Þriðjudagur 26.11.2013 - 00:13 - FB ummæli ()

Þökkum þeim

Samtakamáttur og barátta  Íslendinga á áttunda áratug síðustu aldar gerði þjóðinni kleift  að færa út fiskveiðilögsögu landsins í 200 mílur. Baráttan kostaði langvinnar deilur við þær þjóðir Evrópu sem nytjað höfðu íslensk fiskimið um áratuga skeið. Deilunum fylgdu hótanir um úrsögn úr NATO, ásiglingar breskra herskipa á íslensk varðskip og slit á stjórnmálasambandi við Breta.

Sigurinn sem vannst í deilunni var grunnforsenda þess að þjóðin náði yfirráðarétti yfir veiðum á öllum nytjastofnum í lögsögunni og þar með makrílnum.  Mér finnst sem að núverandi sjávarútvegsráðherra geri harla lítið úr þeirri baráttu sem þjóðin háði um fiskimiðin á sínum tíma, í grein í Morgunblaðinu þann 25. nóvember sl.  Í greininni fullyrðir hann að samningsstaða Íslendinga til þess að fá að veiða makríl í íslenskri lögsögu, væri nánast vonlaus ef að stórútgerðin hefði ekki haldið til makrílveiða þegar makríll fór að veiðast hér við land!

Mér hefði þótt fara betur á að sjávarútvegráðherra hefði þakkað þeim sem ætti raunverulegar þakkir skyldar, í stað þess að draga taum þeirra sem vilja gera makrílinn að skiptimynt í alræmdu kvótabraski.  Nýframsóknarmenn virðast vilja slá ryki augu almennings með illa rökstuddum fullyrðingum um hagkvæmi framseljanlegra fiskveiðikvóta.  Vissulega er það hagkvæmt fyrir þá aðila sem fá kvótann gefins –  það sást vel á fjáfestingum  í aðdraganda hrunsins m.a. í;  þyrlum, Stoke og fjármálafyrirtækjum – Ekki þarf hins vegar að fara í langa göngutúra um helstu sjávarbyggðir landsins sem flestar hafa munað  fífil sinn fegurri og skoða heildarafla og aldur íslenskra fiskiskipa, til þess að sjá  hið augljósa – að kerfið er alls ekki að gera sig.

Ef að sjávarútvegsráðherra hefur raunverulegan vilja til þess að láta jafnræði ríkja um nýtingu á makrílnum og hægja á græðgisvæðingunni þá er sú röksemdafærsla mun greiðfærari en sú ófæra sem ríkisstjórnin stefnir nú út í.

 

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 7.11.2013 - 11:43 - FB ummæli ()

Skýrslan um róttækustu skuldaleiðréttingar veraldar!

Munnleg skýrsla forsætisráðherra ríkisstjórnar Sjálfstæðis- og Framsóknarflokks sem hann flutti á Alþingi í dag um róttækustu skuldaleiðréttingar veraldar, var vægast sagt rýr í roðinu.

Þeir sem hlýddu á skýrsluna voru engu nær um áætlanir stjórnarinnar um hvernig efna ætti eitt stærsta kosningaloforð allra tíma. Flestum var hins vegar ljóst það vantaði ákafa í ræðuna – Engu líkara var að Sigmundur Davíð væri búinn að missa tiltrú á verkefninu og þætti staða sín pínleg.

Flokkar: Óflokkað

Sunnudagur 13.10.2013 - 19:24 - FB ummæli ()

Samherjar gegn þjóðinni

Sigurður G. Guðjónsson lögmaður, lætur sig margvísleg þjóðþrifamál varða á borð við rusl á víðavangi í Höfuðborginni og stofnaði í þeim tilgangi sérstaka síðu á veraldarvefnum til þess að fá borgarbúa með sér í baráttuna.

Það kom mér því nokkuð á óvart að heyra málflutning lögmannsins  í morgun í útvarpsþættinum Sprengisandi þar sem að hann dró taum samherja síns, Þorsteins Más Baldvinssonar, í stjórn Glitnis gegn hagsmunum þjóðarinnar.  Glitnir banki sem þeir Sigurður G. og Þorsteinn Már stýrðu í aðdraganda hrunsins með sínum Stím ævintýrum fór eins og kunnugt er lóðbeint á hausinn. Gjaldþrot þeirra samherjanna er eitt af stærri gjaldþrotum veraldarsögunnar.

Sigurður G. reyndi að rökstyðja þá  skoðun sína í viðtalinu að Þorsteinn Már ætti persónulega drjúgan hluta af fiskveiðiauðlindum þjóðarinnar á Íslandsmiðum þar sem að hann hefði keypt ónýtan togara þegar hann vann í skipasmíðastöð Suður með sjó á þeim tíma sem núverandi kvótakerfi var tekið upp.  Hann réttlætti þá skoðun sína með því að hann hefði keypt einhvern hluta af tímabundnum veiðiheimildum, sem veittar voru af stjórnvöldum til eins árs í senn, af öðrum útgerðarmönnum, sem höfðu þær einnig tímabundið til afnota, og fékk það út að þar með væri um séreign viðkomandi útgerðarmanns að ræða.  Það hljómaði því undarlega þegar hann hélt því fram að fiskur væri einskis eign fyrr en hann væri kominn upp úr sjónum.

Lögmaðurinn mátti ekki heyra á það minnst að þeir, sem nytu tímabundinna sérréttinda umfram aðra Íslendinga, þyrftu að greiða fyrir sérgæðin!  Með þessari afstöðu er tekin afstaða með sérhagsmunum gegn íslensku þjóðinni.

 

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 8.10.2013 - 14:29 - FB ummæli ()

Ofsóttu Gyðingarnir

Talsmenn íslenskra stórútgerðarmanna hafa líkt stöðu sinni í íslensku samfélaginu við ofsótta Gyðinga í Þýskalandi, á þeim dögum sem Hitlers réði ríkinu. Leiðari Morgunblaðsins í dag er í þessum sama anda, þ.e. að stórútgerðin hafi búið við stöðugar ofsóknir allt frá því að  „vinstri stjórnin hrifsaði til sín völdin í ársbyrjun 2009“. Ekki veit ég nákvæmlega hvað fær fulltrúa LÍÚ til þess að grípa til samanburðarin,s en ég er nokkuð viss um að Gyðingar á dögum Þriðja ríkisins hafi ekki verið í aðstöðu til þess að greiða sér milljarða króna í arð eða haft einokun á nýtingu helstu náttúruauðlinda Þriðja ríkisins.

Fyrir síðustu Alþingiskosningar var Morgunblaðinu nokkuð umhugað um bága stöðu íslenskra heimila.  Minna hefur farið fyrir þeirri baráttu eftir kosningar, enda virðist brýnna, að mati blaðsins, að koma hlífiskildi yfir einstaklinga, sem hafa orðið fyrir barðinu á ljótri aðför.

 

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 7.10.2013 - 12:26 - FB ummæli ()

Að tala upp eða niður

Á Íslandi eru það viðtekin rök  í stjórnmálaumræðu að hægt sé að gera kerfið eða ástand betra eða verra en það er bara með því einu að tala hlutina upp eða niður. Þetta á til dæmis við um gjaldmiðilinn, efnahagsástandið, stöðu fjármálafyrirtækja, lífeyriskerfið, stöðu efnahagsmála og svo mætti lengi telja.

Þeir sem benda á augljósa galla á þessum kerfum fá sjaldan málefnaleg svör, heldur er þeim sagt að þeir séu að tala málefnið niður. Ég var á fundi Samtaka sjávarútvegssveitarfélaga þar sem nokkrir útvaldir talsmenn kvótakerfisins töluðu það upp og mæltu mjög á móti því að það væri verið að tala íslenskan sjávarútveg niður.

Í máli „virts“ fyrirlesara kom það fram að stjórn fiskveiða á Íslandi væri ein mesta uppgötvun síðari tíma. Einnig kom það fram að íslenskur sjávarútvegur væri markaðsdrifin hátæknigrein, sem leitt hafi til mikillar framþróunar og verðmætasköpunar og að kerfið væri ólíkt betra heldur en það norska, sem sagt var veiðidrifið vegna þess að Norðmenn veiða enn mikð magn á vertíð. Ég benti fundargestum á að þótt að farið hefði verið nákvæmlega eftir ráðgjöfinni síðustu 20 árin, með hræðilegum  árangri en þorskaflinn nú er 30% minni en í byrjun tíunda áratugarins þegar byrjað var að fylgja ráðgjöf Hafró nákvæmlega eftir, samt er talað um árangur. Hátækniiðnaðurinn er að mestu mannaður fólki sem hefur ekki mikla framhaldsmenntun eða sérmenntun á sviði vinnslu matvæla. Skipin eru orðin fjörgömul og jafnmargir sjómenn um borð á þeim og áður.

Morgunblaðið greindi frá því nýlega að íslenskur fiskur hefði enga sérstöðu á mörkuðum. Sjálfur hef ég lítið orðið var við að kynnt sé sérstaklega að fiskur komi frá Íslandi, en mjög oft hef ég rekið augun í norsk vörumerki og auglýsingar á norskum fiski.

Það, að telja það ljóð á, að Norðmenn skuli veiða fisk á vertíð, er æði undarlegt þar sem að veiði og nýting náttúruauðlinda er oftar en ekki háð árstíðasveiflum. Hérlendis er haustið tími kartöfluuppskeru, berjatínslu og sláturgerðar. Það væri eftir öðru að einhverjum hagfræðingnum myndi detta í hug að leggja það til að taka upp kartöflur allt árið og tína ber fram á vetur til þess að jafna flæði afurða inn á markaðinn.

Á fundinum var framangreindum röksemdum var ekki svarað frekar en því að ég teldi eðlilegt að hætt væri með tvöfalda verðlagningu í viðskiptum með fisk, sem kemur með beinum hætti niður á afkomu sjómanna og sveitarfélaga. Menn sögðust einfaldlega ósammála án þess að leggja til nokkur haldbær rök í púkkið. Enda var þetta mögulega flokkað sem tal niður á við gegn besta fiskveiðistjórnunarkerfi í víðri veröld.

Mín skoðun er sú að ef að það á að nást áþreifanlegur árangur við stjórn landsins þá þarf að gera fleira en að tala upp stórgölluð séríslensk kerfi – það þarf að breyta þeim til betri vegar.

 

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 1.10.2013 - 20:06 - FB ummæli ()

Að berast á öldufaldi frægðarinnar

Glæný úttekt Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands sýnir að enginn landshluti hefur farið jafn illa út úr niðurskurði síðustu ríkisstjórnar og Norðurland vestra. Í kjölfar síðustu kosninga er helmingur þingmanna Norðvesturkjördæmisins Framsóknarmenn og sömuleiðis er einn valdamesti ráðherrann Króksari. Því hefði mátt búast við að fjárlagafrumvarpið bæri með sér tíðindi af bættum hag Skagfirðinga eftir mörg mögur ár.

Margir skagfirskir Framsóknarmenn bundu miklar vonir við breytta tíð í nýju fjárlagafrumvarpi. Ekki voru þeir að bíða eftir fréttum af róttækustu skuldaleiðréttingu veraldar, enda veit alþjóð að þær koma ekki til framkvæmda fyrr en í nóvember og þeir eins og aðrir landsmenn bíða þolinmóðir þangað til.

Fjárlagafrumvarpið ber engan veginn með sér framsóknarþingmennirnir í kjördæminu hafi gert tilraun til að beita áhrifum sínum. Skorið er rækilega niður í Háskólanum á Hólum og hugmyndin er að leggja niður Heilbrigðisstofnunina á Sauðárkróki og sameina hana inn í eina stofnun á Akureyri. Sú hugmynd hefur áður komið fram, en þá var hæstvirtur Utanríkisráðherra formaður Byggðaráðs Skagafjarðar og ærðist þegar hann heyrði af hugmyndinni. Í dag gerir sá hinn sami lokasókn í atlögu ríkisstjórnar Sigmundar Davíðs að stofnuninni. Áherslur hans eru orðnar aðrar, til dæmis eru lagðar til á annað hundrað milljóna króna hækkanir á fjárframlögum til aðalskrifstofu Utanríkisráðuneytisins, en búast hefði mátt við að þau framlög myndu lækka eftir að aðildarviðræðurnar voru settar á ís.

Ég veit fyrir víst að Gunnar Bragi Sveinsson er mikill baráttumaður og harður í horn að taka. Nú er greinilegt að baráttumálin hafa breyst, enda berst hann víða um á öldufaldi frægðarinnar frá Evrópu og Ameríku til heimahaganna í Skagafirði eins og heimssaungvarinn.

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 23.9.2013 - 22:54 - FB ummæli ()

Skoðanafrelsi á Sauðárkróki

Í pistli á Eyjunni nýlega var gert að því skóna að á Sauðárkróki, mínum heimabæ, ríkti alger skoðanakúgun, sem ætti sér helst hliðstæður í einræðisríkjum. Ekki get ég með nokkru móti fallist á þá skoðun pistlahöfundar.

Ég hef mætt á félagsfundi Kaupfélagsins og rætt um þá staðreynd að Kaupfélag Skagfirðinga er stórt fyrirtæki á íslenskan mælikvarða og risastórt í krúttlegu skagfirsku samfélagi og bent ráðamönnum Kaupfélagsins á að þeir verði að taka gagnrýni, sýna ákveðið umburðarlyndi og í raun fagna gagnrýninni vegna þess að hún veitir fyrirtækinu nauðsynlegt aðhald. Gagnrýnin er af ýmsum toga á borð við lág laun, lágar greiðslur fyrir afurðir bænda, miklar fjárfestingar í félögum, sem ekki eru með neina atvinnustarfsemi í Skagafirði, á borð við olíufélagið Olís og Morgunblaðið, sem ekki hefur verið þekkt fyrir að vera málsvari samvinnuhugsjónarinnar. Margt fleira má eflaust týna til.

Aldrei hef ég tekið eftir öðru en að ráðamenn Kaupfélagsins hafi umborið gagnrýnina, svarað henni stundum málefnalega og jafnvel sýnt það í verki.

Alþekkt er að grín er notað í þjóðfélagslegri ádeilu. Bæjarbúar gerðu á sínum tíma stólpagrín á Króksblóti, að Háuhlíðarbraski stjórnenda samvinnufélagsins og ég man ekki betur en að allir hafi hlegið með þó svo að ýmsum Framsóknarmönnum hafi fundist gamanið grátt. Ástæðan fyrir því að ádeilan er færð í léttan búning og fer oft ekki í meira hámæli en raun er er alls ekki hræðsla við refsiaðgerðir eða útskúfun, heldur getur verið erfitt í minni samfélögum að halda uppi hvassri gagnrýni á nágrannana þegar óhjákvæmilegt er að fara út fyrir hússins dyr án þess að hitta þá.

Nándin er yfirleitt styrkur smárra samfélaga og verður hún stundum til sjálfsritskoðunar á stöðum eins og Sauðárkróki og reyndar Íslandi öllu, frekar heldur en að fólk sé kúgað til að halda aftur af skoðunum sínum.

 

 

 

 

 

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 17.9.2013 - 00:03 - FB ummæli ()

Róttækasta sveitarstjórn veraldar?

Andstæðingar skuldaleiðréttingar heimilanna hafa reynt hvað þeir geta til að rýra trúverðugleika forsætisráðherrans okkar, Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar. Undanfarið hefur sjónum verið beint að skófatnaði hans og hann jafnvel sagður virðast vera á “ hálfgerðu trippi“.

Á næsta sveitarstjórnarfundi í Skagafirði gef ég Framsóknarmönnum í Skagafirði kost á því að lýsa yfir stuðningi og trausti við róttækustu aðgerðir stjórnvalda nokkurs staðar í veröldinni í þágu skuldsettra heimila, sem von er á eigi síðar en í nóvember næstkomandi. Tillaga mín felur í sér að Sveitarfélagið Skagafjörður mun fresta því að senda ógreidda reikninga til innheimtu, sem vel að merkja tilheyra flestir barnafjölskyldum, þar til að skuldaleiðréttingin hefur skilað sér til Skagfirskra heimila sem og annarra íslenskra heimila.

Ef að Skagfirskir Framsóknarmenn hafa ekki trú á þessari róttækustu skuldaleiðréttingu veraldar, sem formaður þeirra boðar, hver á þá að hafa trú á henni?

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 11.9.2013 - 16:47 - FB ummæli ()

Jarðtengdir spámenn

Nokkur styr hefur staðið um það hvort eigi að byggja upp flutningskerfi roforku um landið með jarðstrengjum eða loftlínum. Enn sem komið er er dýrara að leggja jarðstrengi, en á móti kemur að jarðstrengir falla betur að umhverfinu og ættu að vera öruggari kostur.

Nýlega kom út skýrsla um þjóðhagslegt gildi uppbyggingar flutningskerfis Landsnets. Þar er spáð til um að ávinningurinn af uppbyggingu kerfisins muni verða allt að 144 milljarðar króna til ársins 2040.  Annar skýrsluhöfundanna er hagfræðingur og vanur spámaður, en hann hefur m.a. spáð fyrir um vöxt íslenskra fiskistofna samkvæmt ákveðinni aflareglu auk þess sem hann spáði fyrir um mikinn styrk íslenska fjármálakerfisins skömmu fyrir síðasta efnahagshrun.

Ef menn gefa sér að hagfræðispáin sé öllu réttari nú en fyrri spár sérfræðingsins, þá er ekki eftir neinu að bíða og mál að hefjast strax handa við að endurbæta flutningskerfið og vera alls ekki að tefja verkið með deilum um hvort að leggja eigi jarðstrengi á viðkvæmum stöðum heldur einfaldlega að leggja jarðstrengi á þeim stöðum þar sem ágreiningur er uppi.

Sá aukalegi kostnaður sem áætlaður er vegna lagningar jarðstrengs virðist smávægilegur miðað við fyrirhugaðan ávinning og því óþarfi að tefja verkið.

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 9.9.2013 - 23:53 - FB ummæli ()

Dauðasveitin breyttist í björgunarsveit

Formaður hagræðingarhóps ríkisstjórnarinnar gaf frá sér óvænta yfirlýsingu í kvöld. Í henni kom fram að vinna hópsins gangi alls ekki út á  að koma fram með beinar niðurskurðartillögur, sem nýst gætu við fjárlagagerðina, heldur miklu frekar út á að auka framleiðni og að gera eina krónu að tveimur.

Þorri landsmanna hefur staðið í þeirri trú að hlutverk hópsins sé að koma fram með niðurskurðartillögur og fékk hópurinn, sem saman stendur af  Vigdísi Hauksdóttur, Guðlaugi Þór Þórðarsyni, Unni Brá Konráðsdóttur og formanninum Ásmundi Einari Daðasyni, á sig það hræðilega viðurnefni dauðasveitin.  Með yfirlýsingu formanns Ásmundar Einars um breytt hlutverk hópsins, sem gengur að vísu gegn málflutningi Guðlaugs Þórs um blóðugan niðurskurð, þá virðist sem að dauðasveitin hafi skyndilega breyst í björgunarsveit.

Nú verður fróðlegt að fylgjast með tillögum björgunarsveitarinnar, sem hlýtur að leggja það til að allur fiskur fari á markað til þess að tryggja það að sá sem getur gert hvað mest verðmæti úr hráefninu fái það til vinnslu.  Sömuleiðis hlýtur björgunarsveitin að kalla til Jón Kristjánsson fiskifræðing, sem rökstutt hefur rækilega að skynsamlegt sé að veiða mun meira úr helstu nytjastofnum á Íslandsmiðum en gert er nú um mundir.

Flokkar: Óflokkað

Höfundur

Sigurjón Þórðarson
Líffræðingur og sveitarstjórnarmaður á Sauðárkróki.
RSS straumur: RSS straumur