum og sagðist harma orð hans, ekki sjálfs sín vegna, heldur Íslendinga. Hann gæti því ekki setið þennan fund. Gekk hann út.
Þá reis upp Edvard Brandes fjármálaráðherra. Kvaðst hann hafa kynnt Hannesi hinar nýju reglur um klæðaburð. Bæði konungur Hannes ekki afsökunar, yrði hann sjálfur að víkja af fundi. Carl Zahle forsætisráðherra tók undir með Brandes og skoraði á konung að slíta annaðhvort fundi eða biðja Hannes afsökunar. Konungur sá sitt óvænna og lét senda eftir Hannesi, sem var að ganga út úr höllinni. Þegar Hannes kom inn aftur, stóð konungur upp og bað hann afsökunar. Hannes þakkaði konungi ljúfmannlega fyrir að eyða misskilningi og kvaðst sjálfur biðjast afsökunar, hefði hann í einhverju móðgað hans hátign.
Við þessi tvö tækifæri fóru þeir Jón Sigurðsson og Hannes að dæmi Staðarhóls-Páls: Þeir lutu hátigninni, en stóðu á réttinum. Þeir voru stoltir fyrir hönd þjóðar sinnar, en ekki drambsamir.
Raunar má hafa kunnan viðburð úr ævi Hannesar Hafstein til marks um, að Íslendingar ættu frekar að treysta á sjálfa sig en Dani. Hannes var sýslumaður á Ísafirði í október 1899, þegar honum barst fregn um, að breskur togari væri að veiðum á Dýrafirði langt innan landhelginnar íslensku. Hann brá við skjótt, kvaddi menn með sér og sigldi á bát út að togaranum. Skipverjar slengdu hins vegar þungum togvír og vörpu ofan á bátinn og sökktu honum. „Hannes hélt með herkjum lífi vegna frábærrar karlmennsku,“ sagði Bjarni Benediktsson forsætisráðherra í ræðu á aldarafmæli Hannesar. Seinna náðist þó skipstjóri togarans, illmenni að nafni Nilsson, og hlaut dóm, en honum var ekki framfylgt. Landhelgisgæsla danskra herskipa á Íslandsmiðum þótti raunar ekki röggsamleg, og varð fræg dagbókarfærsla eins þeirra, þegar það hélt eitt sinn kyrru fyrir í Reykjavík í lok nítjándu aldar: „Stille i Havnen, Storm udenfor.“ Logn í höfn, stormur á sjó. Danir gerðu samning við Breta árið 1901 um þriggja mílna landhelgi Íslands. Miðaðist hann við viðskiptahagsmuni Dana í Bretland, en var óhagstæður Íslendingum. Samningurinn gilti til 1951, og þá fyrst gátu Íslendingar hafist handa við útfærslu fiskveiðilögsögunnar. Raunar lagði Jón Þorláksson til, að nota skyldi afmælisfund Alþingis á Þingvöllum árið 1930 til að samþykkja þingsályktunartillögu um fyrirhugaða útfærslu landhelginnar, en aðrir vildu ekki styggja grannþjóðirnar, svo að það varð ekki úr.
Framfarir í krafti frelsis
Í innanlandsmálum fylgdi Hannes Hafstein þeirri frjálslyndu stefnu, sem hann hafði kynnst á námsárum sínum í Kaupmannahöfn. Voru fyrri ráðherraár hans frá 1904 til 1909 eitt mesta framfaraskeið Íslandssögunnar, eins og alkunna er. Þjóðin braust úr fátækt í bjargálnir, fólk flykktist úr kotunum í þéttbýlið, innlendir kaupmenn leystu erlenda af hólmi, íslenskir vélbátar og togarar drógu björg í bú, nýtt fjármagn skapaðist. Ólíkt því, sem gerðist í mörgum öðrum Evrópulöndum á þeim árum, dró úr fólksflutningum vestur um haf. Þetta var öld hinnar frjálsu samkeppni, en henni mátti lýsa með fleygum orðum Hannesar árið 1882:
Ég elska þig, stormur, sem geisar um grund
og gleðiþyt vekur í blaðsterkum lund,
en gráfeysknu kvistina bugar og brýtur
og bjarkirnar treystir, um leið og þú þýtur.
Frjáls samkeppni hefur þann mikla kost, að menn verða að hætta mistökum í stað þess að halda þeim áfram með almannafé. Hún umbunar fyrir hagkvæmar ákvarðanir og refsar fyrir óhagkvæmar: hún treystir bjarkirnar, en brýtur gráfeysknu kvistina.
Nafnið á fyrsta eiginlega íslenska stjórnmálafélaginu, heimastjórnarfélaginu Fram í Reykjavík, sem stofnað var í septemberbyrjun 1905, var áreiðanlega engin tilviljun. Það minnir á brýningu Hannesar til Íslendinga, sem ort var 1885:
Þótt þjaki böl með þungum hramm
þrátt fyrir allt þú skalt, þú skalt samt fram.
Í stefnuskrá félagsins sagði, að það fylgdi „frjálslyndri stefnu“. En þótt frjálst framtak einstaklinganna skilaði miklu á heimastjórnartímabilinu, ekki síst með Íslandsbanka og Landsbankann að bakhjörlum, gerðist líka ýmislegt að frumkvæði hins nýja íslenska ráðherra: einangrun landsins var rofin með sæsímanum; sett voru ný fræðslulög; ótal vegir voru lagðir og brýr smíðaðar; reist voru myndarleg hús yfir Landsbókasafnið og Kleppsspítala; undirbúin var stofnun háskóla; læknisþjónusta var stórbætt; metrakerfi var tekið upp; og margt fleira mætti telja.
Tvö baráttumál Hannesar
Eins og við var að búast af frjálslyndum stjórnmálamanni, var Hannes Hafstein eindreginn andstæðingur áfengisbannsins, sem samþykkt var í þjóðaratkvæðagreiðslu árið 1908, samhliða þingkosningum. Hann vissi sem var, að áfengið hefur aldrei gert neinum manni mein að fyrra bragði. Hannes sagði í umræðum um málið á þingi: „Það er eitt óbrigðult einkenni á öllum ofstækishreyfingum, að þeim fylgir svo mikil hjartveiki og hræðsla, að fjöldi manna, sem í hjarta sínu hefir óbeit á þeim, þorir ekki annað en að fylgjast með og tjá sig samþykka.“ Rættust öll varnaðarorð Hannesar vegna bannsins, sem var afnumið í tveimur áföngum, árið 1922, þegar innflutningur á léttum vínum var leyfður að kröfu Spánverja, sem keyptu fisk af Íslendingum og vildu geta selt þeim vín á móti, og árið 1935 eftir þjóðaratkvæðagreiðslu, samhliða þingkosningum.
Hannes Hafstein var einnig ötull stuðningsmaður jafnréttis kynjanna. Hann var orðinn óbreyttur þingmaður, þegar hann bar á Alþingi árið 1911 fram frumvarp um jafnan rétt kvenna og karla til menntunar, námsstyrkja og embætta, sem var þá samþykkt. Voru Íslendingar ein fyrsta þjóðin til að tryggja þennan mikilvæga rétt. Hann skipti auðvitað hæfileikakonur miklu meira máli en sá réttur, sem konur fengu árið 1915 til að kjósa þingmenn á fjögurra ára fresti. Nokkrir gamlir andstæðingar Hannesar, þar á meðal Björn Jónsson, greiddu þó atkvæði gegn frumvarpinu. Um þetta segir Guðjón Friðriksson sagnfræðingur í ævisögu Hannesar: „Þar kristallast að vissu leyti munurinn á Hannesi Hafstein og þeim. Hann hefur tilhneigingu til að leggja meiri áherslu á einstaklingsréttindi en þjóðréttindi og er þannig trúr æskuhugsjónum sínum.“ Hannes hafði raunar líka látið það verða eitt sitt fyrsta verk sem ráðherra 1904 að opna Lærða skólann í Reykjavík fyrir konum.
Það fór auðvitað ekki hjá því, að Hannes Hafstein eignaðist marga andstæðinga og öfundarmenn, og voru þar fremstir í fylkingu Björn Jónsson og Skúli Thoroddsen, en hvorugur þeirra hafði fulla stjórn á skapsmunum sínum, þótt eflaust hefðu báðir viljað vel. Sárnaði Hannesi, þegar ofsi þeirra var sem mestur, en hann brást ósjaldan við með glettni. Á hinum stutta og ófarsæla ráðherraferli sínum 1909–1911 gekk Björn keikur um með þríhyrndan hatt, svokallaðan Napóleonshatt. Hannes hnoðaði eitt sinn saman brjóstmynd af Birni úr möndludeigi (marsípan) og setti á hana lítinn Napóleonshatt. Síðan orti Hannes gamanvísu til Napóleons fyrir hönd Björns:
Munurinn raunar enginn er
annar en sá á þér og mér,
að marskálkarnir þjóna þér,
en þjóna tómir skálkar mér.
Sem kunnugt er sæmdi Napóleon 26 herforingja sína marskálkstitli.
Vonir þjóðarinnar og stolt
Í ritgerð um Hannes Hafstein velti Davíð Oddsson forsætisráðherra því fyrir sér, hvort miklu hefði breytt, hefði einhver annar maður orðið fyrsti ráðherra Íslands. Sú spurning á fullan rétt á sér. Einn helsti keppinautur Hannesar um völd, Valtýr Guðmundsson, var til dæmis einbeittur framfaramaður og frelsissinni og hefur verið vanmetinn. En eins og Davíð bendir á, kunni enginn maður betur en Hannes að glæða vonir Íslendinga, ekki síður með verkum sínum en andríkum kvæðum. Ég myndi bæta því við, að Hannes kunni líka að vekja stolt þjóðarinnar án þess að breyta því í dramb. Þegar hann naut sín best á fyrstu stjórnarárum sínum, var hann fullkominn jafnoki erlendra höfðingja. Þjóð, sem átti slíkan forsvarsmann, hlaut að verða hlutgeng á alþjóðavettvangi.
(Grein í Morgunblaðinu 13. desember 2022.)
Nýlegar athugasemdir