Laugardagur 6.11.2021 - 09:40 - Rita ummæli

Balzac og kapítalisminn

Franski hagfræðingurinn Tómas Piketty, sem er nú orðinn einn helsti hugmyndafræðingur vinstri manna, vitnar óspart í ritum sínum í skáldverk landa síns, Honorés de Balzacs, enda telur hann, að tekjudreifing sé að verða eins ójöfn og á dögum Balzacs. Auðurinn sé nánast fastur við fjölskyldur, enda sé arður af stóreignum meiri en hagvöxtur. Hinir ríku séu sífellt að verða ríkari, þótt hinir fátæku séu ekki að verða fátækari.

Ég tók mig til og las þá bók Balzacs, sem Piketty vitnar mest í, Père Goriot, Föður Goriot, sem kom nýlega út í þýðingu Sigurjóns Björnssonar. Ég uppgötvaði, að boðskapur Balzacs er þveröfugur við það, sem Piketty segir. Balzac lýsir vel í þessari skáldsögu, hversu fallvaltur auðurinn er, hversu erfitt er að halda í hann. Ég skipulagði síðan málstofu um bókina í París 28.–31. október 2021, og tókst hún hið besta.

Saga Balzacs gerist á gistiheimili í París á nokkrum mánuðum árin 1819–1820. Einn vistmaðurinn er gamli Goriot, sem var vellauðugur kaupmaður, en hann hefur eytt nær öllum sínum eigum í vanþakklátar og heimtufrekar dætur sínar. Önnur þeirra, Anastasie de Restaud greifynja, á elskhuga, sem er spilafíkill, og hún selur ættargripi manns síns til að greiða skuldir hans. Hin dóttirin, Delphine de Nucingen barónessa, verður líka uppiskroppa með fé, en eiginmaður hennar hefur hætt fjármunum hennar í fjárfestingar, sem hugsanlega skila arði síðar, en gætu líka misheppnast. Hinn dularfulli Vautrin, sem býr ásamt Goriot á gistiheimilinu, hafði ungur tekið á sig sök fyrir ástmann sinn, sem hafði falsað skjöl, og verið dæmdur í fimm ára fangelsi fyrir.

Þessar helstu söguhetjur hafa kostað öllu til fyrir ástríður sínar. Þær sátu ekki á eigum sínum eins og ormar á gulli. Þær eyddu ekki ævinni í að klippa arðmiða. Þær lifðu við óvissu. Auðvitað eru þær ýktar. En Piketty hefur rangt fyrir sér um þær og ekki síður um veruleika 21. aldar.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 6. nóvember 2021.)

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 30.10.2021 - 09:35 - Rita ummæli

Samhengið í íslenskum stjórnmálum

Í árslok 2020 gaf ég út bókina Twenty-Four Conservative-Liberal Thinkers í tveimur bindum. Fyrsti kaflinn er um Snorra Sturluson, enda kemur hann í Heimskringlu orðum að tveimur hugmyndum frjálslyndra íhaldsmanna, sem John Locke batt síðan í kerfi: að konungar ríktu aðeins með samþykki þegnanna og að þá mætti afhrópa, ef þeir skertu hefðbundin réttindi. Rauði þráðurinn í Heimskringlu er, að góðir konungar haldi friðinn og stilli sköttum í hóf, en vondir konungar fari með hernaði og kosti umsvif sín með auknum álögum á alþýðu. Í ræðu Einars Þveræings, sem á að hafa verið flutt á Alþingi árið 1024, gengur Snorri enn lengra og segir, að konungar séu misjafnir og Íslendingum fyrir bestu að hafa engan konung.

Sigurður Líndal prófessor hefur í merkri ritgerð í Úlfljóti 2007 sett fram svipaðan skilning á verki Snorra. En auðvitað stendur Snorri ekki einn. Því hefur ekki verið veitt næg athygli, að Ari fróði setur fram svipaða skoðun í ræðu þeirri, sem hann leggur Þorgeiri Ljósvetningagoða í munn á Alþingi árið 1000. Þorgeir hóf ræðu sína á því að vara við ósætti og barsmíðum manna í milli, eins og tíðkaðist í útlöndum: „Hann sagði frá því, að konungar úr Noregi og Danmörku hefðu haft ófrið og orrustur á milli sín langa tíð, til þess uns landsmenn gerðu frið á milli þeirra, þótt þeir vildu eigi.“

Ari sér konunga bersýnilega ekki sem virðulega umboðsmenn Guðs á jörðu, heldur sem ótínda ófriðarseggi, og þurfi þegnarnir að hafa á þeim taumhald. Hann gerir sér eins og Snorri glögga grein fyrir sérstöðu Íslendinga, sem höfðu lög í stað konunga. Íslendingabók Ara er fyrsta sjálfstæða íslenska bókmenntaverkið, því að áður höfðu aðeins verið færð í letur lögin, ættartölur og þýðingar helgirita. Vart er ofsagt, að með Ara vakni íslensk þjóðarvitund.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 30. október 2021.)

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 23.10.2021 - 09:34 - Rita ummæli

Til varnar skattasniðgöngu

Það hefur vakið athygli, að á ráðstefnu um löggæslu og afbrotavarnir á Akureyri 6. október síðast liðinn hélt ég því fram, að skattasniðganga væri frekar dygð en löstur. Skal ég hér rökstyðja mál mitt. Gera verður greinarmun á skattsvikum (tax evasion) og skattasniðgöngu (tax avoidance). Skattsvik eru, þegar maður reynir að fela sumar skattskyldar tekjur sínar eða falsar kostnað á móti tekjum. Hún er ólögleg og siðferðilega röng. Skattasniðganga er hins vegar, þegar maður (eða fyrirtæki) gerir allt, sem hann getur löglega til að lækka skattgreiðslur sínar, þar á meðal að tína til allan kostnað á móti tekjum eða flytja starfsemi úr háskattalandi í lágskattaland. Það er auðvitað villandi að nota þetta gildishlaðna orð. Þegar maður kaupir vöru í Bónus frekar en Hagkaup, af því að hún er þar ódýrari, er hann ekki að sniðganga Hagkaup.

Skattar eru það verð, sem ríkið setur upp fyrir þjónustu sína, en hún er fólgin í að veita þá þjónustu, sem er ekki á færi einstaklinga, af því að um er að ræða svokölluð samgæði, til dæmis landvarnir og löggæslu. Ekki er unnt að takmarka framleiðslu þeirra við þá, sem greiða fyrir þau. Annaðhvort hafa allir þau eða enginn. En hvernig fáum við að vita, hversu mikið af samgæðum fólk vill? Besta ráðið er að skoða, hvert fólk fer, svaraði bandaríski hagfræðingurinn Charles Tiebout í frægri ritgerð. Samkeppni ólíkra svæða um skattgreiðendur leiðir í ljós, hvað fólk vill í raun og veru. Þeir, sem andmæla þessu um eitthvert svæði, eru í raun að segja, að þar sé framleiðsla samgæða ákjósanleg, eins mikil (eða lítil) og skattgreiðendur vilja. Það á sjaldnast við.

Auðvitað mega menn ekki sniðganga lögin. Þeir hafa skyldur við samborgara sína. En það er ekki nema eðlilegt og sjálfsagt, að þeir reyni að spara sér skattgreiðslur umfram það, sem þeim er skylt. Með því sýna þeir sparsemi, og sparsemi er dygð.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 23. október 2021.)

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 16.10.2021 - 09:33 - Rita ummæli

Kaupmaðurinn frá Alexandríu

Í erindi á ráðstefnu um löggæslu og afbrotavarnir á Akureyri 6. október 2021 hélt ég því fram, að löggjafinn ætti að einbeita sér að þeim brotum, sem sköðuðu aðra, svo sem ofbeldi og svikum, en láta þær athafnir manna afskiptalausar, sem ekki ættu sér fórnarlömb, þar á meðal innherjaviðskipti. Ég fór með dæmisögu frá heilögum Tómasi af Akvínas. Hungursneyð hafði verið á Rhodos, þegar kaupmaður frá Alexandríu kom þangað með skip drekkhlaðið korni. Hann veit, að fleiri kaupmenn eru á leiðinni, því að hann sá seglin á skipum þeirra bera við sjóndeildarhringinn. Á hann að segja eyjarskeggjum frá vitneskju sinni, þótt það leiði til þess, að hann geti ekki selt korn sitt háu verði?

Heimspekingar fornaldar deildu um þetta. Díógenes frá Babílon kvað hann ekki þurfa að segja frá þessu, enda væri sitt hvað að blekkja kaupendur um gæði vöru og að veita þeim ekki upplýsingar um ýmis atriði, sem haft gætu áhrif á verð vörunnar. Antípater frá Tarsos andmælti þessu með þeim rökum, að kaupmaðurinn væri samborgari eyjarskeggja og mætti þess vegna ekki fénýta sér þessar upplýsingar. Rómverski mælskusnillingurinn Cíceró var sammála Antípater. Heilagur Tómas taldi hins vegar eins og Díógenes, að kaupmaðurinn þyrfti ekki að segja viðskiptavinum sínum frá þeim væntanlegu keppinautum, sem hann sá á leiðinni. Það væri ef til vill rausnarlegt, en réttlætið krefðist þess ekki.

Hér er kjarni málsins, að eyjarskeggjar voru engin fórnarlömb. Fráleitt var að telja muninn á hinu háa verði, sem kaupmaðurinn gat selt korn á, og hinu lága verði, eftir að aðrir kaupmenn voru komnir, sérstakt tjón eyjarskeggja. Kaupmaðurinn var að veita þjónustu, ekki skaða viðskiptavini sína. Auk þess var það aðeins tilgáta, að fleiri kaupmenn væru á leiðinni. Lífið er undirorpið óvissu. Þetta sjónarmið á líka við um innherjaviðskipti (þar sem ekki er beitt svikum eða blekkingum). Enginn skaðast á þeim. Rangt er að draga lágt verð á hlutabréfum, sem öllum stendur til boða á fimmtudegi, frá háu verði á sömu hlutabréfum á mánudegi, og telja það tjón annarra hluthafa en þess eins, sem sá verðhækkunina fyrir og keypti hlutabréf á fimmtudegi. Sama er að segja um fasteignaviðskipti. Ég sel þér eign á 90 milljónir, og þremur mánuðum seinna selur þú öðrum eignina á 100 milljónir. Tíu milljónirnar eru ekki tjón mitt.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 16. október 2021.)

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 9.10.2021 - 09:33 - Rita ummæli

Fórnarlambalaus brot

Félagsvísindamenn, lögregluþjónar og fangaverðir komu saman á ráðstefnu á Akureyri 6. október 2021 til að ræða um löggæslu, refsingar og afbrotavarnir. Framlag mitt var erindi um, hvernig löggjafinn gæti fækkað verkefnum lögreglunnar, svo að hún gæti einbeitt sér að þeim, sem brýnust væru. Þetta mætti gera með því að hætta að eltast við þær athafnir manna, sem ættu sér engin fórnarlömb, og nefndi ég í því sambandi vændi, klám, innherjaviðskipti og skattahagræðingu.

Leiðarljós mitt var frá heilögum Tómas af Akvínas, sem segir í riti sínu um lögin (96. spurning, 2. grein, í þýðingu Þórðar Kristinssonar): „Lög manna eru sett fjölda manna, sem að meiri hluta eru ekki fullkomlega dygðugir. Og þess vegna banna mannalög ekki alla þá lesti, sem dygðugir menn forðast, heldur einungis alvarlegri lesti, sem meiri hlutanum er fært að forðast, og einkum þá, sem eru öðrum til sársauka og sem eru þannig, að væru þeir ekki bannaðir, væri ekki unnt að viðhalda samfélagi manna; þannig banna mannalög morð, þjófnað og þess háttar.“

Ég hef áður rætt hér um vændi og klám, en minni á, að aðstaða vændiskvenna og klámleikara hefur snarbatnað við það, að milliliðir eru þar að hverfa úr sögunni. Á netinu geta þessir hópar nú átt viðskipti beint við þá, sem vilja kaupa af þeim þjónustu. Margir eiga hins vegar erfitt með að skilja, að innherjaviðskipti eigi sér ekki alltaf fórnarlömb. En lítum á einfalt dæmi. Hluthafi í fyrirtæki fær innherjaupplýsingar um það á fimmtudegi, að fyrirtækið muni hækka í verði á mánudag. Hann kaupir fleiri hlutabréf og hagnast talsvert, þegar þau hækka. Þá spyrja einhverjir: Töpuðu ekki hinir hluthafarnir, sem fengu ekki þessar upplýsingar? Svarið er nei. Það er rangt að draga hið háa verð hlutabréfanna á mánudag (sem allir hluthafar njóta) frá hinu lága verði þeirra á fimmtudag (sem öllum stóð til boða) og skilgreina það sem tap annarra hluthafa. Þeir eru ekki verr settir en áður. Þeir áttu ekki rétt á, að innherjinn deildi upplýsingum sínum. Þeir eru engin fórnarlömb. Þá er auðvitað gert ráð fyrir, að upplýsingarnar hafi verið fengnar án svika eða blekkinga.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 9. október 2021.)

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 2.10.2021 - 09:32 - Rita ummæli

Hvað getur hægrið gert?

Í stystu máli má segja, að vinstrið telji nauðsynlegt að beita valdi til að bæta heiminn, en hægrið vilji frekar sjálfsprottna þróun við einkaeignarrétt, viðskiptafrelsi og valddreifingu. Ég hef rakið hér helstu skýringar á því, að vinstrið hefur sótt í sig veðrið: Eftir sigur í Kalda stríðinu sameinar engin ógn hægrið; vinstrið hefur horfið frá þjóðnýtingu og sættir sig með semingi við kapítalismann; þeim kjósendum hefur fjölgað, sem háðir eru ríkinu um afkomu sína; og vinstrið hefur náð undirtökum í skólum og fjölmiðlum, hrifsað til sín dagskrárvaldið.

Á ráðstefnu í Lissabon 24. september ræddi ég, hvernig hægrið gæti brugðist við. Í fyrsta lagi hefur kínverski kommúnistaflokkurinn hafið nýtt kalt stríð gegn Vesturlöndum, þótt fæstir geri sér grein fyrir því. Þetta mun breyta viðhorfum á næstu árum. Í öðru lagi vill vinstrið enn óhófleg ríkisafskipti, en þau hafa þveröfugar afleiðingar við það, sem ætlað var. Þetta sáu Svíar um og eftir 1990. Frumkvöðlar fluttust úr landi sökum þungrar skattbyrði, og engin ný störf urðu til í einkageiranum, aðeins í opinbera geiranum. Peningarnir vaxa ekki á trjánum. Fleiri munu enduruppgötva þessi einföldu sannindi en Svíar.

Þar sen hægrið hefur völd, þarf það síðan að einbeita sér að tveimur verkefnum. Annað er að fjölga þeim, sem eru efnalega sjálfstæðir, óháðir ríkinu, meðal annars með áframhaldandi sölu ríkisfyrirtækja og auknum tækifærum einkaaðila til að veita þjónustu. Auðvelda þarf fólki að brjótast út úr fátækt í stað þess, að það sitji þar fast. Hitt verkefnið er að hætta að styrkja þá, sem reyna í skólum og fjölmiðlum að grafa undan vestrænni menningu. Þeir eiga að sjálfsögðu að hafa frelsi til að boða skoðanir sínar, en á eigin kostnað, ekki skattgreiðenda.

Að lokum skiptir þó mestu máli að leggja fram haldbærar röksemdir og gögn um það, að affarasælast sé að leyfa einstaklingum og atvinnulífi að vaxa og dafna við frelsi. Þetta gera ótal hugveitur á okkar dögum. Sjálfur tel ég þó, að mikilvægasta röksemdin fyrir einstaklingsfrelsi sé, að það sé orðið okkar annað eðli. Við á Vesturlöndum höfum öðlast vilja og getu til að velja. Við erum einstaklingar, ekki aðeins laufblöð á trjágreinum.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 2. október 2021.)

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 25.9.2021 - 09:32 - Rita ummæli

Er vinstrið að sækja í sig veðrið?

Vinstrið hefur víða sótt í sig veðrið þrátt fyrir herfilegan ósigur í sögulegum átökum tuttugustu aldar. Hvað veldur?

Ein skýringin er, að ekki virðist lengur til sameiginlegur óvinur, sem sameinast megi gegn, eins og alræðisstefna nasista og kommúnista var.

Önnur skýringin tengist hinni fyrstu. Sósíalisminn hafði hvarvetna mistekist hrapallega, og smám saman tóku vinstri flokkar upp svipaða stefnu og sigurvegarar Kalda stríðsins, Ronald Reagan og Margrét Thatcher. Deilunni um einkarekstur og ríkisrekstur lauk með sigri hægrisins, sem var þá um leið svipt sínu helsta baráttumáli.

Stundum hefur verið talað af lítilsvirðingu um átakastjórnmál. En þau áttu sér rót í raunverulegum átökum, jafnt um ógnina frá alræðisríkjum og ágreining um skipan atvinnumála. Í stað þeirra hafa ekki komið sáttastjórnmál, heldur merkimiðastjórnmál (identity politics). Mestu máli er talið skipta, að kjósendur finni til samkenndar með valdsmönnum, en ekki að vald þeirra takmarkist af föstum reglum, svo að einstaklingarnir geti notið sín.

Næstu áratugina eftir endalok marxismans komu enn fremur í ljós áhrifin af tvenns konar þróun, sem átt hafði sér stað þegjandi og hljóðalaust. Í fyrsta lagi hefur þeim snarfjölgað, sem háðir eru ríkinu um afkomu sína, starfsfólki og styrkþegum, svo að þeir mynda jafnvel víða meiri hluta kjósenda. Einkageirinn hefur vissulega þrifist vel, en opinberi geirinn hefur vaxið hratt.

Í öðru lagi eru marxistarnir ekki horfnir, þótt marxisminn sé dauður. Þeir hafa aðeins skipt um merkimiða. Í stað borgarastéttarinnar er komið feðraveldi og í stað stéttabaráttu umhverfisvá. Nýmarxistar, sem iðka gremjufræði (grievance studies), hafa náð undirtökum í skólum og fjölmiðlum. Þeir hafa alið upp nýja kynslóð, sem helst hugsar um að semja óskalista, ekki skapa verðmæti.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 25. september 2021.)

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 18.9.2021 - 09:30 - Rita ummæli

Hvers vegna gelti hundurinn ekki?

Í smásögu um leynilögreglumanninn Sherlock Holmes, Silver Blaze, sem hlotið hefur heitið Verðlauna-Blesi á íslensku, hverfur verðmætur veðreiðahestur um nótt. Holmes hefur orð á því við fákænan lögregluþjón, að framferði varphundsins í hesthúsinu um nóttina hafi verið merkilegt. En hundurinn gerði ekkert um nóttina, segir lögregluþjónninn undrandi. Það er einmitt það, sem er sérstakt, svarar Holmes. Skýringin var auðvitað, að hundurinn þekkti manninn, sem rændi hestinum.

Mér datt þessi saga í hug um daginn, þegar ég rifjaði upp skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis um bankahrunið 2008. Þar er ekki síður merkilegt, hverju er sleppt, en hvað er tekið með. Af mörgu er að taka, en eitt dæmi er, að þar er ekki sagt efnislega frá fundi, sem fjórir ráðherrar héldu um vanda bankanna 7. ágúst 2008 með fjórum hagfræðingum, Friðrik Má Baldurssyni, Gauta B. Eggertssyni, Má Guðmundssyni og Jóni Þór Sturlusyni.

Þar lögðu þeir Friðrik Már, Gauti og Már allir til (samkvæmt minnisblaði Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur), að ríkið reyndi að bjarga bönkunum. Þeir voru um þetta ósammála seðlabankastjórunum þremur, sem töldu fall bankanna líklegt og þá væntanlega óviðráðanlegt, en ríkið yrði þá aðallega að lágmarka skuldbindingar sínar og gæta hags innstæðueigenda. Upplýsingar um þessar fráleitu hugmyndir hagfræðinganna komu ekki fram fyrr en í landsdómsmálinu 2012.

Hvers vegna var ekki rætt um þessar tillögur í skýrslu Rannsóknarnefndarinnar frá 2010, þó að fundarins sé getið í 6. bindi? Vildu nefndarmenn hlífa hagfræðingunum við því að birta þessar upplýsingar, sem voru óþægilegar fyrir þá í ljósi eftirleiksins? Gauti hafði skrifað í blöð til varnar einum nefndarmanninum, Sigríði Benediktsdóttur, eftir að hún hafði í upphafi rannsóknarinnar tilkynnt í bandarísku stúdentablaði, að kenna mætti „tómlátu andvaraleysi“ Seðlabankans og Fjármálaeftirlitsins um bankahrunið, og þannig orðið vanhæf til að rannsaka það. Már var skipaður seðlabankastjóri í júní 2009 og réð Sigríði í bankann 2012. Þarf einhvern Sherlock Holmes til að skýra málið?

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 18. september 2021.)

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 11.9.2021 - 03:02 - Rita ummæli

Fyrir tuttugu árum

Sumar fréttir eru svo óvæntar og stórar, að allir muna, hvar þeir voru, þegar þeim bárust þær. Árið 1963 var ég tíu ára lestrarhestur á Laugarnesvegi 100. Hinar fjölmörgu bækur á heimili foreldra minna nægðu mér ekki, svo að ég laumaðist oft upp til vinafólks okkar í sama stigagangi og grúskaði í bókum. Ég sat þar við lestur síðdegis föstudaginn 22. nóvember, þegar annar sonur hjónanna í íbúðinni kom að mér og kallaði: „Hefurðu heyrt fréttirnar? Þeir hafa skotið Kennedy!“ Öllum var brugðið.

Haustið 1997 var ég á leið til Torino, þar sem ég skyldi vera gistifræðimaður í nokkra mánuði. Að morgni sunnudagsins 31. ágúst var ég nýlentur í Mílanó (sem fornmenn kölluðu Melansborg) og í leigubíl á leið til járnbrautarstöðvarinnar. Lágvært útvarp á ítölsku var í gangi. Skyndilega hrópaði ökumaðurinn: „Díana prinsessa er látin! Hún lenti í bílslysi!“ Ég var forviða. Það var ótrúlegt, að þessi þokkadís væri öll.

Þriðjudaginn 11. september 2001 var ég nýkominn á gistihús í Bratislava í Slóvakíu, þar sem halda átti svæðisþing Mont Pelerin-samtakanna, alþjóðasamtaka frjálslyndra fræðimanna. Laust eftir klukkan þrjú síðdegis hringdi bandarískur kunningi í mig. Hann var í uppnámi: „Komdu upp í íbúðina til mín og horfðu á sjónvarpið með mér. Það er verið að gera loftárás á New York!“ Ég trúði ekki mínum eigin eyrum. „Eins og í kvikmynd?“ sagði ég. „Já, en þetta er ekki kvikmynd, þetta er veruleiki,“ svaraði hann. Ég fór upp í íbúð hans, við fengum okkur drykki og blönduðum sterkt, settumst fyrir framan sjónvarpið og horfðum þöglir á árásirnar í beinni útsendingu. Þegar áfengisbirgðir þraut úr kæliskápnum í íbúð hans, náði ég í það, sem til var í mínu herbergi.

Ólíkt hörmulegum andlátum Kennedys og Díönu markaði árásin á Bandaríkin tímamót. Þetta var í fyrsta skipti, sem fjandmenn höfðu ráðist inn í landið sjálft. En hryðjuverkasamtökin Al-Kaida höfðu vanmetið styrk Bandaríkjanna, sem lögðu þau að velli á nokkrum misserum, þótt ekki hafi þeim tekist með öllu að uppræta þau. Enginn skyldi samt vanmeta þennan styrk.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 11. september 2021.)

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 3.9.2021 - 12:13 - Rita ummæli

Styrmir Gunnarsson

Sá Styrmir Gunnarsson, sem ég kynntist ungur, var ólíkur hinni opinberu mynd af Morgunblaðsritstjóranum, en hann átti að vera klækjarefur með alla þræði í hendi sér. Sá Styrmir, sem ég þekkti, hafði þrjár eiginleika til að bera í meira mæli en flestir aðrir: hann var trygglyndur, vinnusamur og tilfinninganæmur. Hann var um árabil einn nánasti trúnaðarmaður Geirs Hallgrímssonar, enda sagði Geir mér úti í Lundúnum haustið 1981, að hann vildi helst, að Styrmir tæki við formennsku af sér. Er bók Styrmis um átökin í Sjálfstæðisflokknum á áttunda og níunda áratug hin fróðlegasta. En Styrmir var ekki síður tryggur æskuvinum sínum, jafnvel þótt þeir hefðu haslað sér völl annars staðar, og þótti okkur sjálfstæðismönnum stundum nóg um.
Styrmir var afar vinnusamur, vakinn og sofinn á Morgunblaðinu, en um leið jafnan reiðubúinn að eyða löngum tíma í spjalli yfir hádegisverði eða kaffibolla, og kom þá í ljós, hversu áhugasamur hann var um fólk. Hann hugsaði miklu frekar í mönnum en málefnum, fannst mér stundum. Þó var hann eindreginn fylgismaður lýðræðisþjóðanna í Kalda stríðinu og stundaði þá upplýsingaöflun fyrir Vesturveldin, eins og hann lýsir í einni bók sinni. Hann sagði mér, að þeir Matthías Johannessen hefðu ákveðið eftir sigurinn í Kalda stríðinu að beita ekki hinu mikla afli Morgunblaðsins til að gera upp við íslenska kommúnista. Græða þyrfti sár frekar en stækka. En hann efaðist samt stundum um, að sú ákvörðun hefði verið rétt, sérstaklega eftir að hann las bækur okkar Þórs Whiteheads og Snorra G. Bergssonar um kommúnistahreyfinguna.
Styrmir var í þriðja lagi mjög tilfinninganæmur. Hann var í hjarta sínu, fannst mér, enginn sérstakur stuðningsmaður hinna ríku og voldugu, eins og margir héldu, heldur hafði hann óskipta samúð með lítilmagnanum, hver sem hann var. Hann tók alltaf svari smákapítalistanna gegn stórlöxunum. Jafnframt átti hann til mikla blíðu. Við sátum stundum að skrafi á skrifstofu hans á Morgunblaðinu, og var hann þá hinn ákveðnasti, en ef dætur hans hringdu, tók hann alltaf símann og málrómurinn breyttist, röddin lækkaði og mýktist. Hann reyndist fjölskyldu sinni og vinum mjög vel, og hann elskaði land sitt og þjóð fölskvalaust. Hann var þjóðernissinni í bestu merkingu þess orðs.
(Minningargrein í Morgunblaðinu 3. september 2021.)

Flokkar: Óflokkað

Höfundur

Hannes Hólmsteinn Gissurarson er prófessor emeritus í stjórnmálafræði í Háskóla Íslands og hefur verið gistifræðimaður við fjölmarga erlenda háskóla, þar á meðal Stanford-háskóla og UCLA. Hann fæddist 1953, lauk doktorsprófi í stjórnmálafræði frá Oxford-háskóla 1985 og er höfundur fjölmargra bóka um stjórnmál, sögu og heimspeki á íslensku, ensku og sænsku.


Nýjustu bækur hans eru Twenty Four Conservative-Liberal Thinkers, sem hugveitan New Direction í Brüssel gaf út í tveimur bindum í árslok 2020, Bankahrunið 2008 og Communism in Iceland, sem Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands gaf út árið 2021, og Landsdómsmálið, sem Almenna bókafélagið gaf út í desember 2022. Hann hefur gefið út átta bókarlangar skýrslur á ensku. Sjö eru fyrir hugveituna New Direction í Brüssel: The Nordic Models og In Defence of Small States (2016); Lessons for Europe from the 2008 Icelandic Bank Collapse, Green Capitalism: How to Protect the Environment by Defining Property Rights og Voices of the Victims: Towards a Historiography of Anti-Communist Literature (2017); Why Conservatives Should Support the Free Market og Spending Other People’s Money: A Critique of Rawls, Piketty and Other Redistributionists (2018). Ein skýrslan er fyrir fjármálaráðuneytið, Foreign Factors in the 2008 Bank Collapse (2018). Hann er ritstjóri Safns til sögu kommúnismans, ritraðar Almenna bókafélagsins um alræðisstefnu, en nýjasta bókin í þeirri ritröð er Til varnar vestrænni menningu: Ræður sex rithöfunda 1950–1958. Árin 2017 og 2018 birtust eftir hann þrjár ritgerðir á ensku um frjálshyggju á Íslandi, Liberalism in Iceland in the Nineteenth and Twentieth Centuries, Anti-Liberal Narratives about Iceland 1991–2017 og Icelandic Liberalism and Its Critics: A Rejoinder to Stefan Olafsson.  

RSS straumur: RSS straumur

Nýlegar athugasemdir