Fimmtudagur 6.2.2014 - 11:05 - FB ummæli ()

Hvenær er nóg – nóg?

Íslenskir fjölmiðlar með Morgunblaðið í broddi fylkingar hafa fjallað ítarlega og með mikilli meðaumkun um þá erfiðu daga sem íslenskar stórútgerðir ganga í gengum. Að mati forkólfa útgerðarmanna, þá hafa stjórnvöld búið atvinnugreininni svo harðneskjuleg skilyrði, að þeir hafa líkt stöðu sinni við aðstæður gyðinga á dögum þriðja ríkisins. Sömuleiðis eru dæmi um að þeir hafi dregið upp ljósmyndir af börnum sínum á fundum grátklökkir og óttast um framtíð barna sinna.

Á sama tíma og forstjóri Brims hefur sett atvinnuöryggi fjölda fjölskyldna í uppnám með uppsögnum, þá beindi hann spjótum sínum að stjórnvöldum og sagði þau búa fyrirtækinu ólíðandi rekstrarskilyrði!  Forstjórinn virðist vera búinn að gleyma því að hann fékk nýlega hjá ríkisbankanum afskrifaða 20 þúsund milljónir króna og hreinn hagnaður Brims ársið 2012 var þjúþúsund og sjöhundruð milljónir króna. Afskriftirnar nema upphæð sem er margfaldar skuldir skulduga sveitarfélaginu Skagafirði og hagnaður Brims, á árinu 2012 var mun meiri en allar tekjur Sveitarfélagsins Skagafjarðar. Forstjóri Brims hefur því ekkert tilefni til þess að væla og þessar æfingar hans í fjölmiðlum eru beinlínis ósvífnar gagnvart almenningi sem glílmir við raunverulega erfiðleika.

Í sjálfu sér er skiljanlegt að blaðamenn á Morgunblaðinu verði að taka þátt í þessum leik að hugga útgerðaraðalinn enda blaðið í eigu þeirra en furðulegt er að sjá aðra fjölmiðla verða meðvirka í umfjölluninni.

Í lokin er rétt að spyrja hvort að forstjóri Brims sem hefur tímabundin einokunarrétt til að nýta sameiginlega auðlind landsmanna, sé að gera eitthvað svona ofboðslega merkilegt sem enginn annar getur gert?  Mín skoðun er sú að það sé nákvæmlega ekki neitt og tímabært sé að hleypa öðrum að í greininni, sérstaklega þegar mönnum líður svona illa í því sem þeir eru að gera.

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 4.2.2014 - 00:08 - FB ummæli ()

Íslendingar skildu Norðmenn í haust

Erfitt er að fá nokkurn botn í afstöðu LÍÚ og íslenskra stjórnvalda í viðræðum við Evrópusambandið og Norðmenn. Nú er lausn deilunnar sögð stranda á því að Norðmenn vilji veiða meira en ráðgjöf Alþjóðahafrannsóknarráðsins segir til um.  Ef allt væri með felldu þá ættu íslensk stjórnvöld að taka tillögum sem geta aukið gjaldeyristekjur þjóðarinnar fagnandi. Mögulega sjá ráðamenn LÍÚ ákveðna hættu á að ef veiðar verði auknar verulega að þá gæti það orðið til þess að smábátar fengju að taka þátt í makrílveiðunum. Eins og komið hefur rækilega fram í fjölmiðlum þá sitja þingmenn Framsóknarflokksins á leyndófundum með LÍÚ til að móta afstöðu þingmanna flokksins.

Aumt er að sjá hvernig sérfræðingur Hafrannsóknastofnunar var dreginn fram í sviðsljósið af Morgunblaðinu til þess að rökstyðja málstað LÍÚ og Framsóknarflokksins og halda því fram að málflutningur Norðmanna sé óskiljanlegur og undarlegur, þar sem að hann gangi gegn ráðgjöf Alþjóðahafrannsóknarráðsins.  Málflutningur Hafró nú í febrúar um að ekki megi fara á svig við ráðgjöfina stangast algerlega á við það sem sérfræðingur Hafró, Guðmundur J. Óskarsson hélt  fram sl. haust um að lítið væri að marka umrætt stofnmat og veiðiráðgjöf þar sem hún byggði á kolröngum gögnum sem gæti ekki leitt til annars en rangrar niðurstöðu.

Flestum ætti að vera ljóst sem fara á annað borð yfir forsendur veiðiráðgjafar Alþjóðahafrannsóknarráðsins, að kvótasetningin hvílir á afar veikum grunni og að makrílstofninn hefur farið vaxandi þrátt fyrir að veitt hafi verið um árabil langt umfram svokallaða veiðiráðgjöf Alþjóðahafrannsóknarráðsins.

 

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 1.2.2014 - 21:00 - FB ummæli ()

Letilegt þing

Ríkisstjórninni með sjálfan Framsóknarflokkinn í fararbroddi virðist ekki liggja neitt á að framfylgja kosningaloforðum sínum um að aflétta umsátursástandi um heimilin og koma hjólum atvinnulífsins af stað.  Ekkert frumvarp hefur séð dagsins ljós um aðgerðir í þágu heimilanna, þó svo mánuður sé liðinn af árinu 2014.  Nú er nýhafin kjördæmavika og því litlar líkur á því að nokkurt frumvarp komi fram um stærstu skuldaleiðréttingar veraldar, fyrr en í fyrsta lagi um miðjan febrúar.

Ef litið er yfir þau þingmál sem stjórnarandstaðan hefur lagt fram,  þá tel ég afar ólíklegt að þingmenn stjórnarandstöðunnar hafi legið löngum stundum sveittir yfir frumvarpsskriftum. Engin spurning er að  þingmálið um „mótun stefnu í gjaldmiðilsmálum“   sé efnismesta mál þingmanna Bjartrar Framtíðar.  Ef það nær fram að ganga felur það fyrst og fremst í sér að ríkisstjórnin móti sér einhverja stefnu í gjaldmiðilsmálum!

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 31.1.2014 - 13:50 - FB ummæli ()

Launalækkun

Í fréttum, m.a. á RÚV og Vísi, hefur verið talsverð umfjöllun um fækkun frystitogara. Einkennilegt er að í umfjöllun fjölmiðla sé algerlega hlaupið yfir þá staðreynd að helsti hagræni hvati útgerðanna fyrir breytingunni er gríðarleg lækkun á launum sjómanna. Breytingarnar gera sjávarútvegsfyrirtækjunum kleift að komast hjá því að gera upp við sjómenn á grundvelli raunverulegs afurðaverðs frystra afurða. Í stað þess geta útgerðir sem reka eigin vinnslu gert upp við sjómenn á málamyndaverði sem Verðlagsstofa skiptaverðs ákveður, verði sem er langt undir eðlilegu markaðsverði.

Merkilega lítið sem hefur heyrst í forystumönnum launþega vegna málsins nema þá helst Vilhjálmi Birgissyni  þó að augljóslega sé verið að skerða hlut launþega.

Þær skýringar sem LÍÚ hefur látið frá sér fara vegna fjöldauppsagna sjómanna, s.s. veiðileyfagjaldið og hlutfallslega meiri lækkun sjófrystra afurða en annarra, hafa ekki staðist neina skoðun.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Þriðjudagur 28.1.2014 - 23:39 - FB ummæli ()

Steingrímur J. fór eftir leiðbeiningum SA

Það er virkilega gott framtak hjá Víglundi Þorsteinssyni sem hefur verið einn helsti áhrifamaður í Samtökum atvinnulífsins að upplýsa um ruglandann í kjölfar hrunsins. Ráðamenn sömdu þá um Icesave og sýndu erlendum kröfuhöfum mikla gæsku. Ráðamenn veittu sömuleiðis ríkulegar afskriftir og skattaafslátt til handa fjárglæframönnum.

Víglundur Þorsteinsson hleypur í umfjöllun sinni einhverra hluta vegna yfir þá staðreynd um meint lögbrot Steingríms J. og félaga í samningum við erlenda kröfuhafa að Steingrímur J. fór í einu og öllu eftir beinum leiðbeiningum Samtaka atvinnulífsins. Það var beinlínis krafa forystumanna SA að koma viðskiptabönkunum í hendurnar á erlendum kröfuhöfum og var jafnvel sögð vera ein af helstu forsendum endurreisnarinnar. Önnur hávær krafa samtakanna var að viðhalda óbreyttu kvótakerfi í sjávarútvegi.

Það sem Steingrímur J. og félagar gerðu sig seka um var að fara nánast í einu og öllu eftir leiðbeiningum SA og Alþjóðgjaldeyrissjóðsins.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Sunnudagur 26.1.2014 - 21:32 - FB ummæli ()

Hvert er forsætisráðherra að fara?

Ég á orðið æ erfiðara með að skilja pólitískan leiðtoga þjóðarinnar, Sigmund Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra.  Á honum er að heyra að nánast væri blæbrigðamunur á afstöðu Vilhjálms Bigissonar sem vill afnema verðtrygginguna strax  og meirihluta nefndarinnar sem hann sat í og  fékk það hlutverk að útfæra leiðir til þess að afnema verðtrygginguna.  Nefndin komst sem frægt er orðið,  óvænt að þeirri niðurstöðu að festa beri verðtrygginguna í festi næstu áratugina!

Mögulega er skýringin á því að sú hreina della um að nánast enginn munur sé á að festa verðtrygginguna í sessi og afnema hana, er að stjórnarandstaðan á Alþingi hefur takmarkaðan áhuga og  trú á að hægt sé að afnema verðtrygginguna.

 

 

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 23.1.2014 - 22:26 - FB ummæli ()

Ríkisstjórnin hefur ekki sjálfstraust

Nú hefur starfshópur ríkisstjórnarinnar sýnt á spilin í stærsta hagsmunamáli íslenskra heimila þ.e. afnámi verðtryggingarinnar .

Satt best að segja þá bjóst ég við að niðurstaðan yrði eitthvað í þá veru að stefnt yrði að því að minnka vægi verðtryggingarinnar smám saman m.a. með því að koma í veg fyrir að ný verðtryggð  lán yrðu veitt og að eitthvert þak yrði sett á vexti verðtryggðra lána. Ríkisstjórnarflokkarnir myndu síðan reyna að teygja lopann og boða að nánari útfærslna  væri að vænta á aðgerðunum síðar á kjörtímabilinu. Nei niðurstaða hópsins var afdráttarlaus  þ.e. að það skuli festa verðtrygginguna í sessi um aldur og ævi, rétt eins og illræmt kvótakerfi í sjávarútvegi.

Helsta ástæðan sem lögð var til grundvallar fyrir niðurstöðunni var að ef verðtryggingin yrði tekin úr sambandi, þá myndi það leiða  til þess að lánamarkaður botnfrysi og ekkert lánsfé yrði á lausu sem leiddi af sér kollsteypu og samdrátt.

Samandregið, þá er niðurstaðan sú að forsætisráðherra hefur  enga trú á að komið verði á stöðugleika í efnahagslífinu og þar með á eigin efnahagsstefnu.

 

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 22.1.2014 - 21:34 - FB ummæli ()

Víðsýnir Skagfirðingar vilja skoða „Norsku leiðina“

Á sveitarstjórnarfundi í dag lagði ég fram eftirfarandi ályktun sem felur í sér að skoða Norsku leiðina þ.e. aukið frelsi fyrir smábáta.

Sveitarstjórn Skagafjarðar skorar á ríkisstjórn Íslands að kynna sér forsendur þess að Norðmenn gáfu veiðar smábáta frjálsar um síðustu áramót með þeim hætti að allir bátar sem hafa veiðileyfi og eru undir 11 metrum mega veiða óheft hvaða fisktegund sem er. Góð reynsla strandveiða sýnir að aukið frelsi til veiða eflir líf í sjávarbyggðum og engin spurning er um að atvinnulíf á Hofsósi,í Fljótum og á Sauðárkróki tæki fjörkipp ef veiðar smábáta yrðu gefnar frjálsari. Einföldun regluverks mun einnig koma nýjum sprota í atvinnulífi Skagafjarðar mjög til góða þ.e. plastbátagerðinni Mótun ehf, sem Sveitarfélagið Skagafjörður hefur lagt umtalsverða fjármuni í.

Það skemmst frá því að segja að tillagan var samþykkt efnislega en með einhverjum orðalagsbreytingum, en  að vísu í harðri andstöðu fulltrúa Sjálfstæðisflokksins!  Ekki skildi ég hvað flokkur einstaklingsfrelsis var á móti auknu frelsi en það er rétt að hrósa fulltrúum Framsóknarflokksins fyrir víðsýni í þessu máli.  Það er jákvætt að sjá hve fjárfesting Kaupfélags Skagfirðinga í bátasmíði hefur opnað augu manna fyrir gríðarmiklum möguleikum í smábátaútgerð.

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 17.1.2014 - 11:59 - FB ummæli ()

Svarti listinn

Þingmenn Sjálfstæðisflokksins  kenna sig við að vera hægrimenn og vilja í orði kveðnu nýta markaðslausnir þegar vel liggur á þeim.  Markaðslausnir fela í sér að verð á vöru og þjónustu ræðst af framboði og eftirspurn á frjálsum markaði.

Óneitanlega er það skringilegt að fylgjast með þingmönnum Sjálfstæðisflokksins og sömuleiðis Samtökum Atvinnulífsins fagna sérstöku átaki undir kjörorðinu  „Stöndum saman og rjúfum vítahring verðbólgunnar“ sem felur m.a. í sér að setja fyrirtæki sem hækka verð á vöru, á svartan lista ASÍ.

Stæði það ekki hægrimönnum nær að berjast gegn verðtryggingu sem leiðir til sjálfvirkrar hækkunar á kostnaði eða þá fákeppni og óeðlilegum viðskiptaháttum.  Fjölmörg dæmi eru um fákeppni í íslensku viðskiptalífi og óeðlilega viðskiptahætti, á borð við ríkisverðlagningu Verðlagsstofu skiptaverðs á fiski langt undir frjálsu markaðsverði.

Heilbrigðir hægrimenn ættu miklu frekar að leggjast á árar með þeim sem vilja að sanngjörn markaðslögmál ríki og opna fyrir samkeppni sem víðast í stað þess að festast í því að réttlæta óeðlileg séríslensk kerfi og fákeppni.

Ánægja þingmanna Sjálfstæðisflokksins með svarta listann er óeðlileg ef litið er til þeirrar stefnu sem flokkurinn kennir sig við, en á hinn bóginn þá er hún í góðu samræmi við athafnir flokksins á síðustu árum.

Flokkar: Óflokkað

Sunnudagur 12.1.2014 - 18:43 - FB ummæli ()

Hafnfirðingar og Íslendingar allir ættu að staldra við

Nú berast fréttir af því að ágætur bæjarstjóri í Hafnarfirði vilji að Hafnarfjarðarbær hafi milligöngu um kaup á togaranum Þór og aflaheimildum til þess að tryggja um 40 störf í sveitarfélaginu.  Ekki er ólíklegt að kaupverðið verði vel á annan tug milljarða króna og að hvert starf kosti því um 400 milljónir króna.

Væri ekki nær að Hafnfirðingar staldri við og spurji sig hvort að peningunum sé vel varið.  Það er alveg ljóst að þessir peningar eru á leiðinni út úr atvinnugreininni og eftir situr útvegurinn enn og aftur skuldsettari,  því sem öllum þessum milljörðum nemur.  Upphæðin nemur kostnaði við byggingu 25 fullbúinna leikskóla.

Væri ekki nær að Hafnfirðingar og reyndar landsmenn allir staldri við og spurji sig hvort ekki sé orðið löngu tímabært að endurskoða illræmt kvótakerfi í sjávarútvegi.  Árangurinn af því er nú ekkert til að hrópa húrra fyrir en þorskaflinn nú er vel ríflega hundrað þúsund tonnum minni en árið 1924 og kerfið leiðir enn og aftur til þess að skuldir hrúgast á atvinnugreinina.

Lærðum við ekki neitt af hruninu?

 

Flokkar: Óflokkað

Höfundur

Sigurjón Þórðarson
Líffræðingur og sveitarstjórnarmaður á Sauðárkróki.
RSS straumur: RSS straumur