Laugardagur 29.06.2013 - 15:46 - FB ummæli ()

Hugleiðing um Hemma

Ég man eftir því að hafa hugsað það einn grámyglulegan föstudagsmorguninn í vor sem ég brosti og hló ein í bílnum að sprellinu og hlátrinum hans Hemma, Kollu og Heimis í Bítinu hvernig það yrði eiginlega ef Hemmi myndi falla frá. Ég gat einhvern veginn ekki hugsað mér það. Ég eins og margir landsmenn ólst upp með Hemma og finnst eins og ég hafi þekkt hann. Þekktir einstaklingar verða að mínu mati ákveðinn hluti af samfélagslegri menningu okkar og þegar þeir deyja þá verður ákveðin óumflýjanleg breyting. Áminning um að ekkert varir að eilífu og að við höfum ekki stjórn á lífsins dómi.

Ég hef verið að hugsa það síðan Hemmi lést hvers vegna einstaklingur sem ég þekkti ekki persónulega hefur hreyft svona við mér. Eitt af því sem ég held að hafi áhrif er að hann sýndi svo vel báðar hliðar lífsins eins og vel kom fram í minningarbrotum vina hans í þætti sem sýndur var á Rúv í gær. Hemmi sýndi bæði þessa taumlausu gleði sem er svo mikilvæg í lífinu og alvarleikann. Að geta hlegið innilega að fimmaurabröndurum, strítt og haft gaman af hverri einustu stund og leyft manni að hlæja með samhliða því að horfast í augu við alvarlegu augnablikin sem eru engu okkar óumflýjanleg.

Algengt er að við sýnum bara björtu hliðina eins og sjá má auðveldlega á samfélagsmiðlum þar sem við sýnum hvað við erum dugleg og hvað það er alltaf gaman en höldum erfiðu augnablikunum mestmegnis hjá okkur. Þannig held ég að Hemmi hafi náð til fólks persónulega af því hann minnti okkur á þessar tvær hliðar tilverunnar eins og hann sagði í síðustu færslu sinni á samskiptamiðlinum Facebook: „Hér skullu á miklar þrumur og eldingar í nótt, mikið og skemmtilegt sjónarspil, en svo birtir alltaf til, eins og venjulega í lífinu sjálfu. Fer fljótlega að undirbúa heimferð og það verður ljúft að komast heim í hreiðrið sitt. Gerum þetta að góðum degi,“ (Hermann Gunnarsson). Blessuð sé minning Hemma.

Í lífinu skiptast á skin og skúrir og sorgin og gleðin eru systur eins og Kahlil Gibran orti um í Spámanninum:

Sorgin er gríma gleðinnar.

Og lindin, sem er uppspretta gleðinnar,

var oft full af tárum.

Og hvernig ætti það öðruvísi að vera?

Þeim mun dýrpa sem sorgin grefur sig í

hjarta manns, þeim mun meiri gleði getur það rúmað.

En ég segi þér, sorgin og gleðin ferðast

saman að húsi þínu, og þegar önnur situr við

borð þitt sefur hin í rúmi þínu.

(Spámaðurinn, Kahlil Gibran)

Flokkar: Lífið og tilveran

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Kristbjörg Þórisdóttir
er sálfræðingur með diplóma gráðu í fötlunarfræðum sem hefur mikinn áhuga á heilbrigðum lífsstíl, samfélaginu, umbótum og stjórnmálum
Vertu breytingin sem þú vilt sjá í heiminum (Mahatma Gandhi)

Kristbjörg er varaþingkona Framsóknarflokksins í Suðvesturkjördæmi
RSS straumur: RSS straumur