Svo virðist sem veirufaraldrinum sé hér að linna, þótt hann geisi enn víða erlendis. Hvað situr eftir? Ég hef áður leitt rök að því, að frelsisunnendur hljóta að sætta sig við þá skerðingu á frelsi, sem nauðsynleg er til að minnka smit. Frelsið er ekki frelsi til að bera smit, hvorki egypsku augnveikina haustið 1921 (svo að hið fræga drengsmál sé rifjað upp) né veirusýkinguna á útmánuðum 2020. Frelsisunnendur hljóta líka að samþykkja, að ríkið noti fé skattgreiðenda til að hlaupa undir bagga með þeim, sem harðast verða úti sökum faraldursins. Það er almennt samkomulag á Íslandi um að aðstoða fórnarlömb náttúruhamfara, eldgosa, jarðskjálfta og snjóflóða, og sama máli gegnir um veirufaraldurinn.
En á sama hátt og ekki ber að gera lítið úr vandanum, má ekki heldur mikla hann fyrir sér. Í þessum rituðu orðum hafa 3,6 milljónir manna smitast í heiminum og um 250 þúsund manns látist af faraldrinum. Til samanburðar má nefna, að 1,5 milljón manna látast úr berklum ár hvert, 770 þúsund úr eyðni og 405 þúsund úr mýraköldu (malaríu), aðallega í fátækum löndum í suðri. Raunar hafði nærri því tekist að útrýma mýraköldu upp úr 1960, þegar umhverfisöfgamönnum tókst að leggja bann við því að nota mikilvirkasta tækið gegn henni, sem er skordýraeitrið DDT, en það er hættulaust mönnum og dýrum líka, sé það notað í hófi.
Lífið á dögum veirufaraldursins minnti á lífið við sósíalismann austan tjalds: auðar götur, allir heima hjá sér, enginn að skemmta sér, fátt í búðum nema brýnustu nauðsynjar. Því skýtur skökku við, ef menn reyna að nota faraldurinn til að auka ríkisafskipti. Raunar breyttist staðbundin drepsótt í heimsfaraldur vegna mistaka stjórnvalda í sósíalistaríkinu Kína. Hefðu þau strax lokað landinu, þá hefði veiran ekki breitt eins úr sér annars staðar og raun ber vitni. Besta vörnin gegn veiru eru upplýsingar, og þær fást við frelsi.
(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 9. maí 2020.)

Dagana 3.–6. apríl á þessu ári átti ég að sitja ráðstefnu APEE, Samtaka um einkaframtaksfræðslu, í Las Vegas. Ég ætlaði að hafa framsögu og stjórna umræðum á málstofu um norræna frjálshyggju. Í framsöguerindi mínu, sem var vegna veirufaraldursins í heiminum aldrei flutt, rifjaði ég upp, að margar stjórnmálahugmyndir frjálslyndra manna mætti greina í ritum Snorra Sturlusonar. Heimskringla er samfelld viðvörun við misjöfnum konungum, en skýrastur er boðskapur Snorra í tveimur ræðum. Þórgnýr lögsögumaður hinn sænski kunngerði konungi sínum, að Svíar myndu setja hann af, ef hann héldi áfram að láta ófriðlega og valda bændum búsifjum. Og Einar Þveræingur sagði, er Ólafur digri seildist til áhrifa á Íslandi, að konungar væru misjafnir og því best að hafa engan konung.
Talið er, að um 500 milljónir manna eða þriðjungur jarðarbúa árið 1918 hafi smitast af spánsku veikinni og af þeim hafi um tíu af hundraði látist, um 50 milljónir manna. Ein skýringin á því, hversu skæð veikin varð, var fátæktin á þeim tíma, vannæring, þéttbýli í lökum húsakynnum og skortur á hreinlæti. Við búum sem betur fer við miklu betri aðstæður. Hagvöxtur er afkastamesti læknirinn.
Eitt frægasta málverk Rembrandts er Næturverðirnir. Það sýnir nokkra næturverði ganga fylktu liði um hollenska borg. Þetta málverk er táknrænt um eðlilegt hlutverk ríkisins. Það á eins og næturverðir Rembrandts að vernda okkur gegn ofbeldisseggjum, sem læðast að okkur í skjóli myrkurs, hvort sem þeir koma frá öðrum löndum eins og innrásarherir eða úr okkar eigin röðum eins og innbrotsþjófar. Að vísu reyndu sósíalistar nítjándu aldar að gera lágmarksríki frjálshyggjumanna hlægilegt með því að kalla það næturvarðarríkið. En það er sómi að því heiti, ekki skömm.
Ég var í dag, þriðjudaginn 31. mars 2020, í viðtali í Harmageddon um reynslu mína af og skoðanir á veirufaraldrinum. Ég lýsti ferðalagi mínu um auða flugvelli í Rio de Janeiro og Lundúnum og setu í hálftómum flugvélum og sagði nokkur orð um veirufaraldurinn. Mér sýnast íslensk yfirvöld fara skynsamlega að málinu, sem vissulega er vandasamt. Núna erum við í björgunarbát, en þegar við losnum úr honum, þurfum við að taka upp frjálsar siglingar á ný. Ég myndi bæta því við, sem ekki gafst tóm til að ræða í viðtalinu, að uppruninn er í einræðisríki og viðbrögðin allt of sein vegna tilrauna til að þagga niður í læknum, jafnframt því sem eftirlitsstofnanir á Vesturlöndum hafa tafið fyrir baráttunni gegn veirunni. Hér er
Franski heimspekingurinn Alexis de Tocqueville er einn fremsti frjálshyggjuhugsuður Vesturlanda. Hann reyndi að skýra, hvers vegna bandaríska byltingin 1776 hefði heppnast, en franska byltingin 1789 mistekist. Skýringin var í stystu máli, að Bandaríkjamenn byggju við sérstakar aðstæður, gnótt af ónumdu landi og fjarlægð frá hugsanlegum árásaraðilum, en þeir nytu líka hins breska stjórnfrelsisarfs síns og hefðu verið nógu hyggnir til að skipta valdinu vandlega á milli margra aðila. Jafnframt væru þeir trúaðir og félagslyndir, og það héldi valdafíkn og sérhagsmunastreitu í skefjum. Þess vegna hefði Bandaríkjamönnum tekist að sameina jafnræði og frelsi. En hvað ættu frjálslyndir menn að óttast?
Nýlegar athugasemdir