Laugardagur 22.6.2024 - 11:31 - Rita ummæli

Upp komast svik um síðir

Kommúnistar um heim allan, líka á Íslandi, treystu því, að skjalasöfn í Rússlandi myndu aldrei opnast, svo að þeir sóru og sárt við lögðu, að þeir hefðu aldrei þegið eyri frá Moskvu, þótt margir þeirra fengju þaðan Rússagull, eins og upp komst eftir hrun Ráðstjórnarríkjanna.

Annað dæmi er fróðlegt. Í aprílbyrjun árið 1979 dóu að minnsta kosti 68 manns úr blóðkýlasótt (anthrax) í borginni Sverdlovsk í Rússlandi, sem nú heitir Jekaterínbúrg. Í rússnesku útlagatímariti birtist frétt um, að orsökin væri leki frá rannsóknarstofu í sýklahernaði. Bandaríkjamenn og Bretar spurðust fyrir um málið. Yfirvöld harðneituðu þessu og kváðu blóðkýlasóttina hafa stafað af rangri meðferð matvæla. Þeir buðu kunnum bandarískum erfðafræðingi, Matthew Meselson frá Harvard-háskóla, til Moskvu, þar sem hann ræddi við embættismenn og komst að þeirri niðurstöðu, að skýring þeirra á slysinu stæðist, enda í samræmi við það, sem vitað væri um blóðkýlasótt. Breski örverufræðingurinn Vivian Wyatt studdi líka hina opinberu skýringu í grein í New Scientist.

Eftir hrun Ráðstjórnarríkjanna kom hið sanna í ljós. Þvert á alþjóðasamninga var einmitt rekin stór rannsóknastofa í sýklahernaði í borginni. Eitt sinn gleymdist að búa tryggilega um sýkilinn, sem veldur blóðkýlasótt, og barst hann út í andrúmsloftið, sem betur fer vegna vindáttar í úthverfi, en ekki inn í borgina, en þá hefðu hundruð þúsunda látið lífið. Rússneska leyniþjónustan, KGB, hafði eytt öllum sjúkraskrám og öðrum gögnum, en þó tókst að rannsaka málið og skýra slysið. Allt það, sem stjórnvöld höfðu sagt um það, reyndist vera haugalygi. Skyldi eitthvað svipað vera að segja um kórónuveiruna kínversku, sem herjaði á heimsbyggðina í nokkur ár?

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 22. júní 2019.)

Flokkar: Óflokkað

Sunnudagur 16.6.2024 - 11:26 - Rita ummæli

Hjátrú og hjáfræði

Þegar ég var í barnaskóla, hristum við höfuðið yfir hjátrú í öðrum löndum og á öðrum tímum. Eitt dæmið var, að Hindúar skyldu telja kúna heilaga og ekki vilja eta hana. En nú taka sumir sömu afstöðu til hvala. Engin rök eru fyrir sérstöðu hvala í dýraríkinu og það, sem meira er: Nóg er til af þeim á Íslandsmiðum, og þeir éta frá fiskum næringu og minnka með því heildarafla. Annað dæmi var gyðingahatur á miðöldum. En nú hefur gyðingahatur blossað upp á ný, jafnvel í háskólum, eins og sést á hinni alræmdu stuðningsyfirlýsingu 13. nóvember 2023 við hryðjuverkasamtökin Hamas, sem Pia Hansson, forstöðumaður Alþjóðamálastofnunar, Helga Kress og siðfræðingurinn og vandlætarinn Vilhjálmur Árnason skrifuðu undir.

Þegar ég var í háskóla, hristum við höfuðið yfir hjáfræði, þegar reynt var að gefa ranghugmyndum fræðilegan blæ. Þrjú dæmi voru gullgerðarlist, stjörnuspeki og mannkynbótafræði, en einnig marxismi og sálgreining. Marxisminn var hjáfræði, því að hann skýrði allt og þá um leið ekkert. Ef maður var marxisti, þá skildi hann lögmál sögunnar. Ef maður hafnaði marxisma, þá var hann á valdi annarlegra sjónarmiða. En hjáfræði lifir enn góðu lífi. Helga Kress rakti í fyrirlestri 10. október 1991 dæmi í fornbókmenntum um kúgun kvenna. Ég stóð upp og nefndi þaðan dæmi um, að konur færu illa með karla. „En þá er það textinn, sem kúgar,“ svaraði Helga. Ef textinn segir frá því, að karlar kúgi konur, þá á að taka hann bókstaflega. Ef textinn segir frá því, að konur kúgi karla, þá er hann aðeins dæmi um kúgun textahöfundanna! Tilgátan hefur alltaf rétt fyrir sér.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 15. júní 2024.)

Flokkar: Óflokkað

Sunnudagur 9.6.2024 - 11:23 - Rita ummæli

Forsetakjör 2024

Um það má deila, hvenær Ísland varð ríki. Ef skilgreining Webers er notuð, einkaréttur á valdbeitingu, þá var það ekki fyrr en árið 1918. Ég tel skilgreiningu Hegels skynsamlegri, að ríkið sé einingarafl, vettvangur sátta og samstarfs, og samkvæmt því var Þjóðveldið íslenska ríki. Síðan færðist ríkisvald úr landi, fyrst til Noregs, síðan Danmerkur, en færðist aftur inn í landið árið 1918. Lögsögumaður verður að teljast hinn eiginlegi þjóðhöfðingi Þjóðveldisins, en þegar íslenskt ríki var aftur stofnað árið 1918, samdist svo um, að konungur Danmerkur yrði einnig þjóðhöfðingi á Íslandi.

Þá var Danakonungur nánast orðinn valdalaus, þótt látið væri svo heita, að ráðherrar beittu valdi sínu í umboði hans. Þegar konungur var afhrópaður árið 1944 (en óvíst var, hvort það væri heimilt samkvæmt sambandslögunum), tók þjóðkjörinn forseti við hlutverki hans. Hann fékk þó ekki eiginlegt neitunarvald eins og Danakonungur hafði haft, heldur aðeins vald til að synja lagafrumvörpum samþykkis, og tóku þau þó gildi, en bera þurfti þau undir þjóðaratkvæði.

Ólafur Ragnar Grímsson var eini forsetinn, sem lét á þetta synjunarvald reyna. Þegar fram líða stundir, munu flestir eflaust telja, að fjölmiðlafrumvarpið 2004 hafi ekki verið þess eðlis, að hann hefði átt að beita synjunarvaldinu, ólíkt Icesave-samningunum tveimur, sem vörðuðu ríka þjóðarhagsmuni. En því segi ég þetta, að í aðdraganda forsetakjörs nú í ár töluðu sumir frambjóðendur eins og forseti hefði víðtækt vald. Kusu þeir að horfa fram hjá 11. grein stjórnarskrárinnar, að forseti væri ábyrgðarlaus á stjórnarathöfnum, og 13. greininni, að forsetinn léti ráðherra framkvæma vald sitt. Það var til dæmis fráleitt, eins og sagt var, að forseti gæti gengið gegn vilja meiri hluta Alþingis um, hverjir skyldu verða ráðherrar. Hitt er annað mál, að forseti getur haft mikil áhrif stöðu sinnar vegna. En völd og áhrif eru sitt hvað.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 8. júní 2024.)

Flokkar: Óflokkað

Sunnudagur 2.6.2024 - 11:20 - Rita ummæli

Blagoevgrad, apríl 2024

Mér var falið að ræða um hagnýtar lausnir frjálshyggjunnar á ráðstefnu Bandaríska háskólans í Blagoevgrad í Búlgaríu 26. apríl 2024. Í upphafi benti ég á, að frjálshyggja snerist ekki um neitt draumríki, heldur væru hinar góðu afleiðingar af viðskiptafrelsi, valddreifingu og einkaeignarrétti augljósar og áþreifanlegar: Bandaríkin á seinni hluta nítjándu aldar, Hong Kong á seinni hluta tuttugustu aldar og Sviss á okkar dögum.

Fræðimenn hafa talið sum gæði þess eðlis, að þau yrðu ekki verðlögð í frjálsum viðskiptum, svo að ríkið yrði að framleiða þau. Þau væru „samgæði“. Kennslubókardæmi var sú þjónusta, sem vitar veita skipum. En þegar að var gáð, kom í ljós, að þjónusta vita hafði einmitt verið verðlögð sem hluti af þjónustu, sem vitar og hafnir veita í sameiningu. Gjaldið fyrir þjónustu vitanna var innheimt í hafnargjöldum. Ég vakti síðan athygli á, að ríkið þyrfti ekki sjálft að framleiða ýmis gæði, þótt það gæti kostað þau. Svo væri um skólagöngu. Ríkið gæti sent foreldrum og nemendum ávísanir, sem þeir gætu notað til að greiða fyrir skólagöngu (jafnframt því sem þeir gætu bætt við úr eigin vasa). Þannig gætu skólar verið einkareknir, en notendur þjónustunnar ættu kost á að velja um þá.

Ég rifjaði upp, að á Íslandi var ríkiseinokun á útvarpsrekstri allt til 1986. Hún var afnumin, eftir að ég og félagar mínir rákum í mótmælaskyni útvarpsstöð í átta daga í október 1984, uns síminn miðaði hana út og lögreglan lokaði henni. Fyrir það hlaut ég minn fyrsta dóm.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 1. júní 2024.)

Flokkar: Óflokkað

Sunnudagur 26.5.2024 - 12:21 - Rita ummæli

Skopje, apríl 2024

Á ráðstefnu í laga- og hagfræðideild Háskólans í Skopje í Norður-Makedoníu 25. apríl 2024 var mér falið að ræða um hið frjálsa hagkerfi að lokinni fjölþáttakreppu (polycrisis), en það hugtak er notað um kreppur, sem raða sér saman og hver þáttur styrkir annan, eitt rekur annað, allt tvinnast saman.

Um heimsfaraldurinn 2020–2022 sagði ég, að engu yrði um hann breytt úr þessu. En vita þyrfti upptökin til að koma í veg fyrir, að eitthvað svipað gerðist aftur. Kínversk stjórnvöld vildu engar upplýsingar veita, sem benti til þess, að kórónaveiran hefði sloppið út af rannsóknarstofu í Wuhan.

Um Úkraínustríðið sagði ég, að Pútín hefði tvisvar fengið röng skilaboð. Hann hefði ráðist átölulaust á Georgíu árið 2008 og Úkraínu árið 2014. Þess vegna hefði hann talið sér óhætt að ráðast aftur á Úkraínu árið 2022.

Um lausafjárkreppuna 2007–2009 sagði ég, að aðrar þjóðir mættu læra af Íslendingum, sem hefðu takmarkað skuldbindingar ríkisins, en þess í stað gert innstæður að forgangskröfum í bú banka og þannig róað almenning. Um banka ætti að gilda eins og önnur fyrirtæki, að þeim yrði ekki alltaf bjargað, þegar þeim gengi illa.

Um aðförina að málfrelsi í háskólum og á netmiðlum sagði ég, að líklega væri þetta bylgja, sem ætti eftir að hjaðna, svipað og róttæknibylgjan í kringum 1968, sem lítið skildi eftir sig annað en nokkra síðhærða fíkniefnaneytendur.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 25. maí 2024.)

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 18.5.2024 - 09:11 - Rita ummæli

Zagreb, apríl 2024

Mér var falið að ræða um siðferði markaðsviðskipta í Hagfræði- og viðskiptaháskólanum í Zagreb í Króatíu 24. apríl 2024. Ég kvað auðvelt að mæla fyrir frjálsum viðskiptum. Ef einn á epli, en vantar appelsínu, og annar á appelsínu, en vantar epli, þá skiptast þeir á eplinu og appelsínunni, og báðir græða. Erfiðara virtist hins vegar vera að rökstyðja einkaeignarrétt á gæðum eins og eplum og appelsínum. John Locke hefði haldið því fram, að eignarréttur gæti myndast á gæðum, væri því skilyrði fullnægt, að hagur annarra versnaði ekki. David Hume hefði hins vegar talið nægja til að réttlæta einkaeign á gæðum, að enginn annar gæti sýnt fram á rétt sinn til þeirra.

Hvernig svo sem réttmætur einkaeignarréttur hefði myndast, væru hin almennu rök fyrir honum tvíþætt. Hann stuðlaði í fyrsta lagi að friði, því að garður væri granna sættir. Með því að skipta gæðum jarðar með sér minnkuðu menn líkur á átökum. Í annan stað auðveldaði einkaeignarréttur verðmætasköpun, því að menn færu betur með eigið fé en annarra. Menn ræktuðu eigin garð af meiri natni en annarra, enda greri sjaldnast gras í almennings götu.

Ég sagði stuðning við frjálst skipulag ýmist hafa verið sóttan í náttúrurétt eða nytsemi, en sjálfur teldi ég breska heimspekinginn Michael Oakeshott hafa sett fram gleggstu rökin fyrir því skipulagi. Þau væru, að í hinum vestræna nútímamanni hefði smám saman orðið til í langri sögu vilji og geta til að velja og hafna. Hann hefði stigið út úr ættbálknum og orðið einstaklingur. Rómeo og Júlía hefði ekki sætt sig við að vera aðeins Montagú og Kapúlett. Frelsið til að velja væri annað eðli nútímamannsins, og þeir, sem því höfnuðu, neituðu að gangast við sjálfum sér.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 18. maí 2024.)

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 11.5.2024 - 04:50 - Rita ummæli

Ljubljana, apríl 2024

Mér var falið að ræða um frið í Ljubljana í Slóveníu 23. apríl 2024.  Á meðal áheyrenda var Lojze Peterle, fyrsti forsætisráðherra Slóvena eftir fall kommúnismans. Ég benti á, að til eru þrjú ráð til að fá það frá öðrum, sem maður girnist, að biðja um það, greiða fyrir það og taka það. Fyrsta ráðið á aðallega við um fjölskyldu og vini. Þriðja ráðið er ekki vel fallið til friðsamlegra samskipta. Annað ráðið er hins vegar ákjósanlegt í samskiptum ókunnugra. Maður greiðir í frjálsum viðskiptum fyrir það, sem hann þarfnast frá öðrum, og hann selur þeim það, sem þeir þarfnast. Verð er betra en sverð. Ég rifjaði upp orð eins fríverslunarsinna nítjándu aldar: Ef þú sérð í náunga þínum væntanlegan viðskiptavin, þá minnkar tilhneiging þín til að skjóta á hann.

Enn fremur fór ég með fræg ummæli, sem kennd eru ýmsum: Ef varningur fær ekki að fara yfir landamæri, þá munu hermenn gera það. Japan á fjórða áratug hefði verið skýrt dæmi. Markaðir hefðu í heimskreppunni lokast fyrir japönskum afurðum, jafnframt því sem erfitt hefði reynst að útvega hráefni til landsins. Þá jókst stuðningur í Japan við að taka það með valdi, sem ekki væri hægt að fá í viðskiptum, og því fór sem fór.

Ég benti á fordæmi Norðurlandaþjóða. Noregur hefði skilið friðsamlega við Svíþjóð 1905, Finnland við Rússaveldi 1917 og Ísland við Danmörku 1918. Landamæri Danmerkur og Þýskalands hefðu verið færð friðsamlega suður á við 1920 eftir atkvæðagreiðslur í Slésvík. Svíþjóð og Finnland hefðu bæði sætt sig við úrskurð Alþjóðadómstólsins í Haag um Álandseyjar og Noregur og Danmörk síðar um Grænland. Samstarfið í Norðurlandaráði fæli ekki heldur í sér algert afsal fullveldis eins og virtist vera krafist í Evrópusambandinu.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 11. maí 2024.)

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 7.5.2024 - 08:51 - Rita ummæli

Belgrad, apríl 2024

Mér var falið að tala um hlutverk ríkisins í fyrirlestri í hagfræðideild Háskólans í Belgrad í Serbíu 22. apríl 2024. Ég rifjaði upp dæmisöguna um miskunnsama Samverjann. Maður hafði verið rændur á leið frá Jórsölum til Jeríkó og lá hjálparvana við vegarbrúnina. Prestur og Levíti færðu sig yfir á hina brúnina, þegar þeir sáu hann, og héldu áfram göngu sinni, en Samverji aumkvaði sig yfir hann, flutti hann á gistihús og greiddi fyrir hann kostnað. Ég sagði, að hér væri komið eitt mikilvægasta hlutverk ríkisins: að halda uppi lögum og reglu, svo að ræningjar ógnuðu ekki ferðalöngum.

Þrjár aðrar ályktanir mætti draga af dæmisögunni. 1) Samverjinn hefði verið aflögufær. Æskilegt væri, að til væri efnafólk. 2) Samverjinn hefði gert góðverk sitt á eigin kostnað. Vinstri menn vilja alltaf gera góðverk á annarra kostnað. 3) Menntamennirnir tveir gengu fram hjá. Vafalaust hafa þeir talið eins og vinstri menn nútímans, að einhverjir aðrir ættu að gera góðverkin.

Tvö óvefengjanleg verkefni ríkisins væru landvarnir og löggæsla, vernd fyrir erlendum og innlendum ræningjum. Flest annað gætu einkaaðilar annast. Ríkið hefði síðustu öldina hins vegar tekið að sér miklu víðtækara hlutverk. Velferðarríkið hefði til dæmis þanist út, þótt þörfin fyrir velferð hefði snarminnkað með stórauknum ráðstöfunartekjum almennings, fjölgun atvinnutækifæra, bættri heilsu og ríflegri lífeyri. Bandaríski hagfræðingurinn James M. Buchanan hefði einu sinni giskað á, að líklega þyrfti ríkið ekki nema 15% af vergri landsframleiðslu til að sinna nauðsynlegum verkefnum.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 4. maí 2024.)

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 30.4.2024 - 09:18 - Rita ummæli

Fjölhæfur fræðimaður sækir Ísland heim

Vorið 1979, fyrir fjörutíu og fimm árum, var Félag frjálshyggjumanna stofnað á áttræðisafmæli Friedrichs A. von Hayeks, eins fremsta stjórnmálahugsuðar tuttugustu aldar. Fyrsti erlendi fyrirlesari félagsins þá um haustið var David Friedman, sonur hins heimsfræga hagfræðings Miltons Friedmans. David var eins og faðir hans mikill námsmaður, hafði lokið doktorsprófi í eðlisfræði, en snúið sér að lögum og hagfræði og birt margt um þau efni. Þegar hér var komið sögu, var hann hagfræðiprófessor í Virginia Polytechnic University í Virginíu og í fremstu röð svokallaðra markaðshyggjumanna, anarcho-capitalists, en þeir voru stjórnleysingjar, sem töldu einstaklinga á markaði geta leyst í viðskiptum sín í milli úr öllum málum, svo að ríkið væri óþarft frá fræðilegu sjónarmiði séð. Færði David hugvitsamleg rök fyrir markaðshyggju í bókinni Frelsinu í framkvæmd (The Machinery of Freedom) árið 1971.

Íslenska Þjóðveldið

Eitt dæmið, sem Friedman yngri nefndi, var Þjóðveldið íslenska, sem stóð 930–1262. Þótt ágreiningur sé um mörg þau verkefni, sem ríkið sinnir, telja flestir, að það hljóti að taka að sér landvarnir, lagasetningu og réttarvörslu. Friedman benti á, að í Þjóðveldinu var lagasetning og réttarvarsla í höndum einkaaðila, goðanna, sem komu saman einu sinni á ári á Þingvöllum, settu lög og skáru úr deilum. Þar eð þetta skipulag stóð í rösk þrjú hundruð ár, var það að minnsta kosti framkvæmanlegt. En var það hagkvæmt? Friedman taldi svo vera í þeim skilningi, að réttarvarslan hefði verið verðlögð eðlilega. Öll mál hefðu verið einkamál, ekki brot gegn ríkinu, því að það hefði ekki verið til. Vandamenn manns, sem var drepinn, hefðu krafist bóta fyrir hann eða gripið til þess ráðs að hefna drápsins. Fébætur hefðu þann kost fram yfir aftökur og refsivist, sagði Friedman, að fórnarlambinu eða fjölskyldu þess var bættur skaðinn, að minnsta kosti að einhverju marki. Lítilmagninn hefði getað leitað til goða síns eða framselt sök sína. Sérstakir sáttasemjarar hefðu oft verið kvaddir til, svo að stöðva mætti deilur eða gagnkvæm dráp. Íslenska þjóðveldið hefði verið tiltölulega stöðugt. Það hefði staðið í þrjú hundruð ár án stórkostlegra blóðsúthellinga ólíkt því, sem gerðist til dæmis í baráttunni um yfirráð yfir Englandi. Kristnitakan hér á landi hefði til dæmis verið furðufriðsamleg.

Samkvæmt greiningu Friedmans voru goðorðin í rauninni lítil verndarfyrirtæki, sem gátu gengið kaupum og sölum. Bændur gátu líka valið um goðorð innan síns landsfjórðungs, sagt sig frá einum goða og valið annan. Þeir nutu því tvímælalaust meira frelsis en víðast annars staðar á sama tíma. Íslendingar höfðu engan konung annan en lögin, sagði þýski sagnritarinn Adam frá Brimum hinn hrifnasti. Á Íslandi var þannig virkur markaður fyrir réttarvörslu.

Hitt er annað mál, að við greiningu Friedmans verður að bæta annarri einingu Þjóðveldisins, hreppnum. Aðild að honum var ekki frjáls, heldur var hver bóndi skyldugur að vera í þeim hrepp, sem jörð hans lá í, en venjulega afmarkaðist hreppurinn af landslagi. Hreppurinn gegndi tvíþættu hlutverki. Hann var í fyrsta lagi gagnkvæmt tryggingarfélag. Þegar á þurfti að halda, slógu bændur saman í sjóð og bættu hver öðrum tjón, sem þeir urðu fyrir vegna húsbruna eða fellis húsdýra, auk þess sem þeir sinntu framfærslu þeirra, sem ekki gátu séð um sig sjálfir. Jafnframt stjórnaði hreppurinn aðgangi bænda að beitarlöndum, sem þeir áttu og nýttu í sameiningu, aðallega upp til fjalla, svo að þessi aðgangur takmarkaðist við það, að grasnytjar yrðu sem bestar. Hver jörð átti sína „ítölu“, fastan fjölda þeirra sauða, sem reka mátti á fjall, „telja í“ almenninginn. Eins og Þráinn Eggertsson prófessor hefur bent á, leystu Íslendingar með þessu samnýtingarbölið (tragedy of the commons), sem er fólgið í því, að ótakmarkaður aðgangur að takmarkaðri auðlind leiðir til ofnýtingar hennar.  (Hliðstætt dæmi er auðvitað í íslenskum sjávarútvegi.)

Fólksfjölgun og loftslagsbreytingar

David Friedman greinir eins og faðir hans Milton ýmis mál í ljósi kenningar hagfræðinnar um jaðarnotagildi. Sú kenning er einföld. Eðlilegt er að brjóta hverju vöru niður í einingar og spyrja, hversu margar einingar skuli framleiða. Svarið er, að bæta skuli við einingum að því marki, að notagildið af síðustu einingunni sé hið sama og af síðustu einingu af allri annarri vöru. Þá er hagkerfið komið í jafnvægi og verður ekki betrumbætt. Auðvitað gerist þetta aldrei, því að atvinnulífið er alltaf á hreyfingu, það er iðandi kös happa og glappa. Menn ramba stundum á snjallar lausnir, en oftar gera þeir mistök og reyna að leiðrétta þau, og ósjaldan verða óvæntar breytingar af ýmsum ástæðum, sem þeir hljóta að bregðast við. En fyrsta hagfræðilega úrlausnarefnið, sem Friedman tók til rannsóknar, var fólksfjölgun. Fram undir 1970 var sú skoðun almenn, að hún myndi leiða til hungursneyða og öngþveitis. Árið 1968 fullyrti líffræðingurinn Paul Ehrlich til dæmis, að ekkert gæti komið í veg fyrir stórkostlegt mannfall næstu ár og áratugi vegna fólksfjölgunar og fæðuskorts. Hið sama var sagt í bók, sem kom út á íslensku, Heimi á helvegi. Friedman spurði hins vegar, hver væri kostnaður og ábati af nýjum einstaklingi, sem fæddist inn í heiminn, jaðarnotagildi hans. Hann komst að þeirri niðurstöðu, að ekki væri unnt að segja fyrir um það með neinni vissu, að neikvæðar afleiðingar fólksfjölgunar yrðu meiri en jákvæðar. Nú er ljóst, að hrakspár Ehrlichs og margra annarra hafa að minnsta kosti ekki ræst.

Friedman beitir sömu greiningu í öðru máli, loftslagsvánni svokölluðu. Þótt deilt sé um spár Milliríkjanefndar Sameinuðu þjóðanna í loftslagsmálum (IPCC), þar eð þær eru sóttar í tölvulíkön, tekur Friedman mark á þeim og spyr, hverjar verði afleiðingar af hlýnun jarðar um eitt eða tvö stig næstu áratugi, eins og spáð sé. Hann spyr með öðrum orðum, hvert sé notagildi hvers viðbótarhitastigs. Neikvæðar afleiðingar verða aðallega þrenns konar: hækkun sjávarmáls, röskun margvíslegra áætlana, sem menn hafa gert með hliðsjón af núverandi loftslagi, og hugsanleg útrýming dýrategunda, sem hafa lagað sig að núverandi loftslagi. Jákvæðar afleiðingar verða hins vegar aðallega stækkun gróðurlendis, þar á meðal og ekki síst í heimskautalöndum. Þetta hefur raunar verið að gerast síðustu áratugi, þótt fátt segi af því í fjölmiðlum. Af ýmsum ástæðum verður hlýnunin meiri í köldum löndum en heitum. Fróðlegt er í þessu sambandi, að samkvæmt tölum bandarísku lýðheilsustofnunarinnar deyja tvöfalt fleiri árlega sökum kulda en hita.

Friedman kemst að sömu niðurstöðu og um fólksfjölgun, að erfitt sé eða ókleift sé að segja fyrir um það með neinni vissu, hvort neikvæðar afleiðingar loftslagsbreyting verði meiri en jákvæðar. Hann bendir á, að loftslagsbreytingar eiga sér stað í rúmi eins og tíma. Menn fara úr einu loftslagi í annað, þegar þeir ferðast um jörðina, og þeir laga sig þá að breyttum aðstæðum. Hið sama hljóti að eiga við um loftslagsbreytingar í tíma. Menn lagi sig að breyttum aðstæðum.

Hvert stefnir?

David Friedman er staddur á Íslandi og ætlar að koma á rabbfund, sem RSE, Rannsóknarmiðstöð um samfélags- og efnahagsmál, heldur í gamla Sjálfstæðishúsinu við Austurvöll (NASA), miðvikudaginn 1. maí klukkan fjögur, og þar hyggst hann ræða um helstu breytingar í heiminum, frá því að hann kom hingað fyrst árið 1979, ungur og ákafur stjórnleysingi. Ýmislegt hefur gengið á: fall kommúnismans 1989–1991, uppgangur frjálshyggjunnar, hin alþjóðlega lausafjárkreppa 2007–2009, heimsfaraldurinn, staðbundin stríð, vöxtur ríkisins og margt fleira. Friedman er með afbrigðum mælskur, frjór og fjölhæfur, óbundinn af allri hefðarspeki, ungur í anda, og verður fróðlegt að vita, hvað hann hefur að segja.

Flokkar: Óflokkað

Sunnudagur 28.4.2024 - 10:25 - Rita ummæli

Nicosia, mars 2024

Ég hélt upphafsfyrirlestur í menningarvikulokum evrópskra íhaldsflokka í Nicosíu á Kýpur 31. mars 2024. Þar ræddi ég um, hvaða erindi tveir merkir hugsuðir, danska skáldið og heimspekingurinn Nikolaj F. S. Grundtvig og ítalski hagfræðingurinn Luigi Einaudi, ættu við okkur nútímamenn. Grundtvig lagði áherslu á þjóðerniskennd og samtakamátt alþýðu. Hann vildi kenna fólki að verða góðir borgarar í lýðræðisríki, og búa Danir enn að arfi hans. Einaudi var stuðningsmaður frjálsra viðskipta og taldi, að nauðsynlegt væri að stofna öflugri samtök en Þjóðabandalagið reyndist vera til að verja frelsi og lýðræði Evrópuþjóða. Hann var þess vegna eindreginn talsmaður Evrópusambandsins, sem í upphafi hét Efnahagsbandalag Evrópu.

Ég hélt því fram, að Evrópusambandið ætti að vera samband þjóðríkja, og þar gætu Evrópumenn lært af þjóðerniskennd Grundtvigs, sem hefði ekki verið herská og yfirgangssöm, heldur friðsöm og sáttfús. Dönsk þjóðmenning væri til fyrirmyndar. Evrópusambandið hefði fyrstu fimmtíu árin fetað rétta braut, þegar það jók viðskiptafrelsi og auðveldaði samkeppni á Evrópumarkaði. Sú var hugsjón Einaudis. Efnahagslegur samruni er æskilegur. En síðan hefur Evrópusambandið lent á villigötum. Stjórnmálalegur samruni er óæskilegur. Skriffinnarnir í Brüssel, sem enginn hefur kosið og hvergi þurfa að leggja verk sín í dóm annarra, stefna markvisst, hægt og örugglega, að voldugu, evrópsku sambandsríki, þar sem rödd þeirra mun heyrast sem hróp, en rödd þjóðanna sem hvísl.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 27. apríl 2024.)

Flokkar: Óflokkað

Höfundur

Hannes Hólmsteinn Gissurarson er prófessor emeritus í stjórnmálafræði í Háskóla Íslands og hefur verið gistifræðimaður við fjölmarga erlenda háskóla, þar á meðal Stanford-háskóla og UCLA. Hann fæddist 1953, lauk doktorsprófi í stjórnmálafræði frá Oxford-háskóla 1985 og er höfundur fjölmargra bóka um stjórnmál, sögu og heimspeki á íslensku, ensku og sænsku.


Nýjustu bækur hans eru Twenty Four Conservative-Liberal Thinkers, sem hugveitan New Direction í Brüssel gaf út í tveimur bindum í árslok 2020, Bankahrunið 2008 og Communism in Iceland, sem Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands gaf út árið 2021, og Landsdómsmálið, sem Almenna bókafélagið gaf út í desember 2022. Hann hefur gefið út átta bókarlangar skýrslur á ensku. Sjö eru fyrir hugveituna New Direction í Brüssel: The Nordic Models og In Defence of Small States (2016); Lessons for Europe from the 2008 Icelandic Bank Collapse, Green Capitalism: How to Protect the Environment by Defining Property Rights og Voices of the Victims: Towards a Historiography of Anti-Communist Literature (2017); Why Conservatives Should Support the Free Market og Spending Other People’s Money: A Critique of Rawls, Piketty and Other Redistributionists (2018). Ein skýrslan er fyrir fjármálaráðuneytið, Foreign Factors in the 2008 Bank Collapse (2018). Hann er ritstjóri Safns til sögu kommúnismans, ritraðar Almenna bókafélagsins um alræðisstefnu, en nýjasta bókin í þeirri ritröð er Til varnar vestrænni menningu: Ræður sex rithöfunda 1950–1958. Árin 2017 og 2018 birtust eftir hann þrjár ritgerðir á ensku um frjálshyggju á Íslandi, Liberalism in Iceland in the Nineteenth and Twentieth Centuries, Anti-Liberal Narratives about Iceland 1991–2017 og Icelandic Liberalism and Its Critics: A Rejoinder to Stefan Olafsson.  

RSS straumur: RSS straumur

Nýlegar athugasemdir