Miðvikudagur 10.09.2014 - 23:43 - FB ummæli ()

Uppistand á Alþingi

Eftir stefnuræðu og umræður kvöldsins velti ég vöngum yfir ýmsu. Ég hefði gjarnan viljað fá skýrari mynd af því hver stefnan er næsta árið með nokkuð vel útfærðum skýringum. Það hefði ég viljað heyra í stað þess að heyra hluti sem ég hef oft heyrt áður eins og það hversu lánsöm við séum að búa á þessu fallega landi þar sem allir eiga að geta haft það gott og skilgreiningar á þjóðrembu.

Ég myndi vilja heyra meira um ný og betri vinnubrögð á þinginu í stað þess að fólk haldi sig í gamalkunnum skotgröfum. Mér þóttu nýjir þingmenn skara nokkuð frammúr í því og á heildina litið fannst mér þingmenn Bjartrar framtíðar standa sig best í kvöld og flytja ræður sem ég nennti að hlusta á.

Það sem vakti mig þó mest til umhugsunar eftir kvöldið var uppistandið á Alþingi. Ég ætla að grípa boltann frá handboltakonunni og sálfræðingnum Hafrúnu Kristjánsdóttur sem benti á þetta á fésbókarsíðu sinni í kvöld:

Af hverju i ósköpunum er það bara i lagi að gera athugasemdir við holdafar SDG? Myndi fólk gera þetta ef SDG væri kona? Þvi skal þo haldið til haga að eg er langt fra þvi að vera stuðningsmaður kappans.

Ég er hjartanlega sammála henni og finnst það gamalreyndum þingmanni (Steingrími J. Sigfússyni) til minnkunar að sýna slíka framkomu í ræðustól Alþingis og við aðstæður þar sem mjög margir fylgjast með. Það er ekki hlutverk þingmanna að vera með uppistand á kostnað annarra heldur er það hlutverk þeirra að vera leiðtogar þjóðarinnar sem kaus þá og ganga á undan með góðu fordæmi. Svona framkoma mun ekki auka traust fólks á Alþingi og er ömurlegt fordæmi.

Það er hvergi viðeigandi að hæðast að holdafari fólks og það á enginn skilið slíka framkomu. Í umræðum bentu e-r aðilar á að það hefði verið SDG sem hefði sett þetta á dagskrá sjálfur með íslenska kúrnum. Ég er alveg ósammála því og man vel þegar hann var að kynna þá hugmynd. Hún var að mínu mati ágætis hugmynd til þess að vekja fólk til umhugsunar um þá stefnu að borða heilnæma fæðu og helst fæðu sem væri uppurin eins nálægt manni og kostur er. Slíkt er hagkvæmt, umhverfisvænt og atvinnuskapandi. Það er sérkennilegt að við séum stundum að borða ávexti eða grænmeti sem er búið að ferðast um hálfan hnöttinn áður en það birtist hér í stað þess að rækta það sjálf með alla okkar orku og skapa fólki atvinnutækifæri í leiðinni og auka viðskipti innan íslensks hagkerfis. Mér sem feminista þykir það líka áhugavert að velta fyrir mér því sem Hafrún bendir á að það sé ekki víst að fólk myndi leyfa sér að ganga jafnlangt í slíkum niðrandi ummælum ef SDG væri kona.

Þrátt fyrir að móðir náttúra hamist við að búa til nýtt Ísland með miklum látum þá virðumst við í mannheimum eiga eitthvað lengra í land með það. Því miður.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Kristbjörg Þórisdóttir
er sálfræðingur með diplóma gráðu í fötlunarfræðum sem hefur mikinn áhuga á heilbrigðum lífsstíl, samfélaginu, umbótum og stjórnmálum
Vertu breytingin sem þú vilt sjá í heiminum (Mahatma Gandhi)

Kristbjörg er varaþingkona Framsóknarflokksins í Suðvesturkjördæmi
RSS straumur: RSS straumur