Laugardagur 30.11.2019 - 10:50 - Rita ummæli

Frá Poitiers

Dagana 14.–15. nóvember 2019 sat ég ráðstefnu í Poitiers í Frakklandi um Jan Valtin, öðru nafni Richard Krebs. Fáir kannast nú eflaust við þessi nöfn, en sjálfsævisaga Valtins, Úr álögum (Out of the Night), var metsölubók í Bandaríkjunum árið 1941 og olli áköfum deilum, því að þar sagði höfundur frá erindrekstri sínum fyrir alþjóðahreyfingu kommúnista. Fyrri hluti bókar hans kom út á íslensku sama ár. Ég ritstýrði endurprentun bókarinnar árið 2015 og samdi formála og skýringar, og var mér þess vegna boðið að halda erindi á ráðstefnunni.

Krebs fæddist árið 1905, gerðist sjómaður og kommúnisti kornungur og tók þátt í byltingartilraun í Þýskalandi árið 1923. Hann varð síðan flugumaður kommúnista á meðal sjómanna, fór víða og rataði í ýmis ævintýri, en lenti í fangelsi í Bandaríkjunum 1926 fyrir tilraun til manndráps og sat þar í þrjú ár. Síðan tók hann upp þráðinn í sjómannahreyfingu Evrópu, en eftir valdatöku Hitlers 1933 handtóku nasistar hann og pynduðu. Kommúnistar skipuðu honum að gerast gagnnjósnari innan Gestapo, og létu nasistar hann lausan árið 1937. Hélt hann til Danmerkur, en þangað hafði njósna- og undirróðursnet kommúnistahreyfingarinnar í Vestur-Evrópu verið flutt. En þegar honum var skipað að fara til Moskvu í miðjum hreinsunum Stalíns, ákvað hann að forða sér vestur um haf. Þar kynntist hann blaðamanninum Isaac Don Levine, sem sá strax efnivið í góða sögu og aðstoðaði hann við að koma út sjálfsævisögunni. Krebs lést árið 1950, aðeins hálffimmtugur að aldri.

Í erindi mínu sagði ég frá viðtökum bókar Valtins á Íslandi, en íslenskir kommúnistar deildu mjög á höfundinn, og háðu þeir Halldór Kiljan Laxness og Benjamín Eiríksson harða ritdeilu um hann og verk hans (þótt Laxness virtist ekki hafa lesið bókina). Sérstaka athygli vakti sú uppljóstrun Valtins, að skipverjar á skipum Eimskipafélagsins hefðu flutt leyniskjöl milli landa fyrir kommúnistahreyfinguna. Treysti útgefandinn, Menningar- og fræðslusamband alþýðu, sér ekki til að gefa út seinni hlutann, þótt fyrri hlutinn hefði selst í röskum fjögur þúsund eintökum, og kom hann loks út á vegum „Nokkurra félaga“ árið 1944. Þótt eitthvað sé um ýkjur og ónákvæmni í bókinni, er hún sannkallaður aldarspegill og afar fjörlega skrifuð. Benti ég á, að Þór Whitehead prófessor hefði staðfest ýmsar fullyrðingar Valtins í ritum sínum um kommúnistahreyfinguna, þar á meðal um íslensku sjómennina.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 30. nóvember 2019.)

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 23.11.2019 - 07:05 - Rita ummæli

Frá Vínarborg

Dagana 13.–14. nóvember 2019 sat ég ráðstefnu í Vínarborg um austurrísku hagfræðihefðina, sem Carl Menger var upphafsmaður að, en innan hennar störfuðu einnig Eugen von Böhm-Bawerk, einn skarpskyggnasti gagnrýnandi marxismans, Ludwig von Mises og Friedrich A. Hayek. Ég var beðinn um að flytja erindi á ráðstefnunni, og skoðaði ég hugmyndatengsl Mengers og Hayeks. Menger velti því fyrir sér, hvernig ýmsar hagkvæmar og heilladrjúgar venjur og stofnanir hefðu getað orðið til án þess að vera ætlunarverk eins né neins. Nefndi hann í því sambandi peninga, venjurétt, markaði og ríkið. Hayek gerði síðan hugtakið sjálfsprottið skipulag að þungamiðju í kenningu sinni: Margt getur skapast án þess að vera skapað; regla getur komist á, án þess að nokkur hafi komið henni á; skipulag krefst ekki alltaf skipuleggjanda.

Þeir Menger og Hayek drógu báðir þá ályktun, að sósíalismi hvíldi á hugsunarvillu. Sósíalistar skildu ekki hugtakið sjálfsprottið skipulag. Þeir teldu, að allt hlyti að vera ætlunarverk einhvers, ekki afleiðing flókinnar þróunar, víxlverkunar vitunda. Þess vegna vildu sósíalistar endurskapa skipulagið, þótt það hefði að vísu endað með ósköpum í Þýskalandi Hitlers, Rússlandi Stalíns og Kína Maós. Þjóðernissósíalistar kenndu gyðingum um böl heimsins, en aðrir sósíalistar auðvaldinu. Angi af þessari hugsun er að líta á tekjudreifingu í frjálsu hagkerfi sem ætlunarverk í stað þess að átta sig á því, að hún er niðurstaða úr óteljandi ákvörðunum einstaklinga.

Þeir Menger og Hayek voru líka sammála um, að einstaklingsbundinni skynsemi væru takmörk sett. Aðalatriðið væri ekki að reyna að stýra þróuninni, heldur að ryðja úr vegi hindrunum fyrir henni, svo að hún gæti orðið frjáls. Þeir voru þess vegna í senn íhaldssamir og frjálslyndir. Íhaldssemi þeirra birtist í virðingu fyrir arfhelgum siðum og venjum, sem auðvelduðu gagnkvæma aðlögun einstaklinga. Frjálslyndi þeirra kom hins vegar fram í stuðningi þeirra við virka samkeppni á markaði, sem miðlaði þekkingu og aflaði nýrrar.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 23. nóvember 2019.)

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 20.11.2019 - 14:26 - Rita ummæli

Svör mín við þvargi Viktors Orra Valgarðssonar

Viktor Orri Valgarðsson stjórnmálafræðingur skrifaði á Facebook frá Bretlandi:

Today in Iceland, several conservative commentators are making the case that bribery and tax evasion is not too serious, just a natural consequence of government being corrupt and hard-working rich people wanting to increase their profits, and that government ministers being in close relationships with those people is not problematic.

Ég svaraði:

This is an extraordinary distortion of what I have said. I have never said that bribery and tax evasion are not serious. But bribery is basically and chiefly a problem of the country whose officials demand bribery; and it could be greatly reduced by removing the incentive for bribing which is the power to determine who is to receive from government hands valuable goods. (If Namibia had had the Icelandic quota system where the quotas are held by fishing firms and freely transferred between them, then there would have been no bribery possible.) Tax evasion can also be reduced by tax cuts and greater transparency. In fact, Iceland is a country remarkably free of corruption, not least thanks to the liberalisation of the economy which took place in 1991–2004 when the opportunities for political favouritism were greatly reduced, as a result of the transfer of power and resources from government to individuals.

Viktor Orri svaraði:

You said that the critique of those who paid the bribes were „disgusting“, that the CEO responsible was a great guy and that the problem was government corruption abroad; not him abusing that corruption. Thereby, you were making the case that paying the bribes was not serious; only the fact that it was possible. Unfortunately, you are not the only one making this case; two conservative MPs, including our finance minister, have presented the matter as a problem of government corruption in Namibia, without mentioning the powerful Icelandic businessmen who actually paid those bribes. And some of your right-wing cheerleaders have made the same case online.
Ég svaraði:
I said that the campaign of hatred and abuse against Thorsteinn Mar Baldvinsson was disgusting; that is not the same as a ‘critique’. I also said that it was non-controversial in Iceland that Thorsteinn Mar (who may or may not be responsible for whatever will be found) was a hard-working and creative person. You continue distorting my words. This is totally unacceptible. If you want to improve the world, you should get busy in your own little corner of it.

Viktor Orri svaraði:

„In fact, Iceland is a country remarkably free of corruption“ Lol. Ever heard of the financial crash, the Panama Papers, the leak of sensitive personal information from a minister’s department to damage an asylum seeker and the minister’s attempt to obstruct investigation into that, yourself getting paid a lot of money by your friends in the government to try to whitewash their responsibility for the crash…? Of course, if the government just gives monopolies of the fishing resources to their friends at the outset, the latter don’t actually have to bribe them for that access while they keep that monopoly. They just have to keep paying conservative politicians and media to protect that monopoly. — You came to his defence and said it was uncontroversial that he had run his company well, and when pressed on your defending bribery you asked if Icelanders bribing foreign officials in the past had been wrong? Saying that you are thereby making the case that bribery is not too serious is no distortion at all, and you had every opportunity to correct that implication. Sadly, though, I was only partly referring to your comments in the original post here.
Ég svaraði:
This description of the system in the fisheries is totally wrong, as you well know. The quotas were initially allocated on the basis of catch history (called grandfathering), and this was of course the only way to allocate them without disrupting the industry greatly. This was done in the pelagic fisheries in 1975–9, and in the demersal fisheries in 1983–4, with the system made comprehensive in 1990–1. In other words, the quotas were initially allocated more than thirty years ago. Since then they have been transferred freely, just like other scarce goods, and the system has turned out to be sustainable and profitable. So what is the problem?
Enn svaraði ég:
About the Panama Papers: I could not see anything morally wrong or illegal in what the then-Prime Minister did, as I argue here: https://rafhladan.is/…/caymanianfinancialreview…
Enn svaraði ég:
And the financial crisis? The Special Investigation Commission, after extensive investigation and unhindered access to all the relevant documents, did only find two things wrong with the Central Bank: that when it decided to refuse liquidity facilitation to Landsbanki in August 2008, it should have demanded more paperwork (which legally it could not, actually); and that when it decided to refuse an emergency loan to Glitnir in September 2008, offering instead to buy 75% of the bank, it should also have made a thorough investigation of the value of the assets (it had 24 hours to do this!). This was like mountains in labour with a ridiculous little mouse being born. This was all. — Basically in the financial crisis the authorities were in a Catch-22 situation. You are damned if you do, you are damned if you don’t, as I explain in my report to the Ministry of Finance: https://www.stjornarradid.is/lisalib/getfile.aspx… — And about this last episode, I say with Lord Macaulay: We know no spectacle so ridiculous as the British public in one of its periodical fits of morality.
Viktor Orri svaraði:
The essence of having a fishing quota system with some transferable quotas is fine, giving those away to the government’s friends (who were the biggest catchers of the time) on a silver platter is the issue. They could have been auctioned, meaning that the most efficient users would have paid a market-determined price; no more than what they believed would ensure them normal investment from that access. We’ve been over your narrow mischaracterisations of the SIR’s coverage of your friend’s responsibility many times before, the extent of corruption revealed there (and with the crash itself) across Icelandic business and politics was nauseating. Of course you don’t see anything wrong with the prime minister of the country keeping his wealth in a tax haven abroad, lying about it to the public and not reporting it to parliament. And of course you think all of this is just a „periodical fit of morality“. And of course you avoid talking about the bribes of the person you stepped forward to defend. All of this is endemic of the effort of yourself and many others to gradually shift political norms towards allowing you and your elite circle to manipulate the political and economic system as you see fit.
Enn svaraði ég:
You continue with your amazing (and some would say immoral) mischaracterisations of my case for grandfathering in the fisheries and my interpretation of the banking crisis. When the fishing grounds were closed off, there was a choice between giving quotas to fishing firms on the basis of catch history (and then to allow free transfers) or auctioning the quotas. My point was, and is, that only the former method of closing off the fishing grounds was Pareto-optimal, i.e. leaving nobody worse off. In this way those who eventually sold their quotas and left the fishery were better off; those who retained their quotas and perhaps bought additional ones were also better off; the government was better off with a more profitable fishing sector; and the public was better off with more available money for either consumption or investment. But if we had auctioned off the quotas, those who were able to buy them would have been neither worse nor better off: they would have paid to government what they previously were wasting in excessive harvesting costs. Those who were not able to buy quotas would however have been vastly worse off, seeing their life’s work destroyed, seeing their fishing capital and human capital becoming worthless in one day. Government would have been better off in the short term, with the proceeds from the auction. The public in my opinion would have become worse off in the long term by the elimination of a class of independent owners in the fisheries and by the increased power of government, but I admit this is a value judgement. I try to explain all of this as clearly as possible here: https://books.google.is/books?id=j-p8CwAAQBAJ
Ég bætti við:
And as to the financial crisis, basically the Icelandic banks were no worse or no better than banks elsewhere in terms of their assets (which is a conclusion in a book by Asgeir Jonsson and Hersir Sigurgeirsson as well). They were certainly not guilty of money laundering or LIBOR manipulation as many other banks in Europe. Indeed, those two which received orderly resolution turned out to be solvent, namely Heritable Bank and KSF in England. Why did the Icelandic banks then fall? The main reason is that they did not receive any liquidity support. The Icelandic central bank and government were not able to provide it, and others were unwilling to provide it. The US Fed gave liquidity support in the form of dollar swap deals to many central banks, including all three Scandinavian banks. Why did they need such dollar swap deals if they were in much better shape than the Icelandic central bank? It has come out that RBS in Scotland, UBS in Switzerland and Danske Bank in Denmark would all have fallen if they had not received liquidity support through the Fed system. Thus, the most imporant difference between the Icelandic banks and other European banks was simply that the Icelandic banks were not rescued like the others. Not only was that the case, but also the British government closed the subsidiary KSF of Kaupthing, thus felling Kaupthing. And more than that: the British government invoked an Anti-Terrorist Act against Iceland! In my report for the government of Iceland I show that this was totally unnecessary on the government’s own premises which was to avert any illegal transfers, because already some days before the Financial Services Authority had issued an Order to Landsbanki stopping the possibility of any such transfers.
Ég bætti enn við:
You also ignore the explanation I offered in my report for the surprising behaviour of the British Labour government which invoked the Anti-Terrorist Act against Iceland, a country which does not even have an army. There was the same situation in Germany and Sweden, deposit collection through branches, not subsidiaries. Why did the German and Swedish governments not behave as brutally as the British government? The answer is that Labour wanted to knock down the argument by its chief rival in Scotland, that there was an Arch of Prosperity extending from Ireland through Iceland to Norway. Indeed, with great satisfaction the two Scottish Labour politicians Alistair Darling and Gordon Brown said that now this had become an Arch of Insolvency!You also ignore what is well documented in my report that the governors of the central bank (all three of them) repeatedly warned against the expansion of the banks. First, they did so in a meeting with Halldor Asgrimsson and Geir H. Haarde in late 2005, and then again in a meeting with Geir H. Haarde, Thorgerdur Katrin Gunnarsdottir and others in late 2007, and then repeatedly in 2008. But they were always met with the accounts of the banks audited by international accountant companies and by repeated assertions of the banks that everything was all right. Moreover, the social democrats were very close to the bankers (especially to Jon Asgeir Johannesson, the chief debtor of all three banks and the chief owner of one of them) and there was no political will to reduce the size of the banking sector. The governors of the central bank suggested that 1) Kaupthing would move its headquarters abroad, 2) Landsbanki would move Icesave accounts from a branch to a subsidiary, 3) Glitnir would sell its strong and robust Norwegian bank. Their ideas were not taken up and they did not have the authority, against audited accounts of the banks or agains the regulator, the Financial Supervisory Agency (headed by a social democrat and former minister), to bring about these changes. I am not sure it would have sufficed, anyway.
Ég sagði síðan:
You have no interest in understanding what happened, content with making cheap shots at people whom you regard as belonging to the elite. I am pretty sure that if you had been in charge during the bank crisis, you would have suffered a nervous breakdown. It takes experience and guts, and not the rarified and protected glasshouse existence of university students, to sail through rough waters.
Viktor Orri hélt auðvitað þvarginu áfram um stund, en ekkert nýtt kom fram í því. Og dæmi síðan hver fyrir sig.

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 16.11.2019 - 07:22 - Rita ummæli

Frá Kænugarði

Dagana 7.–10. nóvember 2019 sat ég ráðstefnu evrópskra íhaldsmanna og umbótasinna, sem haldin var í Kænugarði í Úkraínu og helguð sambandi Úkraínu við önnur Evrópulönd. Ég var beðinn um að segja nokkur orð á ráðstefnunni, og benti ég fyrst á, að Ísland og Úkraína væru mjög ólík lönd, en bæði þó á útjaðri Evrópu. Ég kvað eðlilegt, að Úkraínumenn hefðu viljað stofnað eigið ríki. Þeir væru sérstök þjóð, þótt þeim hefði löngum verið stjórnað frá Moskvu. Norðmenn hefðu skilið við Svía 1905 og Íslendingar við Dani 1918 af sömu ástæðu.

Í ræðu minni rakti ég, hvernig stækkun markaða með auknum alþjóðaviðskiptum auðveldaði smækkun ríkja: Litlar þjóðir með opin hagkerfi gætu notið góðs af hinni alþjóðlegu verkaskiptingu á heimsmarkaðnum. Því stærri sem markaðurinn væri, því minni gætu ríkin orðin, enda hefði ríkjum heims snarfjölgað á seinna helmingi tuttugustu aldar.

Nú er Úkraína auðvitað engin smásmíði. En landið er samt tiltölulega lítið í samanburði við Rússland, sem nýlega hefur lagt undir sig vænan hluta landsins með hervaldi. Vandi tiltölulega lítilla ríkja með stóra og ásælna granna væri takmarkaður hernaðarmáttur. Að sumu leyti mætti leysa slíkan vanda með bandalögum eins og gert hefði verið með Atlantshafsbandalaginu. En sú lausn væri ekki alltaf í boði, og til væri önnur: að reyna að breyta Rússlandi innan frá. Með því væri ekki átt við, að landinu væri brugguð einhver launráð, heldur að Úkraína veitti með öflugu atvinnulífi og örum framförum svo gott fordæmi, að Rússar tækju upp betri siði. Þjóðirnar eru náskyldar og ættu að vera vinir.

Það fór til dæmis ekki fram hjá kínverskum kommúnistum, hversu örar framfarir urðu eftir miðja tuttugustu öld í öðrum kínverskum hagkerfum, í Hong Kong og á Singapúr og Taívan. Danir og Svíar hefðu á liðnum öldum barist hvorir við aðra, en nú væri stríð milli þessara norræna þjóða allt að því óhugsandi. Vonandi rynni slíkur dagur upp í samskiptum Úkraínumanna og Rússa.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 16. nóvember 2019.)

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 9.11.2019 - 17:13 - Rita ummæli

Við múrinn

Berlínarmúrinn féll fyrir réttum þrjátíu árum, en sigur Vesturveldanna í Kalda stríðinu var ekki síst að þakka festu, framsýni og hyggindum þeirra Ronalds Reagans og Margrétar Thatchers. Þó var sagt fyrir um þessi endalok löngu áður í bók, sem kom út í Jena í Þýskalandi 1922, Die Gemeinwirtschaft eftir Ludwig von Mises, en þar rökstuddi hann, að kommúnismi gengi ekki upp. Þess vegna yrðu kommúnistar að grípa til kúgunar.

Kúgunin fór þó alveg fram hjá átta manna sendinefnd frá Íslandi á svokölluðu heimsmóti æskunnar í Austur-Berlín í júlílok 1973. Formaður nefndarinnar var Þorsteinn Vilhjálmsson eðlisfræðingur, og í skýrslu hennar var æskulýðssamtökum kommúnista þakkaðar „frábærar móttökur og vel skipulagt mót“. Enn sagði í skýrslu þeirra Þorsteins: „Þjóðverjarnir, sem við hittum, voru yfirleitt tiltakanlega opnir, óþvingaðir og hrokalausir.“

Auðvitað voru öll slík samtöl þaulskipulögð og undir ströngu eftirliti. En á sama tíma voru fimm ungir lýðræðissinnar staddir í Vestur-Berlín. Einn þeirra var Davíð Oddsson laganemi. Eftir að hann las skýrslu þeirra Þorsteins, skrifaði hann í Morgunblaðið, að hann hefði allt aðra sögu að segja úr stuttri heimsókn til Austur-Berlínar. Þetta væri lögregluríki, umkringt gaddavírsgirðingu og múr.

Tveir ungir Íslendingar við múrinn: annar klappaði svo kröftuglega uppi í salnum fyrir gestgjöfum sínum, að kvalastunurnar niðri í kjöllurum leynilögreglunnar drukknuðu í hávaða; hinn lagði við hlustir og heyrði hjartsláttinn í fangaklefunum.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 9. nóvember 2019.)

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 2.11.2019 - 14:33 - Rita ummæli

Missagnir um Snorra

Undanfarnar vikur hef ég sökkt mér niður í rit eftir og um Snorra Sturluson og þá rekist á tvær þrálátar missagnir. Önnur er, að hann hafi í utanför sinni til Noregs og Svíþjóðar 1218–1220 heitið þeim Hákoni Hákonarsyni konungi og Skúla Bárðarsyni jarli að koma Íslandi undir Noregskonung. Þetta er gefið í skyn í ritum Sturlu Þórðarsonar, en Sturla var mjög blendinn í afstöðu sinni til Snorra frænda síns og ekki traust heimild. Hann reyndi jafnan að gera hlut Hákonar konungs sem bestan, enda launaður sagnritari hans. Það, sem Snorri hefur heitið hinum norsku valdsmönnum og efnt, var að tryggja norskum kaupmönnum frið á Íslandi, en hann var lögsögumaður 1222–1231.

Afstaða Snorra í utanríkismálum blasir við af Heimskringlu, sem hann skrifaði eftir fyrri utanförina: Íslendingar skyldu vera vinir Noregskonungs, ekki þegnar. Bókin er samfelld áminning um, að konungar séu misjafnir, sumir góðir og aðrir vondir, og því sé Íslendingum best að hafa engan konung. Það villir sumum lesendum sýn, að Snorri lætur þessa skoðun ekki beint í ljós sjálfur, heldur leyfir staðreyndunum að tala. En þessi afstaða hans kostaði hann að lokum lífið, þótt Sturla sagnritari hafi reyni að koma ábyrgðinni á vígi hans á Gissur Þorvaldsson, ekki Hákon konung.

Hin missögnin er, að ósamræmi sé milli tveggja verka Snorra. Hann sé vinveittur konungum í Heimskringlu, en fjandsamlegur þeim í Eglu. Þetta er auðvitað ekki réttur úrlestur úr Heimskringlu, en vissulega hafði Snorri enn ríkari fyrirvara á konungum í Eglu, enda var hún bersýnilega skrifuð, eftir að slitnað hafði í sundur með honum og Hákoni konungi, þegar hann sneri í banni konungs heim til Íslands úr síðari utanför sinni 1237–1239.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 2. nóvember 2019.)

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 26.10.2019 - 17:51 - Rita ummæli

Sturla gegn Snorra

Snorri Sturluson hefur ekki notið sannmælis, því að andstæðingur hans (og náfrændi), Sturla Þórðarson, var oftast einn til frásagnar um ævi hans og störf. Sturla fylgdi Noregskonungi að málum og virðist hafa verið sannfærður um, að Íslendingum væri best borgið undir stjórn hans. Íslendinga saga hans var um land, sem vart fékk staðist sökum innanlandsófriðar, og í Hákonar sögu Hákonarsonar dró höfundur upp mynd af góðum konungi, sem ekkert gerði rangt.

Snorri hafði aðra afstöðu. Samúð hans var með friðsælum og hófsömum stjórnendum frekar en herskáum og fégjörnum, eins og sést til dæmis á samanburði Haraldar hárfagra og Hákonar Aðalsteinsfóstra og Orkneyjarjarlanna tveggja, Brúsa og Einars, í Heimskringlu. Snorri hagaði hins vegar jafnan orðum sínum hyggilega, svo að lesa þarf á milli lína í lýsingu hans á Ólöfunum tveimur, Tryggvasyni og Haraldssyni, sem boðuðu kristni og nutu þess vegna hylli kirkjunnar. Sagði hann undanbragðalaust frá ýmsum grimmdarverkum þeirra, svo að sú ályktun Einars Þveræings á Alþingi árið 1024 blasti við, að best væri að hafa engan konung.

Á þrettándu öld rákust jafnframt á tvær hugmyndir um lög, eins og Sigurður Líndal lagaprófessor hefur greint ágætlega. Hin forna, sem Snorri aðhylltist, var, að lög væru sammæli borgaranna um þær reglur, sem ýmist afstýrðu átökum milli þeirra eða jöfnuðu slík átök. Þetta voru hin „gömlu, góðu lög“, og þau voru umfram allt hemill valdbeitingar. Nýja hugmyndin var hins vegar, að lög væru fyrirmæli konungs, sem þegið hefði vald sitt frá Guði, en ekki mönnum, og beitt gæti valdi til að framfylgja þeim. Þegar sendimaður Noregskonungs, Loðinn Leppur, brást á Alþingi árið 1280 hinn reiðasti við, að „búkarlar“ gerðu sig digra og vildu ekki treysta á náð konungs, var hann að skírskota til hins nýja skilnings á lögum.

Og enn rekast hugmyndir Snorra og Sturlu á.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 26. október 2019. Myndin er af Sigurði Líndal.)

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 19.10.2019 - 12:24 - Rita ummæli

Hinn kosturinn 1262

Almennt er talið, að Íslendingar hafi ekki átt annars úrkosta árið 1262 en játast Noregskonungi og gjalda honum skatt gegn því, að hann friðaði landið, tryggði aðflutninga og virti lög og landssið. En er þessi skoðun óyggjandi? Því má ekki gleyma, að Íslendingar voru mjög tregir til, ekki síst af þeirri ástæðu, sem Snorri Sturluson lagði Einari Þveræingi í munn, að konungar væru ætíð frekir til fjárins.

Hvers vegna hefði Þjóðveldið ekki getað staðist án atbeina konungs? Þeim vísi að borgarastríði, sem hér mátti greina um miðja 13. öld, hefði ella lokið með sigri einhvers höfðingjans eða málamiðlun tveggja eða fleiri þeirra. Samgöngur voru komnar í það horf, að Íslendingar hefðu getað verslað við Skota, Englendinga eða Hansakaupmenn ekki síður en kaupmenn í Björgvin. Tvennt gerðist síðan skömmu eftir lok Þjóðveldisins, sem hefði hugsanlega rennt traustari stoðum undir það: Hinn ásælni og harðskeytti Hákon gamli lést í herför til Suðureyja árið 1263, og markaðir stækkuðu víða í Norðurálfunni fyrir íslenska skreið. Það hefði ekki verið Noregskonungi áhlaupsverk að senda flota yfir Atlantsála til að hernema landið, og enn erfiðara hefði verið að halda því gegn vilja landsmanna.

Vilhjálmur kardínáli af Sabína sagði þóttafullur árið 1247, að það væri „ósannlegt, að land það þjónaði eigi undir einhvern konung sem öll önnur í veröldinni“. Að vísu var athugasemd hans einkennileg, því að sjálfur hafði kardínálinn röskum tveimur áratugum áður verið fulltrúi páfa í löndum við Eystrasalt, sem voru ekki undir stjórn neins konungs, heldur þýskrar riddarareglu. Og eitt land í Norðurálfunni laut þá sem nú ekki neinum konungi: Sviss. Saga þess kann að veita vísbendingu um mögulega þróun Íslands. Árið 1291 stofnuðu þrjár fátækar fjallakantónur, Uri, Schwyz og Unterwalden, svissneska bandaríkið, Eidgenossenschaft, og smám saman fjölgaði kantónum í því, þótt það kostaði hvað eftir annað hörð átök, uns komið var til sögunnar Sviss nútímans, sem þykir til fyrirmyndar um lýðræðislega stjórnarhætti, auk þess sem það er eitt auðugasta land heims.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 19. október 2019. Málverkið er af Eiðsbræðrunum þremur 1291.)

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 12.10.2019 - 07:41 - Rita ummæli

Hvers vegna skrifaði Snorri?

Eftir Snorra Sturluson liggja þrjú meistaraverk, Edda, Heimskringla og Egla. En hvað rak hann til að setja þessar bækur saman? Hann varð snemma einn auðugasti maður Íslands og lögsögumaður 1215–1218 og 1222-1231. Hann hafði því í ýmsu öðru að snúast.

Snorri var skáldmæltur og hefur eflaust ort af innri þörf. En ég tek undir með prófessor Kevin Wanner, sem hefur skrifað um það bókina Snorri Sturluson and the Edda, að einföld skýring sé til á því, hvers vegna hann setti Eddu saman. Íslendingar höfðu smám saman öðlast einokun á sérstæðri vöru: lofkvæðum um konunga. Þessari einokun var ógnað, þegar norrænir konungar virtust fyrir suðræn áhrif vera að missa áhugann á slíkum lofkvæðum. Snorri samdi Eddu til að endurvekja áhugann á þessari bókmenntagrein og sýna þeim Hákoni Noregskonungi og Skúla jarli, hvers skáld væru megnug. Þeir kunnu raunar vel að meta framtak hans og gerðu hann að lendum manni, barón, í utanför hans 1218–1220.

Svipuð skýring á eflaust að einhverju leyti við um, hvers vegna Snorri samdi Heimskringlu á árunum 1220–1237. En fleira bar til. Íslendingar voru í hæfilegri fjarlægð til að geta skrifað um Noregskonunga. Þótt Snorri gætti sín á að styggja ekki konung, má lesa út úr verkinu tortryggni á konungsvald og stuðning við þá fornu hugmynd, að slíkt vald sé ekki af Guðs náð, heldur með samþykki alþýðu. Með þjóðsögunni um landvættirnar varaði Snorri konung við innrás, og í ræðu Einars Þveræings hélt hann því fram, að best væri að hafa engan konung.

Tortryggnin á konungsvald er enn rammari í Eglu, sem er beinlínis um mannskæðar deilur framættar Snorra við norsku konungsættina. Egill Skallagrímsson stígur þar líka fram sem sjálfstæður og sérkennilegur einstaklingur, eins og Sigurður Nordal lýsir í Íslenskri menningu. Hann er ekki laufblað á grein, sem feykja má til, heldur með eigin svip, skap, tilfinningalíf. Líklega hefur Snorri samið Eglu eftir síðari utanför sína 1237–1239, en þá hafði konungur snúist gegn honum.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 12. október 2019.)

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 5.10.2019 - 08:38 - Rita ummæli

Stjórnmálahugmyndir Snorra Sturlusonar

Snorri Sturluson var frjálslyndur íhaldsmaður, eins og við myndum kalla það. Fimm helstu stjórnmálahugmyndir hans getur að líta í Heimskringlu og Eglu.

Hin fyrsta er, að konungsvald sé ekki af náð Guðs, heldur með samþykki alþýðu. Haraldur hárfagri lagði að vísu Noreg undir sig með hernaði og sló síðan eign sinni á allar jarðir, en sonur hans, Hákon Aðalsteinsfóstri, bað bændur að taka sig til konungs og hét þeim á móti að skila þeim jörðum. Síðari konungar þurftu að fara sama bónarveg að alþýðu.

Önnur hugmyndin er, að með samþykkinu sé kominn á sáttmáli konungs og alþýðu, og ef konungur rýfur hann, þá má alþýða rísa upp gegn honum. Þetta sést best á frægri ræðu Þórgnýs lögmanns gegn Svíakonungi, en einnig á lýsingu Snorra á sinnaskiptum Magnúsar góða.

Hin þriðja er, að konungar séu misjafnir. Góðu konungarnir eru friðsamir og virða landslög. Vondu konungarnir leggja á þunga skatta til að geta stundað hernað. Þetta sést ekki aðeins á samanburði Haraldar hárfagra og Hákonar Aðalsteinsfóstra, heldur líka á mannjöfnuði Sigurðar Jórsalafara og Eysteins og raunar miklu víðar í Heimskringlu og ekki síður í Eglu.

Af þeirri staðreynd, að konungar séu misjafnir, dregur Snorri þá ályktun, sem hann leggur í munn Einari Þveræingi, að best sé að hafa engan konung. Íslendingar miðalda deildu þeirri merkilegu hugmynd aðeins með einni annarri Evrópuþjóð, Svisslendingum.

Fimmta stjórnmálahugmundin er í rökréttu framhaldi af því. „En ef landsmenn vilja halda frelsi sínu, því er þeir hafa haft, síðan er land þetta byggðist, þá mun sá til vera að ljá konungi einskis fangstaðar á.“ Íslendingar skuli vera vinir Noregskonungs, flytja honum drápur og skrifa um hann sögur, en þeir skuli ekki vera þegnar hans í sama skilningi og Norðmenn.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 5. október 2019.)

Flokkar: Óflokkað

Höfundur

Hannes Hólmsteinn Gissurarson er prófessor emeritus í stjórnmálafræði í Háskóla Íslands og hefur verið gistifræðimaður við fjölmarga erlenda háskóla, þar á meðal Stanford-háskóla og UCLA. Hann fæddist 1953, lauk doktorsprófi í stjórnmálafræði frá Oxford-háskóla 1985 og er höfundur fjölmargra bóka um stjórnmál, sögu og heimspeki á íslensku, ensku og sænsku.


Nýjustu bækur hans eru Twenty Four Conservative-Liberal Thinkers, sem hugveitan New Direction í Brüssel gaf út í tveimur bindum í árslok 2020, Bankahrunið 2008 og Communism in Iceland, sem Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands gaf út árið 2021, og Landsdómsmálið, sem Almenna bókafélagið gaf út í desember 2022. Hann hefur gefið út átta bókarlangar skýrslur á ensku. Sjö eru fyrir hugveituna New Direction í Brüssel: The Nordic Models og In Defence of Small States (2016); Lessons for Europe from the 2008 Icelandic Bank Collapse, Green Capitalism: How to Protect the Environment by Defining Property Rights og Voices of the Victims: Towards a Historiography of Anti-Communist Literature (2017); Why Conservatives Should Support the Free Market og Spending Other People’s Money: A Critique of Rawls, Piketty and Other Redistributionists (2018). Ein skýrslan er fyrir fjármálaráðuneytið, Foreign Factors in the 2008 Bank Collapse (2018). Hann er ritstjóri Safns til sögu kommúnismans, ritraðar Almenna bókafélagsins um alræðisstefnu, en nýjasta bókin í þeirri ritröð er Til varnar vestrænni menningu: Ræður sex rithöfunda 1950–1958. Árin 2017 og 2018 birtust eftir hann þrjár ritgerðir á ensku um frjálshyggju á Íslandi, Liberalism in Iceland in the Nineteenth and Twentieth Centuries, Anti-Liberal Narratives about Iceland 1991–2017 og Icelandic Liberalism and Its Critics: A Rejoinder to Stefan Olafsson.  

RSS straumur: RSS straumur

Nýlegar athugasemdir