Laugardagur 17.8.2024 - 17:00 - Rita ummæli

Ólýðræðislegt?

Framundan er forsetakjör í Bandaríkjunum, og nýlega var kosið til þings í Bretlandi og Frakklandi. Þótt fyrirkomulag kosninga í þessum þremur löndum sé um margt ólíkt, er það sameiginlegt, að úrslit kosninga þurfa ekki að svara til atkvæðatalna. Verkamannaflokkurinn í Bretlandi fékk færri atkvæði en í síðustu kosningum, en miklu fleiri þingsæti. Skýringin var, að Íhaldsflokkurinn tapaði fjölda þingsæta, af því að í mörgum kjördæmum hirti Umbótaflokkurinn (Reform Party) af honum verulegt fylgi, svo að hann varð ekki lengur stærsti flokkurinn. Þjóðfylkingin í Frakklandi jók talsvert fylgi sitt í síðari umferð þingkosninganna, en af því að vinstri flokkar höfðu myndað bandalag gegn henni, skilaði það sér ekki í þingsætum. Vel getur verið, að forseti Bandaríkjanna verði kjörinn með minni hluta atkvæða samanlagt, vinni hann sigur í nokkrum ríkjum, sem ráðið geta úrslitum, en mörg önnur ríki eru næsta örugg vígi annars hvors stóra flokksins.

Sumir segja, að þetta sé ólýðræðislegt. Það er hæpið. Lýðræði er ekki fólgið í því að endurspegla atkvæðatölur, heldur í möguleikanum á að skipta friðsamlega um valdhafa, hafi þeir misst fylgi. „Höfuðkostur lýðræðis er sá, að það gerir kleift að losna við ríkisstjórn án þess að skjóta hana,“ sagði Vilmundur landlæknir Jónsson. Við einmenningskjördæmi eins og í Bretlandi myndast oftast tveir flokkar, sem kjósa má um, svo að valið milli þeirra er skýrt og ábyrgðin tvímælalaus. Í bandaríska forsetakjörinu er síðan tilgangslaust að leggja saman atkvæðatölur úr einstökum ríkjum til að reikna út einhvern meiri hluta kjósenda. Það eru ríkin fimmtíu, sem kjósa forsetann, og hann þarf að hafa meiri hluta á kjörmannasamkomu, sem skipuð er fulltrúum frá ríkjunum.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 17. ágúst 2024.)

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 10.8.2024 - 16:59 - Rita ummæli

Signubakkar

Ólíkt höfumst við að, hugsaði ég, þegar ég var staddur í París á Bastilludaginn 2024, 14. júlí. Æstur múgur réðst þennan dag árið 1789 á Bastilluna, drap virkisstjórann, hjó af honum höfuðið og skálmaði með það á spjótsoddi um götur. Þá reyndust aðeins sjö fangar vera geymdir í virkinu. Þótt ótrúlegt sé halda Frakkar þjóðhátíð þennan dag. Eru þeir raunar eina Vesturlandaþjóðin sem efnir til hersýningar á þjóðhátíðardegi sínum. Það var ekki að ófyrirsynju að Einar Benediktsson orti í kvæði frá París um hina blóðdrukknu Signu. Vel fer hins vegar á því að Íslendingar hafa gert fæðingardag hins friðsama, frjálslynda og margfróða leiðtoga sjálfstæðisbaráttunnar, Jóns Sigurðssonar, að þjóðhátíðardegi sínum.

Á Signubökkum þennan júlídag glumdi við þjóðsöngur Frakka, en hann er blóði drifinn hersöngur, eins og þessi vísuorð úr honum í þýðingu Matthíasar Jochumssonar sýna:

Fram til orrustu, ættjarðarniðjar,

upp á vígbjartri herfrægðarstund.

… Því, landar, fylkið fljótt,

og fjandmenn höggvum skjótt.

Þjóðsöngur Íslendinga er hins vegar sálmur eftir Matthías sem saminn var í tilefni þúsund ára afmælis Íslandsbyggðar og frumfluttur í Dómkirkjunni fyrir réttum 150 árum, 2. ágúst 1874, að Danakonungi viðstöddum, en hann hafði fyrr á árinu fært Íslendingum stjórnarskrá sem fól í sér mikilvægar réttarbætur. Þjóðsöngur okkar er að sönnu erfiður í flutningi, en háleitur og áreitnislaus í garð annarra þjóða.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 10. ágúst 2024.)

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 3.8.2024 - 16:58 - Rita ummæli

Uppreisnin í Varsjá 1944

Böðullinn drepur tvisvar, fyrst með byssukúlunni, síðan með þögninni, sagði Elie Wiesel. Því skiptir máli að halda á lofti minningunni um fórnarlömb alræðisstefnunnar, nasisma og kommúnisma. Eitt áhrifamesta safn, sem ég hef komið í, er í Varsjá. Það er um uppreisnina, sem hófst þar í borg 1. ágúst 1944, fyrir áttatíu árum.

Þetta var sorgarsaga. Með griðasáttmála í ágúst 1939 skiptu Hitler og Stalín Mið- og Austur-Evrópu á milli sín. Í beinu framhaldi réðst Hitler á Pólland 1. september og lagði undir sig vesturhluta landsins. Sögðu Bretland og Frakkland Þýskalandi stríð á hendur, enda voru ríkin tvö skuldbundin til að liðsinna Pólverjum í átökum. Stalín réðst á Pólland 17. september og lagði undir sig austurhlutann, en Bretar og Frakkar höfðust nú ekki að. Hitler rauf hins vegar griðasáttmálann í júní 1941 og réðst á Rússland. Hann hafði horft upp á hina löku frammistöðu Rauða hersins í vetrarstríðinu við Finna 1939–1940 og hélt, að auðvelt yrði að ráða niðurlögum ráðstjórnarinnar, en eftir það gæti hann beygt Breta eins og Frakka áður.

Liðu nú ár. Sumarið 1944 var ljóst, að nasistar væru að tapa stríðinu. Rauða hernum hafði vaxið ásmegin, og sótti hann fram til vesturs. Þá sá pólska andspyrnuhreyfingin sér leik á borði og hóf uppreisn í Varsjá. En Stalín stöðvaði her sinn á austurbakka Vislu, sem rennur í gegnum Varsjá. Þaðan fylgdust Rússar aðgerðalausir með nasistum berja niður uppreisnina af ótrúlegri grimmd. Stalín leyfði ekki einu sinni flugvélum bandamanna, sem vörpuðu vistum niður í borgina, afnot af flugvöllum sínum. Hann vildi ekki sjálfstætt Pólland. Pólsku uppreisnarmennirnir gáfust upp 2. október. Hitler skipaði her sínum að leggja Varsjá í rúst, en fyrst gengu þýskir hermenn hús úr húsi og drápu alla, sem þeir gátu. Um þetta má ekki þegja.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 3. ágúst 2024.)

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 27.7.2024 - 16:58 - Rita ummæli

Kári Stefánsson og Matt Ridley

Í Morgunblaðinu 23. júlí deilir Kári Stefánsson forstjóri á vísindarithöfundinn Matt Ridley, sem var á rabbfundi í Háskólanum 17. júlí, meðal annars um uppruna kórónuveirunnar, en hún olli dauða meira en tuttugu milljóna manna og setti alla heimsbyggðina á annan endann í tvö ár. Kári segir, að „Matt virðist hafa lagt áherslu á kenningar um uppruna veirunnar sem eru ekki vísindalegar vegna þess að það er ekki hægt að afsanna þær. Þær eru einfaldlega tilgátur sem eru studdar mjög fátæklegum gögnum ef nokkrum.“ Ég lærði það einmitt af vísindaheimspekingnum Karli R. Popper, eins og Kári hefur bersýnilega líka gert, að óhrekjanlegar kenningar eru varla vísindalegar. Þær mynda lokuð kerfi og geyma í sér skýringar á öllum frávikum, til dæmis marxismi og sálgreining. Þar hefur tilgátan alltaf rétt fyrir sér.

Ég bauð Kára á fundinn, en hann komst ekki. Hefði hann verið þar, þá hefði hann raunar heyrt mig spyrja Ridley, hvað þyrfti til að afsanna kenninguna um, að kórónuveiran hefði sloppið út af rannsóknarstofu í Wuhan, en Ridley telur það sennilegt og þó ekki sannað. Ridley svaraði: Ef eitthvert dýr finnst, sem ber veiruna í menn. Engin slík smitleið hefur fundist, ólíkt því sem var um aðra eldri kórónuveiru, sem upprunnin var í Guangdong-héraði í Kína og olli lungnafaraldri árið 2003 (SARS-1, sem kallað var, en heimsfaraldurinn núna heitir SARS-2). Tilgáta Ridleys um uppruna kórónuveirunnar er því í eðli sínu afsannanleg. Kári hefur rangt fyrir sér um þetta atriði. Væri hægðarleikur fyrir kínversk stjórnvöld að afsanna þessa tilgátu, væri hún röng, með því að opna allar gáttir fyrir vísindamönnum. Þess í stað hafa þau takmarkað mjög aðgang að upplýsingum. Hvers vegna hvílir þessi leynd yfir, ef engu er að leyna?

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 27. júlí 2024.)

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 23.7.2024 - 05:52 - Rita ummæli

Fólksfjölgun örvar framfarir

Árið 1968 gaf bandaríski vistfræðingurinn Paul R. Ehrlich út bókina Fólksfjölgunarsprengjuna (The Population Bomb). Upphafsorð hennar voru, að ekki væri lengur gerlegt að fæða allt mannkyn. Á komandi áratug myndu hundruð milljóna falla úr hungri, hvað svo sem gert yrði. Margir aðrir samsinntu því, að fólksfjöldi í heiminum væri að nálgast þolmörk, til dæmis höfundar bókanna Endimörk vaxtarins og Heimur á helvegi, sem báðar komu út á íslensku um svipað leyti. En landi Ehrlichs, hagfræðingurinn Julian L. Simon, andmælti honum og kvað fólksfjölgun örva framfarir. Bauð hann Ehrlich veðmál. Hefði Simon rangt fyrir sér, þá ættu helstu hráefni að hækka í verði, því að þau væru að ganga til þurrðar. Ehrlich tók boðinu og fékk að velja fimm hráefni og eitt tímabil. Hann valdi kopar, króm, nikkel, tin og tungsten og næstu tíu ár. Áratugurinn leið, og þá var málið gert upp. Simon reyndist hafa rétt fyrir sér. Þessi hráefni höfðu öll lækkað í verði. Þau voru ekki að ganga til þurrðar. Ehrlich varð að greiða Simon umsamda upphæð. Því fer líka fjarri, að hrakspár Ehrlichs um yfirvofandi hungursneyðir vegna fólksfjölgunar hafi ræst. Staðbundnar hungursneyðir hafa verið fáar og allar vegna stríðsátaka. Miklu fleiri hafa nú nóg til hnífs og skeiðar en á nokkru öðru tímabili mannkynssögunnar. Sár fátækt eða örbirgð hefur snarminnkað. Árið 1820 voru jarðarbúar 1,1 milljarður, og þá bjuggu 965 milljónir við örbirgð, 90 af hundraði. Árið 2015 voru jarðarbúar orðnir 7,3 milljarðar, og þá bjuggu 734 milljónir við örbirgð, 10 af hundraði, aðallega í Afríku.

Fólksfjölgun og tímaverð

Í stórfróðlegri nýrri bók, Allsnægtum (Superabundance), leggja þeir dr. Marian Tupy, sérfræðingur í Cato stofnuninni í Washington-borg, og prófessor Gale L. Pooley í Brigham Young háskólanum á Havaí, út af hinu fræga veðmáli Ehrlichs og Simons. Þeir leiða sterk rök að tveimur kenningum: 1) Fólksfjölgun ætti ekki að vera áhyggjuefni við frjálst atvinnulíf, því að þar skapar hver nýr einstaklingur að jafnaði meiri verðmæti en hann neytir. Auðlindir eru síður en svo að ganga til þurrðar. 2) Framfarir hafa verið miklu örari og meiri en fram kemur í venjulegum mælingum, ef miðað er við tímaverð gæða frekar en peningaverð þeirra. Með tímaverði gæða eiga höfundarnir við þann tíma, sem það tekur að vinna fyrir gæðunum. Setjum svo, að brauðhleifur kosti 200 krónur, en maður fái í laun 2.000 krónur á tímann. Þá kostar hleifurinn 6 mínútur. En gerum nú ráð fyrir, að hleifurinn hækki í 220 krónur, en tímakaupið í 2.400 krónur. Þá kostar hleifurinn 5 mínútur og 24 sekúndur. Tímaverð hans hefur lækkað. Afkoma neytandans hefur að sama skapi batnað. Hann hefur úr meiru að moða. Ef mönnum finnast þessar tvær kenningar Tupys og Pooleys heldur óvæntar, þá er það sennilega vegna þess, að þeir telja auðlindir, þar á meðal náttúruauðlindir, fasta og óbreytanlega stærð, svo að minna sé fyrir einn, þegar meira sé fyrir annan. Það er hins vegar rakinn misskilningur, eins og reynslan sýnir. Magn auðlinda er aðallega háð verði þeirra. Raunar er maðurinn sjálfur mikilvægasta auðlindin, segir Simon, uppspretta nýjunga, handhafi þekkingar og kunnáttu.

Því má ekki gleyma, að hver nýr einstaklingur er ekki aðeins munnur að metta, heldur líka hugur, sem getur aflað þekkingar og miðlað henni, og tvær hendur, sem beita má af kunnáttu og lagni. Hann er ekki aðeins neytandi, heldur líka framleiðandi. Höfundarnir nefna dæmi. Steve Jobs fæddist í Bandaríkjunum og var ættleiddur við fæðingu, en blóðfaðir hans var frá Sýrlandi. Erfitt er að ímynda sér, hvað hefði orðið úr honum, hefði hann fæðst og alist upp í Sýrlandi, en í Bandaríkjunum stofnaði hann hið myndarlega fyrirtæki Apple öllum til góðs. Hin gamalkunna mynd af mannþröng í tötrum með sultarglampa í augum, ýmist á Indlandi eða í Kína, var auðvitað ófölsuð, en hún var af aðstæðum, þar sem framtak einstaklinganna var lamað og fá sem engin tækifæri til að brjótast úr fátækt í bjargálnir. Framfarir verða við frelsi manna til að skapa, smíða ný tæki, stofna ný fyrirtæki, neyta þekkingar sinnar, kunnáttu og hæfileika hver á sinn hátt. Þar ræður síðan úrslitum aðgangurinn að mörkuðum, þar sem á það reynir, hvort nýjungar séu þarfar eða þarflausar.

Stórkostlegar framfarir

Þeir Tupy og Pooley taka mörg fróðleg dæmi um raunverulegar framfarir, eins og þær mælast í tímaverði. Eitt dæmið er, að árið 1800 kostaði það 5,37 vinnustundir venjulegs verkamanns að kaupa ljós í eina klukkustund. Nú kostar það innan við 0,16 sekúndur. Þetta er ótrúlegt. (Í fyrirlestrum mínum í Háskólanum bar ég iðulega saman fyrirhöfnina við að framleiða eitt eintak af Njálu í lok þrettándu aldar og tímann, sem það tæki venjulegan launamann nú á dögum að vinna fyrir eintaki.) Ef til vill er eðlilegast að skoða þróunina síðustu sextíu árin, frá 1960. Jarðarbúum hefur fjölgað úr þremur í átta milljarða, en hráefni hafa samt sem áður fallið í tímaverði. Sum hráefni, gúmmí, te, tóbak, pálmolía, kaffi og bómull, hafa lækkað um hvorki meira né minna 90 af hundraði. Að meðaltali hefur öll hrávara lækkað um 83 af hundraði. Landbúnaður í Bandaríkjunum er orðinn svo hagkvæmur, að aðeins starfa við hann um 2 af hundraði íbúa. Höfundar hafa reiknað út, yrði landbúnaður annars staðar jafnhagkvæmur, að þá gætu 146 milljónir hektarar ræktaðs lands horfið aftur til náttúrunnar. Mér fannst einn samanburður í bók þeirra afar fróðlegur, þótt hann snerist ekki um tímaverð. Öryggi í flugi hefur snaraukist. Frá 1968 til 1977 dó einn maður af hverjum 350.000 farþegum, sem stigu um borð í flugvél. En frá 2008 til 2017 dó einn maður af  hverjum 7,9 milljónum.

Svo vel vill til, að annar höfundur bókarinnar, Marian Tupy, er staddur á Íslandi, og ætlar hann að rabba um hana við áhugamenn miðvikudaginn 24. júlí klukkan 16.30 síðdegis í stofu 101 á Háskólatorgi, HT-101, en á eftir verða frjálsar umræður. Tupy fæddist í Slóvakíu, ólst upp í Suður-Afríku, lauk doktorsprófi í alþjóðastjórnmálum frá St. Andrews-háskóla í Skotlandi, en býr nú í Bandaríkjunum. Hann er ritstjóri nettímarits um framfarir hjá Cato stofnuninni og hefur gefið út eina bók áður. Mörg viðtöl eru til við hann á Youtube, þar á meðal eitt, sem Jordan Peterson tók, en á það hafa horft ein og hálf milljón manns. Margar spurningar hljóta að vakna við lestur bókar hans. Hvernig stendur á því, að svo margir trúa því, að heimurinn fari versnandi? Gildir ekki lögmálið um minnkandi afrakstur um fólksfjölda eins og annað? Hafa andlegar framfarir (menn orðið betri) orðið jafnhliða hinum ótvíræðu efnislegu framförum síðustu tveggja alda? Hvernig á að bregðast við þeim, sem leggja ekkert af mörkum, þótt þeir séu fullfærir um það? Hvers vegna er kapítalisminn svo vinafár þrátt fyrir sköpunarmátt sinn? Rannsóknarmiðstöð í samfélags- og efnahagsmálum, RSE, heldur fundinn. Aðgangur er ókeypis og allir velkomnir.

(Grein í Morgunblaðinu 23. júlí 2024.)

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 13.7.2024 - 16:55 - Rita ummæli

Úrslit kosninga

Tvennar kosningar voru nýlega háðar í Evrópulöndum, 30. júní og 7. júlí í Frakklandi og 4. júlí í Bretlandi. Af einhverjum ástæðum hafa vinstri menn á Íslandi rangtúlkað úrslitin sem sérstaka vinstri sigra.

Í Frakklandi sameinuðust vinstri flokkar í seinni umferð til að þrautnýta kosningafyrirkomulagið, en bandalag þeirra tapaði þrátt fyrir það 6%. Kjörsókn var talsvert meiri þá en í fyrri umferð. Miðflokkur Macrons tapaði 14% í seinni umferð, en miðflokkur gaullista 4%. Þjóðfylking Marine Le Pens bætti hins vegar við sig 20% í seinni umferð frá því í síðustu kosningum. Hún hlaut hins vegar ekki meiri hluta á franska þinginu eins og hún hafði vonað.

Í Bretlandi bætti Verkamannaflokkurinn við sig tæpum 2% og Frjálslyndi lýðræðisflokkurinn innan við 1%, þótt flokkarnir hefðu lengi verið í stjórnarandstöðu. Undir forystu Sir Keir Starmers hlaut Verkamannaflokkurinn lægra hlutfall en í síðustu kosningum. Íhaldsflokkurinn tapaði miklu fylgi, 20%, enda ráðvilltur og sjálfum sér sundurþykkur. Sigurvegari kosninganna var flokkur Nigel Farages, sem bætti við sig 12% og varð þriðji stærsti flokkurinn.

Í báðum löndum töpuðu mið- og hægri flokkar, sem hafa að engu vilja kjósenda um að stöðva hömlulausan straum hælisleitenda frá múslimalöndum og þróunina í átt til miðstýringar í Evrópusambandinu, fylgi til hægri flokka.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 13. júlí 2024.)

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 6.7.2024 - 16:54 - Rita ummæli

Cluj, júní 2024

Cluj (frb. Klúds) er næststærsta borg Rúmeníu, og hefur Transylvaníu löngum verið stjórnað þaðan. Á þýsku hét Transylvanía áður fyrr Siebenbürgen, Sjöborgaland, og var Cluj ein borganna sjö og hét þá Klausenburg. Þá var Sjöborgaland hluti Habsborgarveldisins, en var sameinað Rúmeníu eftir fyrri heimsstyrjöld. Cluj er notaleg og hreinleg borg, og prýða hana mörg falleg hús frá Habsborgartímanum. Þar er stærsti háskóli Rúmeníu, Babes-Bolyai, og talaði ég þar 30. júní 2024 á ráðstefnu.

Erindi mitt nefndist „Evrópusambandið eftir nýliðnar kosningar til Evrópuþingsins“. Ég kvað evrópska kjósendur afdráttarlaust hafna tveimur hugmyndum, sem skriffinnarnir í Brüssel reyna að troða upp á þá. Önnur er ótakmarkaður innflutningur fólks, sem vill ekki laga sig að siðum og venjum Evrópuþjóða. Hin er afnám þjóðríkisins og tilraun til að breyta Evrópusambandinu í stórveldi, sem keppt gæti við Bandaríkin.

Hvað er til ráða? Að efla nálægðarregluna, sem er í orði kveðnu leiðarstjarna ESB, en hún er, að ákvarðanir séu teknar sem næst þeim, sem þær varða. Í því sambandi reifaði ég ýmsar tillögur, til dæmis um stofnun sérstaks dómstóls, sem úrskurðaði um verkaskiptingu og valdsvið ESB og aðildarríkja þess í ljósi nálægðarreglunnar, og um að flytja löggjafarvaldið frá framkvæmdastjórn ESB til Evrópuþingsins, en breyta framkvæmdastjórninni í stjórnsýslustofnun. ESB er komið til að vera, en kjörorð þess ætti auk frjálsra viðskipta að vera valddreifing.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 6. júlí 2024.)

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 29.6.2024 - 16:53 - Rita ummæli

Ævisaga Miltons Friedmans

Jennifer Burns, sagnfræðingur í Stanford-háskóla, hefur gefið út ævisöguna Milton Friedman: The Last Conservative. Bókin er vönduð, sanngjörn og fróðleg. Í ritdómi í nettímaritinu The Conservative gerði ég þó þrjár efnislegar athugasemdir.

Höfundur bendir á hinn mikla stuðning, sem Friedman hlaut af tveimur konum, eiginkonu sinni Rose, sem aðstoðaði hann við mörg rit hans, og hagfræðingnum Önnu J. Schwartz, sem var meðhöfundur hans að Peningamálasögu Bandaríkjanna. En Friedman gerir alls ekki lítið úr þessari aðstoð.

Höfundur telur andstöðu Friedmans við lagasetningu árið 1964 um bann við mismunun eftir hörundslit eða kynferði varpa skugga á feril hans. Friedman var auðvitað andvígur slíkri mismunun. Hann taldi hins vegar heppilegast að auka tækifæri minnihlutahópa til að brjótast úr fátækt í bjargálnir á frjálsum markaði. Ef mismunun kostaði þann, sem mismunar, verulegar upphæðir, þá minnkaði mismunun af sjálfri sér. Hleypidómar hyrfu ekki, þegar sett væru lög gegn þeim, heldur þegar þeir reyndust of dýrir.

Höfundur telur, þótt hún láti það ekki beinlínis í ljós, að Friedman hefði ekki árið 1975 átt að veita umbótaáætlun Chicago-drengjanna svonefndu í Síle stuðning opinberlega, þótt hún bendi á, að hann átti þar engan annan hlut að máli. Hér ætlast hún til dygðaskreytingar (virtue signalling). En Friedman veitti öllum stjórnvöldum sömu ráð: um viðskiptafrelsi, valddreifingu og einkaeignarrétt. Þessi ráð þáðu jafnólíkir aðilar og herforingjastjórnin í Síle, stjórn íhaldsmanna í Bretlandi og stjórn jafnaðarmanna á Nýja Sjálandi. Sem betur fer.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 29. júní 2024.)

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 22.6.2024 - 11:31 - Rita ummæli

Upp komast svik um síðir

Kommúnistar um heim allan, líka á Íslandi, treystu því, að skjalasöfn í Rússlandi myndu aldrei opnast, svo að þeir sóru og sárt við lögðu, að þeir hefðu aldrei þegið eyri frá Moskvu, þótt margir þeirra fengju þaðan Rússagull, eins og upp komst eftir hrun Ráðstjórnarríkjanna.

Annað dæmi er fróðlegt. Í aprílbyrjun árið 1979 dóu að minnsta kosti 68 manns úr blóðkýlasótt (anthrax) í borginni Sverdlovsk í Rússlandi, sem nú heitir Jekaterínbúrg. Í rússnesku útlagatímariti birtist frétt um, að orsökin væri leki frá rannsóknarstofu í sýklahernaði. Bandaríkjamenn og Bretar spurðust fyrir um málið. Yfirvöld harðneituðu þessu og kváðu blóðkýlasóttina hafa stafað af rangri meðferð matvæla. Þeir buðu kunnum bandarískum erfðafræðingi, Matthew Meselson frá Harvard-háskóla, til Moskvu, þar sem hann ræddi við embættismenn og komst að þeirri niðurstöðu, að skýring þeirra á slysinu stæðist, enda í samræmi við það, sem vitað væri um blóðkýlasótt. Breski örverufræðingurinn Vivian Wyatt studdi líka hina opinberu skýringu í grein í New Scientist.

Eftir hrun Ráðstjórnarríkjanna kom hið sanna í ljós. Þvert á alþjóðasamninga var einmitt rekin stór rannsóknastofa í sýklahernaði í borginni. Eitt sinn gleymdist að búa tryggilega um sýkilinn, sem veldur blóðkýlasótt, og barst hann út í andrúmsloftið, sem betur fer vegna vindáttar í úthverfi, en ekki inn í borgina, en þá hefðu hundruð þúsunda látið lífið. Rússneska leyniþjónustan, KGB, hafði eytt öllum sjúkraskrám og öðrum gögnum, en þó tókst að rannsaka málið og skýra slysið. Allt það, sem stjórnvöld höfðu sagt um það, reyndist vera haugalygi. Skyldi eitthvað svipað vera að segja um kórónuveiruna kínversku, sem herjaði á heimsbyggðina í nokkur ár?

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 22. júní 2019.)

Flokkar: Óflokkað

Sunnudagur 16.6.2024 - 11:26 - Rita ummæli

Hjátrú og hjáfræði

Þegar ég var í barnaskóla, hristum við höfuðið yfir hjátrú í öðrum löndum og á öðrum tímum. Eitt dæmið var, að Hindúar skyldu telja kúna heilaga og ekki vilja eta hana. En nú taka sumir sömu afstöðu til hvala. Engin rök eru fyrir sérstöðu hvala í dýraríkinu og það, sem meira er: Nóg er til af þeim á Íslandsmiðum, og þeir éta frá fiskum næringu og minnka með því heildarafla. Annað dæmi var gyðingahatur á miðöldum. En nú hefur gyðingahatur blossað upp á ný, jafnvel í háskólum, eins og sést á hinni alræmdu stuðningsyfirlýsingu 13. nóvember 2023 við hryðjuverkasamtökin Hamas, sem Pia Hansson, forstöðumaður Alþjóðamálastofnunar, Helga Kress og siðfræðingurinn og vandlætarinn Vilhjálmur Árnason skrifuðu undir.

Þegar ég var í háskóla, hristum við höfuðið yfir hjáfræði, þegar reynt var að gefa ranghugmyndum fræðilegan blæ. Þrjú dæmi voru gullgerðarlist, stjörnuspeki og mannkynbótafræði, en einnig marxismi og sálgreining. Marxisminn var hjáfræði, því að hann skýrði allt og þá um leið ekkert. Ef maður var marxisti, þá skildi hann lögmál sögunnar. Ef maður hafnaði marxisma, þá var hann á valdi annarlegra sjónarmiða. En hjáfræði lifir enn góðu lífi. Helga Kress rakti í fyrirlestri 10. október 1991 dæmi í fornbókmenntum um kúgun kvenna. Ég stóð upp og nefndi þaðan dæmi um, að konur færu illa með karla. „En þá er það textinn, sem kúgar,“ svaraði Helga. Ef textinn segir frá því, að karlar kúgi konur, þá á að taka hann bókstaflega. Ef textinn segir frá því, að konur kúgi karla, þá er hann aðeins dæmi um kúgun textahöfundanna! Tilgátan hefur alltaf rétt fyrir sér.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 15. júní 2024.)

Flokkar: Óflokkað

Höfundur

Hannes Hólmsteinn Gissurarson er prófessor emeritus í stjórnmálafræði í Háskóla Íslands og hefur verið gistifræðimaður við fjölmarga erlenda háskóla, þar á meðal Stanford-háskóla og UCLA. Hann fæddist 1953, lauk doktorsprófi í stjórnmálafræði frá Oxford-háskóla 1985 og er höfundur fjölmargra bóka um stjórnmál, sögu og heimspeki á íslensku, ensku og sænsku.


Nýjustu bækur hans eru Twenty Four Conservative-Liberal Thinkers, sem hugveitan New Direction í Brüssel gaf út í tveimur bindum í árslok 2020, Bankahrunið 2008 og Communism in Iceland, sem Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands gaf út árið 2021, og Landsdómsmálið, sem Almenna bókafélagið gaf út í desember 2022. Hann hefur gefið út átta bókarlangar skýrslur á ensku. Sjö eru fyrir hugveituna New Direction í Brüssel: The Nordic Models og In Defence of Small States (2016); Lessons for Europe from the 2008 Icelandic Bank Collapse, Green Capitalism: How to Protect the Environment by Defining Property Rights og Voices of the Victims: Towards a Historiography of Anti-Communist Literature (2017); Why Conservatives Should Support the Free Market og Spending Other People’s Money: A Critique of Rawls, Piketty and Other Redistributionists (2018). Ein skýrslan er fyrir fjármálaráðuneytið, Foreign Factors in the 2008 Bank Collapse (2018). Hann er ritstjóri Safns til sögu kommúnismans, ritraðar Almenna bókafélagsins um alræðisstefnu, en nýjasta bókin í þeirri ritröð er Til varnar vestrænni menningu: Ræður sex rithöfunda 1950–1958. Árin 2017 og 2018 birtust eftir hann þrjár ritgerðir á ensku um frjálshyggju á Íslandi, Liberalism in Iceland in the Nineteenth and Twentieth Centuries, Anti-Liberal Narratives about Iceland 1991–2017 og Icelandic Liberalism and Its Critics: A Rejoinder to Stefan Olafsson.  

RSS straumur: RSS straumur

Nýlegar athugasemdir