Þriðjudagur 18.08.2015 - 21:27 - FB ummæli ()

Hlauptu kona, hlauptu!

Næsta laugardag fer fram Reykjavíkurmaraþon. Hlaupið er eins konar uppskeruhátíð og segja má að það sé hátíð hreyfingar. Allir ættu að geta fundið eitthvað við sitt hæfi. Það mikilvægasta er að taka þátt með einum eða öðrum hætti. Á sama tíma safna margir hlauparar áheitum á vefsíðunni hlaupastyrkur.is þar sem áheitunum er ætlað að hvetja hlaupara áfram og styðja mikilvæg málefni.

Að mínu mati er margt í svona hlaupi sem heimfæra má upp á lífið sjálft. Það skiptir mestu máli að taka þátt. Vera með á sínum eigin forsendum því öll erum við ólík. Það er mikilvægt að hlusta á sjálfan sig, finna hversu hratt maður kemst og hvaða stíll hentar manni sjálfum. Það er mikilvægt að keppa við sig og standa uppi sem sinn eigin sigurvegari í lok dags. Mikilvægasta hvatningin kemur innan frá. Við erum okkar besti liðsfélagi og förunautur.

Rétt eins og í lífinu sjálfu skipta aðrir og hvatning annarra samt sem áður máli. Við erum hluti af órjúfanlegri sammannlegri heild. Froskasagan er góð áminning um það hversu mikilvægt er að við eltum okkar eigin drauma og óskir og látum ekki draga úr okkur kjarkinn.

Gott máltæki segir að það sé leiðin en ekki áfangastaðurinn sem skipti máli. Það á vel við hér. Það skiptir sennilega mun meira máli að njóta ferðarinnar og týna upp demantana sem liggja vítt og breitt í vegakantinum í stað þess að einblína á gullpottinn sem bíður handan marklínunnar.

Ég verð ein þeirra sem hleyp næsta laugardag og get fullyrt það að ég mun ekki sigra hlaupið. En það skiptir mig ekki máli þó ég muni vissulega fagna með þeim sem gerir það. Ég hef þau markmið að njóta hlaupsins og koma brosandi í mark á mínum tíma. Þannig hef ég sigrað. Ég ætla að hlaupa fyrir Hugarafl sem eru félagasamtök sem unnið hafa brautryðjendastarf í geðheilbrigðismálum hér á landi. Hugarafl leggur mikla áherslu á vinnu á jafningjagrunni og valdeflingu þannig að segja má að í Hugarafli hlaupi hver í sínum takti rétt eins og í maraþonhlaupi. Sérstök áhersla er lögð að þessu sinni á að efla starf ungs fólks innan Hugarafls sem ganga undir nafninu Unghugar. Ég þigg stuðning við að leggja Unghugum og Hugarafli lið. 

Sjáumst á laugardaginn og hlaupum hvert í sínum takti en öll í takt.

Reykjavíkurmaraþon

Flokkar: Lífið og tilveran · Lífstíll · Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Kristbjörg Þórisdóttir
er sálfræðingur með diplóma gráðu í fötlunarfræðum sem hefur mikinn áhuga á heilbrigðum lífsstíl, samfélaginu, umbótum og stjórnmálum
Vertu breytingin sem þú vilt sjá í heiminum (Mahatma Gandhi)

Kristbjörg er varaþingkona Framsóknarflokksins í Suðvesturkjördæmi
RSS straumur: RSS straumur