Þriðjudagur 21.01.2014 - 23:40 - FB ummæli ()

Ísland best í heimi – í geðlyfjanotkun

Fyrir nokkrum dögum var ég stödd á árlegri ráðstefnu Barna- og unglingageðdeildar. Á ráðstefnunni vakti Gísli Baldursson barna- og unglingageðlæknir máls á þeirri staðreynd að við erum best í heimi – í geðlyfjanotkun eins og sjá má á meðfylgjandi mynd sem er tekin úr skýrslu OECD, Healt at a glance frá 2013.

Antidepressants consumption 2000 and 2011

 

Eins og myndin sýnir þá vorum við að gefa 71 DDD (defined daily dose) á hverja 1000 íbúa árið 2000 en árið 2011 vorum við komin upp í 106. Meðaltal OECD ríkjanna var 31 árið 2000 og 56 árið 2011. Við erum nánast helmingi hærri!!!

Aukið aðgengi almennings að sálfræðimeðferð

Gísli var ekki að segja mér nýjar fréttir því ég hef haft áhuga á þessu málefni frá árinu 2008 þegar ég kynntist breskri hugmyndafræði sem gengur beinlínis út á það að auka aðgengi almennings að gagnreyndri sálfræðimeðferð (Improving Access to Psychological Therapies, IAPT). Bretarnir hafa reiknað það út að fjármagnið sem slík meðferð kostar skilar sér margfalt tilbaka í ríkissjóð og á meðan skilgreindum árangri er náð þá helst verkefnið inni á fjárlögum. Verkefnið hefur verið í gangi frá árinu 2006 og er einnig farið að teygja anga sína til annarra landa m.a. Norðurlandaþjóða.

Hugræn atferlismeðferð (HAM) er sú meðferð sem rannsóknir og klínískar leiðbeiningar segja okkur að við eigum ávallt að beita fyrst við kvíða og þunglyndi áður en boðið er upp á lyfjameðferð. Einnig er mikilvægt að bjóða upp á stuðning, ráðgjöf og fræðslu. Séu einkenni mjög alvarleg er stundum best að beita þessum leiðum samhliða. HAM er samtalsmeðferð sem gengur í meginatriðum út á það að læra hvernig hugsanir og hegðun hafa áhrif á tilfinningar og líkamleg einkenni. Í meðferðinni er veitt fræðsla og mikil áhersla lögð á heimavinnu og það að vinna með vandann eins og hann birtist í núinu og hvað viðheldur honum þrátt fyrir að kortlagning á hvaðan hann sé sprottinn fari fram í upphafi. Rannsóknir hafa bent til þess að HAM skili sambærilegum árangri og lyfjameðferð en jafnvel betri árangri til lengri tíma þar sem fólki versnar oft þegar það hættir að taka lyfin. Kollegi minn hefur lýst þessu á við það að takast á við sprungið dekk. Í hugrænni atferlismeðferð lærir þú að gera við dekkið en í lyfjameðferð ferðu á verkstæði þar sem skipt er um það fyrir þig. Þegar verkstæðisins nýtur ekki lengur við lendir þú í ógöngum hafir þú ekki lært að bjarga þér.

Kvíði, þunglyndi og annar tilfinningavandi er því miður mjög algengur hérlendis á öllum aldri og hefst oft strax á fyrstu æviárunum. Vandinn er að miklu leyti ógreindur og þar af leiðandi ómeðhöndlaður og hefur mikil áhrif á þann sem þjáist af honum og hans nánustu m.a. á getu til að sinna daglegu lífi, námi, starfi, uppeldishlutverki  og svo framvegis. Alvarlegasta afleiðing tilfinningavanda er sjálfsvíg. Þessi vandi hefur einnig miklar afleiðingar fyrir samfélagið þar sem hann eykur hættu á því að fólk veikist, falli út af vinnumarkaði, missi getu til náms eða starfs og lamar þannig samfélagslega virkni með tilheyrandi kostnaði og þjáningu. Fólk sem þjáist af ógreindum vanda er líklegra til þess að þurfa að nýta sér velferðarþjónustu ítrekað og leitar t.d. oftar á heilsugæslu vegna líkamlegra einkenna sem orsakast af vandanum.

Hvers vegna erum við best í heimi í lyfjameðferð?

Gísli hitti naglann á höfuðið þegar hann sagði að skýringin á þessu væri sennilega sú að fyrsta meðferð væri ekki til á Íslandi! Það sem hann á meðal annars við er að nánast ekkert aðgengi er að gagnreyndum meðferðum sálfræðinga og því þarf fólk að greiða slíka meðferð úr eigin vasa sem er uþb. 10-15 þúsund kr. tíminn á meðan lyfin eru að mestu niðurgreidd af ríkinu. Í þeim löndum sem við berum okkar saman við er miklu betra aðgengi að sálfræðimeðferð og farið að klínískum leiðbeiningum.

Hvers vegna höfum við talað um þetta í mörg ár, höfum rannsóknir, klínískar leiðbeiningar, óskir almennings og margþætt rök sem segja okkur að besta mögulega meðferð við kvíða og þunglyndi sé að byrja á gagnreyndri samtalsmeðferð en ekkert gerist? Hvers vegna sitjum við alltaf uppi með að geta bara boðið upp á lyfjameðferð og njóta þess vafasama heiðurs að eiga heimsmet í inntöku geðlyfja en ekkert gerist? Svo ekki sé nú talað um þann sparnað sem slík breyting myndi hafa í för með sér sem ég gæti líka skrifað langan pistil um.

Er ekki tímabært að fara að breyta geðheilbrigðiskerfinu okkur öllum til hagsbóta gott fólk?

Skora á ráðherra, þingmenn, fjölmiðlafólk, notendur, aðstandendur, heilbrigðisstarfsfólk og alla aðra áhugasama að leggja í þessa mikilvægu vegferð með okkur sem erum áhugasöm um þetta málefni og setja okkur það markmið að hafa stigið fyrsta skrefið í átt að þessari breytingu strax á þessu ári!

Ég vil setja það markmið að við séum búin að draga úr geðlyfjanotkun okkar um helming innan 10 ára niður að meðaltali OECD.

Til þess að ná því markmiði höfum við vel skilgreindar leiðir og aðgerðir til umbóta sem þarf einunigs að þróa og hrinda í framkvæmd. Það sem vantar er pólitískur vilji og vilji kerfisins sjálfs til breytinga og tilfærsla fjármagns innan kerfisins. Ég er afar bjartsýn á að við séum að stíga fyrstu skref til umbóta í ljósi stefnu beggja ríkisstjórnarflokkanna í þessum málum og þess áhuga sem er að vakna á þessu gríðarlega mikilvæga málefni sem varðar okkur öll.

Ísland best í heimi – í að veita bestu mögulegu meðferð við tilfinningavanda!

Flokkar: Lífið og tilveran · Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Kristbjörg Þórisdóttir
er sálfræðingur með diplóma gráðu í fötlunarfræðum sem hefur mikinn áhuga á heilbrigðum lífsstíl, samfélaginu, umbótum og stjórnmálum
Vertu breytingin sem þú vilt sjá í heiminum (Mahatma Gandhi)

Kristbjörg er varaþingkona Framsóknarflokksins í Suðvesturkjördæmi
RSS straumur: RSS straumur