Föstudagur 3.9.2021 - 12:11 - Rita ummæli

Tómlátt andvaraleysi?

Skömmu eftir að Sigríður Benediktsdóttir var í árslok 2008 skipuð í rannsóknarnefnd Alþingis á bankahruninu, sagði hún í bandarísku stúdentablaði: „Mér finnst sem þetta sé niðurstaðan af öfgakenndri græðgi margra sem hlut eiga að máli og tómlátu andvaraleysi þeirra stofnana sem hafa áttu eftirlit með fjármálakerfinu og sjá áttu um fjármálalegan stöðugleika í landinu.“ Sigríður átti við tvær stofnanir, Fjármálaeftirlitið, sem skyldi hafa eftirlit með fjármálakerfinu, og Seðlabankann, sem skyldi vinna að fjármálastöðugleika. Hún hafði þannig fellt dóm fyrirfram. Páll Hreinsson, formaður rannsóknarnefndarinnar, hringdi því í Sigríði 22. apríl 2009 og bað hana að víkja úr nefndinni. Hún neitaði, og Páll glúpnaði.

En Seðlabankinn verður ekki sakaður um „tómlátt andvaraleysi“. Þegar Davíð Oddsson var nýorðinn seðlabankastjóri haustið 2005, varaði hann ráðherrana Halldór Ásgrímsson og Geir H. Haarde við því, að bankakerfið gæti hrunið. Það væri orðið stærra en svo, að íslenska ríkið fengi bjargað því í lánsfjárkreppu. Hann stakk upp á því við bankastjóra viðskiptabankanna (eins og fram kemur í skýrslu rannsóknarnefndarinnar), að Kaupþing flytti höfuðstöðvar sínar úr landi, Glitnir seldi hinn stóra banka sinn í Noregi og Landsbankinn færði Icesave-reikninga í Bretlandi úr útbúi í dótturfélag. Auðvitað gat hann ekki látið áhyggjur sínar í ljós opinberlega. Í nóvember 2007 sagði Davíð þó á morgunverðarfundi Viðskiptaráðs, að bankakerfið væri „örugglega við ytri mörk þess sem fært er að búa við til lengri tíma“. Í árslok 2007 varaði hann ráðherrana Geir H. Haarde og Þorgerði K. Gunnarsdóttur enn við hugsanlegu hruni bankakerfisins. Seðlabankinn fékk í febrúar 2008 enska fjármálafræðinginn Andrew Gracie til að gera skýrslu um vanda bankakerfisins, og komst hann að þeirri niðurstöðu, að það gæti hrunið í október.

Fram eftir ári 2008 margreyndi Seðlabankinn að gera gjaldeyrisskiptasamninga við aðra seðlabanka, en var víðast hafnað. Bankinn ákvað því að bjarga því sem bjargað yrði með því að takmarka eftir föngum skuldbindingar hins opinbera. Stofnaður var í kyrrþey starfshópur um lausafjárstýringu, sem undirbjó neyðarráðstafanir. Bankinn þurfti að senda einkaþotu eftir fjármálaráðgjöfum J. P. Morgan, svo að þeir gætu sannfært hikandi ráðherra Samfylkingarinnar á næturfundi um þá lausn, sem valin var með neyðarlögunum 6. október 2008. Fátt af þessu vissi Sigríður, þegar hún tilkynnti dóm sinn um „tómlátt andvaraleysi“ í hinu bandaríska stúdentablaði.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 21. ágúst 2021.)

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 3.9.2021 - 12:10 - Rita ummæli

Hallað á tvo aðila

Skömmu eftir að Sigríður Benediktsdóttir tók sæti í Rannsóknarnefnd Alþingis á bankahruninu sagði hún í blaðaviðtali: „Mér finnst sem þetta sé niðurstaðan af öfgakenndri græðgi margra sem hlut eiga að máli og tómlátu andvaraleysi þeirra stofnana sem hafa áttu eftirlit með fjármálakerfinu og sjá áttu um fjármálalegan stöðugleika í landinu.“ Sigríður átti auðvitað við Fjármálaeftirlitið, sem átti samkvæmt lögum að hafa eftirlit með fjármálakerfinu, og Seðlabankann, sem átti að sjá um fjármálalegan stöðugleika.

Með þessum fyrirframdómi varð Sigríður tvímælalaust vanhæf, þótt hún neitaði að víkja, er eftir því var leitað. Nokkrar aðrar ástæður voru til að draga í efa hæfi nefndarmanna. Þegar Björgólfsfeðgar keyptu Landsbankann 2003, var föður Sigríðar, sem hafði verið yfirmaður lögfræðisviðs bankans, sagt upp. Þetta varð fjölskyldunni mikið áfall, eins og heimildir eru til um. Annar nefndarmaður, Tryggvi Gunnarsson, átti son, sem missti við bankahrunið starf sitt í Landsbankanum, og tengdadóttir hans gegndi yfirmannsstöðu í Fjármálaeftirlitinu.

Deila má um, hvort þessar viðbótarstaðreyndir hafi einar sér valdið vanhæfi. En á daginn kom, að rannsóknarnefndin hallaði frekar á Landsbankann en hina viðskiptabankana og á Seðlabankann frekar en Fjármálaeftirlitið. Til dæmis var í skýrslu nefndarinnar rangt farið með nokkrar lánveitingar til Björgólfsfeðga úr bönkum, og sú staðreynd var vandlega falin, að lántökur þeirra í Landsbankanum minnkuðu miklu hraðar árin fyrir bankahrun en lántökur annarra eigendahópa í sínum bönkum.

Þrátt fyrir mikla fyrirhöfn fann nefndin ekkert athugavert við embættisfærslur seðlabankastjóranna þriggja nema það, að þeir hefðu ekki aflað nægra upplýsinga til stuðnings tveimur ákvörðunum, sem þó voru taldar eðlilegar, að neita Landsbankanum um lausafjárfyrirgreiðslu í ágúst 2008 og Glitni um neyðarlán í september sama ár. En Seðlabankinn hafði ekki aðgang að slíkum upplýsingum, aðeins Fjármálaeftirlitið.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 28. ágúst 2021.)

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 3.9.2021 - 03:01 - Rita ummæli

Vinnubrögð Rannsóknarnefndarinnar

Hér hef ég rifjað upp, að Rannsóknarnefnd Alþingis á bankahruninu varð þegar í febrúar 2009 vanhæf, eftir að einn nefndarmaður tilkynnti í bandarísku stúdentablaði, hverjar niðurstöður hennar yrðu. Óháð því má greina ýmsa galla á vinnubrögðum nefndarinnar.

Af hverju voru yfirheyrslur nefndarinnar ekki opinberar og sjónvarpað beint frá þeim? Og af hverju eru gögn nefndarinnar lokuð inni? Nefndin ákvað ein, hvað birta skyldi úr gögnunum. Ég hef kynnt mér nokkur þeirra og séð margt merkilegt, sem nefndin sleppti.

Mjög orkaði tvímælis, að nefndin fékk friðhelgi að lögum. Borgararnir voru sviptir rétti sínum til að bera undir dómstóla, ef þeir töldu hana hafa á sér brotið. Jafnframt var þeim bannað að skjóta hugsanlegum brotum til Umboðsmanns Alþingis.

Nefndin komst að þeirri niðurstöðu, að nokkrir ráðherrar og embættismenn hefðu gerst sekir um vanrækslu. En sú niðurstaða var um vanrækslu í skilningi laga nr. 142/2008, sem samþykkt voru eftir bankahrunið. Lög eiga ekki að vera afturvirk.

Sá munur var að lögum á bankaráði Seðlabankans og stjórn Fjármálaeftirlitsins, að bankaráðið markaði ekki stefnu bankans í efnahagsmálum, heldur bankastjórnin ein, en forstjóri Fjármálaeftirlitsins átti að bera allar meiri háttar ákvarðanir undir stjórn. Hvers vegna tók nefndin ekki ábyrgð stjórnar Fjármálaeftirlitsins til rækilegrar rannsóknar?

Rannsóknarnefndin horfði nær alveg fram hjá því, að bankarnir uxu hratt árin 2002–2005, en óverulega eftir það. Forstjóri Fjármálaeftirlitsins, formaður bankastjórnar Seðlabankans og forsætisráðherra hófu allir störf, eftir að bankarnir voru fastir í stærðargildrunni.

Rannsóknarnefndin sakaði forsætisráðherra um að hafa haldið upplýsingum frá bankamálaráðherranum. En það var ekki ákvörðun hans að gera það, heldur formanns samstarfsflokksins.

Rannsóknarnefndin horfði nær alveg fram hjá því, að bankarnir féllu vegna alþjóðlegrar lausafjárkreppu, þar sem Íslandi var neitað um þá aðstoð, sem aðrir fengu. Ekki var til dæmis leitað skýringa á því, að breska ríkisstjórnin bjargaði haustið 2008 öllum öðrum bönkum landsins en þeim tveimur, sem voru í eigu Íslendinga, en í uppgjöri þeirra beggja síðar meir kom fram, að þeir áttu vel fyrir skuldum.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 3. september 2021.)

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 19.8.2021 - 18:15 - Rita ummæli

Sjálfstæði dómarans

Carl Baudenbacher, forseti EFTA-dómstólsins 2003–2017, gerir harða hríð að eftirmanni sínum, Páli Hreinssyni, í Morgunblaðinu 31. júlí 2021. Nefnir hann nokkur dæmi, þar sem hann telur dómstólinn undir forystu Páls draga taum norska ríkisins, en Páll hafi auk þess tekið að sér launaða ráðgjöf fyrir forsætisráðuneytið íslenska og skert með því sjálfstæði sitt. Ég þekki ekki hin norsku mál, en kann eitt íslenskt dæmi.

Í árslok 2008 var Páll skipaður formaður rannsóknarnefndar Alþingis á bankahruninu. Með honum í nefndinni skyldu sitja Tryggvi Gunnarsson lögfræðingur og Sigríður Benediktsdóttir hagfræðingur. Hinn 31. mars 2009 birtist í bandarísku stúdentablaði viðtal við Sigríði, þar sem hún sagði um bankahrunið: „Mér finnst sem þetta sé niðurstaðan af öfgakenndri græðgi margra sem hlut eiga að máli og tómlátu andvaraleysi þeirra stofnana sem hafa áttu eftirlit með fjármálakerfinu og sjá áttu um fjármálalegan stöðugleika í landinu.“ Með „tómlátu andvaraleysi“ gat Sigríður ekki átt við nema tvær stofnanir, Fjármálaeftirlitið, sem átti að hafa eftirlit með fjármálakerfinu, og Seðlabankann, sem átti að sjá um fjármálastöðugleika. Hún hafði þannig fellt dóm fyrirfram.

Eftir þessu var strax tekið. Ásmundur Helgason, aðallögfræðingur Alþingis, taldi Sigríði hafa gert sig vanhæfa með þessum ummælum. Þeir Páll og Tryggvi voru sömu skoðunar, en Páll er sérfræðingur í hæfisreglum stjórnsýslu, sem hann hafði skrifað um heila doktorsritgerð. Í símtali 22. apríl 2009 báðu Páll og Tryggvi Sigríði um að víkja úr nefndinni. Hún neitaði, og hófst vel skipulögð fjölmiðlaherferð henni til stuðnings. Við svo búið skiptu þeir Páll og Tryggvi um skoðun og kváðu nú ummæli Sigríðar hafa verið almenns eðlis, enda hefði hún ekki nafngreint neinar stofnanir. Hún gæti því setið áfram í nefndinni. Þessi rökstuðningur var fráleitur. Lögum samkvæmt hefur ein stofnun eftirlit með fjármálakerfinu, Fjármálaeftirlitið, og önnur stofnun sér um fjármálastöðugleika, Seðlabankinn. Auðvitað var Sigríður að tala um þessar stofnanir og engar aðrar. Doktorsritgerð Páls var þegjandi og hljóðalaust sett upp í hillu.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 7. ágúst 2021.)

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 10.8.2021 - 07:46 - Rita ummæli

Leiðréttingar við grein Stefáns Snævarrs um mig

Stefán Snævarr birti í gær grein í nettímaritinu Stundinni um skoðanir mínar á tengslum fasisma og sósíalisma. Hann segir þar:

Frjálshyggjumaðurinn Ludwig von Mises lofsöng fasismann ítalska árið 1927 og sagði (í enskri þýðingu úr þýsku): “It cannot be denied that Fascism and similar movements aiming at the establishment of dictatorships are full of the best intentions and that their intervention has, for the moment, saved European civilization. The merit that Fascism has thereby won for itself will live on eternally in history” (Mises (1985): 51). Gerir þetta frjálshyggjuna að systur  nasismann og fasismans? Hannes nefnir ekki þessa athugasemd Mises í bók sinni Twenty-Four Conservative-Liberal Thinkers (2 bindi).

Þetta er rangt. Ég skrifaði langt mál um þessa athugasemd Mises á bls. 94–95 í seinna bindi bókar minnar:

For Mises, a choice always involves trade-offs. Sometimes it is between a greater and a lesser evil. This explains his comment on fascism that left-wing intellectuals are fond of quoting: ‘It cannot be denied that Fascism and similar movements aiming at the establishment of dictatorships are full of the best intentions and that their intervention has, for the moment, saved European civilization. The merit that Fascism has thereby won for itself will live on eternally in history.’ But Mises should not be quoted out of context, because he continues: ‘But though its policy has brought salvation for the moment, it is not of the kind which could promise continued success. Fascism was an emergency makeshift. To view it as something more would be a fatal error.’ Mises’ point is the plausible one that for a liberal faced with two evils, fascism and communism, fascism seems the lesser one, not least because it is possibly reversible. It is authoritarian rather than totalitarian: It aims not at total control of mind and body, but rather of body alone. Because it does not abolish private property rights to the means of production, it does not unite all economic control in one body. What Mises was referring to in the 1920s was that the ex-socialist Benito Mussolini in Italy and Admiral Miklós Horthy in Hungary hindered communist takeovers, although in Hungary the communists actually ruled by terror for a few months. Later examples might be Francisco Franco in Spain and Augusto Pinochet in Chile. Be that as it may, European fascism of the 1920s was quite different to Hitler’s national socialism with its horrible antisemitism. It should also be pointed out that in the 1920s Austria was surrounded by hostile neighbours and that her only potential ally and protector then was Mussolini’s Fascist Italy.

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 10.8.2021 - 07:18 - Rita ummæli

Leiðréttingar við grein Reynis Traustasonar um mig

Reynir Traustason birti í gær grein um mig í nettímaritinu Mannlífi. Margt er ónákvæmt eða rangt í þessari grein, og hefði honum verið í lófa lagið að hafa samband við mig til að fá staðreyndir málsins réttar.

1) Útivistardómurinn yfir mér í Bretlandi fyrir meiðyrði var ógiltur af þarlendum dómstólum, vegna þess að mér hafði ekki verið stefnt eftir réttum reglum. Málinu lauk svo, að Jón Ólafsson sótti bætur til breskra stjórnvalda vegna þessarar handvammar. Hins vegar kostuðu þessi málaferli mig um 25 milljónir, jafnvel þótt ég hlyti að lokum engan dóm. Hvorki Rithöfundasambandið né Blaðamannafélagið ályktuðu mér til stuðnings, þótt eftir því væri leitað. Málfrelsið er aðeins fyrir vinstri menn. New York Times og Sunday Times skrifuðu hins vegar mér til stuðnings, og meiðyrðalöggjöfinni hefur verið breytt í Bretlandi, meðal annars vegna þessa máls, sem vakti mikla athygli þar ytra og þótti furðulegt.

2) Ég hlaut engan dóm fyrir ritstuld, heldur fyrir brot á höfundarrétti, enda gerði ég enga tilraun til að leyna því, að í bók um æskuverk Laxness studdist ég að miklu leyti við endurminningar Laxness frá æsku. Ég notaði sömu aðferðir og Laxness í bókum eins og Heimsljósi og Íslandsklukkunni og Pétur Gunnarsson í bókum sínum um Þórberg. En auðvitað giltu aðrar reglur um þá en mig. Þeir máttu það, sem ég mátti ekki. Bókmenntafræðingar sögðu í aðdáunartón, að eitt einkenni Laxness væri, hvernig hann ynni eigin texta úr texta annarra! Ég sýndi raunar fjölskyldu Laxness handritið, og sátu tvær dætur hans í tvo daga yfir því, eins og starfsmaður útgáfunnar, Bjarni Þorsteinsson, bar fyrir Héraðsdómi. Guðný Halldórsdóttir var ekki stödd í réttarsal, þegar Bjarni bar vitni, og þegar hún bar síðan vitni og var spurð, hversu lengi hún hefði setið með handritið, svaraði hún, um það bil kortér! Viðstaddir, sem hlustað höfðu áður á framburð Bjarna, tóku andköf. Þeir vissu, að hún var að setja ósatt. Það var ekki nema von, að Héraðsdómur sýknaði mig. En Hæstiréttur virðist ekki hafa litið á þessa hlið málsins. Fyrir mér vakti auðvitað alls ekki að brjóta höfundarrétt á Laxness-fjölskyldunni, sem hefur raunar nýlega tilkynnt skattyfirvöldum, að höfundarrétturinn sé einskis virði, svo að hún eigi ekki að greiða erfðaskatt af honum.

En bæði þessi dómsmál voru óskemmtileg, og sagði ég stundum nemendum mínum, að eini dómurinn, sem ég hefði hlotið og væri stoltur af, væri fyrir að reka Frjálst útvarp. Okkur tókst að brjóta á bak aftur einokun ríkisins á útvarpsrekstri.

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 7.8.2021 - 06:01 - Rita ummæli

Hvað sögðu ráðunautarnir?

HalldorLaxnessGögn úr skjalasafni bandaríska útgefandans Alfreds A. Knopfs, sem Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson fornleifafræðingur hefur grafið upp og birt á Moggabloggi sínu, afsanna þá kenningu, að Bjarni Benediktsson og bandarískir erindrekar hafi í sameiningu komið í veg fyrir, að bækur Laxness yrðu gefnar út í Bandaríkjunum á dögum Kalda stríðsins. Knopf gaf Sjálfstætt fólk út 1946, enda höfðu rithöfundarnir May Davies Martinet og Bernard Smith mælt sterklega með bókinni. Hún seldist vel, eftir að Mánaðarbókafélagið, Book-of-the-Month Club, gerði hana að valbók.

Knopf lét því skoða Sölku Völku, sem til var í enskri þýðingu. Starfsmaður hans, bókmenntafræðingurinn Roy Wilson Follett, las þýðinguna, en taldi söguna standa að baki Sjálfstæðu fólki, vera hráa og ruglingslega. Ákvað Knopf að gefa bókina ekki út. Ári síðar, 1947, var honum send dönsk þýðing á Heimsljósi ásamt nokkrum köflum á ensku. Hann bar ensku kaflana undir annan starfsmann sinn, rithöfundinn Herbert Weinstock, sem kvaðst ekki hafa verið hrifinn af Sjálfstæðu fólki og taldi þetta brot úr Heimsljósi ekki lofa góðu. Tímasóun væri að skoða verkið nánar.

Í árslok 1948 var Knopf send sænsk þýðing á Íslandsklukkunni, og nú var Eugene Gay-Tifft fenginn til að meta verkið, en hann hafði þýtt talsvert úr norsku fyrir Knopf. Hann skilaði rækilegri umsögn, var hrifinn af verkinu, en taldi vafamál, að það myndi höfða til bandarískra lesenda. Ákvað Knopf að gefa bókina ekki út. Enn var Knopf send þýsk þýðing á Íslandsklukkunni haustið 1951, og taldi rithöfundurinn Robert Pick (sem var austurrískur flóttamaður) ástæðulaust að endurskoða fyrri ákvörðun.

Snemma árs 1955 var Knopf send sænsk þýðing Gerplu. Nú var bókin borin undir sænska konu, Alfhild Huebsch, sem gift var bandarískum bókmenntamanni, og lagði hún til, að henni yrði hafnað. Sagan væri góð og gæti skírskotað til norrænna lesenda, en ekki bandarískra.

Þremur árum síðar las einn ráðunautur Knopfs, Henry Robbins, enska þýðingu Gerplu, og vildi hann líka hafna bókinni, enda væri hún misheppnuð skopstæling á Íslendinga sögum.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 7. ágúst 2021.)

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 7.8.2021 - 06:00 - Rita ummæli

Vegna skrifa í Viðskiptablaðinu

Margt er oft til í því, sem Týr skrifar í Viðskiptablaðið, en halda verður því til haga vegna nýlegra skrifa hans um mig, að Háskólinn fór aldrei eftir neinni kröfu um, að ég hætti að kenna. Sú krafa kom raunar aldrei fram á neinn hátt við mig. Þegar ég samdi fyrir nokkru um breytta tilhögun á rannsóknar-, stjórnunar- og kennsluskyldum mínum, var aldrei minnst einu orði á neinar slíkar kröfur. Eins og ég hafði oft lagt til áður, voru sameinuð tvö námskeið í stjórnmálaheimspeki: hafði annað verið kennt í stjórnmálafræði og hitt í heimspeki, og tóku heimspekingarnir að sér kennsluna, svo að ég gat helgað mig þeim rannsóknum, sem skiluðu á síðasta ári verki í tveimur bindum, TWENTY-FOUR CONSERVATIVE-LIBERAL THINKERS, samtals 884 bls. Fleira er væntanlegt á næstu árum. Framkoma yfirmanna Háskólans í minn garð (rektors og forseta félagsvísindasviðs) við þessar breytingar var óaðfinnanleg. En vissulega ríður holskefla ófrjálslyndis og umburðarleysis yfir vestræna háskóla þessi misserin, eins og Týr nefnir mörg dæmi um í grein sinni. Vísindin eiga að vera frjáls samkeppni hugmynda, og fræðimenn þurfa óttalausir að geta rakið hugmyndir og röksemdir út í hörgul, reynt á þanþol þeirra.

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 7.8.2021 - 05:58 - Rita ummæli

Skorið úr ritdeilum

Flestar ritdeilur, sem háðar eru á Íslandi, líða út af, þegar þátttakendurnir þreytast, í stað þess að þeim ljúki með niðurstöðu. Svo er þó ekki um tvær ritdeilur, sem ég þekki til. Aðra háðu þeir Jón Ólafsson heimspekingur og Þór Whitehead sagnfræðingur á síðum tímaritsins Sögu árin 2007–2009. Í Moskvu hafði Jón fundið skjal, sem hann taldi benda til, að stofnun Sósíalistaflokksins haustið 1938 hefði verið andstæð vilja Kominterns, Alþjóðasambands kommúnista. Þetta var minnisblað frá einum starfsmanni Kominterns til forseta sambandsins, þar sem hann lýsti efasemdum um, að skynsamlegt væri að kljúfa Alþýðuflokkinn. Þór andmælti þessu, enda væri slíkt innanhússplagg ekki nauðsynlega opinber stefna sambandsins, og hvergi hefði komið fram annars staðar, að Kremlverjar hefðu verið mótfallnir stofnun Sósíalistaflokksins. Ég fann síðan í skjalasafni Sósíalistaflokksins bréf frá forseta Alþjóðasambands ungra kommúnista til Æskulýðsfylkingarinnar, sambands ungra sósíalista, þar sem hann lýsti yfir sérstakri ánægju með stofnun sambandsins og stefnuskrá. Óhugsandi er, að þetta bréf hefði verið sent, hefði Komintern verið mótfallið stofnun Sósíalistaflokksins. Ritdeilunni var lokið. Þetta reyndist vera heilaspuni Jóns.

Seinni ritdeiluna háðum við Halldór Guðmundsson, umsjónarmaður Hörpu. Hann hélt því fram, að verk Halldórs Laxness hefðu á sínum tíma hætt að koma út í Bandaríkjunum, vegna þess að íslenskir ráðamenn (Bjarni Benediktsson) og bandarískir erindrekar hefðu unnið gegn því. Ég benti á, að engin skjöl hefðu fundist um þetta, þótt vissulega hefði einn bandarískur stjórnarerindreki velt því fyrir sér í skýrslu, hvort ekki yrði álitshnekkir að því fyrir Laxness að verða uppvís að undanskoti undan skatti af tekjum sínum í Bandaríkjunum og broti á gjaldeyrisskilareglum. Sýndi þetta, hversu lítt bandarískir erindrekar þekktu Íslendinga, sem hefðu flestir gert hið sama í sporum Laxness. Jafnframt gat Laxness þakkað sínum sæla fyrir, að gjaldeyriseftirlit virðist um þær mundir hafa verið mildara en hin síðari ár, þegar Már Guðmundsson seðlabankastjóri sigaði lögreglunni á útflutningsfyrirtæki við hinn minnsta grun um brot á gjaldeyrisskilareglum. En síðan hefur Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson fornleifafræðingur fundið í skjalasafni Alfreds Knopfs, útgefanda Laxness í Bandaríkjunum, álitsgerðir bókmenntaráðunauta hans, sem taka af öll tvímæli um, að ekki var hætt að gefa út bækur Laxness af stjórnmálaástæðum, heldur vegna þess að Knopf og ráðunautar hans töldu, að þær myndu ekki seljast. Ritdeilunni var lokið. Þetta reyndist vera hugarburður Halldórs.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 31. júlí 2021.)

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 7.8.2021 - 05:56 - Rita ummæli

Tvær þrálátar goðsagnir

Sumar goðsagnir virðast eiga sér mörg líf. Drengsmálið svokallaða 1921 snerist um það, að Ólafur Friðriksson, leiðtogi vinstri arms Alþýðuflokksins, hafði tekið með sér frá Rússlandi ungling, sem talaði rússnesku og þýsku, en Ólafur ætlaði honum að aðstoða sig við samskipti við hina alþjóðlegu kommúnistahreyfingu. Þegar unglingurinn reyndist vera með smitandi augnveiki, sem valdið getur varanlegri blindu, var hann að læknisráði, en eftir nokkur átök, sendur úr landi. Pilturinn hét Nathan Friedmann og hafði misst föður sinn í rússneska borgarastríðinu. Pétur Gunnarsson segir í bókinni Í fátæktarlandi árið 2007 (bls. 128): „Nathan, sem var gyðingur og hafði sest að í Frakklandi, hvarf sporlaust við innrás Þjóðverja í upphafi heimsstyrjaldarinnar síðari — og hefur nær örugglega liðið upp um skorsteininn í einhverjum útrýmingarbúðum nasista.“ En Pétur Pétursson (þulur og alþýðufræðimaður) hafði upplýst 21 ári áður í bók um Drengsmálið, að Nathan hafði látist á sóttarsæng 1938.

Eittaegsamt-scaledÍ sjálfsævisögu Árna Bergmanns, Eitt á ég samt, er önnur goðsögn endurtekin í kafla um Halldór Laxness (bls. 248). „Seinna voru dregin fram gögn úr skjalasöfnum vestra sem sýna að bæði amrískir diplómatar og íslenskir stjórnmálaforingjar leituðu allra ráða í köldu stríði til að spilla orðstír og útgáfumöguleikum þess skaðræðismanns sem þeir töldu Halldór vera.“ Engin slík skjöl eru til. Einu skjölin eru um það, eins og ég skýrði frá í bók minni um íslensku kommúnistahreyfinguna fjórum árum áður en Árni gaf út rit sitt, að Halldór hafði ekki talið fram á Íslandi tekjur sínar í Bandaríkjunum, og lauk því máli svo, að skáldið samþykkti að greiða nokkra upphæð í ríkissjóð, en hlaut einnig dóm fyrir brot á gjaldeyrisskilareglum. Í skýrslu taldi bandarískur stjórnarerindreki líklegt, að þetta gæti orðið Halldóri til álitshnekkis á Íslandi, en svo reyndist ekki verða. Nú nýlega hefur Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson birt skjöl frá bandaríska útgefandanum, Alfred Knopf, sem sýna, að ákvörðunin um að hætta útgáfu verka Halldórs réðst af mati bókmenntaráðunauta hans, ekki stjórnmálaástæðum.

Hægri menn á Íslandi bera hvorki ábyrgð á dauða Nathans Friedmanns né gengisleysi Halldórs Laxness í Bandaríkjunum.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 24. júlí 2021.)

Flokkar: Óflokkað

Höfundur

Hannes Hólmsteinn Gissurarson er prófessor emeritus í stjórnmálafræði í Háskóla Íslands og hefur verið gistifræðimaður við fjölmarga erlenda háskóla, þar á meðal Stanford-háskóla og UCLA. Hann fæddist 1953, lauk doktorsprófi í stjórnmálafræði frá Oxford-háskóla 1985 og er höfundur fjölmargra bóka um stjórnmál, sögu og heimspeki á íslensku, ensku og sænsku.


Nýjustu bækur hans eru Twenty Four Conservative-Liberal Thinkers, sem hugveitan New Direction í Brüssel gaf út í tveimur bindum í árslok 2020, Bankahrunið 2008 og Communism in Iceland, sem Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands gaf út árið 2021, og Landsdómsmálið, sem Almenna bókafélagið gaf út í desember 2022. Hann hefur gefið út átta bókarlangar skýrslur á ensku. Sjö eru fyrir hugveituna New Direction í Brüssel: The Nordic Models og In Defence of Small States (2016); Lessons for Europe from the 2008 Icelandic Bank Collapse, Green Capitalism: How to Protect the Environment by Defining Property Rights og Voices of the Victims: Towards a Historiography of Anti-Communist Literature (2017); Why Conservatives Should Support the Free Market og Spending Other People’s Money: A Critique of Rawls, Piketty and Other Redistributionists (2018). Ein skýrslan er fyrir fjármálaráðuneytið, Foreign Factors in the 2008 Bank Collapse (2018). Hann er ritstjóri Safns til sögu kommúnismans, ritraðar Almenna bókafélagsins um alræðisstefnu, en nýjasta bókin í þeirri ritröð er Til varnar vestrænni menningu: Ræður sex rithöfunda 1950–1958. Árin 2017 og 2018 birtust eftir hann þrjár ritgerðir á ensku um frjálshyggju á Íslandi, Liberalism in Iceland in the Nineteenth and Twentieth Centuries, Anti-Liberal Narratives about Iceland 1991–2017 og Icelandic Liberalism and Its Critics: A Rejoinder to Stefan Olafsson.  

RSS straumur: RSS straumur

Nýlegar athugasemdir