Mánudagur 30.12.2013 - 22:08 - FB ummæli ()

Við áramót

Mynd af flugeld við Jökulsárlón

Mynd eftir Karl Valgeir

Við áramót er gott að láta hugann reika aðeins. Skoða árið sem nú er að renna sitt skeið og velta því fyrir sér hvert maður stefni. Það er bæði gott að skoða smáu atriðin en líka stóru heildarmyndina. Hver er ég? Hvernig hefur líf mitt verið? Hvað hefur markað mig? Hvað hefur gefið mér reynslu? Er ég á þeirri leið sem ég vil vera á? Hvað myndi ég vilja upplifa í lífinu? Það er hollt að leyfa svona spurningum að vafra um hugann. Einnig er gott að ákveða hvað það er sem maður vill skilja eftir við lífsveginn og hvað það er sem maður vill taka með sér t.d. minningar og reynslu.

Þegar ég velti árinu fyrir mér persónulega þá er ég bara nokkuð sátt við það. Árið mitt hefur einkennst af mikilli vinnu bæði í faginu mínu, við það að láta hugsjónir mínar rætast og upplifa skemmtilegar persónulegar stundir. Ég hélt m.a. upp á afmælið mitt með góðri afmælisveislu, fór á ættarmót í stórustu ætt í heimi, gerði margt skemmtilegt með fabjúlös, keyrði hringinn í skottúr með yndislegri vinkonu og fékk frábærar mótttökur góðra vina vítt og breitt um landið, labbaði frá Landamannalaugum í Skóga með allt á bakinu með öflugu systu minni, var stungin af geitungi í fyrsta sinn, eignaðist litla yndislega frænku, var viðstödd fermingu litla frænda, stórgræddi í Bingó í Vinabæ, féll fyrir jóga, tók í fyrsta skipti þátt í sjónvarpsþætti og átti ómetanlegar stundir með fjölskyldu og vinum. Í haust voru verkefnin æði mörg og sennilega þörf á að endurskoða einhver þeirra en það erfiða er að þau eru nánast öll hvert öðru áhugaverðara… Það er verkefni nýs árs. Einhvern veginn hefur einkalífið líka orðið svolítið út undan og eitthvað þarf ég að bæta úr því… þar sem það skiptir meira máli en framinn að mínu mati. Það er ekki hægt að gera allt í einu!

Heilt yfir held ég að íslenska þjóðin sé á réttri leið. Þungri byrði var af okkur létt þegar niðurstaða féll í Icesave. Það var vel verðskulduð sigurstund. Frá því nýtt þing tók við hafa nýir stjórnendur verið að máta sig inn í hlutverkin og gengur það auðvitað jafn misjafnlega og þau eru mörg en sennilega er hægt að segja að allir séu að gera eins vel og þeir geti þó við séum mis sammála fólki. Í haust kom svo önnur sigurstund þegar langþráðar tillögur til skuldaleiðréttingar voru kynntar þjóðinni. Löngu tímabær réttlætisaðgerð leit dagsins ljós. Aðgerð sem á bæði að geta skapað ákveðna sátt en líka hvatt fólk áfram til góðra verka. Þjóðarskútan er þung og drekkhlaðin skuldum um þessar mundir og það mun að mínu mati áfram reyna verulega á hana á næsta ári og hrikta í grunnstoðum okkar samfélags. Nýja ríkisstjórnin þarf að vera kjörkuð og vinna áfram að því meginmarkmiði að á Íslandi eigi allir að geta haft það gott. Misskipting auðsins hér er óeðlileg og einnig þarf að gæta þess að kasta ekki krónunni fyrir aurinn. Ekki redda sér fyrir horn með aðgerðum sem verður ekki hægt að vinda ofan af eða blóðugum fórnum t.d. á náttúruauðlindum eða skorti á forvörnum. Já svo voru það allir þessir lekar, þeir endurspegla kannski margbreytileikann eins og margt annað.

Ég fann það svo vel í sumar hvað Ísland er einstakt og stórkostlegt land. Náttúran hér er engu lík. Hún líkist helst Himalayafjöllunum ef ég get borið hana saman við þá staði sem ég hef ferðast um. Þetta vita ferðamennirnir sem hér streyma stanslaust að. Það skrýtna var að þegar við gengum Laugaveginn í sumar þá hittum við nánast enga Íslendinga en útlendingarnir gerðu ráð fyrir að hver einasti Íslendingur hlyti að hafa labbað þessa mögnuðu leið! Við þurfum því að passa vel upp á stóra gulleggið okkar og láta ekki skammtíma gróðasjónarmið ráða för.

Þegar allt er dregið saman þá held ég að það sé gott að lifa frá augnabliki til augnabliks en með skýra sýn á hvert maður stefni með reynsluna í farteskinu. Framkvæma meira og tala minna. Hafa það að leiðarljósi að lifa daginn eins og hann sé sá síðasti og vera þakklátur fyrir það sem maður hefur en spá minna í það sem maður hefur ekki. Muna svo að: „Við fáum aðeins eitt aðalhlutverk um ævina og það er að vera við sjálf. Reynum að vera langbesta eintakið af okkur sjálfum“ ók. höf

Nú er best að láta staðar numið við pistilinn svo þið verðið ekki fram á þarnæsta ár að lesa hann ;). Eigið yndisleg áramót kæru vinir umvafin vinum og ættingjum, ljósi og friði og vonandi fara sem flestir inn í nýja árið fullir eftirvæntingar og ánægju.

Hátíðarkveðja,

Kristbjörg.

 

Flokkar: Lífið og tilveran

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Kristbjörg Þórisdóttir
er sálfræðingur með diplóma gráðu í fötlunarfræðum sem hefur mikinn áhuga á heilbrigðum lífsstíl, samfélaginu, umbótum og stjórnmálum
Vertu breytingin sem þú vilt sjá í heiminum (Mahatma Gandhi)

Kristbjörg er varaþingkona Framsóknarflokksins í Suðvesturkjördæmi
RSS straumur: RSS straumur