Laugardagur 7.8.2021 - 05:54 - Rita ummæli

Eins einfalt og það lítur út fyrir að vera

Í heimsfaraldrinum hef ég haldið mig heima við, og þá hefur gefist tími til að lesa ýmsar ágætar bækur. Ein þeirra er sjálfsævisaga Árna Bergmanns, Eitt á ég samt, sem kom út fyrir nokkrum árum. Hún er lipurlega skrifuð eins og vænta mátti.

Árni fór ásamt Arnóri Hannibalssyni til náms í Moskvu 1954. Í sjálfsævisögunni segir hann frá því (bls. 110), að á útmánuðum 1956 hafi tveir römmustu stalínistar Íslands, Kristinn E. Andrésson, forstjóri bókafélagsins Máls og menningar, og Eggert Þorbjarnarson, framkvæmdastjóri Sósíalistaflokksins, komið til Moskvu í því skyni að sitja þing kommúnistaflokks Ráðstjórnarríkjanna. Þeir Árni og Arnór hafi heimsótt þá á gistihús og talið borist að ömurlegu hlutskipti Eystrasaltsþjóðanna þriggja, Eistlendinga, Letta og Litháa. Kremlverjar höfðu hertekið lönd þeirra, barið niður alla andstöðu og flutt marga frammámenn í gripavögnum til Síberíu. Eggert hafi neitað að trúa frásögnum íslensku stúdentanna um ástandið í Eystrasaltslöndum, en Kristinn tekið þeim betur, enda hafi hann fengið svipaðar upplýsingar frá íslenskum sjómanni, sem siglt hafi á Ventspils í Lettlandi. „Já, ég veit, að þetta er rétt hjá strákunum,“ sagði Kristinn.

Árni bætir við: „Ég segi frá þessu hér, m. a. vegna þess að ekkert er eins einfalt og það lítur út fyrir að vera í skrifum manna eins og Hannesar H. Gissurarsonar og Þórs Whitehead.“ En hvað er Árni í rauninni að segja með þessari sögu? Hann er að segja, að Kristinn hafi gert sér að minnsta kosti nokkra grein fyrir kúguninni í Ráðstjórnarríkjunum. Samt barðist Kristinn ótrauður alla ævi fyrir því að koma á svipuðu kerfi á Íslandi og stóð þar eystra. Skoðun hans breyttist ekki hið minnsta eftir þetta samtal. Yrði Sovét-Ísland, óskalandið, ekki til með góðu, þá með illu.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 17. júlí 2021.)

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 7.8.2021 - 05:53 - Rita ummæli

Skammt öfga í milli

Undanfarið hef ég velt fyrir mér tengslum fasisma og annarra stjórnmálastefna, en í nýlegri ritgerð reyna þau Ragnheiður Kristjánsdóttir og Pontus Järvstad að spyrða saman Sjálfstæðisflokkinn og íslenska fasista á fjórða áratug síðustu aldar. Auðvitað voru þjóðernisstefna og andkommúnismi frá öndverðu snarir þættir í stefnu Sjálfstæðisflokksins, svo að sumir forystumenn hans höfðu samúð með Þjóðernishreyfingu Íslendinga, sem stofnuð var 1933. Hún var ekki heldur hreinræktuð fasistahreyfing. En íslenskur fasistaflokkur, sem kallaði sig Flokk þjóðernissinna, spratt einmitt upp í ársbyrjun 1934 í andstöðu við Sjálfstæðisflokkinn, eftir að tveir menn úr Þjóðernishreyfingunni höfðu tekið sæti á lista flokksins fyrir bæjarstjórnarkosningar í Reykjavík. Hlaut Flokkur þjóðernissinna sáralítið fylgi þá og í þingkosningunum eftir það, bauð síðast fram í bæjarstjórnarkosningum 1938 og lognaðist síðan út af.

Fróðleg bók kom fyrir mörgum árum út í Noregi eftir sagnfræðiprófessorinn Øystein Sørensen, sem komið hefur hingað til lands og haldið fyrirlestra. Hún heitir Fra Marx til Quisling og er um fimm norska sósíalista og kommúnista, sem gerðust fasistar og gengu í lið með Quisling, Eugène Olaussen, Sverre Krogh, Halvard Olsen, Håkon Meyer og Albin Eines. Voru þeir allir í forystusveit norskra vinstri manna. Sinnaskipti þeirra urðu fyrir hernám Þjóðverja, svo að ekki má skýra þau með hentistefni einni saman. Olaussen var ritstjóri sósíalistablaðsins Klassekampen 1911–1921, og árið 1945 skrifaði hann í endurminningum sínum: „Það er mér ánægja að vita til þess, að margir minna bestu og tryggustu samstarfsmanna í Klassekampen hafa nú fundið hinn eina sanna sósíalisma og að við höfum á þjóðlegum, norskum grundvelli fengið að sjá hið besta í hugmyndum okkar framkvæmt, hreinsað af öllu gyðingagjalli úr marxismanum.“

Í bók sinni gerir Sørensen skilmerkilega grein fyrir því, hvað í fasismanum laðaði þessa gömlu sósíalista að. Þeir trúðu því allir, að borgaralegt frelsi væri týnt og tröllum gefið. Þeir höfnuðu því, sem þeir töldu tvær myndir kapítalismans, ríkiskapítalisma Stalíns og auðræði Vesturlanda. Verkamenn hverrar þjóðar ættu að sameinast, en ekki öreigar allra landa. Viðkvæði þeirra var hið sama og Hitlers: Almannahag ofar einkahag.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 10. júlí 2021.)

Flokkar: Óflokkað

Sunnudagur 4.7.2021 - 06:57 - Rita ummæli

Hvað er fasismi?

Mér varð hugsað til þess, þegar ég las nýlega óvandaða ritgerð þeirra Ragnheiðar Kristjánsdóttur og Pontusar Järvstads um andfasisma á Íslandi í enskri bók, að brýnt var fyrir mér í heimspekinámi endur fyrir löngu að nota orð nákvæmlega. Fasismi er eitt þeirra orða, sem nú er aðallega merkingarsnautt skammaryrði, en ætti að hafa um sögulegt fyrirbæri (sem kann auðvitað að eiga sér einhverjar nútíma hliðstæður).

Sjálfum finnst mér skilgreining bandaríska sagnfræðingsins Stanleys Paynes á fasisma skýrust. Hann einkennist af þrennu, segir Payne: andstöðu við frjálslyndisstefnu, íhaldsstefnu og kommúnisma; tilraun til að taka stjórn á öllum sviðum þjóðlífsins og beina kröftum að ágengri utanríkisstefnu; rómantískri dýrkun á ofbeldi, karlmennsku, æskufjöri og umfram allt öflugum leiðtogum, sem virkjað gætu fjöldann til samvirkrar framningar. Samkvæmt því voru Mússólíni og Hitler fasistar, þótt nasismi Hitlers hefði að auki ýmis þýsk sérkenni (svo sem stækt gyðingahatur). En langsóttara er að kalla Salazar í Portúgal, Franco á Spáni og Horthy í Ungverjalandi fasista, þótt vissulega styddust þeir allir við fasískar hreyfingar. Þeir voru frekar afturhalds- eða kyrrstöðumenn, en fasismi er í eðli sínu umrótsstefna.

Payne bendir á, að fasismi á ýmislegt sameiginlegt með kommúnisma, þótt hann sé myndaður í andstöðu við hann. Það er greinilegt ættarmót með þessum tveimur alræðisstefnum, enda hafði Mússólíni verið hefðbundinn sósíalisti, áður en hann hafnaði alþjóðahyggju og varð þjóðernissinni. Hið sama er að segja um fasistaleiðtogana Mosley í Bretlandi, Doriot í Frakklandi og Flyg í Svíþjóð. Hitler kallaði sig beinlínis sósíalista, þjóðernissósíalista.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 3. júlí 2021.)

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 28.6.2021 - 08:37 - Rita ummæli

Hreyfing og flokkur þjóðernissinna

Sagnfræðingarnir Ragnheiður Kristjánsdóttir og Pontus Järvstad draga upp ranga mynd af fasisma á Íslandi í framlagi til bókarinnar Anti-Fascism in the Nordic Countries, sem kom út hjá Routledge árið 2019. Þau tala í fyrsta lagi um nasisma, ekki fasisma, en í þágu efnislegrar umræðu er eðlilegast að hafa orðið „nasisma“ aðeins um hið þýska afbrigði fasismans.

Í öðru lagi segja þau Ragnheiður og Pontus, að Þjóðernishreyfing Íslendinga, sem stofnuð var vorið 1933, hafi verið fasistaflokkur. En Ásgeir Guðmundsson sagnfræðingur, sem rannsakað hefur þessa sögu manna mest, segir réttilega í Sögu 1976, að Þjóðernishreyfingin hafi ekki verið hreinræktaður fasistaflokkur, heldur sambland íhalds- og fasistaflokks.

Í þriðja lagi klofnaði einmitt Þjóðernishreyfingin fyrir bæjarstjórnarkosningar í Reykjavík í janúar 1934. Margir félagar hennar töldu Sjálfstæðisflokkinn skárri kost en vinstri flokkana, og tóku tveir þeirra sæti á lista flokksins. Við það vildu hinir eiginlegu fasistar í Þjóðernishreyfingunni ekki sætta sig og stofnuðu Flokk þjóðernissinna, sem bauð fram í bæjarstjórnarkosningum 1934 og 1938 og í alþingiskosningum 1934 og 1937, en hlaut sáralítið fylgi.

Þjóðernishreyfingin var leyst upp vorið 1934, enda hafði hún frekar verið málfundafélag en stjórnmálaflokkur. Hins vegar má vissulega telja Flokk þjóðernissinna fasistaflokk, þótt stækur andkommúnismi sameinaði aðallega félagana. En þau Ragnheiður og Pontus horfa fram hjá því aðalatriði, að Flokkur þjóðernissinna var stofnaður í andstöðu við Sjálfstæðisflokkinn. Spaugilegt dæmi um viðleitni þeirra til að spyrða Sjálfstæðisflokkinn saman við þennan fylgislitla fasistaflokk er, þegar þau nefna, að fyrsti formaður verkamannafélags sjálfstæðismanna, Óðins, hafi áður verið í Flokki þjóðernissinna. Þau vita líklega ekki, að þessi maður, Sigurður Halldórsson, hafði enn áður verið í kommúnistaflokknum!

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 26. júní 2021.)

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 28.6.2021 - 08:36 - Rita ummæli

Í Escorial-höll

Iðulega skilja fallnir óvinir frelsisins eftir sig stórhýsi, sem sjálfsagt er að nýta. Eftir fall kommúnismans í Póllandi var kauphöll hýst í fyrrverandi bækistöðvum kommúnistaflokksins. Ég býð stundum til útgáfuhófa í Rúblunni að Laugavegi 18. Og nú á dögunum kenndi ég á sumarskóla tveggja evrópskra frjálshyggjustofnana, sem haldinn var í Escorial-höll nálægt Madrid. Filippus II. lauk við smíði hallarinnar 1584, sama ár og Guðbrandur biskup gaf út biblíu sína. Hún er ekki aðeins konungshöll og raunar stærsta hús heims á sinni tíð, heldur líka klaustur, bókasafn, kirkja og grafhýsi.

Segja má, að ein rótin að þjóðlegri, borgaralegri frjálshyggju í Evrópu liggi í uppreisninni, sem íbúar Niðurlanda hófu 1566 gegn ofríki Filippusar hallarsmiðs, en norðurhluti Niðurlanda (sem við nefnum oftast eftir einu héraðinu, Hollandi) öðlaðist loks viðurkenningu sem sjálfstætt ríki 1648. Spánn hélt um skeið eftir suðurhlutanum, þar sem nú eru Belgía og Lúxemborg.

Í erindi mínu 14. júní kvað ég frjálshyggjumenn og íhaldsmenn eiga margt sameiginlegt, en tvennt skildi: Frjálshyggjumenn tryðu því, að framfarir væru mögulegar (til dæmis bætt lífskjör, hreinna umhverfi, greiðari samgöngur, minni barnadauði, fátíðari sjúkdómar, auknar lífslíkur). Enn fremur tryðu þeir því, að frelsið gæti að lokum orðið sameign allra jarðarbúa, þótt vissulega yrði hin nauðsynlega gagnkvæma aðlögun borgaranna til í langri sögulegri þróun. Hreinir íhaldsmenn væru hins vegar iðulega hræddir við breytingar og vildu reisa múra milli þjóða.

Í erindi mínu 18. júní sagði ég stuttlega frá nýútkominni bók minni um tuttugu og fjóra stjórnmálahugsuði, allt frá Snorra Sturlusyni og heilögum Tómasi af Akvínas til Miltons Friedmans og Roberts Nozicks. Ég tók boðskap frjálslyndra íhaldsmanna eins og mín saman í þremur orðum: viðskiptafrelsi, einkaeignarrétti og valddreifingu. Skemmtilegt var að heyra þessi orð hljóma um salarkynnin í Escorial.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 19. júní 2021.)

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 28.6.2021 - 08:32 - Rita ummæli

Styrkjasósíalisminn

Á árum áður mátti gera greinarmun á tveimur tilraunum til að endurskapa skipulagið, rússneskum vinnubúðasósíalisma og sænskum vöggustofusósíalisma. Rússnesku sósíalistarnir vildu breyta þjóðskipulaginu í risastórar vinnubúðir, þar sem þeir segðu sjálfir fyrir verkum. Þeir, sem óhlýðnuðust, voru skotnir eða sveltir til bana. Sænskir sósíalistar sáu hins vegar þjóðskipulagið fyrir sér eins og vöggustofu, þar sem þeir væru hinar umhyggjusömu fóstrur, en borgararnir væru börnin. Þeir beittu ólíkt mannúðlegri ráðum en Rússar, aðallega fortölum, en gerðu líka hiklaust þær konur ófrjóar, sem taldar myndu ala af sér vanhæf afkvæmi. Alls voru framkvæmdar 62.888 ófrjósemisaðgerðir í Svíþjóð árin 1935–1975.

Undirstadan_cover_LQ_1024x1024Báðar tilraunirnar mistókust hrapallega, enda ræður engin ríkisstjórn yfir sömu þekkingu og dreifist á borgarana og nýtist best í frjálsum viðskiptum þeirra. Ráðstjórnarríkin leystust upp í árslok 1991, og um svipað leyti hurfu Svíar þegjandi og hljóðalaust frá vöggustofusósíalisma. En innan kapítalismans hefur orðið til ný tegund sósíalisma, styrkjasósíalisminn. Þeir, sem hann stunda, ætla sér ekki að velta kapítalismanum um koll, heldur reyna að sjúga út úr honum alla þá fæðu, sem þeir geta. Þeir vilja taka án þess að láta. Rússnesk-bandaríska skáldkonan Ayn Rand greindi best styrkjasósíalisminn í skáldsögunni Undirstöðunni, en hún skipti fólki í framleiðendur og þiggjendur og spurði, hvað myndi gerast, ef afburðamennirnir þreyttust á að skapa það, sem afæturnar hirtu jafnóðum.

Á Íslandi lifir styrkjasósíalisminn góðu lífi, sérstaklega í Reykjavík 101. Þar safnast það fólk, sem gerir góðverk sín á kostnað annarra, iðulega saman á kaffihúsum og krám og skálar fyrir því, hversu langt því hefur tekist að seilast í vasa skattgreiðenda. Sérstaklega nýtur þetta fólk sín vel í kosningum, sem eru stundum lítið annað en uppboð á fyrirframstolnum munum.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 12. júní 2021.)

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 28.6.2021 - 08:30 - Rita ummæli

Dr. Valtýr og Kristján konungur

Það vakti athygli mína, þegar ég las Íslandsdagbækur Kristjáns X., konungs Íslands 1918–1944, var, að hann hitti stundum til skrafs og ráðagerða dr. Valtý Guðmundsson, sem kenndi sögu og bókmenntir Íslands í Kaupmannahafnarháskóla. Kann það að vera ein skýringin á andúð konungs á Hannesi Hafstein, sem skín af dagbókunum, en um skeið öttu þeir Valtýr og Hannes kappi um völd á Íslandi.

Þó voru þeir Valtýr og Hannes í meginatriðum sammála. Þeir vildu eitthvert samband við Dani, á meðan Íslendingar ættu erfitt með að standa á eigin fótum sakir fámennis og fátæktar. Skoðun Valtýs kemur skýrt fram í bréfi til stjúpa hans í Kanada 6. apríl 1916: „Ísland getur ekki staðið eitt sér, og besta sambandið er einmitt við Dani. Það er ekki Dana vegna, að ég er á móti skilnaði, heldur Íslands vegna. Hugsaðu þér. að við lentum í klónum á Þjóðverjum eftir skilnaðinn. Hvílík ævi mundi það vera. Og litlu betra yrði samband við Noreg, því Norðmenn eru voða-ágengir og hafa betri skilyrði til að nota atvinnuvegi okkar og þannig verða hættulegri keppinautar en nokkur önnur þjóð. Skást yrði samband við England, en þó sá hængur á, að íslenskt þjóðerni væri þá útdautt eftir svo sem hálfa til heila öld. Landið yrði enskt.“ (Dr. Valtýr segir frá, bls. 226.)

Áhyggjur Valtýs voru eðlilegar, og í dagbókum sínum lét konungur iðulega í ljós svipaða skoðun. En með hinum öru efnalegu framförum á Íslandi fyrstu áratugi tuttugustu aldar varð hugmyndin um fullvalda ríki raunhæf. Og Danir megnuðu ekki að verja Ísland, þegar í harðbakka sló, eins og sást í báðum heimsstyrjöldum. Örlögin urðu okkur þó hliðholl. Við tókum upp varnarsamstarf við Bandaríkin, sem voru nógu fjarlæg til að skipta sér ekki af innanríkismálum og nógu öflug til að afstýra yfirgangi annarra ríkja.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 5. júní 2021.)

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 29.5.2021 - 10:04 - Rita ummæli

Afhrópun Kristjáns X.

Þegar ég las nýlega Íslandsdagbækur Kristjáns X., velti ég enn fyrir mér, hvers vegna Íslendingar afhrópuðu kónginn. Það var hvergi gert ráð fyrir því í sambandslagasáttmálanum frá 1918, að konungssambandið væri uppsegjanlegt.

Ég hef rakið ýmsar sögur um hranalega framkomu Kristjáns X. við Íslendinga. En setjum svo, að konungur hefði verið sami Íslandsvinurinn og faðir hans Friðrik VIII., heimsótt landið reglulega og orðið hvers manns hugljúfi. Ríkið hefði keypt Bessastaði fyrir konungssetur og dönsku konungshjónin unað sér þar vel. Hefði konungur þá verið afhrópaður? Nýja Sjáland er enn í konungssambandi við Stóra Bretland, þótt það sé hinum megin á hnettinum, og Elísabet II. er þjóðhöfðingi margra annarra samveldisríkja.

Þetta dæmi geymir eitt svar. Þótt Nýja Sjáland sé langt frá Bretlandseyjum, byggðist það þaðan. Nýsjálendingar og Bretar tala sama tungu og deila sömu menningu. Ísland byggðist ekki frá Danmörku. Við tölum ekki dönsku, og menning okkar er ekki dönsk, þótt vissulega megi greina hér margvísleg menningaráhrif frá Danmörku, flest heldur til bóta.

Annað ræður þó líklega úrslitum. Nýja Sjáland, Ástralía og Kanada hafa jafnan fylgt Stóra Bretlandi í stríði og friði, þótt sjálfstæð séu. Í fyrri heimsstyrjöld kom hins vegar áþreifanlega í ljós, að Ísland var á valdsvæði Breta, þótt það teldist dönsk hjálenda. Bretar sendu hingað ræðismann, sem tók utanríkisviðskiptin í sínar hendur og ritskoðaði fréttir þrátt fyrir yfirlýst hlutleysi Danmerkur. Þetta varð enn skýrara í seinni heimsstyrjöld, þegar Danmörk var hernumin af Þjóðverjum og Ísland af Bretum. Danmörk gerðist jafnvel 1941 aðili að sáttmála Þýskalands, Japans, Ítalíu og Spánar gegn Alþjóðasambandi kommúnista, Komintern.

Þegar dró að lokum stríðsins, vildu Íslendingar skiljanlega vera óbundnir af því, sem kynni að verða í Danmörku. Öðru máli hefði gegnt, hefði ákvörðun um konungssambandið verið tekin, eftir að Danmörk og Ísland voru bæði orðin aðilar að Atlantshafsbandalaginu og undir vernd Bandaríkjanna. Þá hefði það hugsanlega getað gengið upp.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 29. maí 2021.)

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 22.5.2021 - 07:00 - Rita ummæli

Kristján X. og Íslendingar

Í árslok 2018 kom út bók í Danmörku, Christian X og Island, en hún hefur að geyma dagbókarfærslur og athugasemdir Kristjáns X. um Ísland, en þær færði konungur til sérstakrar bókar, og sá prófessor Knud V. J. Jespersen um útgáfuna. Kristján var konungur Íslands frá 1918 fram að lýðveldisstofnun, því að með sambandslagasáttmálanum við Dani varð Ísland sjálfstætt og fullvalda konungsríki, þótt Danir færu til bráðabirgða eftir það með utanríkismál og landhelgisgæslu.

Mér þykir bókin öll hin merkilegasta. Konungur virðist hafa verið miklu samviskusamari og góðviljaðri maður en ég hafði talið, en hér uppi á Íslandi naut hann takmarkaðra vinsælda fyrir hranalega framkomu, og eru til af henni frægar sögur. En um leið skil ég betur, hvers vegna konungssambandið hlaut að slitna, þótt hvergi væri raunar gert ráð fyrir því í sambandslagasáttmálanum 1918, að það væri uppsegjanlegt. Konungur var Stórdani eins og það var iðulega kallað. Hann hafði takmarkaðan áhuga á hinum böldnu þegnum sínum í norðri og skildi illa viðleitni þeirra til sjálfstæðis. Hann var umfram allt konungur Danmerkur, ekki Íslands.

Þetta kemur meðal annars fram í tveimur samtölum, sem Kristján færir til bókar. Hið fyrra átti hann við Carl Theodor Zahle, forsætisráðherra Dana, 3. desember 1913. Þeir andvörpuðu báðir yfir kröfuhörku Íslendinga, en Zahle sagði, að hófsamir menn þar nyrðra hlytu að virða samstarfsvilja Dana. Án Danmerkur ætti Ísland sér engan bakhjarl. Norðmenn væru ágengir, en Bretar áhugalausir. Zahle taldi það kaldhæðni örlaganna, að háværustu Danahatararnir kæmu úr röðum íslensku stúdentanna í Kaupmannahöfn, sem notið hefðu rausnarlegra Garðstyrkja. Konungur var sammála forsætisráðherra sínum og varaði hann við að láta um of undan Íslendingum.

Seinna samtalið átti konungur 14. desember 1914 við danskan sjóliðsforingja, Paul Erhardt Saabye, sem gegnt hafði herþjónustu við strendur Íslands. Kvartaði sjóliðsforinginn undan Danahatri á Íslandi. Landsmenn væru almennt fáfróðir. Allir læsu þeir þó og kynnu Íslendingasögur, og það virtist ala á þvermóðsku þeirra.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 22. maí 2021.)

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 15.5.2021 - 09:11 - Rita ummæli

Þrælar í íslenskri sagnritun

Einn helsti sérfræðingur Bandaríkjanna um þrælahald er hagfræðingurinn Thomas Sowell, sem hefur ef til vill frjálsari hendur en flestir aðrir um djarflegar kenningar, af því að hann er dökkur á hörund. En þrennt í bókmenntum og sögu Íslands styrkir kenningar hans.

Ein kenningin er, að þrælahald sé líklegt til að deyja út við venjulegar aðstæður, enda sé þræll meira virði frjáls en í ánauð. Hann sé þá líklegri til að láta uppskátt um hæfileika sína og njóta þeirra. Eins og Anna Agnarsdóttir sagnfræðingur og Ragnar Árnason hagfræðingur hafa bent á, lagðist þrælahald á Íslandi fljótlega niður, og nærtækt er að álykta, að það sé, af því að það borgaði sig ekki. Í upphafi var skortur á fólki, en ekki landi, en þetta snerist við, þegar landið var fullbyggt og allar jarðir numdar. Þá lækkuðu laun frjálsra verkamanna í hlutfalli við afrakstur af landi, og ekki borgaði sig lengur að halda þræla.

Önnur kenningin er, að varða þurfi færan veg úr þrælahaldi í frelsi. Þessu lýsir sagnritarinn Snorri Sturluson vel í Heimskringlu, þegar hann segir frá Erlingi Skjálgssyni, sem leyfði þrælum sínum að hirða afrakstur af aukavinnu sinni og kaupa sig frjálsa, en með því fé keypti hann aðra þræla, sem unnu síðan til frelsis. Vísaði hann leysingjum sínum til fiskveiða eða í búskap. „Öllum kom hann til nokkurs þroska.“

Þriðja kenningin er, að þrælahald sé ekki í eðli sínu kúgun hvítra manna á svörtum, heldur hafi það tíðkast að fornu og á öðrum menningarsvæðum. Til dæmis voru líklega fleiri hvítir þrælar í Tyrkjaveldi soldánsins en svartir þrælar á ekrum Suðurríkjanna. Þetta ættu Íslendingar að vita öðrum fremur, því að hingað komu sjóræningjar frá Salé og Algeirsborg árið 1627, rændu um 400 Íslendingum og seldu í þrældóm. Varð aðeins um fimmtíu þeirra endurkomu auðið. Séra Ólafur Egilsson skrifaði merka bók um Tyrkjaránið, en hann var sendur frá Algeirsborg til Danmerkur að útvega lausnargjöld. Í bók hans kemur raunar fram, að Íslendingur hafi verið á einu skipinu og aðstoðað sjóræningjana.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 15. maí 2021.)

Flokkar: Óflokkað

Höfundur

Hannes Hólmsteinn Gissurarson er prófessor emeritus í stjórnmálafræði í Háskóla Íslands og hefur verið gistifræðimaður við fjölmarga erlenda háskóla, þar á meðal Stanford-háskóla og UCLA. Hann fæddist 1953, lauk doktorsprófi í stjórnmálafræði frá Oxford-háskóla 1985 og er höfundur fjölmargra bóka um stjórnmál, sögu og heimspeki á íslensku, ensku og sænsku.


Nýjustu bækur hans eru Twenty Four Conservative-Liberal Thinkers, sem hugveitan New Direction í Brüssel gaf út í tveimur bindum í árslok 2020, Bankahrunið 2008 og Communism in Iceland, sem Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands gaf út árið 2021, og Landsdómsmálið, sem Almenna bókafélagið gaf út í desember 2022. Hann hefur gefið út átta bókarlangar skýrslur á ensku. Sjö eru fyrir hugveituna New Direction í Brüssel: The Nordic Models og In Defence of Small States (2016); Lessons for Europe from the 2008 Icelandic Bank Collapse, Green Capitalism: How to Protect the Environment by Defining Property Rights og Voices of the Victims: Towards a Historiography of Anti-Communist Literature (2017); Why Conservatives Should Support the Free Market og Spending Other People’s Money: A Critique of Rawls, Piketty and Other Redistributionists (2018). Ein skýrslan er fyrir fjármálaráðuneytið, Foreign Factors in the 2008 Bank Collapse (2018). Hann er ritstjóri Safns til sögu kommúnismans, ritraðar Almenna bókafélagsins um alræðisstefnu, en nýjasta bókin í þeirri ritröð er Til varnar vestrænni menningu: Ræður sex rithöfunda 1950–1958. Árin 2017 og 2018 birtust eftir hann þrjár ritgerðir á ensku um frjálshyggju á Íslandi, Liberalism in Iceland in the Nineteenth and Twentieth Centuries, Anti-Liberal Narratives about Iceland 1991–2017 og Icelandic Liberalism and Its Critics: A Rejoinder to Stefan Olafsson.  

RSS straumur: RSS straumur

Nýlegar athugasemdir