Föstudagur 11.12.2015 - 00:39 - FB ummæli ()

Húsnæðismálaráðherra auðlegðarfólksins

Lengi vel vakti félags- og húsnæðismálaráðherra ríkisstjórnarinnar mikla aðdáun fyrir falleg loforð um hvernig hún ætlaði að koma á félagslegu húsnæðiskerfi og styðja við leigjendur og þá sem stæðu höllum fæti á húsnæðismarkaðnum. Þegar líða fór á kjörtímabil ríkisstjórnarinnar, þá fóru ýmsir að átta sig á því að ráðherrann hefði ekkert gert og væri ekkert að gera!  Harðasta gagnrýnin á verkleysið kom innan úr Framsóknarflokknum sjálfum og var Eygló sögð vera ömurlegur ráðherra af trúnaðarmanni flokksins, enda setja ýmsir hjartahreinir samvinnumenn spurningamerki við framgöngu ráðherrans.

Þó svo að ráðherrann hafi nánast ekki framkvæmt neitt það sem hún másar mest um þá hefur hún stutt rækilega við auðlegðarfólkið okkar á kjörtímabilinu. Hún lagði sitt af mörkum til þess að leggja af auðlegðarskattinn, sem hafði verið sérstakur þyrnir í augum Guðrúnar Lárusdóttur útgerðarkonu í Hafnafirði. Svo mjög taldi Guðrún á sér brotið að hún fór í mál við ríkið á þeim forsendum að skatturinn bryti í bága við eignarréttarákvæði stjórnarskrárinnar.

Húsnæðisráðherra ákvað að nota ekki þær eignir sem Íbúðarlánasjóður hafði eignast í hruninu til að byggja upp félagsleg íbúðafélög sem leigðu almenningi á sanngjörnu verði.  Nei þegar til kastanna kom þá voru auðmenn settir í sérstakan forgang til þess að komast yfir eignirnar á sérstöku heildsöluverði!

Það er síðan eftir öðru að fremst í röð auðmannanna er útgerðarkonan í Hafnafirði sem hafði auðgast hve mest á því að selja sameign íslensku þjóðarinnar og setja í eigin vasa!

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 21.11.2015 - 13:29 - FB ummæli ()

Hvernig verður 100 ára afmælið?

Í tilefni 50 ára afmælis Hafró fór forstjóri stofnunarinnar mikinn í sjálfshóli.  Í sjálfu sér er gott að vera ánægður með sig og sína, sérstaklega þegar einhver innstæða er fyrir því.  Það er því vert að fara yfir árangurinn þ.e. veiðina á Íslandsmiðum og síðan fyrir hálfri öld:

Árið 1965 var þorskveiðin á  394 þúsund tonn, en nú árið 2015, er þorskveiðin 222 þúsund tonn.

Árið 1965 var ýsuveiðin 99 þúsund tonn, en nú árið 2015, er ýsuveiðin 38 þúsund tonn.

Árið 1965 var ufsaveiðin 60 þúsund tonn, en nú árið 2015, er ufsaveiðin 52 þúsund tonn.

Árið 1965 var lúðuveiðin 4 þúsund tonn, en nú árið 2015  er lúðuveiðn örfá tonn!

Hvernig sem litið er á ofangreindar tölur þá á hvaða mannsbarn að sjá að hér er alls ekki um neinn árangur að ræða heldur beinlínis tjón.  Annað sem er áhugavert við töflur um afla á Íslandsmiðum, er að hann fór hratt minnkandi eftir því sem farið var meira að fylgja veiðiráðgjöf Hafró, sem fól í sér að veiða minna til að fá meira seinna. Einhverjir kunna að telja að það hafi verið stunduð mikil ofveiði á þorski árið 1965, en það er útlokað þar sem þorskstofninn stækkaði og veiðin jókst  og minnkaði ekki verulega fyrr en Hafró fór að stjórna. Fullyrðing stofnunarinnar var í upphafi, að ef að hún fengi að ráða ferðinni, þá fengist varanlegur jafnstöðuafli upp á 500 þúsund tonn af þorski – það hefur heldur betur ekki gengið eftir.

Digurbarkalegar yfirlýsingar forstjóra Hafró eru kjánalegar í ljósi ofangreindra staðreynda.

 

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 19.11.2015 - 23:20 - FB ummæli ()

Þegar mínus verður plús

Nú fer fram Sjávarútvegsráðstefnan, en það væri meira lýsandi að kalla samkomuna – málþing til heiðurs kvótakerfinu. Kirfilega er tryggt að engum gagnrýnisröddum sé hleypt að á samkomunni heldur einungis sungið halelúja, dýrð sé blessuðum kvótanum.  Helsti vitnisburðurinn um kraftaverk kerfisins, var línurit um gífurlega aukningu á útflutningsverðmætum fiskafurða frá hruni í krónum talið. Hvaða jólasveinn sem er, sem vinnur við fréttir á að sjá það í hendi sér að línuritið segir miklu meira um fall íslensku krónunnar frá hruni, en raunverulega verðmætaaukningu. Engu að síður þá birtist það athugasemdalaust á RÚV! Sama á við um ýkjur um ríkisstyrki erlendis til útgerða. Það sem talið er gjarnan til ríkisstyrkja erlendis er m.a. rekstur; rannsóknastofnanna á borð við Hafró, Fiskistofu og landhelgisgæslu.

Á ráðstefnunni verður örugglega ekki minnst á að fiskur er alla jafna ekki verðlagður á frjálsum markaði heldur af opinberri verðlagsnefnd.  Fyrirkomulagið á sér helst fyrirmynd í Ráðstjórnarríkjunum sálugu, enda kemur það í veg fyrir heiðarlega samkeppni.  Varla verður heldur minnst á þá staðreynd að þorskaflinn hefur minnkað en ekki aukist frá því að kerfið var tekið upp. Hann er nú helmingurinn af því sem var lofað að hann yrði fljótlega eftir að kerfið væri sett á.

Það fór vel á því að forsætisráðherra Framsóknarflokksins Sigmundur Davíð Gunnlaugsson opnaði ráðstefnuna. Hann notaði tækifærið eins og stundum áður að kvarta undan umræðunni í samfélaginu.

Hann vill greinilega ekki heyra gagnrýna umræðu kvótakerfið og undi því hag sínum vel á málþinginu til dýrðar kvótakerfinu, sem segir að mínus sé plús. Það er skiljanlegt þar sem Framsóknarflokkurinn á von á vænum styrk eins og áður frá  í kosningasjóð flokksins, frá stóru einokunarfyrirtækjunum í sjávarútvegi.

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 27.10.2015 - 22:31 - FB ummæli ()

Fálkinn íhugar hænuskref

Eitt stærsta hagsmunamál almennings er afnám verðtryggingarinnar, sem leiðir reglulega af sér miklar hörmungar fyrir heimilin.  Verðtryggingin er mjög ósanngjörn, þar sem lánveitendur taka ekki neina áhættu af hækkun verðlags, heldur er áhættunni skellt í heilu lagi yfir á lántakendur.  Flestum ætti að vera ljóst að núverandi skipan gengur alls ekki upp. Ríkisstjórinin er nýbúin að millifæra gríðarlegt fé frá skattgreiðendum og til lántakenda verðtryggðra lána sem höfðu orðið illa fyrir barðinu verðbólgu fyrsta árið efir hrun.

Í stað þess að þess að boða breytingar á ósanngjörnum lánaskilyrðum og aðhald að bönkunum sem eru byrjaðir að raka til sín fé með sama og hætti og fyrir hrun, þá er soðin saman afar aum ályktun, svo ekki sé kveðið sterkar að orði:

Landsfundur leggur til að ríkisstjórnin ráði færustu erlendu sérfræðinga til að leggja mat á hvernig hægt er að skipta út verðtryggðu lánaumhverfi og taka upp lánakjör sem þekkjast í nágrannalöndum okkar. Með þessu er ekki tekin afstaða til þess hvort það sé rétt heldur eingöngu hvernig það væri framkvæmt.

Umrædd ályktun felur í sér að málið sé alls ekki í forgangi heldur sé Sjálfstæðisflokkuinn að íhuga að taka einhver hænuskref í framtíðinni.  Mögulega hafa ungir Sjálfstæðismenn sem eru eins og margir aðrir að basla við það koma sér upp húsnæði, ekki ákaflega miklar áhyggjur af málinu. þeir ganga þá væntanlega að því sem vísu að kostnaður vegna næsta verðbólguskots verði að einhverju leyti velt yfir á skattgreiðendur. Fordæmi eru fyrir því!

Þorri fólks ætti að sjá að hagsmunir almennings eru ekki ofarlega í huga hjá forystu Sjálfstæðisflokksins, heldur eru það því miður þröngir sérhagsmunir fárra.

 

Flokkar: Óflokkað

Sunnudagur 25.10.2015 - 21:25 - FB ummæli ()

Kynjatvíhyggjan fordæmd af Vg

Katrín Jakobsdóttir hefur um nokkurt skeið verið vinsælust af leiðtogum fjórflokksins, en pólitískar áherslur hennar hafa verið á reiki.  Mér fannst því fróðlegt að fara í gegnum ályktanir landsþings Vg sem hljóta að einhverju leyti að endurspegla áherslur formannsins sem leitt hefur flokkinn í 2 ár.

Af ályktunum á nýliðnu landsþingi Vg má ráða að flokkurinn vijli gefa það út að hann sé róttækt afl umhverfisverndar og réttlátra breytinga í samfélaginu.

Það er erfiðleikum bundið fyrir núverandi forystu flokksins að halda framangreindu á lofti, þar sem flokkurinn endurreisti á síðasta kjörtímabili óbreytt fjármálakerfi og stóð vörð um óréttlátt kvótakerfi. Fyrrverandi formaður með stuðningi Katrínar Jakobsdóttur, stóð fyrir umdeildri risastórri einkaframkvæmd þ.e. Vaðlaheiðagöngum. Á sviði umhverfismála þá beitti forysta Vg sér fyrir að koma á fót ríkisstyrktri stóriðju að Bakka. Ríkisstjórn Vg og Samfylkingar á jafnframt heiðurinn af því að gefa út rannsóknarleyfi til vinnslu á olíu á Drekasvæðinu. Ályktanir um framangreind mál á nýafstöðnu landsþingi sem vísa í þveröfugua átt við verk ráðamanna flokksins eru mjög ótrúverðugar, nema þá ef flokkurinn gerir upp við fortíð sína í ríkissjórn Steingríms J. Sigfússonar og Jóhönnu Sigurðardóttur.

Ekki virðist sem að Vg undir forystu Björns Vals og Katrína Jakobsdóttur leggi nokrra áherslu á að taka á vaxtaokri eða verðtryggingu  – Nei önnur mál eru sett ofar á blaði s.s. fordæming kynjatvíhyggjunnar sem bitnar að sögn landfundarmanna víst harkalega á transfólki.  Ekki kemur fram hvernig flokkurinn muni beita sér í málinu.  Ný samþykkt ályktun Vg um jafnréttismál og baráttu gegn illa skilgreindu en vopnuðu feðraveldi er ekki síður áhugaverð en henni lýkur með með slagorðinu:

Áfram konur! Fokk feðraveldið! Lifi byltingin

Það verður fróðlegt að fylgjast með hvort að ályktanir flokksþingsins muni eiga hljómgrunn hjá almenningi. Það er ljóst í mínum huga að núverandi forysta Vg ætlar ekki frekar en aðrir angar fjórflokksins að leggja nokkra áherslu á að hreyfa við stóru hagsmunamálum samfélagsins á borð við að lækka vaxtakostnað, taka á spillingu kvótakerfisins og endurskoða lífeyrissjóðakerfið.

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 10.10.2015 - 20:01 - FB ummæli ()

Útvarp Saga nær í gegn!

Útvarp Saga hefur mátt þola ákveðna útskúfun af öðrum helstu fjölmiðlum landsins og fastagestum þeirra. Það er rétt að velta því upp hvers vegna svo sé. Ekki getur það verið persóna útvarpsstjórans, sem er háskólamenntuð á sviði fjölmiðlunar og hefur gengt trúnaðarstörfum á helstu fjölmiðlum landsins. Arnþrúður Karlsdóttir hefur starfað fyrir; RÚV bæði sem fréttamaður og stofnandi Rásar 2 ásamt Þorgeiri Ástvaldssyni, verið fréttastjóri Bylgjunnar og starfað fyrir Norska sjónvarpið svo eitthvað sé nefnt.

Málið er auðvitað að Útvarp Saga hefur leyft sjónarmiðum að koma fram, sem ekki fá að heyrast á öðrum fjölmiðlum s.s. í manninum á götunni sem getur hringt inn og komið sínum hugðarefnum í útvarp.  Hitt er það að stjórnendur stöðvarinnar hafa tekið skýra afstöðu í umdeildum málum, sem oftar en ekki eru  í ósamræmi við þá afstöðu sem skín í gegn að sé ríkjandi á öðrum fjölmiðlum. Hefur það m.a. átt við um: Icesave, kvótakerfið, RÚV, Evrópusambandið, Reykjavíkurflugvöll, málefni flóttamanna, lífeyrissjóðina, fjórflokkinn og beint lýðræði svo eitthvað sé nefnt. Í stað þess að taka sanngjarna og málefnalega umræðu um framangreind mál, þá virðist vera tilhneiging til útskúfunar og að hrinda af stað niðurlægjandi umræðu um fjölmiðil sem ekki gengur í takt við ráðandi sjónarmið.

Ég tek undir með skrifum Dr. Gunna á Eyjunni, sem segist hlusta oft á Útvarp Sögu og að fjölbreytileikinn í fjölmiðlum  sé af hinu góða.

Útvarp Saga virðist ná rækilega í gegn hjá þjóðinni, en yfir í fjörtíu þúsund atkvæði hafa verið greidd í nýjustu skoðanakönnun stöðvarinnar.

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 30.9.2015 - 22:31 - FB ummæli ()

Ekki allt á leið til fjandans

Afar jákvæð þróun hefur átt sér stað í umhverfismálum  síðustu áratugina, bæði nær og fjær. Á Íslandi hafa orðið stórstígar framfarir á mörgum sviðum t.d. í förgun sorps og bættri nýtni á gæðum jarðar.   Út í hinum stóra heimi hafa sömuleiðis margir mikilvægir áfangar náðst í bættum mengunarvörnum og efnanotkun. Það hefur leitt af sér margvíslegar framfarir m.a. í bættum loftgæðum og að styrkur þrávirkra lífrænna efna hefur farið minnkandi í umhverfinu jafnt og þétt síðustu fjóra áratugina.

Þrátt fyrir framangreindar staðreyndir þá einkennist umræðan um umhverfismál í fjölmiðlum af dómsdagsspám.  Oftar en ekki eru dómsdagsspár nútímans íklæddar fræðilegum vísindabúningi. Þegar farið er með gagnrýnum hætti yfir gögnin sem spárnar byggja á, þá kemur oftar en ekki í ljós að þau eru rýr og ályktanir ekki í nokkru samræmi við niðurstöðurnar.  Í fréttum hér innanlands koma reglulega fram fréttir af því að einhver dýrastofn s.s. lundi, bleikja, sandsíli, ýsa eða jafnvel refastofninn sé hruninn og einhverjar ægilegar hamfarir séu í uppsiglingu. Í fréttum af ótíðundunum er þess sjaldnast getið að það sé ofur eðlilegt að stærð framangreindra dýrastofna sveiflist mjög. Ef stofn er stór eru allar líkur á að hann taki dýfu og sama á við ef stofn er í lægð þá eru líkur til þess að hann stækki. Líklegasta skýringin á ýkjunum er sú að þeir sem veita fjármagni til rannsókna á náttúrunni finnst þeim ekki vel varið nema sé verið að finna lykil og helst einhverja lausn á dularfullu og ískyggilegu hruni.

Út í heimi berast með reglulegu millibili fréttir af því að allt sé að fara til verri vegar og að vísindagögn sýni að allir fiskistofnar heimsins séu við það að gufa upp.  Fyrir nokkrum árum flutti RÚV fréttir af því að það stefndi í að fiskveiðar legðust af árið 2048.  Það komst síðan upp að fullyrðingin um endlok allra fiskveiða í heiminum reyndist vera fölsk beita vafasamra „vísindamanna“ til að fanga athygli fjölmiðla. Á sínum tíma reyndi ég að leiðrétta RÚV, en hafði ekki erindi sem erfiði.  Því miður virðist sem RÚV hafi lítið lært af málinu af meintum endalokum allra fiskistofna árið 2048, þar sem enn er sagt gagnrýnislaust frá ógnum allra fiskistofna heimsins.

Nú síðast var það frétt þess efnis  að rannsókn á vegum World Wildlife Fund, staðfesti að dýraríki heimshafanna hefði minnkað um helming frá árinu 1970. Í fréttinni kemur fram að hægt sé að snúa þróuninni við ef teknar verði upp umhverfisvænar veiðar, sem væntanlega þyrfti að votta fyrir ærinn kostnað, hjá rannsakendunum sjálfum, World Wildlife Fund. Ekki hafa fréttamenn RÚV, enn greint frá þeirri gagnrýni sem komið hefur fram á augljósa galla á aðferðafræði skýrslunnar og  innstæðulausum fullyrðingum skýrslunnar.Í nýrri grein í Science er fullyrt að maðurinn taki til sín allt að 14 falt stærri hluta af fiskistofnun en aðrir afræningjar. Það er  beinlínis rangt og stenst ekki nokkra skoðun.

Fyrir þá sem hafa áhuga á að fara yfir faglega gagnrýni á áróðursplagg WWF geta kynnt sér hana á heimasíðu hóps vísindamanna sem hafa stofnað tengslanetið CFOOD, sem berst á móti augljóslega röngum fréttafluttningi af áhrifum fiskveiða, sem hvað eftir annað koma fram, í stórum og áhrifamiklum fjölmiðlum.

 

Flokkar: Óflokkað

Sunnudagur 20.9.2015 - 19:14 - FB ummæli ()

Gunnar Bragi ætti að læra af Degi

Margir helstu stjórnmálaskörungar Reykjavíkurborgar og í landsstjórninni eru mjög uppteknir við að taka þátt í að útkljá helstu og flóknustu deilur alþjóðastjórnmálanna, á sama tíma og þeir láta hjá líða að greiða úr minni málum heimahaganna. Ekki bólar á því að almenningur sjái fyrir endann á vaxtaokri, verðtryggingu eða raunverulegum úrbótum í húsnæðismálum. Lítill áhugi er hjá framangreindum aðilum að ræða skynsamlegri og réttlátari nýtingu fiskimiðanna. Nei, púðrinu er helst eytt  í að taka virkan þátt í alþjóðlegum deilum fyrir botni Miðjarðarhafs og austur á Krímskaga eða þá hvernig Ísland geti leyst vanda þeirra tugmilljóna manna í heiminum sem eru á vergangi vegna stríðsátaka.

Þrátt fyrir áherslur stjórnmálaskörunganna á alþjóðamálin eru tillögurnar og úrræðin sem gripið er til oftar en ekki algerlega vanhugsuð. Engu er líkara en að ráðamenn hafi hvorki  víðtæka þekkingu á deilunum sjálfum sem þeir eru að blanda þjóðinni í né hafi kynnt sér þær afleiðingar sem aðgerðir þeirra hafi. Það var augljóst á ruglandanum í kringum þvinganir Íslands gagnvart Rússlandi og sömuleiðis í dæmalausu en skammvinnu viðskiptabanni Reykjavíkurborgar á Ísrael.

Meirihluti borgarstjórnar hafði lítið sem ekkert spáð í það fjárhagslega tjón sem bannið hefði í för með sér eða þá hvernig ætti að framfylgja banninu. Borgarstjóri gerði það eina rétta í klúðrinu þegar hann boðaði að hætt yrði við bannið. Vinstri meirihlutinn í Reykjavík ætti að geta sætt sig við viðsnúninginn, en hann hefur náð fram athygli og umræðu um ástand mannréttindamála í Ísrael. Á hinn bóginn er augljóst að langvinnt viðskiptabann Reykjavíkurborgar á Ísrael hefði ekki skipt neinu fjárhagslegu máli fyrir Ísrael. Viðskiptaþvinganir Íslands gagnvart Rússlandi eru sama marki brenndar. Ráðamenn virtust ekki hafa nokkurn minnsta grun um að þær hefðu neikvæðar afleiðingar fyrir landshag og að Rússar myndu svara í sömu mynt. Það er sömuleiðis kristaltært að viðskiptaþvinganir Íslands gegn Rússlandi munu ekki breyta einu né neinu í  stuðningi Rússa við rússneska minnihlutann í Úkraínu.

Tjón íslensks almennings er að öllum líkindum miklum mun meira vegna deilna íslenskra stjórnvalda við Rússland en vegna klúðurs Reykjavíkurborgar. Í nýrri skýrslu Byggðastofnunar kemur fram að tekjur íslenskra launþega skerðist um hátt í 3 milljarða króna árlega vegna deilnanna og þá er ótalið tap fyrirtækja og hins opinbera!

Það væri ráð að utanríkisráðherra lærði af viðsnúningi Dags B. Eggertssonar borgarstjóra í stað þess að festast í klúðri og óþörfum deilum við Rússa.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Mánudagur 24.8.2015 - 11:19 - FB ummæli ()

Kvótavörslumenn æfir

Varaformaður VG er ekki kátur með þá niðurstöðu Pírata að útgerðarmenn þurfi að greiða fyrir aðgang að auðlindinni.  (Sjá hér: BVG )
Nei það er miklu betra að afhenda þetta án greiðslu.  Markaðurinn er náttúrulega ómögulegur fyrir helstu kapítalista Íslands og mun Björn Valur Gíslason standa þvert í vegi fyrir því að vinir hans þurfi að berjast á óvægnum og ófyrirséðum markaði.  Eins og allir vita þá líkar útgerðarmönnum ekki ófyrirsjáanleiki.  Þess vegna líkar þeim örugglega vel við Björn Val, hann er mjög fyrirsjáanlegur.
Þessi stefna ert þó í samræmi við vilja þjóðarinnar.  En það sjá allir skynsamir menn að í þessu er fallin alger ómöguleiki.  Stefna eða skoðun þjóðarinnar er auka atriði.

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 5.8.2015 - 23:45 - FB ummæli ()

Framsóknarflokkurinn setur olnbogann í Rússland!

Það er stórfurðulegt  að Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra skuli vera forsprakkinn í því að stórskaða hagsmuni Íslands með því að setja viðskiptabann á Rússa. Óskiljanlegt er hvers vegna ríkisstjórn Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks, sem segist vera vera á móti aðild að Evrópusambandinu, skuli vera taglhnýtingur sambandsins.  Nú lítur út fyrir að Rússnesk stjórnvöld munu loksins svara þeim íslensku í sömu mynt, en Rússar hafa lengi setið á sér. Sjávarútvegsráðherra segist vera alveg pollrólegur yfir málinu og telur að best sé að gera sem allra minnst og halda ró sinni!  Mér þykja það afar sérkennileg viðbrögð við því að þjóðarbúið sé að verða af tekjum af sölu fiskafurða sem svarar til tugmilljarða gjaldeyristekjum og það algerlega að nauðsynjalausu.

Liðlega 300 þúsund manna þjóð sem býr í eyju í norðurhöfum, ætti að sneiða hjá því eins og nokkur kostur er, að taka þátt í valdabrölti stórveldanna.  Hlutverk utanríkisþjónustunnar ætti fyrst og fremst að vera að halda uppi kurteisum og jákvæðum samskiptum við sem flestar þjóðir.  Mér vitanlega eru Íslendingar ekki með viðskiptabann á aðrar þjóðir en Rússa – Ekki einu sinni mannréttindaþrjótana í Sádí Arabíu sem kynda undir ófriði í nágrannaríkjum.

Ég var nýlega staddur í matarboði hér á Sauðárkróki, þar sem  húsráðendur og gestir sem voru eldra sveitafólk af Suðurlandi ræddu landsins gagn og nauðsynjar.  Öllum bar saman um að miður væri hvernig komið  í væri í samskiptunum við Rússland. Sveitafólkinu var enn í fersku minni góð viðskipti Íslands við Sovétríkin, á meðan Breta reyndu að einangra landið.  Í framhaldinu barst talið að yfirbyggðum rússajeppum sem þóttu einfaldir en nýttust vel og lengi í sveitinni.

Það væri betur ef ráðherrar Framsóknarflokksins  kynnu jafnvel að meta  þá hjáparhönd sem  kom að austan frá Rússlandi og gamla sveitafólkið sem hingað til hefur stutt flokkinn í gegnum þykkt og þunnt.

Flokkar: Óflokkað

Höfundur

Sigurjón Þórðarson
Líffræðingur og sveitarstjórnarmaður á Sauðárkróki.
RSS straumur: RSS straumur