Laugardagur 16.03.2019 - 21:18 - Rita ummæli

Frá Márusarlandi

Þegar ég skoðaði nýjustu alþjóðlegu mælinguna á atvinnufrelsi, sem er frá 2018, með tölum frá 2016, rak ég augun í þá óvæntu staðreynd að í Márusarlandi, eins og kalla mætti Mauritius, stendur eitt af tíu frjálsustu hagkerfum heims. Hin eru í Hong Kong, Singapúr, Nýja Sjálandi, Sviss, Írlandi, Bandaríkjunum, Georgíu, Bretlandi, Ástralíu og Kanada (en tvö hin síðastnefndu standa jafnfætis). Márusarland er eyjaklasi langt undan austurströnd Afríku og heitir eftir Márusi af Nassau, ríkisstjóra Hollands á öndverðri sautjándu öld, en Hollendingar réðu um skeið klasanum. Seinna varð hann bresk nýlenda. Margir íbúanna eru afkomendur indverskra verkamanna, sem fluttir voru til landsins á nýlendutímanum.

Þegar íbúar eyjaklasans kröfðust sjálfstæðis eftir miðja tuttugustu öld, hafði Bretastjórn nokkrar áhyggjur af því að þeir gætu ekki staðið á eigin fótum. Breski hagfræðingurinn James E. Meade, sem var ákveðinn jafnaðarmaður og fékk Nóbelsverðlaun í hagfræði árið 1977, komst að þeirri niðurstöðu í skýrslu til stjórnarinnar árið 1961 að framtíðarhorfur landsins væru dapurlegar. Márusarland gæti lokast inni í þeirri gildru fólksfjölgunar án hagvaxtar sem oft er kennd við breska prestinn Malthus.

VSNaipaulBresk-indverski rithöfundurinn V.S. Naipaul ferðaðist nokkrum árum síðar um Márusarland og skrifaði í nokkrum lítilsvirðingartón að það væri „yfirfull þrælakista“ þar sem allir vildu hverfa á brott. „Það var á Márusarlandi sem dodo-fuglinn týndi niður listinni að fljúga.“ Naipaul fékk Nóbelsverðlaun í bókmenntum árið 2001.

Eftir að Márusarland varð sjálfstætt árið 1968 var um skeið órói í landinu. Svo virtist sem hrakspár Nóbelsverðlaunahafanna tveggja gætu ræst. En þótt stjórnmálabaráttan væri hörð, náðist samkomulag um að auka atvinnufrelsi verulega og laða erlenda fjárfesta til landsins. Hagkerfið var hið 59. frjálsasta í heiminum árið 1980, en hið 8. árið 2016. Að vonum hefur hagur íbúanna vænkast síðustu áratugi, ólíkt flestum öðrum Afríkuþjóðum. Meðaltekjur í Márusarlandi árið 2017 voru samkvæmt tölum Alþjóðabankans $10.500, en það var nálægt meðaltekjum í heiminum öllum, $10.700. Meðaltekjur í Afríku voru hins vegar miklu lægri, ekki nema $1.800. Dodo-fuglinn dó út af því að hann kunni ekki að fljúga en Márusarland lifnaði við af því að það nýtti sér frelsið.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 16. mars 2019.)

Flokkar: Óflokkað

«
»

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af átta og fimm? Svar:

Höfundur

Hannes Hólmsteinn Gissurarson er prófessor emeritus í stjórnmálafræði í Háskóla Íslands og hefur verið gistifræðimaður við fjölmarga erlenda háskóla, þar á meðal Stanford-háskóla og UCLA. Hann fæddist 1953, lauk doktorsprófi í stjórnmálafræði frá Oxford-háskóla 1985 og er höfundur fjölmargra bóka um stjórnmál, sögu og heimspeki á íslensku, ensku og sænsku.


Nýjustu bækur hans eru Twenty Four Conservative-Liberal Thinkers, sem hugveitan New Direction í Brüssel gaf út í tveimur bindum í árslok 2020, Bankahrunið 2008 og Communism in Iceland, sem Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands gaf út árið 2021, og Landsdómsmálið, sem Almenna bókafélagið gaf út í desember 2022. Hann hefur gefið út átta bókarlangar skýrslur á ensku. Sjö eru fyrir hugveituna New Direction í Brüssel: The Nordic Models og In Defence of Small States (2016); Lessons for Europe from the 2008 Icelandic Bank Collapse, Green Capitalism: How to Protect the Environment by Defining Property Rights og Voices of the Victims: Towards a Historiography of Anti-Communist Literature (2017); Why Conservatives Should Support the Free Market og Spending Other People’s Money: A Critique of Rawls, Piketty and Other Redistributionists (2018). Ein skýrslan er fyrir fjármálaráðuneytið, Foreign Factors in the 2008 Bank Collapse (2018). Hann er ritstjóri Safns til sögu kommúnismans, ritraðar Almenna bókafélagsins um alræðisstefnu, en nýjasta bókin í þeirri ritröð er Til varnar vestrænni menningu: Ræður sex rithöfunda 1950–1958. Árin 2017 og 2018 birtust eftir hann þrjár ritgerðir á ensku um frjálshyggju á Íslandi, Liberalism in Iceland in the Nineteenth and Twentieth Centuries, Anti-Liberal Narratives about Iceland 1991–2017 og Icelandic Liberalism and Its Critics: A Rejoinder to Stefan Olafsson.  

RSS straumur: RSS straumur

Nýlegar athugasemdir