Fimmtudagur 19.04.2012 - 18:51 - FB ummæli ()

Er sumarið kom yfir sæinn

Mynd af sólblómumÍ dag er sumardagurinn fyrsti. Ég vil óska öllum gleðilegs sumars.

Eftir langan veturinn er sólin farin að láta sjá sig og þrátt fyrir að enn sé kalt í lofti þá vitum við af reynslunni að nú mun hlýna, birtan aukast, túnin grænka og betri tíð bíður okkar með blóm í haga og langar heitar sumarnætur.

Á næstunni verður auðveldara að vera sólarmegin í lífinu. Það verður svo margt í umhverfinu sem léttir lund okkar, birtan, ylurinn, blómin, græna grasið, fríið, vorhimininn, útilegurnar og svona gæti ég lengi talið upp.

Ég man eftir því að hafa lesið sálfræðirannsóknir sem sýndu fram á það að fólki líður almennt betur á sólardögum en rigningardögum og viðhorf þess er jákvæðara. Veðrið virðist þannig hafa bein áhrif á lundina. Þessar rannsóknir koma mér ekki á óvart því mér finnst ég þekkja það á eigin skinni hvernig lundin verður oft þyngri þegar lægð liggur yfir en léttari þegar sólin skín sínu skærasta. Allt verður einhvern veginn léttara. Að mínu mati er það algengt hér á landi að það lifnar yfir mannskapnum þegar vorar, fólk sefur minna og gerir meira en þegar hausta tekur fer fólk aftur að sofa meira og gera minna. Þannig sveiflumst við með hækkandi og lækkandi sól og höfum kannski aðlagað okkur að staðháttum hér á landi.

Vonandi verður sumarið okkur gott. Það er samt ágætt að hafa það í huga að veðrinu getum við ekki stjórnað en við getum stjórnað okkur sjálfum. Við getum valið sól í hjarta óháð því hvernig veður og ytri aðstæður eru. Við getum stjórnað því hvaða hlið við snúum upp. Er það jákvæða hliðin eða er það neikvæða hliðin? Til þess að hjálpa jákvæðu hliðinni upp getum við t.d. valið okkur það að hefja og enda hvern dag á því að þakka fyrir eitthvað tiltekið atriði. Þannig beinum við sjónum að einhverju jákvæðu. Við getum líka valið það að þegar við kynnum okkur fyrir öðru fólki þá sýnum við fyrst jákvæðu hliðina en geymum hina til betri tíma. Sjálf tel ég báðar hliðar mikilvægar og hvorug geta án hinnar verið. Ef þú upplifir aldrei rigningardaga þá veistu ekki hversu yndislegir sólardagarnir eru.

Gleðilegt sumar 🙂

 

 

Flokkar: Lífið og tilveran

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Kristbjörg Þórisdóttir
er sálfræðingur með diplóma gráðu í fötlunarfræðum sem hefur mikinn áhuga á heilbrigðum lífsstíl, samfélaginu, umbótum og stjórnmálum
Vertu breytingin sem þú vilt sjá í heiminum (Mahatma Gandhi)

Kristbjörg er varaþingkona Framsóknarflokksins í Suðvesturkjördæmi
RSS straumur: RSS straumur