Mánudagur 27.01.2014 - 16:48 - FB ummæli ()

Er Lalli heima?

Í síðustu viku var ég á námskeiði á vegum vinnunnar minnar um tölvufíkn og netnotkun barna. Námskeiðið hélt starfsmaður saft.is og Eyjólfur Örn Jónsson sálfræðingur.

Það var margt á þessu námskeiði sem mér þótti áhugavert og langaði að deila með ykkur.

Við gætum barnanna okkar í raunheimum en svo virðumst við jafnvel leyfa þeim að ráfa um í netheimum án eftirlits og án þess að kenna þeim nokkrar umferðarreglur. Heimi sem mörg okkar þekkja kannski bara brotabrot af sjálf. Netheimar eru eins og annar heimur bæði uppfullur af ýmsu góðu og gagnlegu en líka með svörtustu skúmaskot og rándýrum sem bíða þess að klófesta þann sem þeim tekst að tæla til sín. Eyjólfur sagði okkur að á hverju augnabliki væru 100 þúsund barnaníðingar á netinu.

Rafræn rándýr í netheimum segja barninu þínu að það sé einstakt, mikilvægt, elskað og bjóða því ýmis gylliboð. Það er ekki bara hægt að útiloka ákveðnar síður því þessi rándýr læðast inn hvar sem börn er að finna. Þau eru á Facebook, á Skype á spjallsvæðum leikja og þau hafa meðal annars farið inn á spjallsvæði leikja eins og Club Penguin. Þessi rándýr þykjast vera eins og börnin okkar, þykjast vera fræg persóna, jafnvel teiknimyndafígúra eða annað og ná þannig tengslum. Þegar þau hafa náð traustu sambandi nota þau aðferðir eins og að gefa gjafir eða fá barnið til þess að senda myndir eða video af sér. Eitthvað sem þau geta svo notað til þess að hóta barninu með síðar ef það vill rjúfa sambandið. Lokatakmarkið er svo stundum að fá barnið til að hitta sig. Svo langt hefur það gengið erlendis að þeir sögðu okkur frá stúlku sem var tæld frá Bretlandi til Bandaríkjanna. Ég hvet fólk til þess að horfa á myndina Trust því hún sýnir svolítið þessa aðferðafræði og er alveg mögnuð mynd sem maður gleymir ekki. Einnig mæltu þeir með myndinni Disconnect sem ég hef ekki séð.

Við fullorðna fólkið þurfum að vera vakandi fyrir því sem er að gerast hjá börnunum á netinu, fyrir óeðlilegum samskiptum og ég tala nú ekki um ef barnið fær gjafir sem við vitum ekki frá hverjum eru. Það er hægt að senda tilkynningar um slíkt í gegnum tilkynningahnapp á www.saft.is og alltaf hægt að fá hjálp. Meðal annars er hægt að fá aðstoð í gegnum hjálparsíma RKÍ 1717.

Þeir bentu á margt fleira sem mér þótti mikilvægt t.d. fyrir unglingana okkar að vita. Til dæmis, Sexting, sem er það fyrirbæri þegar t.d. unglingur eða barn sendir myndir af sér í gegnum netið t.d. til kærasta sem er eingöngu ætlað einum en fer svo á flakk og þegar það er komið á netið er engin leið að afturkalla það. Þeir sögðu okkur frá dæmi um konu sem hafði sent slíka mynd og væri enn 12 árum síðar á forsíðumynd klámsíðu. Sýnið börnunum og unglingunum ykkar þessa mynd, CEOP.

Netið er ekki að fara neitt og lausnin er ekki að loka á það því það er hluti af okkar daglega lífi og er bókstaflega um allt. Það sem þarf að gerast í mun meira mæli er að kenna börnunum okkar að umgangast það og setja ákveðin mörk. Þessi tækni veitir nefnilega hverjum sem er tækifæri til að ráðast á hvern sem er. Rétt eins og við myndum ekki senda börnin okkar ein út að rölta í vafasamt hverfi seint að kvöldi. Eyjólfur líkti netinu við Villta vestrið! Það er mikilvægt að ræða um hætturnar, setja mörk og vera vakandi. Þeir mæltu með því að vera með börnunum á netinu og byrja strax að kenna þeim á þessi atriði frá blautu barnsbeini. Gerum við það ekki erum við að bjóða alls konar fólki inn á heimilið í gegnum netið eins og myndbandið um Lalla sýnir. Saft hefur sett saman 10 netheilræði sem gott er að hafa í huga.

Það er alveg gríðarlegt framboð af skaðlegu efni á netinu og mikilvægt að kunna að setja öryggisstillingar á tölvurnar til að sía það frá. Á Youtube er hægt að velja neðst á síðunni „Safety on“. Einnig þarf að kenna börnunum að láta hinn fullorðna vita ef þau sjá eitthvað sem er ekki í lagi. Vodafone hefur einnig verið með góða herferð í gangi sem vert er að nýta sér. Á Google er líka hægt að stilla á Safe search.

Á netinu geta börn nálgast alls kyns skrýtna hluti varðandi slæma hluti eins og að skera sig. Á netinu er alltaf hægt að finna einhvern sem samþykkir slæma hluti. Á netinu fá börn stundum það sem þau finna ekki í raunheimum eins og viðurkenningu og samþykki fyrir alls konar rugli. Barn sem lendir upp á kant við félagana en finnur sér svo nýja vini á netinu missir þannig hvatann fyrir að sættast við raunverulegu vinina.

Við fullorðna fólkið erum heldur ekki alltaf barnanna best. Á þessu augnabliki sit ég t.d. sjálf fyrir framan netið en við þurfum að vera fyrirmyndir og setja sjálfum okkur mörk. Eyjólfur minntist á kannanir sem hafa sýnt að fjórðungur fólks vaknar á nóttinni til að kíkja á netið, fjórðungur tekur símann með á klósettið og fjórðungur hefur misst af mikilvægum augnablikum í lífinu því þau voru svo upptekin af því að deila því á netinu. Kannanir hafa einnig sýnt að 21% sleppa frekar kynlífi en netinu!

Netfíknin er erfið fíkn því eins og matarfíkn er fíkniefnið alls staðar. Aðgengið er gríðarlegt og 83% netfíkla ánetjast strax á fyrsta árinu og 6-12% ánetjast netinu. Strákar sækja mest í tölvuleiki en stelpur í samfélagsmiðla. 24 milljónir klámsíðna eru á netinu og hraðasta aukningin á netsíðum er óæskilegt efni. Ýmsar vísbendingar um vanda eru t.d. ef netnotkun er orðin meira en 38 tímar umfram eðlilega notkun, viðkomandi hugsar um netið þegar hann er ekki á því, fer að fela tímann sem eytt er, lýgur um notkun, notar það sem stuðning fyrir það sem vantar í lífinu, netið er gaman en allt annað leiðinlegt, hegðun breytist, meiri pirringur og notkun fer versnandi. Margir áhættuþættir ýta undir vanda eins og t.d. ótakmörkuð nettenging, mikill óskipulagður tími, nýtt frelsi t.d. að fá tölvu við fermingu og bókstaflega flytja inn í herbergi sitt, netnotkun er almennt samþykkt. Börn sem eru inni í sér, feimin, einmana, með lágt sjálfsmat, tilfinningavanda og slaka félegslega stöðu eru í meiri áhættu að leita í netheima. Á netinu geta þau verið eitthvað allt annað. Rannsóknir hafa sýnt að óhófleg netnotkun leiðir til ýmissa líkamlegra og andlegra afleiðinga m.a. verkamannabaks, álags á augu, breytinga á heilanum, stöðnunar í þroska og vanda með tilfinningar og athygli.

Báðir lögðu þeir mikla áherslu á að foreldrar yrðu að kenna, stíga inn í, setja mörk og taka þátt í netnotkun barna sinna. Setja þyrfti upp áætlun um netnotkun og aðra hluti eins og samveru. Oft segjast foreldrar ekki geta tekið t.d. tölvur af barni því barnið eigi tölvuna. Svarið við því var að væri tölvan hasspípa þá væri ekki hægt að segja „Ég get nú bara ekki tekið hasspípuna af honum Jóa, hann fékk hana í fermingargjöf“. Sé tölvan orðin fíkn þarf að meðhöndla hana samkvæmt því. Það eru ávallt foreldrar sem stjórna þar til barnið verður sjálfráða. Best er að vinna með barninu en gangi það ekki getur þurft að fara í harkalegri aðgerðir. Aðspurðir um æskilegt viðmið mælti Eyjólfur með 2 klst. á dag í skjátíma sem væri þá tími fyrir framan sjónvarp, tölvu oþh. og hafa einn dag í viku án tölvu.

Einnig bentu þeir á Unghuga í bænum, hóp sem heitir Vinfús fyrir yngri börn og Tóta á Akureyri sem væru sjálfshjálparhópar unglinga.

Að lokum, í daglegu lífi verndar þú barnið þitt. Gerðu það líka á netinu!

Flokkar: Lífið og tilveran

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Kristbjörg Þórisdóttir
er sálfræðingur með diplóma gráðu í fötlunarfræðum sem hefur mikinn áhuga á heilbrigðum lífsstíl, samfélaginu, umbótum og stjórnmálum
Vertu breytingin sem þú vilt sjá í heiminum (Mahatma Gandhi)

Kristbjörg er varaþingkona Framsóknarflokksins í Suðvesturkjördæmi
RSS straumur: RSS straumur