Laugardagur 2.5.2020 - 09:55 - Rita ummæli

Norræn hugsun í Las Vegas

Dagana 3.–6. apríl á þessu ári átti ég að sitja ráðstefnu APEE, Samtaka um einkaframtaksfræðslu, í Las Vegas. Ég ætlaði að hafa framsögu og stjórna umræðum á málstofu um norræna frjálshyggju. Í framsöguerindi mínu, sem var vegna veirufaraldursins í heiminum aldrei flutt, rifjaði ég upp, að margar stjórnmálahugmyndir frjálslyndra manna mætti greina í ritum Snorra Sturlusonar. Heimskringla er samfelld viðvörun við misjöfnum konungum, en skýrastur er boðskapur Snorra í tveimur ræðum. Þórgnýr lögsögumaður hinn sænski kunngerði konungi sínum, að Svíar myndu setja hann af, ef hann héldi áfram að láta ófriðlega og valda bændum búsifjum. Og Einar Þveræingur sagði, er Ólafur digri seildist til áhrifa á Íslandi, að konungar væru misjafnir og því best að hafa engan konung.

Ég benti á annað, sem ég uppgötvaði á dögunum, að Adam Smith hafði bein áhrif á gang mála í Danmörku og á Íslandi. Í maí 1762 hafði hann kynnst þremur Norðmönnum, Peter og Carsten Anker og Andreas Holt, þegar þeir komu til Glasgow, og endurnýjuðu þeir fjórir þau kynni í Toulouse í mars 1764. Þegar Smith gaf út Auðlegð þjóðanna árið 1776, voru hinir norsku vinir hans orðnir embættismenn í Kaupmannahöfn og beittu sér fyrir því, að Frands Dræbye þýddi ritið á dönsku. Holt var kunnugur íslenskum högum, því að hann var formaður Landsnefndarinnar fyrri, sem sat 1770–1772, og sendi hann raunar Smith ferðalýsingu frá Íslandi.

Árið 1787 var Holt látinn og Peter Anker fluttur til Noregs, þar sem hann átti drjúgan hlut að Eiðsvallastjórnarskránni norsku 1814, einhverri frjálslyndustu stjórnarskrá Evrópu á þeirri tíð. En þeir Carsten Anker og Frands Dræbye voru enn háttsettir í danska fjármálaráðuneytinu, Rentukammerinu, og höfðu þessir lærisveinar Smiths áreiðanlega áhrif á það, að þetta ár var horfið frá verslunareinokun við Ísland.

Sterka frjálshyggjuhefð var líka að finna í Svíþjóð. Hinn sænskumælandi finnski prestur Anders Chydenius setti fram svipaðar kenningar og Adam Smith um sátt eiginhagsmuna og almannahags í riti árið 1765, ellefu árum á undan Smith. Johan August Gripenstedt, einn helsti ráðamaður Svía árin 1848–1866, beitti sér fyrir þeim umbótum í frjálsræðisátt, sem gerðu Svíþjóð að einu ríkasta landi heims.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 2. maí 2020.)

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 25.4.2020 - 12:17 - Rita ummæli

Farsóttir og einkaframtak

Talið er, að um 500 milljónir manna eða þriðjungur jarðarbúa árið 1918 hafi smitast af spánsku veikinni og af þeim hafi um tíu af hundraði látist, um 50 milljónir manna. Ein skýringin á því, hversu skæð veikin varð, var fátæktin á þeim tíma, vannæring, þéttbýli í lökum húsakynnum og skortur á hreinlæti. Við búum sem betur fer við miklu betri aðstæður. Hagvöxtur er afkastamesti læknirinn.

Á Íslandi létust 484 úr spánsku veikinni, en um skeið lágu tveir þriðju hlutar Reykvíkinga rúmfastir. Thor Jensen var þá umsvifamesti útgerðarmaður landsins. Að beiðni bæjarstjórnar Reykjavíkur sendi félag hans, Kveldúlfur, togara til veiða, þegar bærinn var að verða matarlaus, og gaf hann fiskinn bæjarbúum endurgjaldslaust. Og hinn 22. nóvember setti Thor upp almenningseldhús. Hann fékk lánað húsnæði undir það, en greiddi allan annan kostnað úr eigin vasa. Í matskálanum voru samtals framreiddar um 9.500 máltíðir, en rösklega 7.000 máltíðir voru sendar til þeirra, sem ekki áttu heimangengt. „Að voru viti hefur enginn höfðingi þessa lands, hvorki fyrr né síðar, sýnt aðra eins rausn,“ skrifaði Morgunblaðið 16. desember 1918.

Einnig rak Tómas Jónsson matvörukaupmaður eldhús, nokkru minna, og gaf mat og mjólk. Í Barnaskóla Reykjavíkur við Tjörnina var sett upp farsóttarheimili, og var Garðar Gíslason stórkaupmaður yfirbryti þar. Var hann kallaður „hjálparhellan“, því að honum tókst jafnan að útvega nauðsynjar, þegar aðrir stóðu ráðalausir.

Í veirufaraldrinum, sem nú geisar, hafa úrræðagóðir framkvæmdamenn líka látið að sér kveða. Kunnast er auðvitað framtak Kára Stefánssonar í Íslenskri erfðagreiningu, en óhætt er að segja, að róðurinn hefði orðið þyngri, hefði hans ekki notið við. Mér er kunnugt um, að forstjórar nokkurra annarra fyrirtækja hafa lagt nótt við dag við útvegun nauðsynlegs tækjabúnaðar, og hafa fyrirtækin borið kostnaðinn. Hafa þessir menn nýtt sér erlend viðskiptasambönd, sýnt fádæma þrek og sigrast á ótal erfiðleikum. Þotur fullar af margvíslegum búnaði fljúga ekki ókeypis eða fyrirhafnarlaust frá Kína til Íslands. Þessir menn hafa ekki viljað láta nafna sinna getið, en við að heyra um þá rifjuðust upp fyrir mér orð Margrétar Thatchers: „Miskunnsami Samverjinn gat veitt aðstoð, af því að hann var aflögufær.“

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 25. apríl 2020.)

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 18.4.2020 - 07:21 - Rita ummæli

Farsóttir og frelsi

John Stuart Mill setti fram þá reglu, að ríkið mætti ekki skerða frelsi einstaklinga nema í sjálfsvarnarskyni. Samkvæmt þeirri reglu má ríkið vitanlega reyna að koma í veg fyrir smit, þegar drepsótt geisar, með því til dæmis að skylda Íslendinga til að fara í sóttkví, leiki grunur á því, að þeir beri í sér drepsóttina, og banna útlendingum að koma til landsins. Þessi frelsisskerðing er réttlætanleg, alveg eins og bann við akstri undir áhrifum áfengis eða við annarri hættulegri hegðun.

Víkur nú sögunni niður í troðfullan Tjarnarsal Ráðhúss Reykjavíkur sunnudaginn 1. febrúar 2004. Fræðaþulurinn Pétur Pétursson hafði skorað á mig í kappræður um Drengsmálið. Árið 1921 hafði sósíalistinn Ólafur Friðriksson, ritstjóri Alþýðublaðsins, tekið með sér frá Rússlandi ungan pilt, Nathan Friedmann að nafni, sem hann hugðist gera að aðstoðarmanni sínum við byltingariðju, enda talaði Friedmann þýsku og rússnesku. Í læknisskoðun kom í ljós, að hinn erlendi gestur gekk með smitnæman augnsjúkdóm, trachoma, egypsku augnveikina svonefndu, en hún hafði valdið blindu milljóna manna. Læknar ráðlögðu því yfirvöldum að senda piltinn úr landi, en þegar það var ákveðið, neitaði Ólafur að hlýða. Safnaði hann liði til að verjast lögreglu, en þá var kallað út varalið til aðstoðar yfirvöldum og fyrirmælunum framfylgt.

Pétur deildi í framsöguræðu sinni á íslensk yfirvöld fyrir framkomu þeirra í Drengsmálinu, en ég varði þau. Minnti ég á, að jafnvel einbeittustu frelsisunnendur vildu takmarka frelsi manna til að bera smit. Árið 1921 hefðu aðstæður verið erfiðar á Íslandi, fólk fátækt, aðeins tveir sérfræðingar í augnlækningum, þröngbýlt í Reykjavík og hin mannskæða spánska veiki árið 1918 öllum í fersku minni. Egypska augnveikin væri að vísu læknanleg, en eðlilegt hefði verið að senda piltinn til Danmerkur, þar sem aðstæður væru betri, en hann hlaut þar einmitt lækningu síns meins. Jafnframt benti ég á, að Ólafur Friðriksson hefði ekki mátt taka lögin í eigin hendur, ákveða upp á sitt eindæmi að óhlýðnast yfirvöldum.

Ég sé ekki betur en í veirufaraldrinum nú á útmánuðum 2020 hafi mál mitt verið staðfest eftirminnilega.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 18. apríl 2020.)

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 11.4.2020 - 06:14 - Rita ummæli

Farsóttir og samábyrgð

Eitt frægasta málverk Rembrandts er Næturverðirnir. Það sýnir nokkra næturverði ganga fylktu liði um hollenska borg. Þetta málverk er táknrænt um eðlilegt hlutverk ríkisins. Það á eins og næturverðir Rembrandts að vernda okkur gegn ofbeldisseggjum, sem læðast að okkur í skjóli myrkurs, hvort sem þeir koma frá öðrum löndum eins og innrásarherir eða úr okkar eigin röðum eins og innbrotsþjófar. Að vísu reyndu sósíalistar nítjándu aldar að gera lágmarksríki frjálshyggjumanna hlægilegt með því að kalla það næturvarðarríkið. En það er sómi að því heiti, ekki skömm.

Merkir það, að eina hlutverk ríkisins sé að halda uppi landvörnum og löggæslu? Þótt þetta hlutverk sé vissulega mikilvægt, er svarið neitandi. Kjarni málsins er, hvers vegna við erum sammála um, að ríkið skuli vernda okkur fyrir innrásarherjum og innbrotsþjófum. Það er vegna þess, að þessar boðflennur birtast óvænt og raska högum okkar stórkostlega. Þær ógna frelsi okkar og öryggi. Hið sama er að segja um náttúruhamfarir eins og eldgos, jarðskjálfta og snjóflóð og líka um drepsóttir eins og veirufaraldurinn nú á útmánuðum 2020.

Við hljótum sjálf að bera ábyrgð á gerðum okkar. Ef við hegðum okkur skynsamlega, þá græðum við. Ef við hegðum okkur óskynsamlega, þá töpum við. Við þurfum jafnframt að sætta okkur við, að sumt í lífinu er ekki komið undir hegðun okkar sjálfra, heldur undirorpið tilviljun. Ef við viljum njóta heppninnar, þá þurfum við líka að gjalda óheppninnar. Ólán er ekki nauðsynlega óréttlæti, og það þarf ekki undir venjulegum kringumstæðum að vera hlutverk ríkisins að bæta okkur upp ólán. En náttúruhamfarir og drepsóttir eru ekki aðeins óheppni, heldur stórkostleg áföll, sem öll þjóðin verður fyrir. Hér á hugtakið samábyrgð við.

Þetta endurspeglaðist í Þjóðveldinu, sem sett var saman úr tveimur einingum, goðorðinu og hreppnum. Menn sóttu vernd gegn hugsanlegum óvinum til goðanna og gátu valið um þá, en þeim var skylt að vera í hreppnum, en hann var til þess að stjórna samnýtingu beitar á fjöllum og hlaupa undir bagga með einstökum bændum, ef fé þeirra féll eða hús þeirra brann. Og ekkert er eðlilegra en að ríkið í umboði þjóðarinnar hlaupi nú undir bagga með þeim, sem veirufaraldurinn hefur leikið grátt.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 11. apríl 2020.)

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 4.4.2020 - 21:14 - Rita ummæli

Áhrif Snorra

Því dýpra sem ég sekk mér niður í rit Snorra Sturlusonar, því líklegra virðist mér, að hann hafi samið þrjú höfuðrit sín í sérstökum tilgangi.

Eddu samdi hann til að reyna að endurvekja skáldskaparlistina, sem hafði verið útflutningsvara Íslendinga öldum saman. Snorri hefur tekið hana saman, áður en hann fór í fyrri ferð sína til Noregs árið 1218.

Heimskringlu samdi hann á tímabilinu frá 1220, þegar hann sneri aftur til Íslands, til 1237, þegar hann fór aftur utan. Hún er umfram allt saga átaka um ríkisvald í Noregi, áreksturs tveggja hugmynda um lög: að þau sé sammæli alþýðu eða fyrirmæli konunga. Einn tilgangur Snorra (sem var sjálfur tvisvar lögsögumaður) var að sýna Íslendingum, að þeir ættu ekkert erindi í ríki Noregskonungs, og er hin snjalla ræða Einars Þveræings besti vitnisburðurinn um það: Eflaust væri Ólafur digri, er nú vildi auka ítök sín á Íslandi, góður konungur, en hitt væri jafnvíst, að konungar væru misjafnir, sumir góðir og aðrir vondir, og væri því best að hafa engan konung.

Egils sögu samdi Snorri, eftir að hann sneri aftur frá Noregi árið 1239, orðinn óvinur konungs, enda er andúðin á konungsvaldi ekki eins hógværlega sett fram og í Heimskringlu. Sagan er um baráttu forföður Snorra, Egils Skallagrímssonar, við Noregskonunga. Hákon gamli endurgalt andúðina og lét vega Snorra árið 1241.

Heimskringla hefur frá upphafi gengið manna í milli í afskriftum. Menn hafa lesið hana sér til skemmtunar og fróðleiks, en líka sem viðvörun. Þetta sést best á því, að árið 1255 endurómaði boðskapur Einars Þveræings í ummælum tveggja bændahöfðingja. Á samkomu bænda við Vallalaug í Skagafirði, þar sem Þorgils skarði vildi vera tekinn til höfðingja, kvaðst Broddi Þorleifsson á Hofi á Höfðaströnd helst vilja Þorgils, þyrfti hann að þjóna höfðingja, en betra væri að þjóna engum. Á ráðstefnu bænda við Djúpadalsá, þar sem Þorvarður Þórarinsson vildi vera tekinn til höfðingja, sagði nafni hans Þórðarson á Saurbæ í Eyjafirði: „Má ég vel sæma við þann, sem er, en best, að engi sé.“ Þeir Broddi og Þorvarður hafa bersýnilega báðir lesið Heimskringlu.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 4. apríl 2020.)

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 1.4.2020 - 17:07 - Rita ummæli

Bestu og verstu forsetar Bandaríkjanna

Ég gat ekki stillt mig um að leggja orð í belg á vegg samkennara míns, Ólafs Þ. Harðarsonar, sem greint hafði frá niðurstöðu bandarískra sagnfræðinga um verstu og bestu forsetana (bestur væri Lincoln, en verstur Trump, og hafa þessir vitringar ekki heyrt af því, að dag skal að kveldi lofa, auðvitað átti ekki að taka sitjandi forseta með, og sýnir þetta hlutdrægni og dómgreindarleysi þátttakendanna). En ég sagði þetta:

Þessi niðurstaða er fáránleg. Lincoln vildi ekki leyfa sumum ríkjum Bandaríkjanna að segja skilið við þau og kom í veg fyrir það með hervaldi. Sjálfur tók hann það fram í bréfi til Horace Greeleys (ritstjóra New York Tribune) 1862, að borgarastríðið væri ekki um þrælahald, heldur um að halda alríkinu saman (með hervaldi!). Þessi ákvörðun hans kostaði 700.000 mannslíf. Það féllu fleiri í borgarastríðinu en hafa fallið samtals í öllum öðrum stríðum, sem Bandaríkin hafa tekið þátt í. Og eftir stríðið voru Suðurríkin ein rjúkandi rúst og hatur og úlfúð ótrúleg milli hvítra og svartra. Það tók heila öld að koma samskiptum kynþáttanna í lag. Í Brasilíu var þrælahald hins vegar afnumið 1888, eftir að það hafði verið minnkað í áföngum áratugina á undan (fyrst var innflutningur þræla bannaður, síðan var sala þræla bönnuð, þá voru öll börn þræla lýst frjáls, enn var öllum þrælum yfir sextugt veitt frelsi, svo að aðeins um fjórðungur þeldökkra Brasilíubúa voru þrælar, þegar þrælahald var afnumið að fullu). Samskipti kynþáttanna þar hafa alltaf verið tiltölulega góð.

Og enn sagði ég á vegg Ólafs Þ. Harðarsonar í umræðum um bestu Bandaríkjaforsetana:

Bestu stjórnmálamennirnir eru þeir, sem kunna sér hóf, þekkja sín takmörk. Eftir þeim mælikvarða var Washington besti forseti Bandaríkjanna. Hann skilaði umboði sínu, eftir að hann hafði unnið sigur í frelsisstríðinu við Breta. (Þegar Georg III heyrði, að hann ætlaði að gera það, hrópaði hann í undrun sinni: „Þá er hann merkilegasti maður heims!“) Og hann varð hálftregur forseti og sat aðeins í tvö kjörtímabil. Hann er mesti og besti forseti Bandaríkjanna frá upphafi. (Myndin hér er af Washington að skila inn umboði sínu.)

Image may contain: 12 people, indoor
Og enn sagði ég á vegg Ólafs:
Annar ofmetinn Bandaríkjaforseti var auðvitað Franklin Delano Roosevelt. Það var ekki hann, sem batt enda á heimskreppuna. Öðru nær. Með mistækri hagstjórn framlengdi hann kreppuna. Nær allir sagnfræðingar og hagfræðingar hafa nú viðurkennt það, sem Milton Friedman hefur um það að segja í hinni miklu rannsókn sinni á heimskreppunni. Roosevelt hélt dauðahaldi í valdið ólíkt Washington. Og hann afhenti Stalín þjóðir Mið- og Austur-Evrópu á silfurbakka eftir seinni heimsstyrjöld.
Og enn sagði ég á vegg Ólafs í umræðum um bestu og verstu Bandaríkjaforseta:
Walpole hældi sér eitt sinn af því við Bretadrottningu, að enginn Breti hefði fallið í stríði á valdatíð sinni. Verstu Bandaríkjaforsetarnir ættu að vera þeir, sem hófu óþörf stríð eins og borgarastríðið og fyrri heimsstyrjöld (ég held, að öðru máli gegni um hina síðari), og þá koma þeir Lincoln og Woodrow Wilson (sem var auk þess kynþáttahatari af verstu tegund) til álita. Ein mesta hættan, sem Bandaríkjamenn standa andspænis, er, að vinstri sinnaðir kjánar, sem hafa tekið skyndinámskeið í hinstu rökum tilverunnar, kenna þar í háskólum og hafa breytt þeim í trúboðsstöðvar fyrir vinstri stefnu. Ég er hræddur um, að þetta sé líka að gerast í Háskóla Íslands. Ég kenndi þar Bandarísk stjórnmál, en mig leysti af hólmi kona, sem virðist hata Bandaríkin og allt, sem bandarískt er, sérstaklega bandarísk gildi, sem Alexis de Tocqueville gerði svo snilldarlega grein fyrir (hún er virk í Vinstri grænum).

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 31.3.2020 - 19:43 - Rita ummæli

Viðtal í Harmageddon um veirufaraldurinn

Ég var í dag, þriðjudaginn 31. mars 2020, í viðtali í Harmageddon um reynslu mína af og skoðanir á veirufaraldrinum. Ég lýsti ferðalagi mínu um auða flugvelli í Rio de Janeiro og Lundúnum og setu í hálftómum flugvélum og sagði nokkur orð um veirufaraldurinn. Mér sýnast íslensk yfirvöld fara skynsamlega að málinu, sem vissulega er vandasamt. Núna erum við í björgunarbát, en þegar við losnum úr honum, þurfum við að taka upp frjálsar siglingar á ný. Ég myndi bæta því við, sem ekki gafst tóm til að ræða í viðtalinu, að uppruninn er í einræðisríki og viðbrögðin allt of sein vegna tilrauna til að þagga niður í læknum, jafnframt því sem eftirlitsstofnanir á Vesturlöndum hafa tafið fyrir baráttunni gegn veirunni. Hér er hlekkur á viðtalið.

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 30.3.2020 - 09:18 - Rita ummæli

Hvað á ríkið að gera, þegar drepsótt geisar?

Ragnar Önundarson spyr:

Hvað segja FB vinir mínir, nýfrjálshyggjumennirnir, um fyrirhugaðar ríkisábyrgðir ? Er eðlilegt að gengið sé í sameiginlegan sjóð landsmanna fyrir einkaframtakið ? Hvað segja t.d. Hannes Hólmsteinn Gissurarson, Arnar Sigurðsson og Skafti Harðarson ?

Ég svara:

Í fyrsta lagi er ég frjálshyggjumaður og kannast ekki alveg við muninn á frjálshyggju og nýfrjálshyggju, en mér væri svo sem sama, þótt ég væri kallaður nýfrjálshyggjumaður. Í öðru lagi tel ég, að ríkið sé í senn verndarstofnun og tryggingafélag, alveg eins og goðorðin og hrepparnir að fornu gegndu annars vegar verndar- og hins vegar tryggingahlutverki. Þetta merkir, að ríkið, sem oft er því miður ræningjabæli í raun, breytist í almenning á ögurstundum, til dæmis í náttúruhamförum eða alvarlegum drepsóttum. Það er almennt samkomulag um það á Íslandi, ef verður snjóflóð á Flateyri eða eldgos í Vestmannaeyjum, að þá verði reynt að hjálpa fórnarlömbunum eins og hægt er, enda er verkefnið ekki á færi venjulegra tryggingafélaga. Þá á hugtakið samtrygging við, en sjaldnast ella. Í þriðja lagi tel ég, að þessi hugsun nái til drepsóttar eins og þessarar, enda er lykilatriði, að hún er engum okkar að kenna. Alveg eins og bændur í hreppnum slógu saman í bætur handa þeim úr hópnum, sem missti fé sökum sóttar eða hús í bruna, eigum við að slá saman í bætur handa þeim, sem gjalda drepsóttarinnar. Þá er mikilvægast að halda atvinnulífinu gangandi, ekki að greiða bætur beint til manna. Það er miklu verra að missa vinnuna en að lækka í tekjum. Þess vegna á ríkið að auðvelda atvinnulífinu leikinn eins og kostur er, með lánum og skattalækkunum frekar en beinum styrkjum. Mér sýnist ríkisstjórnin gera þetta allt eins skynsamlega og auðið verður.

Enn segi ég:

Ég fer raunar yfir þetta sjónarmið í bók, sem ég er að skrifa, Twenty Four Conservative-Liberal Thinkers, sérstaklega í kafla um þann hugsuð, Herbert Spencer, sem ef til vill komst næst því að mæla með næturvarðarríkinu, eins og sósíalistar kölluðu lágmarksríkið, sem einbeitir sér að því að verja fólk gegn ranglæti og gerir ekkert umfram það. Ég bendi þar á, að næturvörðurinn gegnir raunar afar mikilvægu hlutverki, að verja okkur gegn ofbeldi í skjóli nætur, innrásum, árásum og innbrotum. Landvarnir og löggæsla eru nauðsyn. En öryggishlutverkið er víðtækara en næturvarsla, segi ég í kaflanum um Spencer. Það tekur líka til sérstakra aðstæðna eins og náttúruhamfara og drepsótta.

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 28.3.2020 - 18:19 - Rita ummæli

Hrollvekja Tocquevilles

Franski heimspekingurinn Alexis de Tocqueville er einn fremsti frjálshyggjuhugsuður Vesturlanda. Hann reyndi að skýra, hvers vegna bandaríska byltingin 1776 hefði heppnast, en franska byltingin 1789 mistekist. Skýringin var í stystu máli, að Bandaríkjamenn byggju við sérstakar aðstæður, gnótt af ónumdu landi og fjarlægð frá hugsanlegum árásaraðilum, en þeir nytu líka hins breska stjórnfrelsisarfs síns og hefðu verið nógu hyggnir til að skipta valdinu vandlega á milli margra aðila. Jafnframt væru þeir trúaðir og félagslyndir, og það héldi valdafíkn og sérhagsmunastreitu í skefjum. Þess vegna hefði Bandaríkjamönnum tekist að sameina jafnræði og frelsi. En hvað ættu frjálslyndir menn að óttast?

Svar Tocquevilles í riti hans, Lýðræði í Vesturheimi, er frægt. „Ég sé fyrir mér múg óteljandi manna, sem allir eru svipaðir og jafnir og önnum kafnir við að afla þeirra lítilmótlegu og lágkúrulegu gæða,  sem þeir fylla með sálir sínar. Hver og einn þeirra gengur einn sér og lætur sér fátt um örlög annarra finnast. Sjóndeildarhringur hans takmarkast við börn og vini. Þótt meðbræður hans séu nálægt, veitir hann þeim ekki eftirtekt. Hann kemst í snertingu við þá án þess að finna fyrir þeim. Hann er aðeins til í sjálfum sér og fyrir sjálfan sig. Og eigi hann fjölskyldu, þá á hann að minnsta kosti ekki lengur ættjörð.“

Tocqueville heldur áfram: „Yfir þessum skara rís risastórt, stjórnlynt yfirvald, sem sér eitt um að fullnægja þörfum þeirra og velja þeim brautir í lífinu. Það er altækt, smámunasamt, reglubundið, forsjált og milt. Það myndi líkjast föðurvaldi, væri verkefni þess að búa menn undir fullorðinsár, en það hefur annað tilgang og ólíkan, að hindra að þeir komist úr bernsku. Það hefur ekkert á móti því, að menn gleðjist, að því tilskildu, að þeir hugsi ekki um annað á meðan. Þetta vald vinnur fúslega að slíkri hamingju, en það heimtar að fá eitt að skammta hana og skipuleggja. Það gætir öryggis manna, stjórnar framleiðslu þeirra, ræður kjörum þeirra, skiptir með þeim arfi. Hvað er þá eftir annað en taka af þeim ómakið við að hugsa og lifa?“

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 28. mars 2020.)

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 21.3.2020 - 09:56 - Rita ummæli

Spádómsgáfa Tocquevilles

Einn kunnasti hugsuður frjálshyggjunnar er franski rithöfundurinn og aðalsmaðurinn Alexis de Tocqueville. Spádómsgáfu hans er við brugðið. Tocqueville sat í fulltrúadeild franska þingsins og kvaddi sér hljóðs í janúar 1848. Lýsti hann megnri óánægju almennings: „Ég hygg, að við séum nú í fastasvefni uppi á eldfjalli.“ Fjórum vikum síðar gerði Parísarmúgurinn byltingu. Í seinna bindi hins mikla riti síns, Lýðræðis í Vesturheimi, sem kom út árið 1840, sagði Tocqueville, að eina hættan á byltingu í Bandaríkjunum væri vegna hinna þeldökku þræla þar í landi. Tuttugu og einu ári síðar skall þar á borgarastríð.

Tocqueville sá einnig Kalda stríðið fyrir í fyrra bindinu árið 1835: „Á okkar dögum stefna tvær stórþjóðir að sama marki, þótt þær komi úr ólíkum áttum: Rússar og Bandaríkjamenn. Báðar uxu úr grasi í kyrrþey. Á meðan menn höfðu um annað að sýsla, birtust þær skyndilega á fremsta bekk, og heimurinn fékk að vita af upphafi þeirra og afli nánast á sama tíma. Aðrar þjóðir virðast hafa náð þeim mörkum, sem náttúran setur þeim, en þessar tvær þjóðir eru að færa út kvíar.“

Enn sagði Tocqueville: „Bandaríkjamenn glíma við þær hindranir, sem náttúran setur þeim, Rússar við menn. Önnur þjóðin reynir að ná tökum á óbyggðum og villimennsku, hin á siðmenningu. Því er það, að Bandaríkjamenn vinna land með plógi bóndans, en Rússar með sverði hermannsins. Til að ná árangri treystir önnur þjóðin á eiginhagsmuni og nýtir sér atorku og skynsemi einstaklinganna án þess þó að stjórna þeim. Hin safnar öllu valdi saman á hendi eins manns. Önnur hefur frelsi að leiðarljósi, hin ánauð. Þær hefja ferð sína á ólíkum stöðum og feta ólíkar slóðir. Eigi að síður virðist hvor um sig hafa verið kjörin til þess af sjálfri forsjóninni að ráða örlögum síns helmings heimsins.“

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 21. mars 2020.)

Flokkar: Óflokkað

Höfundur

Hannes Hólmsteinn Gissurarson er prófessor emeritus í stjórnmálafræði í Háskóla Íslands og hefur verið gistifræðimaður við fjölmarga erlenda háskóla, þar á meðal Stanford-háskóla og UCLA. Hann fæddist 1953, lauk doktorsprófi í stjórnmálafræði frá Oxford-háskóla 1985 og er höfundur fjölmargra bóka um stjórnmál, sögu og heimspeki á íslensku, ensku og sænsku.


Nýjustu bækur hans eru Twenty Four Conservative-Liberal Thinkers, sem hugveitan New Direction í Brüssel gaf út í tveimur bindum í árslok 2020, Bankahrunið 2008 og Communism in Iceland, sem Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands gaf út árið 2021, og Landsdómsmálið, sem Almenna bókafélagið gaf út í desember 2022. Hann hefur gefið út átta bókarlangar skýrslur á ensku. Sjö eru fyrir hugveituna New Direction í Brüssel: The Nordic Models og In Defence of Small States (2016); Lessons for Europe from the 2008 Icelandic Bank Collapse, Green Capitalism: How to Protect the Environment by Defining Property Rights og Voices of the Victims: Towards a Historiography of Anti-Communist Literature (2017); Why Conservatives Should Support the Free Market og Spending Other People’s Money: A Critique of Rawls, Piketty and Other Redistributionists (2018). Ein skýrslan er fyrir fjármálaráðuneytið, Foreign Factors in the 2008 Bank Collapse (2018). Hann er ritstjóri Safns til sögu kommúnismans, ritraðar Almenna bókafélagsins um alræðisstefnu, en nýjasta bókin í þeirri ritröð er Til varnar vestrænni menningu: Ræður sex rithöfunda 1950–1958. Árin 2017 og 2018 birtust eftir hann þrjár ritgerðir á ensku um frjálshyggju á Íslandi, Liberalism in Iceland in the Nineteenth and Twentieth Centuries, Anti-Liberal Narratives about Iceland 1991–2017 og Icelandic Liberalism and Its Critics: A Rejoinder to Stefan Olafsson.  

RSS straumur: RSS straumur

Nýlegar athugasemdir