Fimmtudagur 24.3.2016 - 13:16 - FB ummæli ()

22. sálmur

Forsætisráðherra þjóðarinnar hefur farið með veggjum frá því að upp komst, að réttmætt væri að draga í efa óhlutdrægni hans í samningaviðræðum við kröfuhafa.

Á síðustu dögum hefur þó frést af því að forsætisráðherra hafi lesið upp Passíusálm í Grafarvogskirkju og síðan birtist viðtal við hann í Fréttablaðinu.  Í viðtalinu örlar ekki á mikill eftirsjá eða hvað þá alvarleika málsins, heldur gerir hann lítið úr þeim tugmilljónum króna sem um var að tefla í samningum við kröfuhafa.  Um er að ræða miklu hærri upphæð en launþegarnir Jón og Gunna geta látið sig dreyma um að eignast.

Alvarlegast í málinu eru þau afar vondu skilaboð sem æðsti yfirmaður stjórnsýslunnar í landinu sendir þegnunum, um að leynd, vanhæfi, skattaskjól og hagsmunárekstrar séu bara í góðu lagi. Í Passíusálmum Hallgríms Péturssonar eru lesendur brýndir til góðra verka og bent á að eftir höfðinu dansa limirnir.

Hvað höfðingjarnir hafast að,hinir meina sér leyfist það.

Það hefði farið betur á því ef forsætisráðhera hefði beðist afsökunar og viðurkennt dómgreindarbrest.

 

 

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 18.3.2016 - 10:53 - FB ummæli ()

Goðgá

Á síðustu árum þá hefur Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni verið tíðrætt um hrægamma og gang samningaviðræðna við kröfuhafa föllnu bankanna. Forsætisráðherra greindi samt aldrei frá því, að miklir fjárhagslegar hagsmunir, voru með þeim hætti  að réttmætt væri að draga óhlutdrægni hans í málinu, í efa.  Um það verður ekki deilt!

Efast má stórlega um að í nokkru öðru lýðræðisríki kæmist forsætisráðherra upp með þetta, nema þá helst einhvers staðar í Afríku.

Björn Valur Gíslason, varaformaður Vg, gerði það eina rétta og tók málið upp með málefnalegum hætti á Alþingi og flutti þar tvær hófstilltar ræður 1, 2., Óskaði Björn Valur eftir því að forsætisráðherra skýrði málavöxtu. Ekki verður það sana sagt um suma stjórnarliða í umræðunni, þar sem reynt var að úthrópa eðlilega umræðu sem „skítakast“ og „skítaleiðangur“.

Stuðningsmenn ríkisstjórnarinnar hafa reynt að hafa endaskipti á umræðunni og hafa sagt það berum orðum að varaformaður Vg hafi gengið ómálefnalega fram í umræðunni á Alþingi og hann hafi átt að þegja um málið. Það er rétt að spyrja stuðningsmennina í hvers konar samfélagi þeir vilja búa í?

Vilja þeir að; augljóst vanhæfi forsætisráðherra, skattaskjólin, Borgunarspillingin, verði svo sjálfsagður hlutur af íslenskri stjórnmálamenningu að það teljist goðgá að ræða þau á hinu háa Alþingi.

 

 

 

Flokkar: Óflokkað

Sunnudagur 13.3.2016 - 18:41 - FB ummæli ()

Ráðherra mokar íbúðum í gróðafélög

Lítill raunverulegur vilji virðist vera hjá stjórnvöldum að leysa þann brýna húsnæðisvanda sem brennur einkum á ungu fólki. Ekki skortir að ráðandi stjórnmálamenn hafi gefið fjölmörg hátíðleg loforð um byggingu mörg þúsund leiguíbúða og víðtækar aðgerðir á húsnæðismarkaðnum í aðdraganda síðustu kosninga. Um helgina birtist svo enn eitt loforðið og nú frá forseta ASÍ og fleirum, um byggingu 1.000 íbúða í Reykjaík.  Varla hefur liðið sá mánuður frá síðustu Alþingiskosningum án þess að Eygló Harðardóttir félagsmálaráðherra hafi ekki birst í fjölmiðlum að kynna væntanlegar aðgerðir í húsnæðismálum.  Þrátt fyrir að bráðum 3 ár séu liðin frá því ríkisstjórnin tók við völdum, þá bólar lítið á einhverjum raunverulegum aðgerðum.  Vissulega, þá voru lögð fyrir þingið 4 frumvörp og það veigamesta um almennar íbúðir, rétt fyrir síðustu áramót. Frumvarpið hefur fengið falleinkunn hjá Samtökum Leigjenda á Íslandi og Hagsmunasamtökum heimilanna fyrir það helst að vera máttlaust og mjög sértækt.

Þegar aðgerðarleysið hefur verið orðið pínlegt fyrir ráðherra, þá hefur umræðunni gjarnan verið beint í hinar ýmsu áttir á borð einkennilega prósentureikninga og byggingareglugerð.  Ráðandi stjórnmálaöfl hafa hins vegar reynt að sneiða hjá að taka til umræðu stærsta kostnaðarliðinn þ.e. vextina.

Þó svo lítið hafi verið gert þá er það ekki svo að ráðherra hafi verið algerlega aðgerðarlaus. Staðreyndin er sú að hann hefur haft forgöngu um sölu Íbúðarlánasjóðs á mörg hundruð íbúðum.  Í stað þess að þær íbúðir sem sjóðurinn eignaðist í kjölfar hrunsins væri nýttur til uppbyggingar á óhagnaðardrifnu húsnæðiskerfi, þá hefur söluferlið verið lagt upp með þeim hætti að megnið af íbúðunum hefur lent inn í gróðafélögum.  Nokkur umræða var um söluna á Kletti en sú sala virðist vera aðeins toppurinn af ísjakanum.

 

 

 

 

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 10.3.2016 - 22:46 - FB ummæli ()

Alþingi hneykslast

Alþingi hneykslast nú mjög á þeirri ætlan Sjóvár að hafa ætlað að greiða hluthöfum sínum miknn arð.  Til þess að standa undir arðgreiðslunum átti ekki einungis að hækka iðgjöld, heldur einnig að ganga á bótasjóð félagsins.

Það kom nokkuð á óvart að þeir þingmenn sem leiddu vandlætingarumræðuna voru engir aðrir, en þeir Steingrímur J. Sigfússon og Bjarni Benediktsson.

Steingrímur,  sletti í Sjóvá á annan tug milljarða króna af skattfé almennings, til þess að félagið gæti starfað áfram eins og ekkert hefði í skorist, eftir að það hafði lent í því að bótasjóðir félagsins voru tæmdir í aðdraganda hrunsins.

Bjarni Benediktsson tengdist einmitt með beinum hætti, en óafvitandi að eigin sögn, inn í þá viðskiptafléttu Vafningsmanna, sem var stór liður í að tæma bótasjóð Sjóvár á sínum tíma, með fjárfestingaævintýri í Asíu.  Ekki virðist sem fjárglæfrir Vafningsmanna, sem bitnuðu með beinum hætti á skattborgurum hafi orðið til þess að setja þá til hliðar í frekari viðskiptum við hið opinbera. Í stað þess þá fengu þeir nýlega kreditkortafyrirtækið Borgun afhent á vildarkjörum hjá Landsbankanum.Eins og áður þá sagðist fjármálaráðherra ekkert hafa vitað um málið.

Lái mér hver sem vill en ég trúi hæfilega að hugur fylgi máli í hneykslun þeirra, fyrrverandi og núverandi fjármálaráðherra.

 

 

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 25.2.2016 - 23:38 - FB ummæli ()

Eru háir vextir heilagir?

Umræða um háan húsnæðiskostnað heimila er á algerum villigötum. Ekki virðist mega ræða það augljósa þ.e. vaxtaokrið. Af fréttum af Fasteignaráðstefnunni 2016, í Hörpu í dag, þá virðist sem vaxtokrið hafi ekki borið á góma og það jafnvel þó svo að fréttir hafi borist af því samdægurs að bankarnir hafi grætt á annað hundrað milljarða króna í fyrra!

Vitleysisumræðan er því miður ekki bundin við  Eygló ráðherra eina, sem ætlaði öllu að bjarga. Hún hefur engu að síður verið mjög leiðandi í bullinu. Reiknaði fyrir nokkru sjálf út, að hægt væri að lækka húsnæðiskostnað um heil 10%, með því hver og einn þeirra 10 aðila, sem kæmu að byggingu íbúðarhúss lækkaði sinn reikning um 1%. Ráðherrann sendi síðan orkustangir í fjármálaráðuneytið, til þess að hvetja starfsmenn áfram, þannig að þeir gætu náð sama árangri og hún, í reikniskúnstum.  Hún hefur talað fyrir uppbyggingu félagslegs íbúðarhúsnæðis, en kemur engu í verk, nema þá að selja auðmönnum íbúðarhúsnæði í eigu Íbúðarlánasjóðs.  Hvert mannsbarn ætti að vita hvað það mun leiða af sér nema þá Eygló – húsaleigan mun hækka upp úr öllu valdi. 

Á ráðstefnunni í Hörpu hélt Eygló því fram að sveitarfélögin gætu gert mjög margt til þess að lækka húsnæðiskostnað og í framhaldinu ætlaði hún að funda með stærstu sveitarfélögum landsins og spurja hvað hægt væri að gera!

Í stað þess að Dagur borgarstjóri nýtti tækifræði á ráðstefnunni til þess að kynna stórtækar áætlanir borgarinnar í húsnæðismálum sem hann blés út í aðdraganda síðustu sveitarstjórnarkosninga, þá fór hann í auma vörn og reyndi að kenna ríkinu um skort á byggingarlóðum í borginni. Viðbrögð borgarstjóra benda til þess því miður að kosningaloforð hans hafi verið innistæðulaus.

Hagfræði prófessor í Háskóla Íslands, Ragnar Árnasona bauð upp á mestu vitleysissósuna. Ragnar er þekktastur fyrir baráttu sína fyrir kvótum til lands og sjávar, en í málatilbúnaði sínum skautar  hann jafnan á milli þess að nýta sér rök annars vegar sovéskrar framleiðslustýringar og hins vegar frjáls markaðar. Markmiðið hjá Ragnari er þó alltaf eitt og hið sama  þ.e. að tryggja hag kvótahafa á kostnað almennings eða skattborgara.  Hagfræðiprófessorinn brá ekkert út af vananum þegar komið því að auðvelda fólki leið inn á húsnæðismarkaðinn.  Leiðin fól í sér að ríkisvæða húsnæðismarkaðinn að hluta, til þess að einkaeignarsjónarmið í meðferð og viðhaldi eigna geti ráðið ferðinni!

Allir sem skoða greiðsluseðla eða setja tölur inn í ágætar reiknivélar bankanna, sjá í hendi sér hvar kostnaður þeirra liggur sem eru að fjárfesta í íbúðarhúsnæði . Vextirnir eru jafnan stærsti kostnaðarliðurinn og það ætti að vera leikur einn fyrir stjórnvöld að ná honum niður, ef það er á annað borð vilji til þes. Einhverra hluta vegna þá virðist sem ekki mega ræða vaxtokrið þegar haldnar eru ráðstefnur um húsnæðisvandann.   Ráðandi öfl hvort sem það eru stjórnmálaflokkar, fjármálakerfið eða launþegahreyfingin setja málið aldrei á dagskrá.

Vaxtaokrið virðist vera að ná sömu stöðu og kvótinn í umræðu um vanda sjávarbyggðanna.  Það hafa verið haldnar ófáar ráðstefnur um byggðavandann, þar sem tryggt var að kvótabraskið bæri aldrei á góma og því jafnvel haldið fram að framseljanlegur kvóti væri grundvöllur að byggð. Afleiðinarnar voru að unga fólkið flúði sjávarbyggðirnar og nú berast fréttir af því að fólk sé að flýja land vegna erfiðleika á húsnæðismarkaði.

Það er rétt að staldra við og spyrja þeirrar gagnrýnu spurningar, hvers  vegna ekki var rætt um vaxtaokrið í Hörpu. Ástæðan tel ég að komi fram í því hverjir voru helstu bakhjarlar ráðstefnunnar þ.e. Arion banki og önnur fjármálafyrirtæki í landinu.  Lítil sem enginn hætta var á því að einhver óþægileg rödd slæddist inn á ráðstefnuna þar sem ráðstefnugjaldið var án vsk 37.500 kr.

 

 

 

 

 

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 23.2.2016 - 23:41 - FB ummæli ()

Mývatn er ómengað

Afar áhugaverðar niðurstöður er að finna í glænýrri skýrslu dr. Gunnars Steins Jónssonar um ákomu næringarefna í Mývatn.  Skýrslan var unnin fyrir Umhverfis- og auðlindaráðuneytið og er hana að finna hér.

Magn P (fosfór) virðist skipta höfuð máli fyrir vöxt og viðgang blágerla sem valda óæskilegu leirlosi í vatninu. Ef mikið er af P (fosfór), þá eykur það líkur á að leirlosi. Fleira en ákoma fosfórs getur haft áhrif á vöxt blágerla s.s. samspil dýrastofna í vatninu og hefur verið bent á  að saur dýrasvifs og einkum fiska geti aukið á vöxtinn.

Heildarinnstreymi fosfórs í Mývatn er áætlað í skýrslunni um 52 tonn á ári. Fosfór berst að langmestu leyti í vatnið með lindum eða 51 tonn og eru því áhrif mannsins á innstreymi næringarefna óveruleg.  Ferðaþjónustunni á svæðinu hlýtur að vera létt, en samkvæmt skýrslunni þá má rekja langt innan við 1% af P (fosfór) innstreymi í vatnið til hennar.

 

 

 

fosfór Mývatn

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 13.2.2016 - 18:48 - FB ummæli ()

Samfélagsbankar skila hagnaði og eru traustir

Í Norræna húsinu í dag var haldinn mjög upplýsandi fundur á vegum Dögunar, um starfrækslu samfélagsbanka. Frummælendur á fundinum voru þau Ellen Brown og Wolfram Morales.  Ellen er bandarískur lögfræðingur og rithöfundur, sem hefur skrifað fjölda greina og bækur um banka og lánastarfsemi. Hún er gjarnan fengin sem álitsgjafi í fjölmiðlum og hjá félagasamtökum.  Það er gaman að geta þess að í morgun, var hún í viðtali hjá Max Keiser og er á leiðinni héðan frá Íslandi til Bretlands, beint á fund með Breska verkamannaflokknum. Wolfram er næst æðsti yfirmaður sambands þýskra samfélagsbanka, Sparkassen, en viðskiptvinirnir eru liðlega 50 milljónir þjóðverja.

Hægt er að horfa á fundinn hér á vefnum en það kom skýrt fram að samfélagsbankar eru starfræktir vítt og breitt um heiminn og þeir hafi verið í vexti og skilað hagnaði.  Það sem sker þá frá annarri bankastarfsemi er að þeir eru í eigu almennings og eru ekki eins áhættusæknir.  Þeir líta til annrra þátta en að skila fáeinum hluthöfum hámarks skammtíma hagnaði. Fjármálaráðherra sagði nýlega ekki vita hvað samfélagsbanki væri og gaf í skyn að það væri ávísun á óábyrgan taprekstur.  Þær fullyrðingar koma ekki heim og saman við þá staðreynd að samfélagsbankar eru aldagamlar stofnanir sem hafa skilað samfélögum stöðugleika og ábata. Fjölbreyttni og styrkur minni fyrirtækja í Þýskalandi er rakinn til þess að þau hafi átt greiða leið með að fjármagna sig með sanngjörnum vöxtum í samfélagsbönkum.

Við Íslendingar ættum að vera tilbúnir að skoða þær leiðir í bankrekstri sem gefist hafa vel annars staðar í heiminum og hlusta á fleiri en þá sem voru aðalleikarar í aðdraganda hrunsins. Ég tala nú ekki um þegar svo virðist vera sem þeir hafi ekkert lært og vilji fara nákvæmlega sömu leið og í aðdraganda hrunsins.

 

 

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 5.2.2016 - 10:52 - FB ummæli ()

Vandræðaleg tvöfeldni Svía

Stofnun á vegum Sameinuðu þjóðanna hefur komist að þeirri niðurstöðu að sænsk og bresk stjórnvöld hafi beitt forvígismann Wikileaks, Julían Assange,  ólögmætri frelsissviptingu. Það er augljóst að ríkin voru handbendi BNA í málinu.  Bandarísk stjórnvöld vildu koma fram hefndum gegn Wikileaks, sem upplýsti um vafasaman stríðsrekstur og mannréttindabrot Bandaríkjamanna. Ólíklegt er að bresk stjórnvöld kippi sér upp við niðurstöðu Sameinuðu þjóðanna, en Bretar eru ýmsu vanir m.a. stríðsaðgerðum á upplognum forsendum.

Það verður fróðlegra að fylgjast með hvernig heilög sænsk stjórnvöld undir forystu jafnaðarmanna, munu bregðast við – Það hefði einhvern tíman þótt tíðindum sæta ef Svíar virtu af vettugi niðurstöðu Sameinuðu þjóðanna um mannréttindamál.

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 20.1.2016 - 23:42 - FB ummæli ()

Segir þinginu til!

Bankastjóri Landsbankans er nokkuð góður með sig þessa dagana enda nýbúinn að fá ríflega launhækkun vegna mikillar ábyrgðar.  Ekki er á allra vitorði hvað hann leggur hart að sér í vinnunni, en upp komst þó  að hann hafi þurft að selja kortafyrirtækið Borgun að næturþeli. sem var í eigu almennings.

Í næturvinnunni þá sparaði bankastjórinn ríkinu allan óþarfa auglýsingakostnað á fyrirtækinu og sömuleiðis bjargaði hann því að það væru ekki einhverjir að bjóða í fyrirtækið sem hefðu ekkert með það að gera.  Hann fann sjálfur ábyrga og rétt tengda fjárfesta sem höfðu að vísu verið „óheppnir“ í aðdraganda hrunsins til þess að yfirtaka fyrirtækið.

Mér finnst að bankastjóri Landsbankans ætti að gæta sín á því að færast samt ekki of mikið í fang, þó svo vinnugleðin sé mikil.  Það er heldur of langt seilst þegar hann er kominn í þau verk að segja alþingismönnum til eins og hann gerði í kvöldfréttum RÚV, hvað þeir eigi að gera og hvað þeir eigi ekki að gera, eins og þegar hann bannaði Árna Páli Árnasyni að óska eftir rannsókn á myrkrasölu bankastjórans.

Mögulega er krafa bankastjórans um bann á rannsókn sett fram af samfélagslegri ábyrgð, þ.e. ef það kemst upp á yfirborðið hve hart hann hefur lagt að sér, þá gæti það endað með því að hann þyrfti að þiggja enn hærri laun.

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 5.1.2016 - 23:32 - FB ummæli ()

Sameiningarblæti eða gagnsemishyggja

Afar jákvætt var að hlýða á málflutning landlæknis í viðtali á RÚV í dag. Allt bendir til þess að hann hafi farið rækilega með gagnrýnum hætti í gegnum íslenska heilbrigðiskerfið, á því rúma ári sem hann hefur verið í starfi.

Það kvað við nýjan gagnsemistón, en umræðan hefur lengi verið þjökuð af upphrópunum um einkavæðingu og hálfgerðu sameiningarblæti.  Allt átti að lagast og batna við það eitt að sameina sjúkrahús og heilbrigðisstofnanir vítt og breitt um landið.  Sjaldnast eða jafnvel aldrei var farið eftir leiðbeiningum frá Ríkisendurskoðun um hvernig ætti að ná fram árangursríkri sameiningu. Tregðan við að fara eftir leiðsögn Ríkisendurskoðunar hefur verið mér illskiljanleg, þar sem skilaboðin voru bæði einföld og rökrétt. Þau fólu m.a. í sér að undirbúningur væri góður, sett væru mælanleg markmið og skýr framtíðarsýn.  Vegna ónógs undirbúnings, þá varð niðurstaðan jafnan minni afköst og meiri útgjöld, hvort sem það var við sameining sjúkrahúsa í Reykjavík eða heilbrigðisstofnanna á Austurlandi.

Niðurgreidd einkarekin heilbrigðisþjónusta fyrir alla, hefur verið ofureinfalt  lausnarorð við öllum vandamálum heilbrigðiskerfisins hjá sumum. Í sjálfu sér hentar slíkt fyrirkomulag þeim sem veita og þiggja þjónustuna en öllu verra getur það orðið fyrir þann sem niðurgreiðir hana þ.e ríkissjóð.

Landlæknir virðist nálgast heilbrigðiskerfið af verkhyggni – vegur og metur hvar skynsamlegt sé að beita ríkisrekstri og hvar megi notast við einkarekstur.  Hann tekur undir þau sjónarmið sveitarstjórnarmanna vítt og breitt um landið að meiri skynsemi sé í því að nokkrir sérfræðingar leggi land undir fót í stað þess að stefna miklum fjölda af sjúku fólki héðan og þaðan af landinu öllu til Reykjavíkur.

Það er mikilvægt að svara því áður en varið er meira fé í heilbrigðiskerfið, hvort að ekki sé hægt að fá meira fyrir þann pening sem nú fer i kerfið.

 

 

 

Flokkar: Óflokkað

Höfundur

Sigurjón Þórðarson
Líffræðingur og sveitarstjórnarmaður á Sauðárkróki.
RSS straumur: RSS straumur