Þriðjudagur 30.07.2013 - 01:10 - FB ummæli ()

Að eltast við regnboga

Mynd af regnbogaAf hverju eltumst við stundum við regnboga, reynum að finna endann á honum og gullkistuna sem þar á að vera grafin í stað þess að njóta þess að vera hér og nú og baða okkur frekar í sólargeislunum og regninu sem mynda regnbogann?

Við erum stundum svo upptekin við að hlaupa á eftir væntingum okkar um ókomna framtíð eða missum hugann tilbaka í liðna fortíð að við glötum augnablikinu sem líður framhjá á sama tíma. Einu sinni heyrði ég því fleygt að ef við erum með annan fótinn í fortíðinni en hinn í framtíðinni þá pissum við á núið. Nokkuð til í því. Ég er líka hrifin af spakmælum sem segja á ensku: It´s the journey, not the destination og Today is the rest of your life. Bæði beina þau okkur að því að njóta þess sem er hér og nú.

Hver og einn hefur líklega sína reynslu um það hvernig hann lifir í fortíðinni eða ókominni framtíðinni og missir af núinu. Sumum gengur betur en öðrum að vera í núinu. Ég þekki það til dæmis sem einhleyp kona að hafa verið á skemmtilegum mannamótum og stundum eytt mestri af minni orku í þann karlmann sem hefur verið í sigtinu á hverjum tíma í stað þess að njóta augnabliksins með því stórkostlega fólki sem ég hef verið með og þeirrar upplifunar sem er í boði.

Svona geta tilfinningarnar og væntingar tekið yfir rökhugsunina og raunveruleikann. Það er skrýtið að hitta svo aðila sem hefur átt hug manns allan aftur á mannamóti og upplifa að allt í einu skiptir viðkomandi mann litlu sem engu máli. Manneskjan sem varð öðru yfirsterkara og maður forgangsraðaði fram fyrir allt annað og fórnaði öðru fyrir er orðin að ljúfri eða ljúfsárri minningu. Orðin að einstaklingi sem maður heilsar en ekki mikið meira. Það er svolítið vont að hugsa til þeirrar upplifunar og augnablika sem maður hefur misst af í gegnum tíðina vegna þess að maður var að eltast við regnboga. Stundum hefur fórnarkostnaðurinn verið hár. Í ástamálum leggjum við oft allt undir, erum tilbúin að fórna nánast öllu fyrir von og þrá um hamingjuna.

Eini hesturinn sem við getum raunverulega veðjað á að færi okkur hamingju erum við sjálf. Það er mun vænlegra til árangurs að veðja á sjálfan sig og njóta þeirra gjafa sem hvert augnablik færir okkur, njóta sólargeislanna sem umlykja okkur, regnsins sem rennur niður kinnarnar og gimsteinanna sem við eigum í fólkinu sem er í kringum okkur en að veðja á gullkistuna sem við höldum að bíði okkar handan við hornið ef bara þetta eða hitt…

Hamingjan er hér og nú og hún liggur innra með þér, undir þínum regnboga.

 

 

Flokkar: Lífið og tilveran

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Kristbjörg Þórisdóttir
er sálfræðingur með diplóma gráðu í fötlunarfræðum sem hefur mikinn áhuga á heilbrigðum lífsstíl, samfélaginu, umbótum og stjórnmálum
Vertu breytingin sem þú vilt sjá í heiminum (Mahatma Gandhi)

Kristbjörg er varaþingkona Framsóknarflokksins í Suðvesturkjördæmi
RSS straumur: RSS straumur