Í grúski mínu í ritum þeirra Karls Marx og Friðriks Engels tók ég eftir því, að þar er á einum stað minnst á íslenska myndhöggvarann Bertel Thorvaldsen. Það er í grein eftir Engels frá því í nóvember 1847 um svissneska borgarastríðið. Engels hafði ekkert gott að segja um Svisslendinga, sem væru frumstæð fjallaþjóð og legðu ætíð afturhaldsöflum lið. Væri þeim helst saman að jafna við Norðmenn, sem líka væru þröngsýn útkjálkaþjóð.
Enn fremur sagði Engels: „Menn skyldu ekki ætla, að þessir málaliðar væru taldir úrhrak þjóða sinna eða að þeim væri afneitað af löndum sínum. Hafa íbúar Luzern ekki fengið hinn rétttrúaða Íslending Thorvaldsen til að að höggva í klett við borgarhliðið stórt ljón? Það er sært spjóti, en verndar til hinstu stundar liljuprýddan skjöld Bourbon-ættarinnar með loppu sinni, og á þetta á vera til minningar um hina föllnu Svisslendinga 10. ágúst 1792 við Louvre! Á þennan veg heiðrar svissneska bandalagið hina fölu þjónustulund sona sinna. Það lifir á því að selja menn og heldur það hátíðlegt.“
Tvær villur eru að vísu í frásögn Engels. Thorvaldsen gerði ekki sjálfur hina frægu höggmynd í klett við Luzern, heldur var það Lukas Ahorn, sem hjó hana í bergið eftir uppdrætti Thorvaldsens. Og svissnesku hermennirnir féllu ekki í bardaga um Louvre-höll 1792, heldur þegar Parísarmúgurinn réðst á Tuileries-höll, þar sem franska konungsfjölskyldan hafðist þá við. Lágu um sex hundruð Svisslendingar í valnum, er yfir lauk. Í sveit franskra þjóðvarðliða, sem einnig vörðu konungshöllina, var Hervé de Tocqueville, faðir hins fræga rithöfundar Alexis, sem greindi Frönsku stjórnarbyltinguna af skarpskyggni, og var Hervé einn fárra, sem komust lífs af. Konungsfjölskyldan leitaði skjóls hjá Löggjafarsamkomunni, en það reyndist ekki traustara en svo, að konungur var hálshöggvinn í janúar 1793 og drottning í oktober. Margir hafa lýst minnismerkinu í Luzern, þar á meðal bandaríski rithöfundurinn Mark Twain, enski sagnfræðingurinn Thomas Carlyle og heimspekingurinn Ágúst H. Bjarnason, sem var á ferð um Sviss árið 1902, en frásögn hans birtist í Sumarblaðinu 1917.
(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 26. september 2020.)

Þegar ég var barn að aldri fyrir röskum sextíu árum, gleypti ég í mig söguna um Selinn Snorra eftir norska teiknarann og rithöfundinn Friðþjóf (Frithjof) Sælen. Það fór þá auðvitað fram hjá mér, að ritið er ekki aðeins skemmtileg myndasaga handa börnum, heldur líka snjöll dæmisaga um hernám Noregs. Snorri er saklaus kópur í Íshafinu, sem veit ekki af neinum háska, en er trúgjarn og óvarfærinn. Vinir hans eru aðrir selir og rostungurinn Skeggi frændi. En hann á líka óvini. Honum stafar hætta af ísbirninum Voða, sem er tákn rússneskra kommúnista, en Hitler og Stalín voru í bandalagi frá 1939 til 1941 og hrundu saman af stað seinni heimsstyrjöld. Mávahjónin Sultur og Svöng eru á sveimi í kringum selina, en þau eru fulltrúar norsku kvislinganna. Þau eru með glampa í gulum augunum og rauð merki yfir þeim. „Það var eins og þau væru alltaf að bíða eftir einhverju.“ Snorri er ginntur í hættuferð á ísjaka, en í kringum hann er háhyrningurinn Glefsir á sveimi og hyggur á illt. Hvalurinn er tákn þýskra nasista. Sögunni lýkur vel, því að saman leiða Snorri og Skeggi frændi Glefsi í gildru, og vinnur Skeggi, sem er tákn bresku þjóðarinnar, á Glefsi.
Eftir því sem ég skoða betur rithöfundarferil Snorra Sturlusonar, myndast skýrar tilgáta um hann í mínum huga. Hún er þessi: Snorri semur Eddu, áður en hann fer á fund Noregskonungs, í því skyni að endurvekja skáldskaparlistina, hefðbundna aðferð Íslendinga til að afla sér fjár og frama í konungsgarði. Þegar hann kemur til Noregs 1218, eru þeir Hákon konungur og Skúli jarl ævareiðir Íslendingum fyrir átök við norska kaupmenn. Hafa þeir við orð að senda her til Íslands. Snorri verður þess áskynja, að þeir ætli raunar að ganga lengra og leggja undir sig Ísland. Hann vill sjálfur, að Íslendingar séu vinir konungs, ekki þegnar. Nærtækt er því að friða konung með blíðmælum, en setjast við það, þegar heim kemur 1220, að semja sögu þess konungs, sem áður hafði árangurslaust seilst til mannaforráða á Íslandi, Ólafs digra, núverandi konungi til eftirbreytni.
Hér í blaðinu hef ég bent á, að sumir kunnustu heimspekingar sögunnar hafa minnst á Íslendinga. Rousseau sagði, að íslenskir námsmenn í Kaupmannahöfn yndu sér þar svo illa, að þeir ýmist vesluðust upp og gæfu upp öndina eða drukknuðu í sjó, þegar þeir ætluðu að synda aftur heim til Íslands. Marx og Engels völdu Íslendingum hin verstu orð. Þeir væru ruddar og sóðar og ættu ekkert gott skilið frekar en aðrar afdalaþjóðir Evrópu.
Í ágúst 2020 birti Samherji
Eitt af því, sem menn læra í grúski um söguna, er, að fleiri hliðar eru á henni en okkur voru kenndar í skólum. Enginn sagði okkur til dæmis frá því, að í lok seinna stríðs voru á milli tíu og fjórtán milljónir manna af þýskum ættum reknar til Þýskalands frá heimkynnum sínum í Austur-Prússlandi, Póllandi og Tékkóslóvakíu, þar sem fólkið hafði búið mann fram af manni. Talið er, að hátt í milljón manns hafi látist í þessum flutningum.
Norðurlandaþjóðir eru með réttu taldar einhverjar hinar ágætustu í heimi. Þess vegna verðum við hissa, þegar við rekumst á dæmi um hrottaskap eða lögleysur hjá þeim, svo sem þegar 62 þúsund manns voru gerð ófrjó, flestir án þess að vita af því eða gegn eigin vilja, í Svíþjóð árin 1935–1975 eða þegar Norðmenn settu í seinna stríði afturvirk lög um, að skráning í nasistaflokkinn norska væri glæpsamleg. Í grúski mínu á dögunum rakst ég á ótrúlegt dæmi.
Forystumenn verkalýðsfélagsins Eflingar, Sólveig Jónsdóttir og Viðar Þorsteinsson, virðast vilja færa starfsemi þess langt aftur á síðustu öld, þegar sumir trúðu því, að kjarabætur fengjust með kjarabaráttu frekar en vexti atvinnulífsins: því fleiri verkföll, því betra. Afleiðingin á Íslandi var víxlhækkun kaupgjalds og verðlags, þrálát verðbólga, en óveruleg aukning kaupmáttar. Þau Sólveig og Viðar kunna að vera lifandi dæmi þeirra ummæla Hegels, að menn læri aldrei neitt af sögunni.
Nýlegar athugasemdir