Mánudagur 22.12.2014 - 13:07 - FB ummæli ()

Kroppurinn er kraftaverk – gestafærsla

Eftirfarandi pistill er skrifaður af Elínu Ósk Arnarsdóttur frænku minni. Hún er að vinna að ákaflega spennandi verkefni sem mig langar að kynna á þessum vettvangi með henni. Hvet ykkur eindregið til að lesa pistilinn og helst að leggja þessu frábæra verkefni lið :).

Hér kemur pistillinn.

Ég fékk mjög áhugavert verkefni í uppeldisfræði á þessari önn. Það var þannig sett upp að við áttum að hanna okkar eigin leikskóla sem uppfyllir skilyrði nýju aðalnámsskránnar. Mér fannst þetta virkilega skemmtilegt verkefni og var með fullt af hugmyndum sem gætu átt heima í leikskólum landsins.

Þar sem ég hef reynslu af átröskun hef ég mikinn áhuga á forvörnum gegn þeim og hvar er betra að byrja en í leikskóla? Að byrja með forvarnir áður en samfélagið nær að stimpla öllu þessu rugli inn í hausinn okkar. Með því að kenna börnum góðar matarvenjur, að matur er bara bensín fyrir líkama okkar, að matur er líka hlutur sem á að njóta, að maður elskar ekki mat né hatar en getur fundist matur góður. Það er líka nauðsynlegt að stuðla að líkamsvirðingu, að börnin læri um fjölbreytileika líkama, að þau dæmi ekki líkama og fólkið sem á þá, að virkni líkama sé það sem skiptir máli en ekki lögun hans.

mynd af bókinniSigrún Daníelsdóttir er ein af fyrirmyndum mínum, enda sálfræðingur með reynslu í þessum málum. Bókin Kroppurinn er kraftaverk sem hún gaf nýverið út er frábært tól í þessum málum! Þar er minnt okkur á að hugsa vel um líkama okkar, hlusta á hann og gefa honum það sem hann þarf hvort sem það er matur, hvíld, hreyfing eða eitthvað annað. Hún talar einnig um fjölbreytileika og hvað lífið sé miklu skemmtilegra þegar allir eru mismunandi, sem það er!

Við erum feit og mjó eins og við erum hávaxin og lávaxin og ætti ekkert að tengja skömm við að vera feitlaginn. Við eigum ekki að breyta líkamsstærð eins og við breytum ekki hæð okkar eða skóstærð. Sigrún kennir okkur að við eigum að elska okkur eins og við erum.

Svo ég tengi þetta nú við verkefnið sem ég er að vinna þá finnst mér að þessi bók ætti að eiga heima í öllum leikskólum landsins og að þetta sé lesið og skoðað með börnunum. Og þetta er eitthvað sem mig langar að framkvæma en ég þarf hjálp og byrjunin er að þú kæri lesandi lesir þessa færslu. Næsta skref er svo að safna pening fyrir verkefninu og síðan að framkvæma þetta. Það er allt hægt ef viljinn er fyrir hendi og þarf maður að vera þolinmóður og gefa sér tíma.

Ég hef sett mig í samband við Sigrúnu og er komin í samvinnu við hana ásamt Samtökum um Líkamsvirðingu. Verkefnið er því komið á skrið en það sem stendur núna í vegi fyrir okkur er kostnaðurinn. Ég hef sótt um styrki hjá ýmsum fyrirtækjum en geta þau ekki séð af pening til að styrkja verkefnið. Þess vegna ætla ég að láta reyna á samfélagið. Ég veit að það er desember. Ég veit að margir glíma við fjárhagserfiðleika. En ég er ekki að biðja um háar upphæðir. Og þetta er málefni sem við samfélagið verðum að takast saman á við. Börnin í leiksólum landsins eru framtíðin. Ef allir leggja smá í púkk er þetta fljótt að safnast upp.

Ef að þið hafið áhuga að styrkja verkefnið þá er reikningsnúmerið 0701-26-15704 og kennitalan er 570412-1590. Ef þið hafið einhverjar fyrirspurninr um verkefnið megið þið senda mér línu á elinoskarnars@gmail.com
– Elín Ósk

Flokkar: Lífið og tilveran · Lífstíll · Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Kristbjörg Þórisdóttir
er sálfræðingur með diplóma gráðu í fötlunarfræðum sem hefur mikinn áhuga á heilbrigðum lífsstíl, samfélaginu, umbótum og stjórnmálum
Vertu breytingin sem þú vilt sjá í heiminum (Mahatma Gandhi)

Kristbjörg er varaþingkona Framsóknarflokksins í Suðvesturkjördæmi
RSS straumur: RSS straumur