Sunnudagur 8.9.2013 - 21:53 - FB ummæli ()

Sammála Árna Páli

Í morgun fór formaður Samfylkingarinnar mikinn í útvarpsþættinum Sprengisandi í lýsingum á því að ríkisstjórnin hefði nær ekkert gert og það sem þó hefði verið gert, hefði betur verið ógert.  Ég var að mörgu leyti sammála Árna Páli um að gjörðir ríkisstjórnarinnar lofi alls ekki góðu og séu ekki í neinu í samræmi við stóryrt kosningaloforð Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks. Svarið við óstjórninni taldi formaður Samfylkingarinnar vera burðugan jafnaðarmannaflokk!

Í framhaldinu vaknaði spurningin:  Hverju kom ríkisstjórn burðugs flokks „jafnaðarmanna“ í verk á einu og hálfu kjörtímabili?  Ekki breytti hún kvótakerfinu,  verðtryggingunni  eða bætti stjórnskipan landsins og ýmislegt af því sem hún þó gerði hefði betur verið látið ógert s.s. setning Árna-Pálslaganna og endurreisn nær algerlega óbreytts fjármálakerfis.

Sex ára bitur reynsla þjóðarinnar af  ríkisstjórnarsetu Samfylkingarinnar, sem einkenndist af sviknum loforðum, er aðalástæða þess að Framsókn er komin á ný að kjötkötlunum en ekki  stórkostleg kosningaloforð Framsóknar.

 

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 4.9.2013 - 01:49 - FB ummæli ()

Urðu gjaldeyrishöftin Thule að falli?

Hún er fyrir ýmsa sakir umhugsunarverð umfjöllun Helga Seljan í Kastljósinu um fjárfestingar fjölmargra lífeyrissjóða á Tortola í gegnum Thule Investments. Þær spurningar sem vakna eru m.a. hvort að launþegar sem hafa verið hingað til skyldugir til að greiða inn í lífeyrissjóðina eigi eftir að fá fleiri  fréttir af fjárfestingarævintýrum með ævisparnaðinn á Tortúla?

Sömuleiðis er vert að velta þeirri spurningu upp að ef ekki hefði komið til gjaldeyrishafta hefði starfsemi Thule Investments og allra hinna skúffufyrirtækjanna  í útlöndum haldið áfram eins og ekkert hefði í skorist eftir hrun. Spurningin er hvort að gjaldeyrishöftin hafi ekki einfaldlega komið í veg fyrir að það hefði verið mögulegt að halda áfram að reyna að blása lífi í dauðvona útgerð í gegnum Framtakssjóð lífeyrissjóðanna.

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 14.8.2013 - 17:10 - FB ummæli ()

Skólpið á RÚV

Talsverð umræða hefur verið á RÚV síðustu daga um fráveitumál sveitarfélaga.  Eins og oft vill verða þá hefur umræðan farið út um víðan völl m.a. um reglugerðir sem unnið er með,  skipulag eftirlits og  fjármál sveitarfélaga.

Mengun frá venjulegu húsaskólpi má skipta í þrjá þætti: lífræn næringarefni, örverur og svo stærri agnir, einkum pappír og plast.  Við sjávarströndina á Íslandi er ofauðgun vegna lífrænna næringarefna ekki vandamál og er það bæði vegna fámennis og sömuleiðis vegna þess hve sjórinn er góður viðtaki hér við land.  Gerlamengun getur hins vegar orðið talsverð  í skammdeginu þegar áhrifa sólarljóss gætir hvað minnst, en sólarljósið er mjög gerileyðandi.

Íslenska reglugerðin, um fráveitur og skólp nr 798/1999, er sett með hliðsjón af tilskipun Evrópusambandsins nr. 91/271/ESB. Í íslensku reglugerðinni eru heimasmíðuð ákvæði um leyfilegt gerlamagn við strendur, en engin viðmið er að finna um þau í Evróputilskipuninni. Sömuleiðis er að finna ákvæði um að einföld síun geti komið í stað fyrsta stigs hreinsunar á fráveituvatni sem rennur í sjó. Séríslenska ákvæðið um leyfilegt gerlamagn er, svo undarlegt sem það nú er, strangara en baðvatnsreglur Evrópusambandsins og sömuleiðis ekki í samræmi við ákvæði í reglugerð nr. 796/1999  um varnir gegn mengun vatns. Ákvæðið um að einföld síun á skólpi fyrir 150 þúsund manna borg, geti komið í staðin fyrir fyrsta stigs hreinsun, sem felur m.a. í sér að minnka lífrænt magn í skolpi um helming, minnkar verulega kröfur  um hreinsun skólps fyrir Höfuðborgarsvæðið.  Allt virðist benda til þess að sú eftirgjöf á kröfum á hreinsun sé mjög skynsöm, þar eð viðtakinn ræður vel við fráveituvatnið sem veitt er í hann. Að öðrum kosti þyrfti að fara í kostnaðarsama vinnslu og jafnvel urðun á seyru, sem unnin yrði úr skólpinu.

Séríslenska ákvæðið um leyfilegt magn gerla er mjög íþyngjandi fyrir minni byggðir við sjávarsíðuna. Sömuleiðis er erfitt að færa fyrir því einhver haldbær rök að mörkin þurfi að vera strangari hérlendis en í  baðvatnsstöðlum í Evrópu. Ákvæðið leiðir til þess að ef  á að uppfylla það  í skammdeginu þá þarf að leggja nokkur hundruð metra langar lagnir út í sjó frá nokkur hundruð manna byggðum.  Efasemdir um skynsemi þess  að fara í slíkar framvæmdir hafa ekki verið til þess að setja þær ofar á forgangslista. Það er ljóst að slíkar framkvæmdir samkvæmt séríslensku reglunum verða of umfangsmiklar ef horft er til Evróputilskipunarinnar.

Í fréttum RÚV var látið að því liggja að skipan heilbrigðisnefnda sveitarfélaga væri ástæða þess að heilbrigðiseftirlitin beittu ekki dagsektum og að eftirlitið setti kíkinn fyrir blinda augað þegar kemur að starfsemi sveitarfélaga.  Reynslan er sú að það er mikill vilji hjá rekstraraðilum að hafa sína starfsemi í góðu lagi og á það ekki síður við um sveitarfélög en fyrirtæki sem eru í rekstri.

Heilbrigðiseftirlitum er skylt að fara að meðalhófsreglu stjórnsýslulaga og  beita starfsemi á vegum sveitarfélaga, sem og aðra starfsemi,  þvingunarúrræðum laga  ef  önnur úrræði þrýtur, s.s. að loka ákveðinni starfsemi eða takmarka hana tímabundið. Á það við um t.d. sundlaugar, vatnsból, leiktæki og húsnæði. Hvað varðar umræddar dagsektir, þá er ekki til mikils að nota viðkomandi úrræði í ljósi 71. gr. laga nr. 90/1989 um aðför.  Fyrir nokkrum árum var á Alþingi vakið máls á að dagsektir væru í raun gagnslaust úrræði vegna þess að þær falla niður um leið og sá brotlegi lætur tilleiðast að fara að lögum.  Ég tel það ekki vænlegt að meta störf  heilbrigðisnefnda út frá því hversu oft þær beita hálfónýtu verkfæri.

Aldrei hef ég orðið var við annað en að í Heilbrigðisnefnd Norðurlands vestra ráði málefnaleg sjónarmið ferðinni og þar sé bæði metnaður fyrir góðu starfi og ábyrgum rekstri, því sætir þessi framsetning RÚV mikilli furðu.  Heilbrigðisnefndirnar gegna mjög mikilvægu hlutverki þar sem ákvarðanir eru þá í  höndum þeirra sem þekkja vel til staðbundinna aðstæðna í stað miðstýrðrar ákvarðanatöku.  Miðstýringin stríðir gegn inntaki Staðardagskrár 21 (Local Agenda 21) en rauði þráðurinn í stefnunni gengur út á að virkja almenning og nærsamfélagið til siðferðislegrar umhverfisvitundar og virkrar þátttöku í umhverfismálum. Bein ábyrgð á eftirliti og eftirfylgni heilbrigðisnefnda er því eina rökrétta leiðin út frá þeirri stefnumótun stjórnvalda sem unnið er út frá.

Mikilvægast er að vinna skipulega og af skynsemi að því að ná árangri í fráveitumálum en minna skiptir hver slær og hvernig á puttana á öðrum.  Umfjöllun RÚV hjálpar vissulega við það koma málinu ofar á dagskrá, sem greiðir vonandi fyrir sómasamlegri lausn, en árangur í umhverfismálum verður seint talinn í fjölda þvingunarúrræða.

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 12.8.2013 - 19:22 - FB ummæli ()

Félagsvísindasvið Háskóla Íslands á villigötum

Eitt af meginhlutverkum háskóla er  að vera gagnrýnið afl í samfélaginu. Forseti Félagsvísindasviðs Háskóla Íslands virðist engan vegin átta sig á því hlutverki ef marka má viðtal við hann á Bylgjunni þann 12. ágúst sl. Málflutningur forsetans  var í stuttu máli  sagt áróður fyrir íslenska kvótakerfinu, sem hefur leitt til brottkasts, svindls og byggðaröskunar, auk þess að hafa komið í veg fyrir nýliðun í atvinnugreininni og leitt til stórfellds eftirlitskostnaðar.  Öllum ætti að  vera ljóst að kerfið er alls ekki að ganga upp þó það væri ekki nema fyrir þá nöpru staðreynd að þorskaflinn er nú einungis helmingurinn af því sem að hann var fyrir daga kerfsins.

Í stað þess að fræðimenn HÍ fari ofan í saumana á augljósum göllum íslenska kvótakerfisins og leggi til breytingar landi og þjóð til heilla, þá er kerfið mært og allt mögulegt og ómögulegt talið því til tekna.  Í framangreindu viðtali var kerfið sagt leiða af sér hvorki meira né minna en best rekna sjávarútveg í heimi, sem væri m.a. í mun betri málum en norskur sjávarútvegur. Kerfið  var sömuleiðis sagt vera  lykill að ýmsu markaðsstarfi og fullvinnslu afurða,  s.s niðursuðuafurða og roðvinnslu á Sauðárkróki. Ef farið er yfir fullyrðingar forseta Félagsvísindasviðsins, þá standast þær ekki neina skoðun.

Förum yfir málið:

Er kvótakerfið forsenda fullvinnslu  og framleiðslu niðursuðuafurða? Varla! Þar sem niðursuða sjávarafurða hófst á Íslandi á 19. öld og var mjög blómleg á 20. öldinni víða um land, m.a.  á Akureyri, þar sem „sardínur“  voru soðnar niður, gaffalbitar komu frá Siglufirði og ýmsar afurðir frá Ora svo eitthvað sé talið til.  Það er sömuleiðis hrein og tær vitleysa að gefa það í skyn kvótakerfið sé einhver forsenda þess að roð fari til frekari vinnslu  hér á Sauðárkróki.

Stenst fullyrðingin um giftursamlegt markaðsstarf íslensku virðiskeðjunnar í sjávarútvegi?  Svar Viðars Garðarssonar, eins helsta sérfræðings landsins í markaðsmálum, við þeirri spurningu er nei, en hann var með sérstakan þátt á mbl.is   um málið undir yfirskriftinni „Lítil sérstaða íslensks fisks“.

Getur það staðist að Norðmenn standi langt að baki Íslendingum hvað varðar rekstur og fullvinnslu sjávarafurða? Nei. Norðmenn eru framarlega í framleiðslu á kavíar úr þorskhrognum, reykingu fiskafurða og lýsisframleiðslu. Norðmenn er sömuleiðis miklu framar í markaðsstarfi en Íslendingar, enda hafa þeir í digrari sjóði að sækja. Ekki hefur frést af miklum afskriftum hjá norskum útgerðarmönnum, ólíkt ýmsum starfsbræðrum þeirra hér við land, sem hafa einnig varað við að nær öll gjaldtaka geti riðið útgerðinni að fullu.  Skýtur það nú ekki skökku við að ef flett er í  gegnum norsk sjávarútvegsblöð á borð við Fiskaren að þar er ávallt að finna fréttir af glæsilegri nýsmíði skipa og tækjabúnaðar fyrir norskan sjávarútveg  á meðan sá „best rekni  í heimi“, að mati forseta Félagsvísindasviðs HÍ, notast við togara sem eru að meðaltali þjátíu ára gamlir?

Vissulega hefur margt jákvætt gerst í íslenskum sjávarútvegi á síðustu áratugum frá því að kvótakerfið var tekið upp, en flest af því á rætur að rekja til annarra þátta, svo sem opinna fiskmarkaða og framþróunar í tölvu og flutningatækni.

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 7.8.2013 - 23:42 - FB ummæli ()

Glæpurinn gegn Flateyri

Síðan kvótakerfinu var komið á hafa reglulega borist neyðaróp frá Flateyri, en ráðamenn hafa hingað til ekki haft dug í sér til þess að taka á rót vandans.

Mér var því nokkuð brugðið í fyrstu þegar það barst stríðsyfirlýsing frá forseta bæjarstjórnar á Ísafirði um að framinn hefði verið glæpur gegn samfélaginu á Flateyri.

Í fyrstu hélt ég að nú loksins hefði meirihluti bæjarstjórnar á Ísafirði viðurkennt opinberlega þá augljósu staðreynd sem blasir við, þ.e. að kvótakerfið sé orsök vandans, og að það sé sú meinsemd sem er að leggja sjávarbyggðirnar í rúst.  Ekki reyndist raunin sú þegar betur var að gáð, heldur var forseti sveitarstjórnar að beina spjótum sínum að kvótalítilli útgerð, sem reynt hefur að hasla sér völl innan um hákarla gjafakvótans með því að nýta sér byggðakvóta.

Spurningin sem eftir stendur er: Hvaða gæðingur mun nú fá úthlutað byggðakvóta Flateyrar?

 

 

 

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 27.7.2013 - 19:58 - FB ummæli ()

Vill ríkisstjórnin hjálp?

Margir þeirra, sem  báru miklar vonir til þess að nýja ríkisstjórnin kæmi hjólum atvinnulífsins á fulla ferð strax eftir kosningar, eru nú farnir að efast um að áætlun ríkisstjórnarflokkanna hafi náð lengra en að komast í stjórn með innihaldslausum loforðum.

Ýmsir hafa boðið ríkisstjórninni, sem er að leysa úr miklum vanda, aðstoð sína, m.a.  Jón Kristjánsson fiskifræðingur og fyrrverandi forsætisráðherra, Þorsteinn Pálsson.  Sá síðarnefndi býður upp á að frysta óbreytt ástand en fiskifræðingurinn Jón Kristjánsson bendir á að auðveldlega sé hægt að stækka kökuna sem er til skiptana fyrir þjóðina.

Eitthvað er Sigmundur Davíð forsætisráðherra hikandi við að taka af skarið þar sem að ráðherra hans hefur ekki enn fengið að  svara því hvort að ríkisstjórnin hans sé tilbúin til að hlusta á vel rökstuddar ráðleggingar.

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 19.7.2013 - 01:05 - FB ummæli ()

Að misnota veikindin

Óstjórn hefur ríkt við stjórnun Reykjavíkurborgar á liðnum árum.  Borgarfulltrúar liðinna ára gerðu sig seka um að hlaupa á eftir allskyns kynjum útrásarliðs, spekúlanta og gullgerðarmanna, sem þóttust ætla að spinna gull í REI ævintýrum, Orkuveitunni, Hörpunni og fasteignabraski.  Borgarbúar eru minntir daglega á óstjórnina með hækkuðum orkureikningum, vatnssköttum og órækt innan borgarmarkanna.

Ólafur F. Magnússon, sem hefur að eigin sögn átt við erfið veikindi að stríða, tók ekki þátt í þessum hlaupum og barðist oft einn síns liðs gegn ruglinu og óráðsíunni.  Það er vert að velta því fyrir sér hvernig Laugavegurinn og Vatnsmýrin litu út ef að ekki hefði verið spornað við því að gjaldþrota verktakar hefðu fengið, m.a. í umboði Dags B. Eggertssonar, að ryðja í burtu öðru hverju húsi neðarlega á Laugaveginum og grafa upp Vatnsmýrina til þess að byggja upp blauta drauma um alvöru Evrópska Höfuðborg.  Enginn þarf að efast um að ef að þær hugmyndir hefðu farið lengra hefði miðborgin verið meira og minna í hálfgerði rúst næstu árin eftir hrunið.

„Góða fólkið“ í borgarstjórn og fylgismenn þess gerði sig ítrekað sekt um að nýta sér veikleika Ólafs F. Magnússonar, m.a. með ólátum á áhorfendapöllum þegar hann tók við embætti borgarstjóra.  Vissulega gerði Ólafur F. Magnússon mistök í embætti, m.a. í viðskiptum sínum við fyrrum félaga sína í Frjálslynda flokknum.  Enginn borgarfulltrúi hreyfði leg né lið til þess að leiðrétta augljós mistök vegna styrkveitingar til Frjálslynda flokksins, en þegar flokkurinn hafði fengið borgina dæmda í Hæstarétti til þess að fara að lögum, þá voru fyrstu viðbrögðin að gera kröfu á hendur fyrrum borgarstjóra.

Ef farið er út í að skrifa út reikninga vegna fjártjóns vegna óráðsíu borgarfulltrúa í gegnum tíðina, þá er ég viss um að margir aðrir ættu að fá mun hærri reikning en Ólafur F. Magnússon, sérstaklega þegar sumir þeirra hafa játað opinberlega að þeir hafi vísvitandi misnotað veikindi hans.

 

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 6.7.2013 - 07:45 - FB ummæli ()

Lélegra en árið 1921

Nýr sjávarútvegsráðherra kynnti þá ákvörðun sína að þorskveiðin á næsta fiskveiðiári yrði  214 þúsund tonn! Hann gerði það nokkuð kotroskinn og taldi að hann væri að kynna mikilsverðan árangur, sem hefði náðst vegna þess að ráðgjöf Hafró hefði verið fylgt í einu og öllu á liðnum árum.

Hvernig er það, veit ráðherra ekki að boðaður afli næsta fiskveiðiárs er minni en heildarveiðin var árið 1921?  Þorskaflinn jókst síðan á þriðja áratug síðustu aldar og hélst svo í marga áratugi að meðaltali tvöfalt meiri en það sem nú er talað um sem öfundsverðan árangur.

Það er ekki heil brú í þessum málflutningi og það er leitt ef efnilegur stjórnmálamaður verður að vilijalausri talvél þröngra hagsmunasamtaka, bara við það eitt að stíga fæti inn fyrir þröskuldinn í Sjávarútvegsráðuneytinu.  Allar röksemdir, sem hafa komið úr Sjávarútvegsráðuneytinu fyrir því að setja úthafsrækjuna á ný inn í kvóta og stöðva veiðar á henni, ganga engan vegin upp. Aðgerðin er beinlínis til niðurrifs á íslensku atvinnulífi auk þess sem hún brýtur í bága við atvinnufrelsisákvæði Stjórnarskrárinnar.  Málið er að síðan veiðarnar voru gefnar frjálsar þá hefur afli á sóknareiningu farið vaxandi og afrán fiska, s.s. þorsksins, hefur mun meiri áhrif á vöxt og viðgang fiskistofna heldur en veiðar geta nokkurn tímann haft.

 

 

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 5.7.2013 - 01:24 - FB ummæli ()

Hef engar áhyggjur af Fjórflokknum

Hvernig í ósköpunum var mögulegt að tapa á því að lána skilvísum almenningi pening á gríðarháum verðtryggðum vöxtum?

Tapið á starfrækslu einnar ríkisstofnunar, Íbúðalánasjóðs, sem ætti af framansögðu að skila miklum miklum ágóða, hefur valdið ríkissjóði gríðarlegu tjóni. Svo háu að það nemur hálfum fjárlögum ríkisins.  Í hvaða lýðræðisríki væri almenningi boðið upp á þann málflutning að svo svakalegt tap hafi ekki verið ráðamönnum löngu ljóst?  Tapið er nánast kynnt sem ófyrirséð uppákoma vegna mistaka og vanþekkingar starfsmanna og stjórnenda sjóðsins.  Í framhjáhlaupi eru síðan nefnd feimnislega pólitísk áhrif, hagsmunatengsl og sinnuleysi stjórnsýslunnar.

Við það að renna í gegnum samantekt Rannsóknarskýrslu Alþingis um Íbúðalánasjóð þarf enginn að velkjast í vafa um að pólitískur ruglandi og spilling á æðstu stöðum, strandaði sjóðnum sem hefði átt að mala gull.  Íbúðalánasjóður hefur greinilega verið misnotaður til að hygla pólitískum fylgifiskum um áratugaskeið. Nefnd hafa verið til sögunnar miður falleg dæmi af viðskiptum ráðamanna Kaupfélags Skagfirðinga við sjóðinn, en ekki er síður stingandi að skoða hvar miklu mun hærri upphæðir töpuðust á lánveitingum til fasteigna- og leigufélaga.   Augljóst er að pólitískar tengingar hafa ráðið að miklu leyti þegar á annað hundrað milljarða voru lánaðir í viðkomandi fasteignafélög m.a. á Miðnesheiðina, en þeir peningar skiluðu sér illa til baka.  Sömuleiðis er ljóst sjóðurinn var notaður til þess að kynda undir þensluna í aðdragand hrunsins og hann virðist ekki síður hafa verið notaður sem stuðpúði til þess að taka höggið af völdum aðilum eftir hrun.

Ég hef engar áhyggjur af fjórflokkunum sjálfum, sem eru komnir í þann gamalkunna leik að kenna hverjum öðrum um ruglið. Allur á hann sök á en þó sérstaklega Framsóknarflokkurinn.  Ég hef aftur á móti meiri áhyggjur af kjósendum og þá einkum kjósendum Framsóknarflokksins, sem hljóta að vera að vakna upp af vondum draumi.

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 26.6.2013 - 09:53 - FB ummæli ()

Að setja sjálfan sig að veði

Formaður Verkalýðsfélags Akraness hefur lengi verið einn einarðasti andstæðingur verðtryggingarinnar. Þegar það var komið á hreint að boðuð skjaldborg Samfylkingarinnar var plat þá gerðist hann einn harðasti andstæðingur síðustu ríkisstjórnar. Ekki lét hann þar við sitja heldur greiddi því eðlilega götu, fyrrverandi stjórnarandstöðuflokka og þó einkum Framsóknarflokksins, í aðdraganda síðustu Alþingiskosninga.

Vihjálmur Birgisson hefur sett sig í þá stöðu að vera gísl núverandi stjórnar.  Það er eins gott að eitthvað verulega gott komi út úr núverandi stjórn.  Vilhjálmur er nefnilega ekki formaður endilega stuðningsmanna Sjálfstæðisflokks eða Framsóknar.  En háværari stuðningsmaður núvernandi stjórnar er sennilega ekki til, hann er jafnvel háværari en margir nýir þingmenn núverandi stjórnar svo sem Brynhildur Pétursdóttir, Elsa LáraArnardóttir, Haraldur Einarsson, Jóhanna María Sigmundsdóttir, Karl Garðarson, Líney Anna Sævarsdóttir, Páll Jóhann Pálsson, Sigrún Magnúsdóttir, Silja Dögg Gunnarsdóttir, Valgerður Gunnarsdóttir, Vilhjálmur Árnason, Willum Þór Jónsson, Þorsteinn Sæmundsson og Þórunn Egilsdóttir. Eflaust eru þau ekki minni stuðningsmenn stjórnarinnar en Vilhjálmur en það fer minna fyrir þeim.  Spurningin er; hvað gerir verkalýðsforinginn ef uppskeran bregst?

Eftir kosningar hefur hann verið í góðu SMS-sambandi við Sigmund Davíð forsætisráðherra og bíður vongóður, eins og ég aðrir landsmenn, eftir tafarlausri skuldaleiðréttingu og afnámi verðtryggingarinnar. Reyndar gerir formaðurinn gott betur en að bíða nokkuð rólegur eftir tafarlausum úrræðum heldur hefur hann haldið áfram að ráðast á vinstri flokkana sem sviku íslensk heimili og hefur með heitingum sínum nánast tekið sjálfan sig sem gísl fyrir efndir kosningaloforða ríkisstjórnarinnar.

Það sem ræður kappi foringjans er án efa að hann er í góðu sambandi við félagsmenn sína, sem eru hart leiknir af verðtryggingunni. Hætt er við því, ef að formaður Verkalýðsfélags Akraness spyrðir sig of fast saman við forystu Framsóknarflokksins, að hann verði ekki í aðstöðu til þess að ýta kröftuglega við ríkisstjórninni, ef að biðin eftir „tafarlausu leiðréttingunni“fer að lengjast.

Ég myndi að minnsta kosti hafa varann á mér ef litið er til forgangsröðunar ríkisstjórnarinnar á sumarþinginu.

 

Flokkar: Óflokkað

Höfundur

Sigurjón Þórðarson
Líffræðingur og sveitarstjórnarmaður á Sauðárkróki.
RSS straumur: RSS straumur