Laugardagur 27.09.2014 - 15:23 - FB ummæli ()

Breiðholtsmódelið og þingsályktunartillaga um bætt geðheilbrigði barna og fjölskyldna

(DV, 19. sept. 2014).

Kvíði barna og unglinga sem ekki er meðhöndlaður getur þróast yfir í alvarlegt þunglyndi. Ómeðhöndlaður tilfinningavandi barna og unglinga getur haft í för með sér alvarlegar afleiðingar svo sem áhættuhegðun, brotthvarf úr skóla og þegar fram líða stundir erfiðleika við að taka þátt í samfélaginu sem einstaklingur á vinnumarkaði.

Hákon og Kristbjörg

Hákon Sigursteinsson og Kristbjörg Þórisdóttir sálfræðingar á Þjónustumiðstöð Breiðholts (mynd Sigtryggur Ari Jóhannson/DV)

Íslendingar nota meiri geðlyf en gengur og gerist í OECD-ríkjunum. Notkun geðlyfja er mest hér á landi meðal OECD-ríkjanna, eða 106 skilgreindir dagskammtar að meðaltali á móti 56. Þingmenn úr fjórum flokkum vilja að gripið sé til aðgerða og komið sé til móts við tilfinningavanda barna og unglinga til að sporna við þróuninni. Það vilja þeir að sé gert með sérstakri aðgerðaráætlun sem meðal annars er byggð á breskri áætlun sem og Breiðholtsmódelinu, verkefni sem þróað hefur verið vegna þjónustu við börn og fjölskyldur þeirra á Þjónustumiðstöð Breiðholts um árabil.

Markmið tillögunnar er að bæta geðheilbrigði barna og unglinga með ýmsum úrræðum í samræmi við leiðbeiningar um bestu meðferð og stigskiptri þjónustu þar sem byrjað er á vægasta úrræðinu í nærumhverfi og þjónusta aukin í takt við þarfir. Áherslan er því lögð á að efla framlínuþjónustu sem veitt er af skólasálfræðingum og öðrum í góðu samstarfi í umhverfi barnsins. Aðgerðir beinast meðal annars að auknum forvörnum, fræðslu, skimun á vanda, námskeiðum, skýrari verkaskiptingu stofnana, bættu samráði, bættu aðgengi að viðtalsmeðferð og eflingu fjölskyldumeðferðar. Í greinargerð þingsályktunartillögunnar er bent á að „geðrænn vandi fullorðinna hefst oft í barnæsku og þeim vanda hefði mögulega mátt afstýra með góðri og markvissri geðheilbrigðisþjónustu á þeim tíma.“

Karl Garðarsson

Karl Garðarsson þingmaður Framsóknarflokksins

Karl Garðarsson, þingmaður Framsóknarflokksins, fyrsti flutningsmaður þingsályktunartillögunnar sem lögð hefur verið fram á Alþingi, segist fullviss um að tillagan njóti víðtæks stuðnings. Hann segist líta á verkefnið sem mikla forvarnaraðgerð, enda sé mikill hagur í því að bregðast við tilfinningavanda snemma og stuðla þannig að betri líðan og bættri þátttöku fólks í samfélaginu til framtíðar.

Löng þróun

Breiðholtsmódelið hefur verið í þróun hjá Þjónustumiðstöð Breiðholts til margra ára, eða frá 2007. Í meginatriðum byggir verkefnið á því að koma sem fyrst að málunum og veita viðeigandi úrræði í takt við þörf. Í Breiðholti eru allir grunnskólanemendur í níunda bekk skimaðir með sérstökum spurningalistum þar sem spurt er um kvíða og þunglyndiseinkenni. Haft er samband við foreldra þeirra unglinga sem fara yfir viðmið í skimun og boðið upp á þjónustu þar á meðal viðtöl, ráðgjöf eða námskeið í hugrænni atferlismeðferð (HAM) sem gengur undir nafninu „Mér líður eins og ég hugsa“. Námskeiðið er haldið reglulega í öllum hverfum borgarinnar og tvö önnur hverfi eru farin að skima fyrir vandanum. Námskeiðin voru innleidd í samstarfi við geðsvið Landspítala Háskólasjúkrahúss.

Hákon Sigursteinsson og Kristbjörg Þórisdóttir, sálfræðingar hjá þjónustumiðstöðinni, fóru yfir verkefnið með blaðamanni DV. Sálfræðingar Þjónustumiðstöðvar Breiðholts hafa átt veg og vanda af verkefninu og hafa haldið HAM-námskeið fyrir unglinga frá árinu 2008, alls tólf námskeið. Á þjónustumiðstöðinni er einnig boðið upp á ýmis önnur gagnreynd námskeið fyrir börn og fjölskyldur þeirra allt niður í þriggja ára aldur og sífelld þróun í gangi.

Námskeið

HAM-námskeiðið fer fram í hópi og byggist á fræðslu og heimaverkefnum, þar sem kenndar eru aðferðir til að takast á við kvíða- og depurðartilfinningar og er kennt í sex vikur. Þetta er gert í stað þess að byrja til dæmis á lyfjagjöf eða mjög sértækum úrræðum, en klínískar leiðbeiningar kveða á um að fyrst skuli reyna hugræna atferlismeðferð.

Eins og staðan er í dag á landsvísu er hins vegar fyrsta meðferð barna og unglinga oftar en ekki lyfjameðferð vegna skorts á úrræðum og takmörkuðu aðgengi að sálfræðimeðferð. Kristbjörg bendir á að langir biðlistar og skortur á aðgengi að sálfræðiþjónustu valdi því að í sumum tilfellum leiti foreldrar með börn sín beint í sértæk úrræði og því sé mikilvægt að skilgreina vel hverju eigi að sinna á hverjum stað með þrepaskiptum hætti og koma á meiri samvinnu milli stofnana og nærsamfélags barnanna.

Bregðast við strax

Hákon og Kristbjörg benda á að í mörgum tilfellum hefði verið hægt að bregðast við fyrr með vægum inngripum í nærumhverfinu áður en mál barnsins og líðan voru komin í óefni. „Kostnaður foreldra við lyfjagjöf er oftar en ekki lægri en kostnaður við sálfræðitíma, enda eru lyfin niðurgreidd en þjónusta sálfræðings á stofu ekki. Lyfjagjöf er stundum rétta skrefið, en ekki alltaf og klínískar leiðbeiningar segja okkur að það eigi að byrja á því að reyna hugræna atferlismeðferð,“ segir Hákon. Kristbjörg tekur undir þetta og bendir á að kostnaður foreldra við stakan sálfræðitíma hjá sálfræðingi á stofu sé oft tíu til fimmtán þúsund krónur. Tímabært er að niðurgreiða sálfræðiþjónustu.

Í Breiðholtsmódelinu svonefnda er lögð áhersla á að greina vandann eins fljótt og hægt er og veita síðan bestu mögulegu þjónustu á sem hagkvæmastan hátt.

„Okkar sýn er sú að það þurfi að færa þungann á framlínuna, það er að segja það þarf að grípa inn í áður en vandamálið er orðið of stórt. Eins og staðan er núna erum við oftar en ekki að vinna að málunum eftir að tilfinningavandinn er orðinn að stóru vandamáli hjá fólki, í stað þess að byrja vinnuna þegar það þarf ekki mjög sértæk úrræði. En til þess þurfum við mannafla og fjármagn. Það þarf að vera með fjölbreytta þjónustu og grípa strax inn í,“ segir Kristbjörg. „Þetta er gríðarlegur samfélagslegur kostnaður. Ef við náum að veita einu barni viðeigandi þjónustu, áður en það þróar alvarlegan tilfinningavanda sem hefur í för með sér skerta samfélagsþátttöku og örorku, þá sparar það samfélaginu mikla peninga og hefur mikinn samfélagslegan ávinning,“ segir hún.

Árið 2020 er því spáð að þunglyndi verði önnur mesta orsök örorku. Í dag eru 38 prósent þeirra sem eru öryrkjar í þeirri stöðu vegna geðraskana. „Tillagan gengur út á það að setja fjármagn í verkefnið núna en spara margfalt þegar fram líða stundir. Við setjum krónu í það núna, en spörum kannski tíu í framtíðinni. Með því að veita bestu mögulegu meðferð núna aukast líkur á að þessi börn geti blómstrað sem fullorðnir einstaklingar í samfélaginu.“

Meiri vandi meðal stúlkna

Þar sem verkefnið hefur verið í vinnslu frá 2008 eru sterkar vísbendingar um árangur komnar fram. Samkvæmt skimunarlistunum í Breiðholti jókst tilfinningavandi mikið á milli ára hjá nemendum í níunda bekk á árunum eftir hrun og má leiða líkur að því að það tengist. Í ljós kom að tilfinningavandi hefur aukist verulega, sér í lagi hafði algengi kvíða aukist meðal stúlkna eða úr 7,2 prósentum árið 2009 í 26,2 prósent árið 2012. Árið 2013 höfðu sömu tölur farið niður í 15,5 prósent sem Kristbjörg og Hákon segja gefa tilefni til bjartsýni. Skimun, aðgengi að fræðslu og meðferðarþjónustu dragi úr vanda þessara barna sem skili sér aftur til samfélagsins þegar þau vaxa og dafna með minni líkum á að vandinn flytjist á milli kynslóða. Þannig sé hægt að vinna að heilbrigðara samfélagi með bættri geðheilbrigðisþjónustu fyrir börn, unglinga og fjölskyldur þeirra.

(greinin er úr helgarblaði DV og birtist 19. sept. 2014 eftir Ástu Sigrúnu Magnúsdóttur blaðamann, astasigrun@dv.is).

Flokkar: Lífið og tilveran · Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Kristbjörg Þórisdóttir
er sálfræðingur með diplóma gráðu í fötlunarfræðum sem hefur mikinn áhuga á heilbrigðum lífsstíl, samfélaginu, umbótum og stjórnmálum
Vertu breytingin sem þú vilt sjá í heiminum (Mahatma Gandhi)

Kristbjörg er varaþingkona Framsóknarflokksins í Suðvesturkjördæmi
RSS straumur: RSS straumur