Miðvikudagur 31.12.2014 - 16:26 - FB ummæli ()

Áramót

Það er við hæfi við slík tímamót sem nú eru framundan að staldra aðeins við í huga sér, fara yfir árið og horfa fram á veginn. Sól er hnigin til viðar í síðasta sinn á þessu ári og á morgun mun ný og vaxandi sól rísa.

Áramót 2014-2015Þetta ár hefur verið mér gott og ég er fyrst og fremst uppfull af þakklæti. Ég er þakklát fyrir heilsuna, fyrir fjölskylduna, manninn minn, vini mína, starfið, og allt það góða sem á vegi mínum hefur orðið undanfarið ár. Bara það að fá að lifa þessi áramót og fagna þeim er þakklætisefni og langt í frá sjálfsagt. Það vita þeir sem hafa misst.

Ég hvet þig lesandi góður til að fara yfir árið þitt í huganum. Hvað var gott? Hvað var erfitt? Hvað ætlar þú að taka með þér áfram í bakpokanum inn í nýtt ár sem góðar minningar eða lærdóm og hvað ætlar þú að skilja eftir við vegkantinn þegar þú heldur áfram? Hverjir eru draumar þínir? Hvert langar þig að stefna á nýju ári? Fyrir hvað viltu standa, hver eru gildi þín? Hver viltu vera? Hvernig myndir þú eyða síðasta degi lífs þíns? Það getur verið gott að leita svara við þessum spurningum. Þú getur lifað morgundaginn eins og þinn síðasta og þá ertu að gera það sem skiptir þig máli, er það ekki? Eins og sagt er: „Today is the first day of the rest of your life“. Hvað viltu sjá þegar þú lítur tilbaka að árinu 2015 loknu og hvað viltu sjá þegar þú lítur yfir lífsveg þinn? Þú getur strax byrjað að vinna að þeim markmiðum. Stundum er það sem við þráum mest nær okkur en okkur grunar og geta okkar til að öðlast það meiri en við teljum. Mundu líka að njóta þess að vera í núinu því sagt er að ef við erum við annan fótinn í fortíðinni en hinn í framtíðinni þá pissum við á núið. Núið sem er í raun það eina sem við eigum fyrir víst.

Ég hvet þig til að setja þér skrifleg markmið því markmið eru tímasettir draumar. Veltu því fyrir þér hvert þú vilt fara, hvernig, hvenær og hvernig þú veist að þú sért kominn á áfangastað (eins og þú sért í fjallgöngu). Til að markmið skili sem bestum árangri er gott að hafa þau skýr, mælanleg, aðgerðabundin, raunhæf og tímasett (SMART). Ég hvet þig líka til að byrja á einhverju sem þú ræður vel við og og setja þér nýtt markmið að því loknu. Það þarf ekki að klífa Everest í einum rykk heldur með einu skrefi til þess næsta.

Fyrst og fremst óska ég þér þess ágæti lesandi að þú farir sem betri manneskja inn í nýtt ár. Betri manneskja fyrir þig, fyrir fjölskyldu þína, vini og fyrir samfélagið okkar allt. Ekkert okkar er fullkomið og öll höfum við okkar styrkleika og veikleika en ef við reynum að læra af mistökum okkar og áttum okkur á því að við sjálf erum lykillinn að farsæld okkar og vellíðan þá erum við komin vel á veg.

Heillaríkt nýtt ár til þín og þinna.

Flokkar: Lífið og tilveran

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Kristbjörg Þórisdóttir
er sálfræðingur með diplóma gráðu í fötlunarfræðum sem hefur mikinn áhuga á heilbrigðum lífsstíl, samfélaginu, umbótum og stjórnmálum
Vertu breytingin sem þú vilt sjá í heiminum (Mahatma Gandhi)

Kristbjörg er varaþingkona Framsóknarflokksins í Suðvesturkjördæmi
RSS straumur: RSS straumur