Laugardagur 3.9.2022 - 10:27 - Rita ummæli

Ísland og Eystrasaltslönd

Í tilefni hins furðulega upphlaups Jóns Baldvins Hannibalssonar vegna þess, að hann er ekki alltaf einn á sviði, þegar Eystrasaltslönd eru nefnd, má rifja upp nokkur atriði. Árið 1923 flutti lettnesk kona, Liba Fridland, nokkra fyrirlestra hér á dönsku um rússnesku byltinguna, og deildi Alþýðublaðið á hana. Árið 1946 birti flóttamaður frá Litáen, Teodoras Bieliackinas, greinaflokk í Morgunblaðinu um undirokun Eystrasaltsþjóða, og réðist Þjóðviljinn harkalega á hann. Fyrsta útgáfurit Almenna bókafélagsins árið 1955 var Örlaganótt yfir Eystrasaltslöndum eftir prófessor Ants Oras. Árið 1957 tóku forseti Íslands og utanríkisráðherra á móti dr. August Rei, forsætisráðherra útlagastjórnar Eistlands, en sendiherra Ráðstjórnarríkjanna bar fram mótmæli.

Árið 1973 þýddi ungur laganemi, Davíð Oddsson, bókina Eistland. Smáþjóð undir oki erlends valds eftir sænsk-eistneska blaðamanninn Andres Küng, og gaf Almenna bókafélagið hana út. Í mars 1990 lagði Þorsteinn Pálsson alþingismaður til, að Ísland endurnýjaði viðurkenningu sína á Litáen, sem hafði lýst yfir sjálfstæði á ný eftir hernám Rússa. Jón Baldvin Hannibalsson, utanríkisráðherra vinstri stjórnarinnar, vildi fresta málinu, en Vytautas Landsbergis gat loks sannfært hann um það, að slík viðurkenning væri tímabær. Þegar Davíð Oddsson myndaði ríkisstjórn árið 1991, var Jón Baldvin áfram utanríkisráðherra, og voru þeir samstíga um að taka aftur upp stjórnmálasamband við Eystrasaltsríkin. Þurfti Davíð þó í kyrrþey að skýra út frumkvæði Íslands fyrir bandamönnum okkar, en Jón Baldvin gerir auðvitað ekkert í kyrrþey.

Árið 2016 endurútgaf Almenna bókafélagið Örlaganótt yfir Eystrasaltslöndum og Eistland. Smáþjóð undir oki erlends valds, og eru þær til jafnt prentaðar og ókeypis á Netinu og Örlaganótt sem hljóðbók. Var haldin samkoma í Háskólanum 26. ágúst á vegum ræðismanna Eystrasaltsríkjanna og Almenna bókafélagsins, þar sem Davíð Oddsson og Tunne Kelam, eistneskur sagnfræðingur og Evrópuþingmaður, töluðu. Öllum var boðið.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 3. september 2022.)

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 27.8.2022 - 10:27 - Rita ummæli

Minningardagur um fórnarlömb

Árið 2009 samþykkti þing Evrópusambandsins, að 23. ágúst yrði árlegur minningardagur fórnarlamba alræðisstefnunnar, kommúnisma og nasisma. Sumir fræðimenn hafa að vísu andmælt því, að kommúnismi skuli lagður að jöfnu við nasisma. Hann hafi aðeins miðað að því að útrýma stéttaskiptingu án þess nauðsynlega að útrýma einstaklingum úr þeim stéttum, sem áttu að hverfa. Nasisminn hafi hins vegar miðað að því að útrýma einstaklingum, sem fæddir voru inn í hópa eins og gyðinga og sígauna. En þessi munur er fræðilegur frekar en raunhæfur. Lítið barn, sem Stalín lét svelta til bana í Úkraínu, af því að það var komið af sjálfseignarbændum („kúlökkum“), átti ekki síður heimtingu á að lifa en lítið barn af gyðingaættum, sem Hitler lét myrða í gasklefunum í Asuchwitz. Líklega féllu um 100 milljónir manns á tuttugustu öld af völdum kommúnista og um 20 milljónir af völdum nasista.

Dagurinn 23. ágúst var ekki valinn af neinni tilviljun. Þennan dag árið 1939 voru hakakrossfánar dregnir að hún á Moskvuflugvelli, og lúðrasveit lék þýska þjóðsönginn, „Deutschland über alles,“ um leið og utanríkisráðherra Hitlers, Joachim von Ribbentrop, steig út úr flugvél sinni. Hann var kominn til að undirrita griðasáttmála, sem Stalín og Hitler höfðu gert, en með honum skiptu þeir á milli sín Mið- og Austur-Evrópu. Í hlut Stalíns komu austurhluti Póllands, Finnland, Eystrasaltsríkin og Moldova (þá nefnd Bessarabía), en í hlut Hitlers vesturhluti Póllands, jafnframt því sem hann fékk frjálsar hendur í Mið-Evrópu. Finnar vörðust hins vegar svo snarplega, að Stalín hætti við að innlima landið og gerði við þá friðarsamninga, þar sem þeir urðu að láta af hendi talsverð landsvæði. Sannaðist þar eins og fyrri daginn, að sagan er stundum hliðholl bestu skyttunum frekar en fjölmennustu hersveitunum.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 27. ágúst 2022.)

Flokkar: Óflokkað

Sunnudagur 7.8.2022 - 10:26 - Rita ummæli

Í landi fjalla, víns og rósa

Frá því að bók mín um tuttugu og fjóra frjálslynda íhaldsmenn í tveimur bindum kom út í árslok 2020, hef ég farið víða til að kynna hana. Nú liggur leiðin til Georgíu í Kákasus-fjöllum, en það land á sér langa og merka sögu. Talið er, að þar sé vínyrkja einna elst í heimi, átta þúsund ára. Georgía tók snemma kristni og var sjálfstætt konungsríki á miðöldum, en í lok átjándu aldar lögðu Rússar það undir sig. Í nokkur ár eftir byltingu bolsévíka var það aftur sjálfstætt, en síðan varð það ráðstjórnarlýðveldi. Josíf Stalín var ættaður þaðan og talaði alla tíð rússnesku með hreim. Eftir að Ráðstjórnarríkin leystust upp árið 1991, varð Georgía aftur sjálfstætt ríki. Samdráttur landsframleiðslu næstu árin var einn hinn mesti í heimi, spilling víðtæk og ríkisvald veikt.

Þetta breyttist í rósabyltingunni svokölluðu í nóvember 2003, þegar frjálshyggjumenn með rósir í höndum komust til valda í Georgíu. Þeir tóku hart á spillingu, en beittu sér aðallega fyrir því að mynda hagstætt umhverfi fyrir verðmætasköpun, lækka skatta og einfalda stjórnkerfið. Áhrifamesti umbótamaðurinn var Kakha Bendukidze. Hann var Georgíumaður, sem hafði auðgast í Rússlandi, en leist ekki á blikuna undir stjórn Pútíns, sneri aftur til heimalands síns árið 2004 og gerðist efnahagsmálaráðherra í nokkur ár. Umbætur hans skiluðu miklum árangri. Hagvöxtur í Georgíu varð einn hinn mesti í heimi, og þrátt fyrir að stjórnarandstæðingar sigruðu í kosningum árið 2012, hafa þeir ekki snúið til baka. Hagkerfið er enn eitt hið frjálsasta í heimi. Ég hitti stundum Bendukidze á alþjóðlegum ráðstefnum. Hann var brosmildur og hress í bragði, en digur mjög og dó um aldur fram árið 2014.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 7. ágúst 2022.)

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 30.7.2022 - 10:22 - Rita ummæli

Slægjur á Engjum

Sem kunnugt er, mætti kalla Las Vegas í Nevada Engjar á Snælandi eftir beinni merkingu orðanna á spænsku. Og vissulega heyjaði ég mér margvíslegan fróðleik á Engjum, þegar ég sótti þar Frelsishátíðina, Freedomfest, um miðjan júlí ásamt nokkur þúsund öðrum þátttakendum. En á Íslandi er venjulega haldið upp á það í slægjum, þegar heyskap lýkur, og þar syðra átti ég þess kost að sitja veislur, suðrænar slægjur, með mörgum merkismönnum.

Einn þeirra var hagfræðingurinn Arthur Laffer, sem Laffer-boginn er kenndur við, en hann sýnir, hvernig skatttekjur aukast fyrst með hærra skatthlutfalli, ná síðan hámarki og dragast loks saman. Ef komið er fram yfir aflahámarkið, þá ættu skatttekjur að geta aukist með lægra skatthlutfalli. Þetta gerðist til dæmis á Íslandi, þegar tekjuskattur fyrirtækja var lækkaður úr 50% í 10% og skattur af leigutekjum úr um 45% að öllu jöfnu í 10%. Skattstofninn stækkaði. Lítil sneið af stórri köku getur verið stærri en stór sneið af lítilli köku.

Annar veislugesturinn var Steve Forbes, fyrrum forsetaframbjóðandi og útgefandi viðskiptatímaritsins með ættarnafnið. Hann vill eins og Laffer bæta lífskjör almennings með hagvexti, stærri köku, bakaríi í fullum gangi, ekki með því að hrifsa sjálfsaflafé af bjargálna fólki til að endurdreifa eftir hentisemi atkvæðaveiðara.

Þriðji merkismaðurinn var breski skopleikarinn John Cleese. Hann er orðinn ötull baráttumaður gegn ritskoðun í nafni gremjufræða (grievance studies), afturköllunarfárs (cancellation) og vælugangs (woke), en nú má ekki lengur hlæja að neinum öðrum en hvítum, hægri sinnuðum miðaldra körlum í góðum efnum. Cleese benti á, að hláturinn sameinar frekar en sundrar, og best væri, þegar við getum hlegið að okkur sjálfum. Hann sagði okkur margt skemmtilegt um hina ágætu gamanmynd Fiskinn Wanda, sem hann gerði á sínum tíma.

Í suðrænum slægjum er ekki boðið upp á flatkökur með hangikjöti, heldur safaríkar nautasteikur, en um þær sagði Cleese eins og stundum áður: „Ef Guð ætlaðist ekki til þess, að við legðum okkur dýr til matar, hvers vegna setti hann þá kjöt á þau?“

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 30. júlí 2022.)

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 23.7.2022 - 10:21 - Rita ummæli

Heyjað á Engjum

Fróðlegt var að sitja Frelsishátíðina, Freedomfest, í Las Vegas í Nevada (á Engjum í Snælandi, ef spænskunni er snarað) um miðjan júlí 2022, en þangað fór ég til að kynna bók mína, Twenty-Four Conservative-Liberal Thinkers, sem kom út í tveimur bindum í árslok 2020. Ein málstofan var um, hver hefði sigrað í hugmyndabaráttunni, Adam Smith, Karl Marx eða John Maynard Keynes. Hagfræðingurinn Mark Skousen taldi einsætt, að hugmyndir Smiths hefðu reynst best. Frjáls alþjóðaviðskipti hefðu leitt af sér velmegun, en marxismi alls staðar endað með ósköpum. Hins vegar minnti Skousen á þá kenningu ítalska sameignarsinnans Antonios Gramscis, að marxistar ættu ekki að einbeita sér að því að hrifsa völdin í byltingu, heldur að breyta hugmyndaheiminum og ná þannig völdum óbeint og á lengri tíma. Þetta hefur einmitt verið að gerast á Vesturlöndum síðustu áratugi. Margvísleg afbrigði af marxisma eru vinsæl í háskólum og á fjölmiðlum. Hóphyggjumenn hafa öðlast dagskrárvald. Nú er ekki spurt, hvaða rök maður geti fært fyrir máli sínu, heldur úr hvaða hópi hann sé.

Önnur málstofa var um fólksfjölgun og hagsæld. Þar var bent á, að fólksfjölgun felur ekki aðeins í sér fleiri munna að metta, heldur líka fleiri hendur að vinna og fleiri heilabú að skapa. Hagfræðingarnir Marian Tupy og Gale L. Pooley kynntu þar væntanlega bók sína um allsnægtir. Þar nota þeir í stað peningaverðs tímaverð til að mæla efnahagslegan árangur. Tímaverð gæða sýnir, hversu lengi maður er að vinna fyrir þessum gæðum, og það verð hefur snarlækkað síðustu tvær aldir. Niðurstaða þessara höfunda er, að gæði jarðar aukist við fólksfjölgun, séu þau mæld í tímaverði. Hver viðbótarmaður geti skapað meiri verðmæti en hann eyði sjálfur. Ég spurði, hvort þessa kenningu mætti ekki leiða af þeirri hugmynd Adams Smiths, að verkaskiptingin, uppspretta hagsældar, takmarkaðist af stærð markaðarins, en auðvitað stækkar markaðurinn með hverjum einstaklingi, sem bætist við. Höfundarnir kváðu já við, en sögðu þó, að hugmynd Josephs Schumpeters um sköpunarmátt kapítalismans skýrði best efnahagslegar framfarir.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 23. júlí 2022.)

Flokkar: Óflokkað

Sunnudagur 17.7.2022 - 10:21 - Rita ummæli

Frjálslyndi á Engjum í Snælandi

Eins og ég hef áður bent á, merkja orðin „Las Vegas“ engjar og orðið „Nevada“ Snæland, svo að borgina með þessu nafni mætti kalla Engjar á Snælandi. Ég kynnti þar í apríl bók mína um tuttugu og fjóra frjálslynda íhaldsmenn á ráðstefnu Samtaka um einkaframtaksfræði, Association of Private Enterprise Education, en fór þangað aftur núna í júlí til að kynna hana á hinni árlegu Frelsishátíð, Freedomfest, en hana sækja rösklega tvö þúsund áhugamenn um hægri stefnu, hvort sem hún er kennd við frjálslyndi eða íhaldssemi.

En nú vandast málið, því að frjálshyggjumenn eins og Friedrich A. von Hayek eða Milton Friedman eru kallaðir íhaldsmenn (conservatives) í Bandaríkjunum, en frjálshyggjumenn eða nýfrjálshyggjumenn (liberals, neoliberals) í Evrópu og Rómönsku Ameríku.

Það veldur ómældum ruglingi, að þeir, sem kalla sig „liberals“ í Bandaríkjunum, eru oftast frjálslyndir jafnaðarmenn. Þeir eru sammála okkur frjálshyggjumönnum um, að vernda þurfi mannréttindi eins og trúfrelsi, félagafrelsi og málfrelsi, en sætta sig hins vegar ekki við, að frjálst val einstaklinga í viðskiptum ráða kaupum og kjörum. Ríkið verði ekki aðeins að skattleggja fólk til að afla fjár fyrir þjónustu sína, heldur líka til að endurdreifa fjármunum frá ríkum til fátækra. Hættan við slíka endurdreifingu er hins vegar auðvitað sú, að fjármunirnir renni ekki til þeirra, sem helst þurfa þá, heldur til hinna, sem eru best skipulagðir og háværastir.

Bandaríkjamönnum finnst því skrýtið að heyra talað um frjálslynda íhaldsmenn. Í augum þeirra eru þetta andstæður, ekki hliðstæður. En eins og Jón Þorláksson skýrði út fyrir Íslendingum árið 1926, skiptir máli, í hvað íhaldsmenn vilja halda, og ef þeir vilja halda í fengið frelsi, þá eru þeir frjálslyndir íhaldsmenn.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 17. júlí 2022.)

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 9.7.2022 - 10:19 - Rita ummæli

Dreifstýring og miðstýring

Nýlegur úrskurður Hæstaréttar Bandaríkjanna, þar sem snúið er við frægum úrskurði frá 1973 í máli Roe gegn Wade, hefur verið misskilinn, jafnvel í máli þeirra, sem ættu að vita betur, eins og Silju Báru Ómarsdóttur, sem tók við kennslu í Bandarískum stjórnmálum af mér í Háskólanum. Hinn nýlegi úrskurður snýst ekki um fóstureyðingar (eða „þungunarrof“), heldur um valdmörk alríkisins og ríkjanna fimmtíu, sem mynda Bandaríkin. Dómararnir komast með ýmsum rökum að þeirri niðurstöðu, að ekkert það sé í stjórnarskrá alríkisins, sem bindi hendur einstakra ríkja til að setja eigin lög um fóstureyðingar. Ekki sé til neinn stjórnarskrárvarinn réttur til fóstureyðinga. Þeir hallast með öðrum orðum að dreifstýringu í stað miðstýringar.

Nú tel ég, að frambærileg rök séu til jafnt fyrir og gegn fóstureyðingum. Enginn mælir með barnaútburði. En hvenær verður fóstrið að barni, sem hefur rétt til að lifa óháð því, hvort það valdi öðrum með því óþægindum eða kostnaði? Lengst ganga þeir, sem telja það verða til við getnað. Aðrir segja, að það verði ekki til fyrr en við fæðingu. Enn aðrir telja og styðjast um það við mat lækna, að það kunni að vera, þegar liðnar séu tólf vikur af meðgöngu. Hvað sem því líður, er ástæðulaust að horfa fram hjá því, sem ræður andstöðu kirkjunnar við fóstureyðingar. Það er virðingin fyrir lífinu, ekki síst hinu ósjálfbjarga lífi. Það var með þeim rökum sem kirkjan beitti sér hart gegn stórfelldu líknardrápi nasista í Þýskalandi fyrir stríð. Á hinn bóginn á hver kona sig sjálf og hefur yfirráðarétt yfir líkama sínum. Einnig má deila um, hvort börn ættu að fæðast óvelkomin í þennan heim.

Þess má geta, að konan, sem nefnd var Jane Roe, óskaði á sínum tíma eftir fóstureyðingu og skaut máli sínu til Hæstaréttar Bandaríkjanna, Norma McCorvey, snerist síðar opinberlega gegn fóstureyðingum, en tvennum sögum fer af því, hvort þar hafi hugur fylgt máli.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 9. júlí 2022.)

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 2.7.2022 - 10:18 - Rita ummæli

Afstaða Íslendinga 1848

Einveldinu danska lauk snögglega vorið 1848, og boðaði konungur til stjórnlagaþings þá um haustið í Kaupmannahöfn. Til þess kvaddi hann fimm Íslendinga, Brynjólf Pétursson skrifstofustjóra, Jón Guðmundsson ritstjóra, Jón Johnsen bæjarfógeta, Jón Sigurðsson sagnfræðing og Konráð Gíslason málfræðing. Þeir reyndu eins og þeir gátu að halda Íslandi utan við allar ákvarðanir, sem teknar yrðu á þinginu um framtíð Danaveldis, en það náði þá ekki aðeins yfir Danmörku og eyjar í Norður-Atlantshafi og Karíbahafi, heldur líka hertogadæmin Slésvík og Holtsetaland.

Íslendingarnir vissu, að danskir áhrifamenn vildu innlima Slésvík, sem var hálfdönsk, en sleppa hinu alþýska Holtsetalandi. Heimastjórn fyrir Ísland kom vart til greina, ef innlima átti Slésvík. Raunar var N. F. S. Grundtvig eini málsmetandi Daninn, sem fylgdi skynsamlegri stefnu í Slésvíkurmálinu. Hún var að skipta Slésvík og innlima aðeins hinn dönskumælandi hluta hennar að fengnu samþykki íbúanna. Varð sú raunin 1920.

Hitt skiptir þó meira máli í ljósi sögunnar, að danska stjórnarskráin, sem stjórnlagaþingið samþykkti og konungur skrifaði undir 5. júní 1849, var mjög frjálsleg. Í krafti atvinnufrelsis urðu stórstígar framfarir í Danmörku næstu áratugina. Ég sé í þingtíðindum, að þrír Íslendinganna greiddu atkvæði með stjórnarskránni, Brynjólfur, Jón ritstjóri og Jón bæjarfógeti, en þeir Jón forseti og Konráð voru fjarverandi. Það var þó væntanlega ekki vegna þess, að þeir væru ósamþykkir henni, heldur vildu þeir hafa sem minnst afskipti af innanríkismálum Dana. Íslenska stjórnarskráin frá 1874 var sniðin eftir hinni dönsku og hefur eins og hún reynst hið besta.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 2. júlí 2022.)

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 25.6.2022 - 10:17 - Rita ummæli

Snorri í Kaupmannahöfn 1848

Febrúarbyltingin í Frakklandi 1848 olli umróti í Danmörku, en þar var enn einveldi. Ráðgjafar konungs voru lítt við alþýðuskap, og á fjöldafundum í Kaupmannahöfn var þess krafist, að þeir vikju. Ræðuskörungurinn Orla Lehmann, leiðtogi þjóðfrelsismanna, samdi ávarp til konungs, sem tólf þúsund manna herskari skundaði með í konungshöllina 21. mars. Í niðurlagi ávarpsins sagði: „Vér biðjum og þrábænum Yðar hátign um að stofna ekki þjóðinni í þau óyndis úrræði, að hún verði að leita hjálpar hjá sjálfri sér.“ Hótunin leyndi sér ekki. Friðrik konungur varð þegar við kröfu fjöldans, og var kvatt saman stjórnlagaþing, sem samdi frjálslynda stjórnarskrá í svipuðum anda og hin norska frá 1814, og skrifaði konungur undir hana 5. júní 1849, sem er þjóðhátíðardagur Dana. Íslenska stjórnarskráin er sniðin eftir hinni dönsku.

Í þessari atburðarás endurómar frásögn Snorra í Heimskringlu af fundi sænskra bænda með Ólafi Eiríkssyni Svíakonungi árið 1018. Hafði Þórgnýr lögmaður orð fyrir þeim og sagði konungi, að hann ætti tvo kosti, að láta af ófriði við Norðmenn eða vera drepinn. Ólafur konungur sá sitt óvænna og varð við kröfu fjöldans. Skreytir veggmynd af fundinum einn sal sænska Ríkisdagsins.

Lehmann var aðdáandi íslenskra fornbókmennta og vel kunnugur verkum Snorra, en N. F. S. Grundtvig hafði snúið Heimskringlu á dönsku þrjátíu árum áður. Í þeirri bók er skýrum orðum komið að tveimur hugmyndum, að konungar lúti sömu lögum og þegnar þeirra og að afhrópa megi þá, gangi þeir í berhögg við lögin. Þessar tvær hugmyndir eru auðvitað uppistaðan í kröfu frjálshyggjumanna um takmarkað ríkisvald.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 25. júní 2022.)

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 18.6.2022 - 10:17 - Rita ummæli

Sögur af tveimur merkismönnum

Á ráðstefnu Evrópska hugmyndabankans (European Resource Bank) í Stokkhólmi 7. júní 2022 kynnti ég nýlega bók mína í tveimur bindum um tuttugu og fjóra frjálslynda íhaldsmenn, allt frá sagnritaranum Snorra Sturlusyni til heimspekingsins Roberts Nozicks. Ég lét í ljós þá skoðun, að sennilega hefði Friedrich von Hayek sett fram fullkomnustu vörnina fyrir frjálslyndri ihaldsstefnu, en rifjaði um leið upp, þegar hann kom í heimsókn til okkar nokkurra stúdenta í Oxford vorið 1983, eftir að við höfðum stofnað þar The Hayek Society. Hann flutti stutta tölu í kvöldverði, sem við héldum honum, og kvaðst ánægður með, að ungt fólk hefði áhuga á kenningum sínum. Hann yrði hins vegar að taka af okkur loforð um að verða ekki „Hayekians“, því að marxistarnir hefðu verið miklu verri en Marx og keynesverjarnir miklu verri en Keynes.

Ég kvað gallann við hefðbundna íhaldsstefnu vera, að hún fæli ekki í sér nein svör um, hvað skyldi gera, heldur aðeins tregðu til að breyta. Í því sambandi rifjaði ég upp, þegar Milton Friedman kom í heimsókn til Íslands haustið 1984. Í hádegisverði honum til heiðurs kynnti ég hann fyrir gestum. Þegar einn seðlabankastjórinn birtist, sagði ég: „Jæja, prófessor Friedman. Hér er kominn maður, sem yrði atvinnulaus, yrðu kenningar yðar framkvæmdar!“ Friedman vildi sem kunnugt er leggja niður seðlabanka, en setja í þeirra stað fastar reglur um aukningu peningamagns í umferð. En Friedman svaraði að bragði: „Nei, nei. Hann yrði ekki atvinnulaus. Hann yrði aðeins að færa sig í arðbærara starf!“ Kosturinn við kapítalismann er einmitt, að hann knýr okkur öll til að laga okkur að síbreytilegum aðstæðum. Frjálslyndir íhaldsmenn vilja þróun fram á við, hvorki kyrrstöðu né byltingu.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 18. júní 2022.)

Flokkar: Óflokkað

Höfundur

Hannes Hólmsteinn Gissurarson er prófessor emeritus í stjórnmálafræði í Háskóla Íslands og hefur verið gistifræðimaður við fjölmarga erlenda háskóla, þar á meðal Stanford-háskóla og UCLA. Hann fæddist 1953, lauk doktorsprófi í stjórnmálafræði frá Oxford-háskóla 1985 og er höfundur fjölmargra bóka um stjórnmál, sögu og heimspeki á íslensku, ensku og sænsku.


Nýjustu bækur hans eru Twenty Four Conservative-Liberal Thinkers, sem hugveitan New Direction í Brüssel gaf út í tveimur bindum í árslok 2020, Bankahrunið 2008 og Communism in Iceland, sem Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands gaf út árið 2021, og Landsdómsmálið, sem Almenna bókafélagið gaf út í desember 2022. Hann hefur gefið út átta bókarlangar skýrslur á ensku. Sjö eru fyrir hugveituna New Direction í Brüssel: The Nordic Models og In Defence of Small States (2016); Lessons for Europe from the 2008 Icelandic Bank Collapse, Green Capitalism: How to Protect the Environment by Defining Property Rights og Voices of the Victims: Towards a Historiography of Anti-Communist Literature (2017); Why Conservatives Should Support the Free Market og Spending Other People’s Money: A Critique of Rawls, Piketty and Other Redistributionists (2018). Ein skýrslan er fyrir fjármálaráðuneytið, Foreign Factors in the 2008 Bank Collapse (2018). Hann er ritstjóri Safns til sögu kommúnismans, ritraðar Almenna bókafélagsins um alræðisstefnu, en nýjasta bókin í þeirri ritröð er Til varnar vestrænni menningu: Ræður sex rithöfunda 1950–1958. Árin 2017 og 2018 birtust eftir hann þrjár ritgerðir á ensku um frjálshyggju á Íslandi, Liberalism in Iceland in the Nineteenth and Twentieth Centuries, Anti-Liberal Narratives about Iceland 1991–2017 og Icelandic Liberalism and Its Critics: A Rejoinder to Stefan Olafsson.  

RSS straumur: RSS straumur

Nýlegar athugasemdir