Sunnudagur 29.9.2019 - 15:17 - Rita ummæli

Utanríkisstefna Hannesar, Ólafs og Snorra

Jón Þorláksson lýsti viðhorfi samstarfsmanns síns, Hannesar Hafsteins ráðherra, til utanríkismála svo í Óðni 1923, að „hann vildi afla landinu þeirra sjálfstæðismerkja og þess sjálfstæðis, sem frekast var samrýmanlegt þeirri hugsun að halda vinfengi danskra stjórnmálamanna og fjármálamanna og áhuga þeirra fyrir að veita þessu landi stuðning í verklegri framfaraviðleitni sinni“. Hannes var Danavinur, hvorki Danasleikja né Danahatari.

Að breyttu breytanda fylgdi Ólafur Thors sams konar stefnu, eins og Þór Whitehead prófessor skrifaði um í Skírni 1976: Ólafur vildi verja fullveldi þjóðarinnar eins og frekast væri samrýmanlegt þeirri hugsun að halda vinfengi Bandaríkjamanna, sem veitt gátu Íslendingum ómetanlegan stuðning. Honum og Bjarna Benediktssyni tókst vel að feta það þrönga einstigi eftir síðari heimsstyrjöld. Þeir voru Bandaríkjavinir, hvorki Bandaríkjasleikjur né Bandaríkjahatarar.

Þriðji stjórnmálamaðurinn í þessum anda var Snorri Sturluson. Hann hafði verið lögsögumaður frá 1215 til 1218, en fór þá til Noregs til að koma í veg fyrir hugsanlega árás Norðmanna á Ísland, en þeir Hákon konungur og Skúli jarl voru Íslendingum þá ævareiðir vegna átaka við norska kaupmenn. Jafnframt vildi Snorri endurvekja þann íslenska sið að afla sér fjár og frægðar með því að yrkja konungum lof. Honum tókst ætlunarverk sitt, afstýrði innrás og gerðist lendur maður konungs (barón).

Snorri hefur eflaust sagt Hákoni og Skúla hina táknrænu sögu af því, þegar Haraldur blátönn hætti við árás á Ísland, eftir að sendimaður hans hafði sér til hrellingar kynnst landvættum, en hana skráði Snorri í Heimskringlu. Og í ræðu þeirri, sem hann lagði Einari Þveræingi í munn, kemur fram sams konar hugsun og hjá Hannesi og Ólafi: Verum vinir Noregskonungs, ekki þegnar hans eða þý. Við þetta sætti konungur sig hins vegar ekki, og var Snorri veginn að ráði hans 1241.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 28. september 2019.)

Flokkar: Óflokkað

Sunnudagur 22.9.2019 - 11:49 - Rita ummæli

Góð saga er alltaf sönn

Tveir fróðir menn hafa skrifað mér um síðasta pistil minn hér í blaðinu, en hann var um fræga sögu af orðaskiptum Kristjáns X., konungs Íslands og Danmerkur, og Jónasar Jónssonar frá Hriflu dómsmálaráðherra á steinbryggjunni í Reykjavík 25. júní 1930. Dóttursonur Jónasar, Sigurður Steinþórsson, segir afa sinn hafa sagt sér söguna svo: Konungur hafi spurt: „Så De er Islands lille Mussolini?“ Jónas hafi svarað: „I Deres rige behøves ingen Mussolini.“ Er sagan í þessari gerð mjög svipuð þeirri, sem við Guðjón Friðriksson höfum sagt í bókum okkar. Í pistli mínum rifjaði ég upp, að Morgunblaðið hefði véfengt söguna og sagt hið snjalla tilsvar Jónasar tilbúning hans. Sigurður bendir réttilega á, að Morgunblaðið fjandskapaðist mjög við Jónas um þær mundir, svo að það væri ekki áreiðanleg heimild.

Best finnst mér að vísu sagan vera eins og Ludvig Kaaber sagði hana dönskum blaðamanni eftir Jónasi þegar í ágúst 1930, og hefur hún það einnig sér til gildis, að viðtalið við Kaaber er samtímaheimild. Samkvæmt henni sagði konungur við Jónas á steinbryggjunni: „Der har vi vor islandske Mussolini?“ Þá svaraði Jónas: „En Mussolini er ganske unødvendig i et land, der regeres af Deres Majestæt.“  Góð saga er alltaf sönn, því að hún flytur með sér sannleik möguleikans. Ekki verður afsannað, að Jónas hafi sagt þetta, og vissulega gæti hann hafa sagt þetta. Tilsvarið er honum líkt.

Konungur var oft ómjúkur í orðum og virðist hafa lagt fæð á Jónas (sem var eindreginn lýðveldissinni). Hinn maðurinn, sem skrifaði mér, Borgþór Kærnested, hefur kynnt sér dagbækur konungs um Ísland. Hann segir konung hafa veitt náfrænda Tryggva Þórhallssonar og mági, Halldóri Vilhjálmssyni á Hvanneyri, áheyrn vorið 1931 og þá beðið hann að skila því til Tryggva að skipa Jónas ekki aftur ráðherra. (Jónas hafði vikið tímabundið úr ríkisstjórn eftir þingrofið það ár.) Ekki varð úr því, og þegar Jónas var skipaður aftur ráðherra, færði konungur í dagbók sína: „Menntamálaráðherra Íslands, Jónas Jónsson, mætti í áheyrn hjá mér. Ég byrjaði á að fagna komu hans og að það hefði glatt mig að geta skipað hann aftur í stöðu menntamálaráðherra Íslands.“

Verður fróðlegt að lesa væntanlega bók Borgþórs um samskipti konungs og Íslendinga.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 21. september 2019.)

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 18.9.2019 - 22:21 - Rita ummæli

Þegar kóngur móðgaði Jónas

Í Fróðleiksmola árið 2011 velti ég því fyrir mér, hvers vegna Íslendingar settu kónginn af árið 1944, en létu sér ekki nægja að taka utanríkismál og landhelgisgæslu í sínar hendur, eins og tvímælalaust var tímabært. Ein skýringin var, hversu hranalegur Kristján konungur X. gat verið við Íslendinga. Sagði ég söguna af því, hvernig hann ávarpaði Jónas Jónsson frá Hriflu á Alþingishátíðinni 1930: „Svo að þér eruð sá, sem leikið lítinn Mússólíni hér á landi?“ Jónas á að hafa roðnað af reiði, en stillt sig og svarað: „Við þörfnumst ekki slíks manns hér á landi, yðar hátign.“

Um þetta atvik fór ég eftir fróðlegri ævisögu Jónasar eftir Guðjón Friðriksson. En þegar ég var að grúska í gömlum blöðum á dögunum, tók ég eftir því, að sögunni var á sínum tíma vísað á bug. Ein fyrsta fregnin af þessu atviki var í Morgunblaðinu 13. júlí 1930. Sagði þar, að konungur hefði vikið sér að Jónasi og heilsað honum sem hinum litla Mússólíni Íslands, þegar hann steig á land í Reykjavík 25. júní. „En Jónasi varð svo mikið um þetta ávarp, að hann kiknaði í hnjáliðunum og fór allur hjá sér. Erlendir blaðamenn og fregnritarar voru þar margir viðstaddir.“

Morgunblaðið minntist aftur á atvikið 15. ágúst, þegar það skýrði frá viðtali við Ludvig Kaaber bankastjóra í dönsku blaði. Kvaðst Kaaber hafa það eftir Jónasi sjálfum, að kóngur hefði sagt: „Þarna kemur okkar íslenski Mússólíni?“ Þá hefði Jónas svarað með bros á vör: „Mússólíni er algerlega óþarfur í því landi, sem yðar hátign stjórnar.“ Hefði kóngur látið sér svarið vel líka. En Morgunblaðið andmælti sögu Kaabers og kvað marga votta hafa verið að samtalinu á steinbryggjunni 25. júní. Sagan væri aðeins um, „hvernig Jónas eftir á hefur hugsað sér, að hann hefði viljað hafa svarað.“

Ef til vill var tilsvar Jónasar, eins og við Guðjón höfðum það eftir, aðeins dæmi um það, sem Denis Diderot kallaði „l’esprit de l’escalier“ eða andríki anddyrisins: Hið snjalla tilsvar, sem okkur dettur í hug eftir á.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 14. september 2019.)

Flokkar: Óflokkað

Sunnudagur 8.9.2019 - 13:39 - Rita ummæli

Bandaríkin ERU fjölbreytileiki

Ég kenndi nokkrum sinnum námskeiðið Bandarísk stjórnmál í félagsvísindadeild og hafði gaman af. Ég benti nemendum meðal annars á, að Guðríður Þorbjarnardóttir hefði verið fyrsta kona af evrópskum ættum til að fæða barn þar vestra, Snorra Þorfinnsson haustið 1008. Fyrirmynd Mjallhvítar í Disney-myndinni frægu hefði verið íslensk, Kristín Sölvadóttir úr Skagafirði, en unnusti hennar var teiknari hjá Disney. Eitt sinn kom Davíð Oddsson í kennslustund til okkar og sagði okkur frá þeim fjórum Bandaríkjaforsetum, sem hann hafði hitt, Ronald Reagan, Bush-feðgum og Bill Clinton, en góð vinátta tókst með þeim Davíð, Bush yngra og Clinton. Sagði hann margar skemmtilegar sögur af þeim. Ég lét hvern nemanda námskeiðsins halda þrjú framsöguerindi, eitt um einhvern forseta Bandaríkjanna (til dæmis Jefferson eða Lincoln), annað um kvikmynd, sem sýndi ýmsar hliðar á stjórnmálum í Bandaríkjunum (til dæmis Mr. Smith goes to Washington eða JFK), hið þriðja um stef úr bandarískri sögu og samtíð (til dæmis tekjudreifingu, fjölmiðla og kvenfrelsi).

Í þessu námskeiði kom hinn mikli fjölbreytileiki þessarar fjölmennu þjóðar vel í ljós, og er hann líklega hvergi meiri. Þar er allt, frá hinu besta til hins versta, auður og örbirgð, siðavendni og gjálífi, hámenning og lágkúra og allt þar á milli, kristni, gyðingdómur, íslam og rammasta heiðni. Hvergi standa heldur raunvísindi með meiri blóma. Aðalatriðið er þó ef vill hreyfanleikinn, hin lífræna þróun, sem Alexis de Tocqueville varð svo starsýnt á forðum. Bandaríkjamenn eru alltaf að leita nýrra leiða, greiða úr vandræðum.

Bandaríkin hafa verið suðupottur. En þau hafa einnig verið segull á fólk úr öllum heimshornum, þar sem því hefur tekist að búa saman í sæmilegri sátt og skapa ríkasta land heims. Tugmilljónir örsnauðra innflytjenda brutust þar í bjargálnir. Bandaríski draumurinn rættist, því að hann var draumur venjulegs alþýðufólks um betri hag, ekki krafa menntamanna um endursköpun skipulagsins eftir hugarórum þeirra sjálfra. „Bandaríkin eru sjálf mesti bragurinn,“ orti Walt Whitman. Það var því kynlegt að sjá á dögunum fulltrúa einsleitustu þjóðar heims, Íslendinga, ota táknum um fjölbreytileika að varaforseta Bandaríkjanna í stuttri heimsókn hans til landsins.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 7. september 2019.)

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 31.8.2019 - 08:02 - Rita ummæli

Falsfréttir á vísindavef

Ætti að mega treysta einhverju, þá ætti það að vera vísindavefur Háskóla Íslands. En þar segir Jón Már Halldórsson líffræðingur um regnskógana í Amasón: „Regnskógarnir eru sagðir vera lungu jarðar. Margir fræðimenn telja að um 20% af nýmyndun súrefnis á jörðinni eigi sér stað í Amazon-skógunum í Suður-Ameríku.“ Fréttamenn hafa síðustu daga vitnað í þessa speki í tilefni skógarelda þar syðra.

Auðvitað eru regnskógarnir ekki lungu jarðar, eins og líffræðingurinn ætti manna best að vita. Með lungunum öndum við að okkur súrefni og öndum síðan frá okkur koltvísýringi. En tré og aðrar plöntur í regnskógum og annars staðar gefa frá sér súrefni og taka til sín (binda) koltvísýring. Verkan þeirra er því þveröfug við verkan lungna.

Hvaðan fær líffræðingurinn það síðan, að 20% af nýmyndun súrefnis á jörðinni eigi sér stað í Amasónskógi? Raunar virðist enginn vita, hvernig þessi tala komst á kreik, en hún er röng. Jafnvel umhverfisöfgamaður eins og Michael Mann (sem haldið hefur fyrirlestra í Háskóla Íslands) viðurkennir, að innan við 6% af nýmyndun súrefnis á jörðinni eigi sér stað í Amasónskógi. Talan lækki, játar Mann, ef í stað skóganna er settur þar niður annar gróður, til dæmis nytjajurtir, en þær framleiða vitaskuld einnig súrefni með ljóstillífun. Raunar er líklegast, þar sem tré í skógi geta rotnað eða eyðst á annan hátt og þannig tekið til sín súrefni, að engin (eða sáralítil) nýmyndun súrefnis eigi sér þar stað. Líffræðingurinn ætti einnig að vita, að megnið af nýmyndun súrefnis í jarðarhjúpnum á sér stað í sjávargróðri, aðallega svifþörungum.

Það er líka rangt, að skógareldarnir í Amasón séu óvenjumiklir þetta árið. Þeir eru í meðallagi miðað við síðustu fimmtán ár og raunar talsvert minni en skógareldar, sem geisa um þessar mundir í Afríku og Asíu.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 31. ágúst 2019.)

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 24.8.2019 - 10:39 - Rita ummæli

23. ágúst 1939

Í gær voru rétt 80 ár liðin frá því, að Stalín og Hitler gerðu griðasáttmála. Þar skiptu þeir með sér Mið- og Austur-Evrópu. Stalín fékk í sinn hlut Eystrasaltsríkin, Finnland og austurhluta Póllands, en Hitler vesturhluta Póllands. Þegar Hitler réðst inn í Pólland að vestan 1. september 1939, sögðu Bretar og Frakkar honum stríð á hendur, en þegar Stalín réðst inn í Pólland að austan 17. september, höfðust ríkin tvö ekki að. Eystrasaltslöndin töldu sig ekki hafa afl til að hafna kröfu Stalíns um herstöðvar. En þegar hann krafðist hins sama af Finnum, neituðu þeir og börðust hetjulega í Vetrarstríðinu svokallaða fram á vor 1940, en urðu þá að lúta ofureflinu.

Griðasáttmálinn vakti hvarvetna uppnám í röðum ráðstjórnarvina, sem höfðu löngum talið nasista höfuðandstæðinga sína. Þetta átti líka við í Sósíalistaflokknum íslenska, sem stofnaður hafði verið haustið áður við samruna vinstri sósíalista og kommúnista. Vinstri sósíalistar kröfðust þess, að flokkurinn fordæmdi landvinninga Stalíns, en kommúnistar harðneituðu. Skömmu eftir árás Hitlers á Póllandi hitti Þórbergur Þórðarson Guðmund Finnbogason landsbókavörð á Hótel Borg. Þá sagðist Þórbergur skyldu hengja sig, ef Stalín réðist á Póllandi. Eftir árás Stalíns birti hann ámátlega varnargrein, þar sem hann sagðist hafa sagt það eitt, að hann skyldi hengja sig, ef Stalín hæfi þátttöku í stríðinu við hlið Hitlers. Halldór Kiljan Laxness skrifaði í Þjóðviljann, að það ætti að vera fagnaðarefni, ef íbúar „Vestur-Úkraínu“ eins og hann kallaði Austur-Pólland, yrðu þegnar Stalíns.

Griðasáttmálinn er til marks um, að Heimsstyrjöldin síðari var í rauninni tvö stríð. Frá hausti 1939 til sumars 1941 áttu Bretar og Frakkar í höggi við Hitler, sem var í eins konar bandalagi við Stalín. Frá sumri 1941, þegar Hitler rauf griðasáttmálann og réðst á Stalín, börðust Bretar og Rússar við Þjóðverja, en Frakkar voru úr leik. Í árslok 1941 gengu Bandaríkjamenn í lið með Bretum og Rússum, en Japanir með Þjóðverjum, og voru þá úrslitin ráðin: Enginn stenst Bandaríkin, ef þau beita sér.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 24. ágúst 2019.)

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 17.8.2019 - 06:47 - Rita ummæli

97 hænur

Ein fjöður getur ekki aðeins orðið að fimm hænum, eins og segir í orðtakinu. Hún getur orðið að 97 hænum. Staglast er á því í fjölmiðlum, að 97 af hundraði vísindamanna telji hnattræna hlýnun vera af manna völdum. Nú efast ég ekki um það, að hlýnað hafi síðustu áratugi: ég man þá tíð fyrir hálfri öld, er skólahald var stundum fellt niður í Reykjavík vegna veðurs og strætisvagnar ösluðu um á keðjum. Ég hef aðeins bent á tvennt, sem liggur í augum uppi. Í fyrsta lagi er afar ólíklegt, að nú muni skyndilega ekki lengur um náttúrlegar loftslagsbreytingar eins og orðið hafa frá aldaöðli. Í öðru lagi er alls óvíst, að loftslagið, sem var í heiminum um og eftir 1990, þegar hlýnunin hófst, sé hið eina ákjósanlega. Hlýnun jafnt og kólnun hafa í senn jákvæðar og neikvæðar afleiðingar.

Uppruni staglsins um 97 vísindamenn af hundraði er í rannsókn eftir eðlisfræðinginn John Cook og fleiri, sem greint var frá í veftímariti árið 2013. Þar voru skoðaðir rösklega 11 þúsund útdrættir úr ritrýndum ritgerðum um loftslagsmál tímabilið 1991–2011. Cook og félagar héldu því fram, að samkvæmt rannsókninni teldu 97 af hundraði vísindamanna hnattræna hlýnun vera af manna völdum („97.1% endorsed the consensus position that humans are causing global warming“).

Þegar grein þeirra Cooks er skoðuð nánar, kemur þó annað í ljós, eins og eðlisfræðingurinn og hagfræðingurinn David Friedman hefur bent á. Í tveimur þriðju hlutum ritgerðanna er engin afstaða tekin til þess, hvort hnattræn hlýnun sé af manna völdum. En hvað um þann einn þriðja hluta, þar sem afstaða er tekin? Í rannsókn sinni flokkuðu Cook og félagar ritgerðir, þar sem hnattræn hlýnun var talin af manna völdum, í þrennt. Í fyrsta flokki voru ritgerðir, þar sem sagt var beint, að hnattræn hlýnun væri mestmegnis af manna völdum, og lögð fram töluleg gögn um það. Í öðrum flokki voru ritgerðir, þar sem fullyrt var, að hnattræn hlýnun væri að miklu leyti af manna völdum, án þess að sérstakar tölur væru nefndar. Í þriðja flokknum voru ritgerðir, þar sem sagt var óbeint, að hnattræn hlýnun væri að einhverju leyti af manna völdum.

Af þeim ritgerðum, þar sem afstaða var tekin, voru 1,6% í fyrsta flokki, 23% í öðrum flokki og 72% í þriðja flokki. Þess vegna hefði verið nákvæmara að segja, að 1,6% vísindamanna, sem birt hefðu ritrýndar ritgerðir um loftslagsmál, héldu því fram, að hnattræn hlýnun væri mestmegnis af manna völdum, en að þorri vísindamanna teldi menn hafa einhver áhrif á loftslagsbreytingar án þess að horfa fram hjá hlut náttúrunnar sjálfrar.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 17. ágúst 2019.)

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 10.8.2019 - 07:55 - Rita ummæli

Tvær gátur Njáls sögu

Brennu-Njáls saga er ekki aðeins lengsta Íslendingasagan, heldur líka sú, sem leynir helst á sér. Ég hef lengi velt fyrir mér tveimur gátum sögunnar í ljósi þeirrar leiðarstjörnu hagfræðinnar, að óskynsamleg hegðun kann að verða skiljanleg, þegar gætt er að þeim skorðum, sem söguhetjum eru settar, valinu um vondan kost eða óþolandi.

Ein gátan er, hvers vegna Gunnar sneri aftur, rauf með því sátt við andstæðinga sína og kostaði til lífinu. Í kvæðinu Gunnarshólma skýrir Jónas Hallgrímsson þetta með ættjarðarást. Sú tilgáta er tímaskekkja, því að sú tilfinning var varla til á Þjóðveldisöld. Í formála Brennu-Njáls sögu skýrir Einar Ól. Sveinsson atvikið með metnaði Gunnars. Hann hafi ekki viljað auðmýkja sig. En sú tilgáta stríðir gegn eðli Gunnars samkvæmt sögunni. Sennilegast er, þegar honum varð litið að Hlíðarenda, þar sem Hallgerður sat eftir, að hann hafi ekki viljað skilja hana eina eftir. Sagan geymir vísbendingu: Í 41. kafla segir, að Hallgerður hafi þjónað Sigmundi Lambasyni „eigi verr en bónda sínum“. Hjónabandið var Gunnari og Hallgerði „báðum girndarráð“, en Gunnar hafði samt fulla ástæðu til að vantreysta Hallgerði.

Önnur gátan er, hvers vegna Njáll hörfaði inn í húsið á Bergþórshvoli, þótt hann vissi, að með því gæfi hann umsátursmönnum færi á brennu. Líklega fyrirgaf Njáll aldrei sonum sínum víg Höskuldar Hvítanessgoða, sem hann unni heitar en þeim. Hann taldi þá eiga refsingu skilið, þótt hann gæti sjálfur ekki framkvæmt hana, þar eð hann var faðir þeirra. Sagan geymir vísbendingu, þegar Njáll segir í 129. kafla, að Guð muni „oss eigi láta brenna bæði þessa heims og annars“. Brennan var öðrum þræði syndaaflausn Njáls fyrir hönd sona hans, þótt hann sæi ef til vill ekki fyrir, að Bergþóra og Þórður Kárason myndu vilja fylgja honum hinsta spölinn.

Við greiningu á aðstæðum verður óskynsamleg hegðun skyndilega skiljanleg. Hinn kosturinn var verri: Gunnar þoldi ekki tilhugsunina um, að Hallgerður lægi með öðrum mönnum. Njáll þoldi sonum sínum ekki að hafa vegið Höskuld Hvítanessgoða og vildi milda refsingu Guðs.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 10. ágúst 2019. Teikningar eru eftir Jón Hámund og skreyta útdrátt minn á ensku úr Njáls sögu, The Saga of Burnt Njal.)

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 3.8.2019 - 11:33 - Rita ummæli

Frá Gimli á Grynningum

Þegar Kristófer Kólumbus fann aftur Vesturheim 1492, eftir að Íslendingar höfðu týnt álfunni fimm hundruð árum áður, kom hann fyrst að einni eyjunni í eyjaklasa, sem hann nefndi Bahamas og merkir grunnsævi. Mætti því nefna eyjaklasann Grynningar á íslensku. Ein eyjan ber nafnið Paradise Island, og ætti því íslenska nafnið að vera Gimli. Bandarísku samtökin Association of Private Enterprise Education, Samtök um einkaframtaksfræði, héldu ársfund sinn í Gimli á Grynningum í apríl 2019, og flutti ég þar erindi 6. apríl um norræna frjálshyggju, eins og ég hef gert víðar á þessu ári.

Norðurlandaþjóðirnar búa að langri og sterkri frjálshyggjuhefð. Til dæmis hafði sænsk-finnski presturinn Anders Chydenius sett fram kenninguna um samband ávinningsvonar og almannahags í krafti frjálsrar samkeppni á undan Adam Smith, og frjálslyndir sænskir stjórnmálamenn nítjándu aldar beittu sér fyrir víðtækum umbótum, sem hleyptu af stað örum og samfelldum hagvexti í marga áratugi, og má kalla það fyrstu sænsku leiðina. Velgengni Svía á tuttugustu öld hvíldi eins og annarra Norðurlandaþjóða á öflugu réttarríki, opnu hagkerfi og samheldni og sáttarhug vegna samleitni þjóðarinnar. Það var ekki fyrr en árin 1970–1990, sem sænskir jafnaðarmenn lögðu inn á braut ofurskatta og stórfelldra afskipta af atvinnulífinu.

Önnur sænska leiðin, sem farin var 1970–1990, reyndist ófær. Svíar voru lentir öfugum megin á Laffer-boganum svonefnda, þar sem aukin skattheimta hafði ekki í för með sér auknar skatttekjur, heldur minnkandi. Sjá mátti í Svíþjóð þá sviðsmynd, sem Ayn Rand hafði brugðið upp í skáldsögunni Undirstöðunni (Atlas Shrugged), en hún hefur komið út á íslensku: Þeir, sem sköpuðu verðmæti, hurfu ýmist á brott, hættu að framleiða eða fitjuðu ekki upp á nýjungum. Í einkageiranum urðu nánast engin störf til á þessu tímabili, aðeins í opinbera geiranum. En nú reyndist Svíum vel samheldnin og sáttarhugurinn: Með þjóðinni myndaðist óskráð samkomulag frá 1990 og áfram um að fara þriðju sænsku leiðina, sem felst ekki síst í að efla einkaframtak og halda sköttum í hófi. Geta aðrar þjóðir lært margt af Svíum, eins og ég sagði áheyrendum mínum í Gimli á Grynningum.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 3. ágúst 2019.)

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 27.7.2019 - 05:46 - Rita ummæli

Blaa hagkerfið í Gdansk

Á fyrra helmingi ársins 2019 flutti ég átta fyrirlestra opinberlega, sex þeirra erlendis. Hinn fyrsti þeirra var á ráðstefnu í Gdansk í Póllandi 22. mars um „bláa hagkerfið“, en Anna Fotyga, þingmaður á Evrópuþinginu og fyrrverandi utanríkisráðherra Póllands, boðaði til ráðstefnunnar. Ég lýsti þar stuttlega kvótakerfinu íslenska, sem ég hef skrifað um tvær bækur á ensku, Overfishing: The Icelandic Solution, sem Institute of Economic Affairs gaf út í Lundúnum 2000, og The Icelandic fisheries: Sustainable and Profitable, sem Háskólaútgáfan gaf út í Reykjavík 2015. Eru bæði ritin aðgengileg ókeypis á Netinu.

Eftir því sem árin hafa liðið, hef ég áttað mig betur á tveimur aðalatriðum kvótakerfisins, og reyndi ég að koma þeim til skila í þessum fyrirlestri. Annað er, hvaða munur er á ókeypis úthlutun seljanlegra aflaheimilda í upphafi eins og þeirri, sem framkvæmd var á Íslandi í áföngum 1979–1990, og opinberum leigumarkaði með aflaheimildir, eins og sumir hagfræðingar börðust fyrir á sínum tíma. Munurinn er, að fyrri aðferðin er hagfræðilega réttari, því að hún er Pareto-hagkvæm, sem kallað er. Breyting er Pareto-hagkvæm, ef enginn tapar og allir eða að minnsta kosti sumir græða á henni. Við ókeypis úthlutun græddi ríkið á hagkvæmari fiskveiðum. Þeir, sem héldu í aflaheimildir sínar og keyptu nýjar, græddu. Þeir, sem seldu aflaheimildir og hættu veiðum, græddu líka. En hefði fiskimiðunum verið lokað og aflaheimildir verið leigðar hæstbjóðendum, þá hefði ríkið að vísu grætt leigutekjurnar. Þeir, sem hefðu haft fjárhagslegt bolmagn til að leigja aflaheimildir, hefðu hvorki grætt né tapað, því að þeir hefðu notað það fé í að leigja aflaheimildir, sem þeir sóuðu áður í offjárfestingar. En þeir, sem hefðu ekki haft bolmagn til að leigja aflaheimildir, hefðu tapað, því að allar þeirra fjárfestingar hefðu í einni svipan orðið verðlausar.

Hitt aðalatriðið er, að enginn verðmætur réttur var tekinn af öðrum, þegar fiskimiðunum var lokað. Eini rétturinn, sem aðrir en kvótahafar voru þá sviptir, var rétturinn til að gera út á núlli, en fiskihagfræðin kennir okkur, að sú verður niðurstaðan, ef fiskimiðin eru opin öllum, því að þá aukast fiskveiðar að því marki, að kostnaður verður jafnmikill ávinningi. Þessi réttur er því eðli málsins samkvæmt verðlaus.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 26. júlí 2019.)

Flokkar: Óflokkað

Höfundur

Hannes Hólmsteinn Gissurarson er prófessor emeritus í stjórnmálafræði í Háskóla Íslands og hefur verið gistifræðimaður við fjölmarga erlenda háskóla, þar á meðal Stanford-háskóla og UCLA. Hann fæddist 1953, lauk doktorsprófi í stjórnmálafræði frá Oxford-háskóla 1985 og er höfundur fjölmargra bóka um stjórnmál, sögu og heimspeki á íslensku, ensku og sænsku.


Nýjustu bækur hans eru Twenty Four Conservative-Liberal Thinkers, sem hugveitan New Direction í Brüssel gaf út í tveimur bindum í árslok 2020, Bankahrunið 2008 og Communism in Iceland, sem Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands gaf út árið 2021, og Landsdómsmálið, sem Almenna bókafélagið gaf út í desember 2022. Hann hefur gefið út átta bókarlangar skýrslur á ensku. Sjö eru fyrir hugveituna New Direction í Brüssel: The Nordic Models og In Defence of Small States (2016); Lessons for Europe from the 2008 Icelandic Bank Collapse, Green Capitalism: How to Protect the Environment by Defining Property Rights og Voices of the Victims: Towards a Historiography of Anti-Communist Literature (2017); Why Conservatives Should Support the Free Market og Spending Other People’s Money: A Critique of Rawls, Piketty and Other Redistributionists (2018). Ein skýrslan er fyrir fjármálaráðuneytið, Foreign Factors in the 2008 Bank Collapse (2018). Hann er ritstjóri Safns til sögu kommúnismans, ritraðar Almenna bókafélagsins um alræðisstefnu, en nýjasta bókin í þeirri ritröð er Til varnar vestrænni menningu: Ræður sex rithöfunda 1950–1958. Árin 2017 og 2018 birtust eftir hann þrjár ritgerðir á ensku um frjálshyggju á Íslandi, Liberalism in Iceland in the Nineteenth and Twentieth Centuries, Anti-Liberal Narratives about Iceland 1991–2017 og Icelandic Liberalism and Its Critics: A Rejoinder to Stefan Olafsson.  

RSS straumur: RSS straumur

Nýlegar athugasemdir