Sunnudagur 22.12.2013 - 03:10 - FB ummæli ()

Jólahugleiðingar

Langaði að deila með ykkur nokkrum jólahugleiðingum. Farið varlega í jólaösinni kæru vinir og njótið augnabliksins :).

Almennt um jólin

Rifja upp jólaminningar úr æsku eða velta fyrir sér hvernig myndi ég vilja hafa jólin ef þetta væru mín síðustu jól – hvað væri ég að gera, með hverjum væri ég oþh. Jólin eru tækifæri til þess að sýna þakklæti og tjá ást með gjöfum, kortum, með því að setja ljós á leiði ættingja og ýmsum öðrum leiðum. Ef jólin voru almennt erfiður tími fyrir þig sem barn þá er spurning hvort þú getir tekið eitthvað af því upp úr bakpokanum og skilið eftir en haldið góðu minningunum eftir í pokanum og heiðrað þær og búið þér svo til þínar góðu jólahefðir og minningar á fullorðinsárum. Í dag er fyrsti dagur þess sem þú átt ólifað. Jólin veita nýja von og vilyrði um nýja tíma.

Veltu því fyrir þér hvað jólin þýða fyrir þig persónulega. Jólahald er jafn margbreytilegt og við erum mörg og það getur enginn sagt hvernig best sé að halda jólin nema hver og einn fyrir sjálfan sig. Virðum líka að aðrir hafa aðrar skoðanir en maður sjálfur um jólahaldið. Gott að velta fyrir sér hvaða minningar úr eigin æsku eru dýmætastar. Auglýsingar geta seint sagt þér hvernig þú átt að halda jólin og varastu orð eins og verð, þarf, alltaf, aldrei…

Mikilvægt fyrir pör og ungar fjölskyldur að móta smám saman eigin jólahefðir, gera málamiðlanir þar sem það mikilvægasta fyrir hvorn aðila fær að njóta sín.

Undirbúningur jólanna

Forðast að gera sér óraunhæfar væntingar t.d. varðandi sjálfan sig, útlit, líðan, gjafir, matinn, hvernig maður sjálfur eða aðrir séu. Muna að maður hefur bara stjórn á sjálfum sér, hvað maður sjálfur hugsar og gerir en ekki öðrum. Hver og einn ber ábyrgð á sér.

Vera raunsær varðandi undirbúning, ólíklegt að við höfum tíma eða fjármagn til að kaupa eða framkvæma allt sem við helst vildum. Forgangsraða. Spyrja sjálfan sig, hvað má missa sín? Hvort skiptir meira máli að taka skápana eða upplifa jólastemminguna með barninu mínu?

Forðast að gera smámuni að aðalatriði jólanna. Ekki örvænta þó að ekki náist að bóna gólfin, skrifa jólakortin eða þó að sósan sé ekki fullkomin. Jólin munu ekki sniðganga húsið þitt þó allt sé ekki fullkomið. Ef kvíðinn sækir á er gott að velta fyrir sér hvað sé það versta sem geti gerst og hvað sé líklegast að gerist. Einnig hvernig maður myndi hvetja besta vin/vinkonu áfram og nota það á sjálfan sig. Muna líka eftir húmornum sem er beitt vopn í mörgum aðstæðum. Ég setti t.d. einu sinni hráa steik á jólaborðið og allir fjölskyldumeðlimir lifðu það af og þó það hafi verið leiðinlegt þá gerðist ekkert hræðilegt. Það má líka gera mistök á jólunum.

Gott að byrja snemma að undirbúa og búta verkefnið niður. Mikilvægt að allir hjálpist að. Til dæmis gæti það verið uppskrift að spennu ef einn fjölskyldumeðlimur er heima yfir pottunum og mörgum óloknum verkum á meðan aðrir sitja fastir í umferð að útrétta á síðustu stundu. Vont að upplifa sig einan með allt á herðunum og gæta þess að koma sér ekki í stöðu sem maður er ósáttur með. Það gæti endað með því að maður er pirraður heima og svo koma hinir fjölskyldumeðlimirnir heim fullir eftirvæntingu af stemningunni og þá gæti orðið árekstur.

Skrifa lista yfir allt sem maður vill gera og byrja strax á því að strika helminginn út. Hvað er það sem skiptir mestu máli? Hvort skiptir meira máli að þrífa langt fram á nótt eða vera úthvíldur og njóta augnabliksins með fólkinu sínu?

Jólagjafir

Þegar maður kaupir gjafir er gott að velta því fyrir sér hver er manneskjan, hvað finnst henni fallegt, hvað langar henni í? Finna einstaklinginn í gjöfinni. Spyrja fólk jafnvel beint og fá óskalista. Það er hugurinn sem gildir en ekki stærð gjafarinnar eða verð. Fallegt kerti sem gefið er af mikilli ást og fegurð getur verið jafn dýrmæt gjöf og sigling í karabíska hafinu sem er gefin án gleði og með hroka. Hverjar eru hugsanirnar og tilfinningarnar í gjöfinni? Ef maður er mjög illa staddur fjárhagslega þá er hægt að búa til mjög fallegar gjafir til dæmis ef maður hefur gert sultu og setja þær í fallega krukku, föndra fallegar gjafir, setja smákökur í box, búa til kerti eða senda viðkomandi falleg orð á blaði eða í korti.

Líðan á jólum og njóta jólanna

Jólin eru full af töfrandi augnablikum sem bíða þess bara að við grípum þau og opnum hjartað fyrir þeim. Jólin bjóða svo vel upp á það að lifa í augnablikinu. Njóta hvers munnbita í stað þess að gleypa í sig matinn án umhugsunar. Virkja öll skynfærin. Horfa á fegurðina í skrautinu, loftinu, snjónum, hverju öðru, himninum, trjánum í göngutúr, kertaljósinu. Finna lyktina af góða matnum, kökunum… Hlusta á fallegu jólatónlistina. Konfekt fyrir öll skynfærin sem vonandi sem allra flestir geta notið. Njóta þess sem maður hefur í stað þess að velta því fyrir sér hvað maður hefur ekki. Velta því fyrir sér í huganum hvað maður geti verið þakklátur fyrir.

Erfiður tími fyrir marga og mikilvægt að hugsa um náungann á jólum. Vont að vita til þess að það sé til fólk sem er svangt og fær ekki gjafir á jólunum. Jafnframt ótrúlegt að finna hvað fólk getur sýnt sínar allra bestu hliðar við að hjálpast að um jól. Muna bara að ef allir sýna kærleika þá verður jólahátíðin svo miklu betri fyrir flesta og mikilvægt að sýna umburðarlyndi því við vitum aldrei alveg hvað annað fólk er að ganga í gegnum. Einnig mikilvægt ef maður er í miklum vanda að reyna að biðja um hjálp treysti maður sér til þess. Mikilvægt að vera góð hvert við annað, ef við sýnum öðru fólki almennt kurteisi, virðingu og kærleika þá er líklegt að við uppskerum það og allt gengur betur. Það er svo gaman að sjá hvað heimurinn getur verið fullur af ást eins og að upplifa gleðina sem við finnum fyrir við sérstök tilefni, þéttu faðmlögin sem við gefum hverju öðru þegar við höfum ekki hist lengi, kveðjumst og svo framvegis. Það er kjarni hins sanna jólaanda, gleðin sem býr innra með okkur sjálfum, kærleikurinn og sáttin við lífið og tilveruna.

Jólin eru fyrst og fremst hátíð barnanna og því er mikilvægt að muna að því betur sem okkur fullorðna fólkinu líður því meiri líkur eru á að skapa einlægar og ánægjulegar gleðiminningar fyrir þau. Ef við erum þrúguð af streitu og kvíða vegna væntinga og krafna sem við getum ekki staðið undir þá er ekki mikið rými fyrir jólaandann að koma fram. Að sama skapi er ekki vænlegt að neyta áfengis í óhófi, sérstaklega ekki ef börn eru á heimilinu því það mun ekki skilja eftir sig góðar minningar fyrir þau.

Mikilvægt að muna að þetta eru jólin ykkar og þau snúast um að gera það sem færir ykkur gleði. Mæli ekki með 10 jólaboðum ef þið hafið ekkert gaman af því. Hver er ég og hvað veitir mér gleði?

Halda almennri rútínu upp að ákveðnu marki. Fara í göngutúra eða finna aðra leið til að hreyfa sig, borða venjulegan og hollari mat inn á milli og gæta þess að snúa sólarhringnum ekki alveg við þó maður vaki kannski aðeins lengur einhver kvöld. Það hentar börnum t.d. ekki vel ef rútínan fer öll úr skorðum og er ekki líklegt til að skapa neinum vellíðan.

Jólin sem tímamót

Gott að nota þessi tímamót til þess að líta yfir farinn veg. Hvert er ég komin í ævigöngu minni, hvað var að gerast á árinu sem er að líða, hvert langar mig að fara í framtíðinni og hvað vil ég gera á næsta ári til þess að nálgast það markmið (Vilborg Arna frábært dæmi um slíkan árangur). Hvernig get ég verið besta útgáfan af mér og breytingin sem ég vil sjá í heiminum?

Þakklætið er líka mikilvægt. Það er ekki sjálfgefið að við fáum að njóta jólanna og ekki sjálfgefið heldur að við fáum að njóta þeirra með þeim sem við elskum. Ef við getum það þá er það stór gjöf.

Að lokum

Jólaandinn liggur innra með þér. Hefur alltaf verið það og mun alltaf vera hjá þér. Hleyptu honum fram. Allt umstangið er eins og fallegur gjafapappír um hina sönnu hátíð ljóss og friðar. Jólin snúast um þig og þína og þau koma með þér og þínum. Fyrir mér snúast þau um hinn djúpa frið, innilegu gleðina og kærleikann sem leggur allt yfir. Ég fyllist þakklæti yfir því að fá að vera til. Fyrir mér koma jólin þegar ég hef farið í kirkjugarðinn og séð öll fallegu ljósin og andað að mér eftirvæntingunni á aðfangadag en fyrir aðra er það kannski að heyra þegar útvarp Reykjavíkur býður gleðileg jól eða þegar hringt er inn í messu.

Flokkar: Lífið og tilveran

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Kristbjörg Þórisdóttir
er sálfræðingur með diplóma gráðu í fötlunarfræðum sem hefur mikinn áhuga á heilbrigðum lífsstíl, samfélaginu, umbótum og stjórnmálum
Vertu breytingin sem þú vilt sjá í heiminum (Mahatma Gandhi)

Kristbjörg er varaþingkona Framsóknarflokksins í Suðvesturkjördæmi
RSS straumur: RSS straumur