Mánudagur 24.02.2014 - 22:47 - FB ummæli ()

Þjóðin á orðið

Utanríkisráðherra fer fyrir þingsályktunartillögu sem er ætlað að álykta um að viðræðum við Evrópusambandið verði slitið af hálfu Íslendinga. Hann virðist ætla að láta þingheim taka þessa stóru ákvörðun án þess að spyrja þjóðina hvað best sé að gera í málinu. Utanríkisráðherra sækir vald sitt til þjóðarinnar. Þegar núverandi ríkisstjórnarflokkum var treyst fyrir þjóðarskútunni þá sögðu þeir m.a. þetta í sínum sáttmála:

Unnið verður áfram að endurskoðun stjórnarskrár lýðveldisins með breiða samstöðu og fagmennsku að leiðarljósi. Lögð verður áhersla á ákvæði um þjóðareign á auðlindum og um þjóðaratkvæðagreiðslur um lög Alþingis að frumkvæði verulegs hluta kjósenda. Í samræmi við núverandi stjórnskipun mun endurskoðun stjórnarskrárinnar fara fram undir umsjón og á ábyrgð Alþingis sem hafa mun vinnu undanfarinna ára til hliðsjónar. Áhersla verður lögð á gagnsæi og upplýsta umræðu með þátttöku almennings.

Gert verður hlé á aðildarviðræðum Íslands við Evrópusambandið og úttekt gerð á stöðu viðræðnanna og þróun mála innan sambandsins. Úttektin verður lögð fyrir Alþingi til umfjöllunar og kynnt fyrir þjóðinni. Ekki verður haldið lengra í aðildarviðræðum við Evrópusambandið nema að undangenginni þjóðaratkvæðagreiðslu.

Mín sýn hefur ávallt verið að þetta sé mál sem þurfi að útkljá með einum eða öðrum hætti m.a. því það tekur óþarfa orku frá ýmsu öðru mikilvægu. Ég tel það einsýnt að þetta sé ákvörðun sem þjóðin þurfi sjálf að fá að taka í þjóðaratkvæðagreiðslu. Til þess að geta tekið slíka ákvörðun er eðlilegast að fyrir liggi nauðsynlegar upplýsingar um hvað er verið að ræða. Annað væri eins og að taka ákvörðun um hvort ganga ætti í hjónaband með afar takmarkaðar upplýsingar um tilvonandi brúðguma.

Þrátt fyrir að ég hafi þá sýn að best hafi verið að fara í aðildarviðræðurnar til þess að geta tekið upplýsta ákvörðun þá er það jafn gagnrýnivert og núverandi tillaga hvernig Samfylking og Vinstri-hreyfingin grænt framboð lögðu af stað í þessa vegferð án þess að spyrja þjóðina álits.

Eitt af því sem við höfum lært undanfarin ár er að hvert og eitt okkar hefur vald. Saman höfum við valdið. Þegar kemur að jafn stórum málum og aðildarviðræðum að ESB eða Icesave þá eigum við, hvert og eitt okkar, orðið. Beint lýðræði er verkfærið sem þarf að nota við slík mál til þess að niðurstaða þeirra verði farsæl fyrir heildina. Þau eru ofvaxin fulltrúalýðræðinu. Ég vona að menn láti sér ekki detta annað í hug því maður sem getur ekki farið með vald sitt, gefið það eftir þegar það á við og gleymir uppruna þess er líklegur til þess að missa það fljótt.

 

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Kristbjörg Þórisdóttir
er sálfræðingur með diplóma gráðu í fötlunarfræðum sem hefur mikinn áhuga á heilbrigðum lífsstíl, samfélaginu, umbótum og stjórnmálum
Vertu breytingin sem þú vilt sjá í heiminum (Mahatma Gandhi)

Kristbjörg er varaþingkona Framsóknarflokksins í Suðvesturkjördæmi
RSS straumur: RSS straumur