Mánudagur 30.3.2020 - 09:18 - Rita ummæli

Hvað á ríkið að gera, þegar drepsótt geisar?

Ragnar Önundarson spyr:

Hvað segja FB vinir mínir, nýfrjálshyggjumennirnir, um fyrirhugaðar ríkisábyrgðir ? Er eðlilegt að gengið sé í sameiginlegan sjóð landsmanna fyrir einkaframtakið ? Hvað segja t.d. Hannes Hólmsteinn Gissurarson, Arnar Sigurðsson og Skafti Harðarson ?

Ég svara:

Í fyrsta lagi er ég frjálshyggjumaður og kannast ekki alveg við muninn á frjálshyggju og nýfrjálshyggju, en mér væri svo sem sama, þótt ég væri kallaður nýfrjálshyggjumaður. Í öðru lagi tel ég, að ríkið sé í senn verndarstofnun og tryggingafélag, alveg eins og goðorðin og hrepparnir að fornu gegndu annars vegar verndar- og hins vegar tryggingahlutverki. Þetta merkir, að ríkið, sem oft er því miður ræningjabæli í raun, breytist í almenning á ögurstundum, til dæmis í náttúruhamförum eða alvarlegum drepsóttum. Það er almennt samkomulag um það á Íslandi, ef verður snjóflóð á Flateyri eða eldgos í Vestmannaeyjum, að þá verði reynt að hjálpa fórnarlömbunum eins og hægt er, enda er verkefnið ekki á færi venjulegra tryggingafélaga. Þá á hugtakið samtrygging við, en sjaldnast ella. Í þriðja lagi tel ég, að þessi hugsun nái til drepsóttar eins og þessarar, enda er lykilatriði, að hún er engum okkar að kenna. Alveg eins og bændur í hreppnum slógu saman í bætur handa þeim úr hópnum, sem missti fé sökum sóttar eða hús í bruna, eigum við að slá saman í bætur handa þeim, sem gjalda drepsóttarinnar. Þá er mikilvægast að halda atvinnulífinu gangandi, ekki að greiða bætur beint til manna. Það er miklu verra að missa vinnuna en að lækka í tekjum. Þess vegna á ríkið að auðvelda atvinnulífinu leikinn eins og kostur er, með lánum og skattalækkunum frekar en beinum styrkjum. Mér sýnist ríkisstjórnin gera þetta allt eins skynsamlega og auðið verður.

Enn segi ég:

Ég fer raunar yfir þetta sjónarmið í bók, sem ég er að skrifa, Twenty Four Conservative-Liberal Thinkers, sérstaklega í kafla um þann hugsuð, Herbert Spencer, sem ef til vill komst næst því að mæla með næturvarðarríkinu, eins og sósíalistar kölluðu lágmarksríkið, sem einbeitir sér að því að verja fólk gegn ranglæti og gerir ekkert umfram það. Ég bendi þar á, að næturvörðurinn gegnir raunar afar mikilvægu hlutverki, að verja okkur gegn ofbeldi í skjóli nætur, innrásum, árásum og innbrotum. Landvarnir og löggæsla eru nauðsyn. En öryggishlutverkið er víðtækara en næturvarsla, segi ég í kaflanum um Spencer. Það tekur líka til sérstakra aðstæðna eins og náttúruhamfara og drepsótta.

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 28.3.2020 - 18:19 - Rita ummæli

Hrollvekja Tocquevilles

Franski heimspekingurinn Alexis de Tocqueville er einn fremsti frjálshyggjuhugsuður Vesturlanda. Hann reyndi að skýra, hvers vegna bandaríska byltingin 1776 hefði heppnast, en franska byltingin 1789 mistekist. Skýringin var í stystu máli, að Bandaríkjamenn byggju við sérstakar aðstæður, gnótt af ónumdu landi og fjarlægð frá hugsanlegum árásaraðilum, en þeir nytu líka hins breska stjórnfrelsisarfs síns og hefðu verið nógu hyggnir til að skipta valdinu vandlega á milli margra aðila. Jafnframt væru þeir trúaðir og félagslyndir, og það héldi valdafíkn og sérhagsmunastreitu í skefjum. Þess vegna hefði Bandaríkjamönnum tekist að sameina jafnræði og frelsi. En hvað ættu frjálslyndir menn að óttast?

Svar Tocquevilles í riti hans, Lýðræði í Vesturheimi, er frægt. „Ég sé fyrir mér múg óteljandi manna, sem allir eru svipaðir og jafnir og önnum kafnir við að afla þeirra lítilmótlegu og lágkúrulegu gæða,  sem þeir fylla með sálir sínar. Hver og einn þeirra gengur einn sér og lætur sér fátt um örlög annarra finnast. Sjóndeildarhringur hans takmarkast við börn og vini. Þótt meðbræður hans séu nálægt, veitir hann þeim ekki eftirtekt. Hann kemst í snertingu við þá án þess að finna fyrir þeim. Hann er aðeins til í sjálfum sér og fyrir sjálfan sig. Og eigi hann fjölskyldu, þá á hann að minnsta kosti ekki lengur ættjörð.“

Tocqueville heldur áfram: „Yfir þessum skara rís risastórt, stjórnlynt yfirvald, sem sér eitt um að fullnægja þörfum þeirra og velja þeim brautir í lífinu. Það er altækt, smámunasamt, reglubundið, forsjált og milt. Það myndi líkjast föðurvaldi, væri verkefni þess að búa menn undir fullorðinsár, en það hefur annað tilgang og ólíkan, að hindra að þeir komist úr bernsku. Það hefur ekkert á móti því, að menn gleðjist, að því tilskildu, að þeir hugsi ekki um annað á meðan. Þetta vald vinnur fúslega að slíkri hamingju, en það heimtar að fá eitt að skammta hana og skipuleggja. Það gætir öryggis manna, stjórnar framleiðslu þeirra, ræður kjörum þeirra, skiptir með þeim arfi. Hvað er þá eftir annað en taka af þeim ómakið við að hugsa og lifa?“

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 28. mars 2020.)

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 21.3.2020 - 09:56 - Rita ummæli

Spádómsgáfa Tocquevilles

Einn kunnasti hugsuður frjálshyggjunnar er franski rithöfundurinn og aðalsmaðurinn Alexis de Tocqueville. Spádómsgáfu hans er við brugðið. Tocqueville sat í fulltrúadeild franska þingsins og kvaddi sér hljóðs í janúar 1848. Lýsti hann megnri óánægju almennings: „Ég hygg, að við séum nú í fastasvefni uppi á eldfjalli.“ Fjórum vikum síðar gerði Parísarmúgurinn byltingu. Í seinna bindi hins mikla riti síns, Lýðræðis í Vesturheimi, sem kom út árið 1840, sagði Tocqueville, að eina hættan á byltingu í Bandaríkjunum væri vegna hinna þeldökku þræla þar í landi. Tuttugu og einu ári síðar skall þar á borgarastríð.

Tocqueville sá einnig Kalda stríðið fyrir í fyrra bindinu árið 1835: „Á okkar dögum stefna tvær stórþjóðir að sama marki, þótt þær komi úr ólíkum áttum: Rússar og Bandaríkjamenn. Báðar uxu úr grasi í kyrrþey. Á meðan menn höfðu um annað að sýsla, birtust þær skyndilega á fremsta bekk, og heimurinn fékk að vita af upphafi þeirra og afli nánast á sama tíma. Aðrar þjóðir virðast hafa náð þeim mörkum, sem náttúran setur þeim, en þessar tvær þjóðir eru að færa út kvíar.“

Enn sagði Tocqueville: „Bandaríkjamenn glíma við þær hindranir, sem náttúran setur þeim, Rússar við menn. Önnur þjóðin reynir að ná tökum á óbyggðum og villimennsku, hin á siðmenningu. Því er það, að Bandaríkjamenn vinna land með plógi bóndans, en Rússar með sverði hermannsins. Til að ná árangri treystir önnur þjóðin á eiginhagsmuni og nýtir sér atorku og skynsemi einstaklinganna án þess þó að stjórna þeim. Hin safnar öllu valdi saman á hendi eins manns. Önnur hefur frelsi að leiðarljósi, hin ánauð. Þær hefja ferð sína á ólíkum stöðum og feta ólíkar slóðir. Eigi að síður virðist hvor um sig hafa verið kjörin til þess af sjálfri forsjóninni að ráða örlögum síns helmings heimsins.“

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 21. mars 2020.)

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 14.3.2020 - 13:13 - Rita ummæli

Lögmál eiginhagsmunanna

Einn skarpskyggnasti stjórnmálarýnandi Vesturlanda var franski aðalsmaðurinn Alexis de Tocqueville. Í frönsku byltingunni hafði langafi hans lent undir fallöxinni og foreldrar hans naumlega sloppið lifandi. Tocqueville taldi, að ekki yrði vikist undan því jafnræði, sem byltingarmennirnir boðuðu, en það yrði að vera jafnræðis frelsis, ekki ánauðar. Þess vegna ferðaðist hann árin 1831–1832 um Bandaríkin til að kynna sér skipulag, þar sem jafnræði virtist vera verulegt, án þess að frelsinu væri fórnað. Bandaríkjamenn kepptu ótrauðir að eiginhagsmunum, en virtust þó vera vel siðaðir. Vegna verkefnis, sem ég hef tekist á hendur, hefur ég verið að endurlesa bók hans, Lýðræði í Vesturheimi, sem hann gaf út í tveimur bindum 1835 og 1840. Orð hans þar um eiginhagsmuni eiga enn erindi við okkur, en þau þýddi dr. Jóhannes Nordal í Nýju Helgafelli árið 1956.

„Lögmál eiginhagsmunanna, sé það rétt skilið, er ekki háleitt, en það er ljóst og öruggt. Það setur sér ekki stórfengleg stefnumið, en nær áreynslulítið þeim áföngum, sem það hefur sett sér. Allir geta lært það og munað, því að það er ekki ofvaxið skilningi nokkurs manns. Það nær auðveldlega miklu áhrifavaldi yfir mönnunum vegna þess, hve dásamlega það samræmist veikleikum þeirra. Og vald þess er ekki hverfult, því að það skákar hagsmunum einstaklinganna hvers gegn öðrum, en beitir sömu meðulum til að stjórna ástríðunum og æsa þær. Lögmál eiginhagsmunanna hvetur menn ekki til stórkostlegrar sjálfsafneitunar, en það bendir þeim daglega á smáa hluti, sem þeir geta neitað sér um. Eitt sér gerir það menn ekki dygðuga, en það þjálfar fjölda manna í reglusemi, hófsemi, forsjálni og sjálfstjórn; og þótt það beini vilja manna ef til vill ekki beint á dygðarinnar veg, dregur það þá þangað samt smám saman með valdi vanans. Ef lögmál eiginhagsmunanna væri alls ráðandi í heimi siðferðisins, mundu framúrskarandi dygðum vafalaust fækka, en hins vegar mundi hin lægsta spilling einnig verða sjaldgæfari. Lögmál eiginhagsmunanna kemur ef til vill í veg fyrir, að menn rísi hátt yfir meðbræður sína, en það stöðvar og heldur í skefjum fjölda annarra manna, sem ella mundu sökkva djúpt niður. Lítum á nokkra hina allra bestu menn, þeim fer aftur vegna áhrifa þess, en lítum á allt mannkyn, því fer fram.“

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 14. mars 2020.)

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 7.3.2020 - 09:31 - Rita ummæli

Róbinson Krúsó og viðarborðið

Franski rithöfundurinn Frédéric Bastiat mælir gegn hvers kyns viðskiptatálmunum af mikilli fimi. Ég hef þegar rifjað hér upp sögur hans af brotnu rúðunni og bænarskrá kertasteyparanna, en þar sýnir hann, hversu fráleitt er að neita sér um þann ávinning, sem hlotist getur af frjálsum viðskiptum. Þriðja sagan er um Róbinson Krúsó á eyðieyjunni.

Bastiat rifjar upp, að Krúsó vill smíða sér viðarborð, en hefur engin ráð til þess önnur en höggva tré, setja það fyrir framan sig og hefla það sæmilega flatt báðum megin með öxi sinni. Þetta tekur hann tvær vikur, og á meðan verður hann að lifa á matarforða sínum, og öxi hans missir bit.

En Bastiat bætir við söguna. Þegar Krúsó er að hefja öxina á loft, rekur hann augun í, að öldurnar hafa kastað viðarborði upp á ströndina. Hann verður hinn fegnasti og ætlar niður á strönd að hirða borðið. Þá man hann skyndilega eftir rökum tollverndarmanna. Ef hann tekur borðið, þá kostar það hann aðeins ferðina og burðinn með borðið. En ef hann gerir sér borð með öxi sinni, þá skapar það atvinnu handa honum í tvær vikur, og hann fær um leið tækifæri til að brýna öxina, jafnframt því sem hann notar matarforða sinn og þarf að útvega sér nýjan. Þess vegna er skynsamlegast að fleygja borðinu aftur í sjóinn.

Vitaskuld er breytni Krúsós fráleit. En Bastiat bendir á, að tollverndarmenn noti jafnan rök af sömu ætt. Þeir vilji tálma innflutning vöru, sem sé ódýrari en hin innlenda. Með því séu þeir að neita sér um þann ávinning, sem reki á fjörur okkar af því, að sumir geti framleitt einhverja vöru ódýrar en við eða landar okkar. Þeir breyta í raun eins og Krúsó, þegar hann fleygir viðarborðinu aftur í sjóinn og hamast þess í stað við að hefla með ófullkomnu verkfæri nýtt viðarborð á tveimur vikum. Bastiat bendir einnig á, að Krúso hefði getað notað þessar tvær vikur til að gera sér lífið þægilegra eða skemmtilegra. Enn eru þeir þó til, sem neita að skilja hagkvæmni verkaskiptingar og frjálsra viðskipta.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 7. mars 2020.)

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 29.2.2020 - 09:03 - Rita ummæli

Bænarskrá kertasteyparanna

Engum hefur tekist betur að mæla fyrir frjálsum alþjóðaviðskiptum en franska rithöfundinum Frédéric Bastiat. Ein kunnasta háðsádeila hans á tollverndarmenn er „Bænarskrá kertasteyparanna“, sem birtist árið 1846. Framleiðendur kerta, vax, tólgs, eldspýtna, götuljósa og annars ljósmetis senda bænarskrá til franska fulltrúaþingsins. „Við þurfum að sætta okkur við óþolandi samkeppni erlends aðila, sem nýtur slíks forskots í ljósframleiðslu, að vara hans flæðir inn á innlendan markað á hlægilega lágu verði. Um leið og hann kemur á vettvang, hættir vara okkar að seljast, neytendur flykkjast til hans, og einn geiri fransks atvinnulífs sér fram á fullkomna stöðnun með margvíslegum afleiðingum. Þessi aðili er enginn annar en sólin.“

Höfundar bænarskrárinnar benda á, að löggjafinn geti skapað þörf fyrir tilbúið ljós með því að takmarka aðganginn að náttúrlegu ljósi, til dæmis með því að skylda fólk til að loka dyrum og byrgja glugga á daginn. Við það geti framleiðsla á tólg til dæmis aukist, svo að kvikfjárrækt verði umfangsmeiri, en það leiði aftur til víðáttumeiri bithaga og örvi framleiðslu á kjöti, ull og tilbúnum áburði. Takmörkun á náttúrlegri ljósframleiðslu sé atvinnulífinu í hag.

Bastiat tekur annað dæmi til samanburðar. Ef glóaldin (appelsína) frá Lissabon er helmingi ódýrari en glóaldin frá París, þá er það vegna þess, að náttúrlegur og um leið ókeypis hiti frá sólinni veitir framleiðendum í Lissabon náttúrlegt forskot. Þeir þurfa aðeins að leggja á sig helminginn af fyrirhöfn framleiðendanna í París. Þetta nota tollverndarmenn sem röksemd fyrir að takmarka innflutning glóaldina frá Portúgal. En ef framleiðsluvara er bönnuð fyrir að vera að hálfu leyti ókeypis, á þá ekki að banna vöru, sem er að öllu leyti ókeypis?

Bastiat sýnir með þessum dæmum, að alþjóðleg verkaskipting veitir okkur aðgang að alls konar gæðum, sem við ráðum ekki sjálf yfir. Fiskur er veiddur ódýrar á Íslandi og vín ræktað ódýrar í Síle en víða annars staðar, og aðrir jarðarbúar njóta þess síðan í frjálsum alþjóðaviðskiptum.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 29. febrúar 2020.)

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 22.2.2020 - 09:13 - Rita ummæli

Bastiat og brotni askurinn

Fyrir viku rakti ég hér hina snjöllu dæmisögu franska rithöfundarins Frédérics Bastiats um brotnu rúðuna, en hana notaði hann til skýra, hvers vegna eyðilegging verðmæta gæti ekki örvað atvinnulífið, eins og sumir héldu fram. Fyrsta íslenska hagfræðiritið, Auðfræði Arnljóts Ólafssonar, sem kom út árið 1880, var að miklu leyti samið upp úr ritum Bastiats, og í Ísafold 25. september 1880 birtist þessi dæmisaga Bastiats staðfærð.

Það fauk í Jón gamla Jónsson, þegar óþekktaranginn sonur hans braut askinn sinn. En nærstaddir hlógu að Jóni og hugguðu hann með því, að peningarnir gengju ekki úr landinu. „Nú fær askasmiðurinn eitthvað að gera. Allir þurfa einhverja atvinnu, og hvað á að verða af askatrénu, sem rekur á Skaganum, ef hann má ekki smíða neitt úr því?“

Þessir viðmælendur Jóns höfðu hins vegar rangt fyrir sér, að sögn Ísafoldar. Ef tvær krónur kostar að smíða nýjan ask, þá segja þeir, að innanlandsiðnaðurinn hafi grætt þá upphæð. Þetta er rétt. Smiðurinn kemur, fær þessar tvær krónur og blessar í huganum drenginn. Þetta sjáum við.

En það, sem við sjáum ekki, er, að Jón gamli hefði getað notað þessar tvær krónur í eitthvað annað, til dæmis folaldaskinn. Hefði sonur hans ekki brotið askinn, þá hefði Jón gamli notið hvors tveggja, asksins og folaldaskinnsins. Hann sjálfur og um leið heildin hefur tapað því sem nemur andvirði asksins, tveimur krónum. Innanlandsiðnaðurinn hefur ekki „neinn hag á því, að askar séu brotnir eða keröldin í búrinu séu mölvuð“. Jón hefði keypt folaldaskinnið fyrir krónurnar tvær.

Í Ísafold er dregin af þessu almenn ályktun: „Mannfélagið bíður skaða af öllum þeim hlutum, sem eru ónýttir til einskis. Þessi sannleikur, sem mun skelfa verndunartollamennina, hljóðar svo: að brjóta, bramla og eyða er ekki það sama og að hvetja alþýðu til nýrra starfa, í stuttu máli: eyðing er ekki ábati.“

Boðskapur Bastiats og lærisveins hans á Ísafold var einfaldur og á enn við: Þegar til langs tíma er litið, verður atvinnulífið ekki örvað með verndartollum eða opinberum styrkjum, heldur með því að leysa úr læðingi krafta einstaklinganna og kosti alþjóðlegrar verkaskiptingar.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 22. febrúar 2020.)

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 15.2.2020 - 12:41 - Rita ummæli

Bastiat og brotna rúðan

Franski rithöfundurinn Frédéric Bastiat er einn snjallasti talsmaður viðskiptafrelsis fyrr og síðar. Ein ritgerð hans heitir „Það, sem við sjáum, og það, sem við sjáum ekki“. Þar bendir hann á, að athafnir okkar hafa margvíslegar afleiðingar. Ein er strax sýnileg, en aðrar koma síðar fram og dyljast mörgum, en aðalsmerki góðs hagfræðings er að leiða þær líka í ljós.

Bastiat segir dæmisögu máli sínu til stuðnings. Óknyttadrengur brýtur rúðu, og áhorfendur reyna að sefa reiðan föður hans: „Slys eins og þessi knýja áfram framleiðsluna. Allir verða að lifa. Hvað yrði um glerskera, ef aldrei væru brotnar rúður?“ Þessi rök eru ógild, segir Bastiat. Það er rétt, ef sex franka kostar að gera við gluggann, að þeir renna þá til glerskurðar og örva þá iðn. Þetta sjáum við. En það, sem við sjáum ekki, er, að faðir drengsins getur nú ekki notað þessa sex franka til að kaupa sér skó. Heildarniðurstaðan virðist vera, að glerskurður hafi verið örvaður um sem nemur sex frönkum, en aðrar atvinnugreinar misst af hvatningu sem nemur sömu upphæð.

En ávinningur glerskeranna bætir ekki upp tapið fyrir aðrar atvinnugreinar. Nú eyðir faðirinn sex frönkum í að gera við gluggann og nýtur hans síðan eins og hann gerði áður. En hefði slysið ekki orðið, þá hefði hann notað sex franka til að kaupa sér skó og hefði eftir það notið hvors tveggja, rúðunnar og skónna. Heildin hefur tapað því sem nemur verðmæti brotnu rúðunnar.

Í ritgerðinni notar Bastiat margar fleiri dæmisögur til að leiða í ljós, að heildin tapar alltaf á eyðileggingu verðmæta. Enn gera þó sumir þær hugsunarvillur, sem Bastiat bendir á. Nóbelsverðlaunahafinn Paul Krugman sagði til dæmis í bloggi sínu 14. september 2001, að hryðjuverkaárásin á tvíburaturnana nokkrum dögum áður gæti örvað atvinnulífið, „ef fólk flykkist út í búð og kaupir vatn í flöskum og niðursuðuvöru“. Og 15. mars 2011 sagði Krugman, að nýlegt kjarnorkuslys í Fukushima gæti örvað alþjóðahagkerfið, enda hefði seinni heimsstyrjöld bundið endi á heimskreppuna!

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 15. febrúar 2020.)

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 8.2.2020 - 10:02 - Rita ummæli

Frá Íslandi til Auschwitz

Þess var minnst á dögunum, að 75 ár eru frá því, að Rauði herinn hrakti þýska nasista úr útrýmingarbúðunum í Auschwitz. Ég var hins vegar hissa á því, að enginn gat um, hvernig Ísland tengdist búðunum. Árið 1934 kom þýsk gyðingakona, Henný Goldstein, til Íslands með ungan son sinn, en hún hafði skilið við föður drengsins, Robert Goldstein, sem var eins og hún af ætt Davíðs. Hún gekk að eiga blaðamanninn Hendrik Ottósson og varð ásamt syni sínum íslenskur ríkisborgari.

Einn hálfbróðir Hennýar, Harry Rosenthal, slapp til Íslands ásamt konu sinni, en annar hálfbróðir hennar, Siegbert, varð eftir í Þýskalandi, af því að kona hans átti von á barni. Eftir að sonur þeirra fæddist, gerðu þau Hendrik og Henný allt, sem í þeirra valdi stóð, til að koma þeim þremur til Íslands. Tókst þeim að útvega þeim leyfi til að fara um Svíþjóð til Íslands. En þegar sænska sendiráðið í Berlín hafði samband árið 1943, greip það í tómt. Nokkrum vikum áður hafði þessi litla fjölskylda verið flutt í Auschwitz.

Þar voru kona Siegberts og sonur send í gasklefana, en Siegbert var eftir skamma hríð sendur í Natzweiler-Struthof fangabúðirnar skammt frá Strassborg, og þar voru gerðar á honum tilraunir á vegum svokallaðrar rannsóknarstofnunar nasista, „Ahnenerbe,“ en hann var síðan myrtur. Fundust bein hans og annarra fórnarlamba þessara tilrauna skömmu eftir stríð.

Robert Goldstein, fyrrverandi eiginmaður Hennýar, hafði flúið undan nasistum til Frakklands, en eftir hernám Frakklands var hann líka fluttur til Auschwitz og myrtur.

Ég fékk aðgang að skjalasafni Hennýar Goldstein-Ottósson og aflaði mér margvíslegra annarra upplýsinga, þar á meðal úr skjalasöfnum hér og erlendis og frá þýskum fræðimanni, sem hafði rannsakað út í hörgul beinafundinn í Natzweiler-Struthof búðunum. Lagði ég mikla vinnu í að skrifa um þetta rækilega ritgerð, sem ég sendi Skírni til birtingar. Ritstjóri tímaritsins, Halldór Guðmundsson, hafnaði hins vegar ritgerðinni með óljósum rökum, en ég tel líklegast, að ákvörðun hans hafi ráðið, að vitanlega var þar á það minnst, að „Ahnenerbe“ hafði talsverð umsvif á Íslandi og styrkti hér nokkra þýska fræðimenn. Varð nokkurt uppnám í sextugsafmæli Brynjólfs Bjarnasonar 1958, þegar Henný Goldstein-Ottósson rakst á einn þessara styrkþega, Bruno Kress, sem hafði verið æstur nasisti á Íslandi fyrir stríð, en gerst kommúnisti í Austur-Þýskalandi eftir stríð. Ritgerð mín birtist síðan í Þjóðmálum árið 2012.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 8. febrúar 2020. Myndin er af Henný Goldstein-Ottósson, sem missti barnsföður sinn, mágkonu og bróðurson í Auschwitz og bróður í Natzweiler-Struthof.)

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 7.2.2020 - 00:18 - Rita ummæli

Rannsóknarskýrsla mín fyrir árið 2019

Ég var að taka saman rannsóknarskýrslu mína fyrir 2019, sem Háskólinn krefur okkur prófessora jafnan um. Afköstin voru minni en venjulega, vegna þess að ég varð fyrir alvarlegu slysi í júní og lá í margar vikur og hafði ekki hátt um. Hér fer ég eftir flokkun Háskólans, þótt hún sé um margt kynleg:

A2.2 Innlend ritrýnd útgáfa með alþjóðlega skírskotun

The Saga of Gudrid: The Icelandic Discovery of America. Reykjavík: Almenna bókafélagið 2019. 54 bls.

A4.1 Grein birt í fræðilegu alþjóðlegu tímariti

Nordic Pioneers of Liberal Thought: Snorri Sturluson. Svensk Tidskrift 1 November 2019.

Nordic Pioneers of Liberal Thought: Anders Chydenius. Svensk Tidskrift 8 November 2019.

Redistribution in Theory and Practice: A Critique of Rawls and Piketty. Journal des Économistes et des Études Humaines, Vol. 25, No. 1. [Journal des conomistes et des tudes Humaines] Redistribution in Theory and Practice A Critique of Rawls and Piketty

A4.4 Grein birt í tímariti

Hugsuðir jafnaðarstefnunnar: John Rawls. Þjóðmál, 15. árg. 1. tbl. 2019, bls. 44–52.

Hugsuðir jafnaðarstefnunnar: Thomas Piketty. Þjóðmál, 15. árg. 2. tbl. 2019, bls. 36–41.

Brazilian free trade: challenges and opportunities. 1828 (December 2019); endurpr. IFT (December 2019).

A5.1 Grein birt í ráðstefnuriti

The Voices of the Victims: How to Make Them Heard, Dark Side of the Moon II: Confrontations and Reflections 20 Years Later. International Conference in Ljubljana and Bled 13–15 November 2018. Eds. Damjan Hancic and Mia Drobnic. Ljubljana: Study Centre for National Reconciliation, 2019, pp. 70–75.

A6.3 Erindi á alþjóðlegri ráðstefnu

How Offshore Fisheries Can Be Both Sustainable and Profitable. International Conference on the Blue Economy. Gdansk 22 March 2019.

Nordic Liberalism. International Conference of APEE, Association of Private Enterprise Education, Paradise Island, The Bahamas, 6 April 2019.

Nordic Capitalism. Free Market Road Show, organised by the Austrian Economics Centre. Thessaloniki, 6 May 2019, Athens 7 May, London 9 May, Stockholm 10 May.

Green Capitalism. Freedomfest, Las Vegas, 17 July 2019.

The Nordic Models. Contribution to a Panel on World Income Distribution, led by Professor James Gwartney. Freedomfest, Las Vegas 17 July 2019.

Is it Better to Be Small? International Summer University in Political Economy, Aix-en-Provence, 19 August 2019.

Green Capitalism. International Summer University in Political Economy, Aix-en-Provence, 21 August 2019.

Green Capitalism. Erindi á ráðstefnu Students for Liberty Iceland og American Institute for Economic Research í Kópavogi 6. september 2019.

Should Ukraine Join the EEA? Iceland’s Experience. ECR Liberty Forum. Kyiv 7–10 November 2019.
The Mengerian Roots of Hayek’s Conservative Liberalism. Conference on Austrian Economics. Vienna 13–14 November 2019.
Jan Valtin in Iceland. International Conference on Jan Valtin. University of Poitiers 14–15 November 2019.
Green Capitalism. Fyrirlestur á ráðstefnunni Weekend Kapitalizmu 2019, Varsjá 24. nóvember 2019.

A6.5 Erindi á fræðilegu málþingi eða málstofu

Alræðisstefna. Málstofa ásamt dr. Stefáni Snævarr heimspekiprófessor. Stofnun stjórnsýslufræða og stjórnmála og Rannsóknarsetur um nýsköpun og hagvöxt. Háskóli Íslands 17. maí 2019.

Örlæti á annarra fé: Rawls og Piketty. Erindi á sumarskóla frjálslyndra framhaldsskólanema í Kópavogi 1. júní 2019.

A8.1 Skýrslur

24 Conservative-Liberal Thinkers, Part I. Brussels: New Direction, 2019. 120 bls.

A8.2 Ritdómar

Norski seðlabankastjórinn segir frá. Ritdómur um bókina Í víglínu íslenskra fjármála eftir Svein Harald Øygard. Morgunblaðið 30. nóvember 2019, bls. 52. HHG.Ritdomur.Mbl.30.11.2019

D6 Fræðsluefni fyrir almenning: Erindi

Hagrænn hvati og umhverfismál. Erindi á fundi Landssambands sjálfstæðiskvenna 30. október 2019.

Snorri Sturluson og fleiri rannsóknarefni mín þessa dagana. Erindi á fundi Rótarýklúbbs Grafarvogs 30. október 2019.

D6 Fræðsluefni fyrir almenning: Blaðagreinar

Styrkjasnillingur svarar samningaglóp. Morgunblaðið 21. mars 2019. HHG.Styrkjasnillingur.Mbl.21.03.2019

D6 Fræðsluefni fyrir almenning: Fróðleiksmolar í Morgunblaðinu

Það bar hæst árið 2018. 5. janúar 2019.

Löstur er ekki glæpur. 12. janúar 2019.

Faðir velferðarríkisins. 19. janúar 2019.

Niður með fjöllin? 26. janúar 2019.

Ragnar Árnason. 2. febrúar 2019.

Brjóstmyndin af Brynjólfi. 9. febrúar 2019.

Rawls og Piketty. 16. febrúar 2019.

Rawls og Piketty (2). 23. febrúar 2019.

Rawls og Piketty (3). 2. mars 2019.

Rawls og Piketty (4). 9. mars 2019.

Frá Márusarlandi. 16. mars 2019.

Ólík örlög tveggja þjóða. 23. mars 2019.

Tvær eyjar í hitabeltinu. 30. mars 2019.

Sænsku leiðirnar þrjár. 6. apríl 2019.

Sósíalismi í einu landi. 13. apríl 2019.

Piketty: Er velmegun af hinu illa? 20. apríl 2019.

Piketty: Tómlæti um fátækt. 27. apríl 2019.

Piketty um borð í Titanic. 4. maí 2019.

Piketty, auður og erfðir. 11. maí 2019.

Auðnum fórnað fyrir ástríður. 18. maí 2019.

Talnameðferð Pikettys. 1. júní 2019.

Upp koma svik um síðir. 8. júní 2019.

Stoltenberg, Hallvarður gullskór og Loðinn Leppur. 15. júní 2019.

Hvern hefði það skaðað? 22. júní 2019.

Söguleg epli. 29. júní 2019.

Ásgeir Pétursson. 6. júlí 2019.

Ekki er allt sem sýnist. 13. júlí 2019.

Grænn kapítalismi í Las Vegas. 20. júlí 2019.

Bláa hagkerfið í Gdansk. 27. júlí 2019.

Frá Gimli á Grynningum. 3. ágúst 2019.

Tvær gátur Njáls sögu. 10. ágúst 2019.

Hænurnar 97. 17. ágúst 2019.

23. ágúst 1939. 24. ágúst 2019.

Falsfréttir um regnskóga. 31. ágúst 2019.

Bandaríkin ERU fjölbreytileiki. 7. september 2019.

Þegar kóngur móðgaði Jónas. 14. september 2019.

Góð saga er alltaf sönn. 21. september 2019.

Utanríkisstefna Hannesar, Ólafs og Snorra. 28. september 2019.

Stjórnmálahugmyndir Snorra Sturlusonar. 5. október 2019.

Hvers vegna skrifaði Snorri? 12. október 2019.

Hinn kosturinn árið 1262. 19. október 2019.

Sturla gegn Snorra. 26. október 2019.

Missagnir um Snorra. 2. nóvember 2019.

Við múrinn. 9. nóvember 2019.

Frá Kænugarði. 16. nóvember 2019.

Frá Vínarborg. 23. nóvember 2019.

Frá Poitiers. 30. nóvember 2019.

Milli Poitiers og Vínarborgar. 7. desember 2019.

Frá Varsjá. 14. desember 2019.

Til hvers eru kosningar? 21. desember 2019.

Hundur Rousseaus. 28. desember 2019.

D6 Fræðsluefni fyrir almenning: Viðtöl

Vinsælli á ensku. Viðtal við Fréttablaðið 27. mars 2019. HHG.Viðtal.27.03.2019

Viljum við eilífa æsku? Svar við spurningu. Morgunblaðið 28. desember 2019.

Flokkar: Óflokkað

Höfundur

Hannes Hólmsteinn Gissurarson er prófessor emeritus í stjórnmálafræði í Háskóla Íslands og hefur verið gistifræðimaður við fjölmarga erlenda háskóla, þar á meðal Stanford-háskóla og UCLA. Hann fæddist 1953, lauk doktorsprófi í stjórnmálafræði frá Oxford-háskóla 1985 og er höfundur fjölmargra bóka um stjórnmál, sögu og heimspeki á íslensku, ensku og sænsku.


Nýjustu bækur hans eru Twenty Four Conservative-Liberal Thinkers, sem hugveitan New Direction í Brüssel gaf út í tveimur bindum í árslok 2020, Bankahrunið 2008 og Communism in Iceland, sem Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands gaf út árið 2021, og Landsdómsmálið, sem Almenna bókafélagið gaf út í desember 2022. Hann hefur gefið út átta bókarlangar skýrslur á ensku. Sjö eru fyrir hugveituna New Direction í Brüssel: The Nordic Models og In Defence of Small States (2016); Lessons for Europe from the 2008 Icelandic Bank Collapse, Green Capitalism: How to Protect the Environment by Defining Property Rights og Voices of the Victims: Towards a Historiography of Anti-Communist Literature (2017); Why Conservatives Should Support the Free Market og Spending Other People’s Money: A Critique of Rawls, Piketty and Other Redistributionists (2018). Ein skýrslan er fyrir fjármálaráðuneytið, Foreign Factors in the 2008 Bank Collapse (2018). Hann er ritstjóri Safns til sögu kommúnismans, ritraðar Almenna bókafélagsins um alræðisstefnu, en nýjasta bókin í þeirri ritröð er Til varnar vestrænni menningu: Ræður sex rithöfunda 1950–1958. Árin 2017 og 2018 birtust eftir hann þrjár ritgerðir á ensku um frjálshyggju á Íslandi, Liberalism in Iceland in the Nineteenth and Twentieth Centuries, Anti-Liberal Narratives about Iceland 1991–2017 og Icelandic Liberalism and Its Critics: A Rejoinder to Stefan Olafsson.  

RSS straumur: RSS straumur

Nýlegar athugasemdir